Featured

RÚV er ómissandi…………..eða?

Nú hefur síðustu 10 árin verið rætt af mikilli ákefð um stöðu RÚV, stöðu á auglýsingamarkaði og samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla. Öll þessi umræða hefur ekki skilað sér í stefnumótun og skýrum leikreglum á markaði fyrir fjölmiðla.  

Það er ljóst að stjórnmálin munu aldrei ná saman um stefnuna, slík er gjáin á milli flokka um þennan málaflokk. Á meðan verðum við einfaldlega föst á hringtorgi stefnuleysis.

Það liggur fyrir að ef RÚV lendir í fjárhagsvanda þá borga á endanum skattgreiðendur fyrir allan þann kostnað sem yfirstjórn RÚV hefur samþykkt. Á einkareknum miðlum þá annað hvort tapa hluthafar, starfsmenn eða birgjar þegar fjárhagsvandi myndast, ef illa fer þá tapa allir þessir hagaðilar. Þess vegna þarf jafnari leikreglur á markaði.

Þegar ég skoða margar af þeim greinum sem um þetta mál hefur verið ritað þá koma fram margar skoðanir og misjafnar.

Ein skoðun var á þá leið að RÚV ætti að efla verulega til þess að geta keppt við Facebook og Google á auglýsingamarkaði. Grunnurinn að þeirri skoðun var að sú að erlendar efnisveitur myndu á endanum ná til sín stærri hluta þess auglýsingafjár sem nú fer til RÚV yrði þeirri stofnun bannað að taka við þeim kynningum sem þeim er boðið.

Sem sagt að þeim fjármunir sem íslensk fyrirtæki ráðstafa í sín kynningarmál væru líklega að fara frekar til miðla sem ráða yfir farsímunum og tölvuskjá en ekki sjónvarpstækjum.

Það er án vafa innistæða fyrir þessari hugsun enda er skjátími fólks í símanum alveg með eindæmum.

Önnur útbreidd skoðun er að RÚV beri að víkja af auglýsingamarkaði auk þess að RÚV verði bannað að sækja fé í samkeppnissjóði eða framleiða efni með kostendum. Stjórnmálin myndu einfaldlega bera fulla ábyrgð á RÚV með þeim fjármunum sem stofnunin fær á hverjum tíma.

Þannig væri tryggt fullt frelsi fyrir einkarekna miðla til að bítast um auglýsendur, kostendur og framleiðslustyrki til innlendrar dagskrárgerðar. Það væri næstum því hægt að segja að þetta væri heilbrigt samkeppnis umhverfi.

Á hátíðarstundum er tekið undir seinna sjónarmiðið af hagsmunaaðilum atvinnulífsins.

Það sem þá er órætt er sú staðreynd að stjórnendur í atvinnulífinu sem segjast styðja einkaframtakið og að prinsippið sé að einkarekstur muni á endanum skapa meiri verðmæti en ríkisrekstur gera ekkert í verki til þess að styðja við einkarekna miðla.

Sjálfur tók ég ákvörðun fyrir nokkrum árum um að nýta eingöngu einkarekna miðla og nýta mér ekki fjölmörg góð tilboð frá auglýsingadeild RÚV. Það var ekki vegna þess að kaupin hjá hinum miðlunum væru endilega árangursríkari leið til að ná til neytenda heldur eingöngu til þess að halda í prinsippið um einkaframtakið.

Sjálfur myndi ég ekki vilja standa í þeirri samkeppni við ríkisstofnun sem einkareknum miðlum er boðið uppá.

Við kollega mína í atvinnulífinu segir ég því, hættið að suða í stjórnmálamönnum og sýnið ábyrgð í verki með því að hætta kaupum á auglýsingum hjá RÚV og finnið aðrar leiðir til að tala við neytendur. Að öðrum kosti eru allar þessar hátíðarræður innihaldslausar.

Featured

Er fólki ekki treystandi?

Eftir ansi langan feril í atvinnurekstri hef ég gert mér ljóst hversu inngróinn óttinn við breytingar er hjá mörgu fólki. Allt sem kallar á breytingar eða breytta hegðun mætir andstöðu og gagnrýni.

Þingmenn í of miklu mæli eru bugaðir af óttanum við breytingar og virðast trúa því að fólki sé almennt ekki treystandi til að lifa lífi sínu eða höndla freistingar.

Tökum nokkur dæmi sem allir þekkja:

  • Áfengi fæst ekki keypt nema í Vínbúðum Ríkisins og hjá 300 einkaaðilum í veitingarekstri. Hvorki almennar verslanir né sérverslanir mega afgreiða áfenga drykki til þeirra sem þess óska.
  • Ekki má selja magnyl og önnur hættulaus lyf til okkar nema með leyfi lyfjafræðings og afgreiðslufólki í hvítum sloppi. Þetta væri kjörin vara til að vera með í netverslun og matvöruverslunum.
  • Músaeitur sem er nánast hættulaust öllum stærri dýrum má ekki selja öðrum en þeim sem setið hafa námskeið hjá Ríkisstarfsmanni og geta kallað sig meindýraeyða. Í Evrópu og Bandaríkjunum er þetta selt í neytendapakkningum í almennum búðum.
  • Í flestum löndum er leyft að selja einföld og ódýr mótefnapróf við Covid í almennum verslunum eða á netinu. Hér á landi er bannað að selja slíka vöru.

Þetta eru bara nokkur augljós dæmi um það hversu gamaldags og kjarklaus við erum þegar kemur að því að stíga skref sem létta fólki lífið. Öll þessi þjónusta er afar vinsæl hjá íslendingum á meðan þeir eru erlendis í fríi en svo breytast þeir í óttaslegna innipúka þegar þeir koma heim aftur.

Allir þekkja stæðurnar af verkjatöflum og flensutöflum sem íslendingar taka með sér heim frá Bandaríkjunum. Þetta heitir tvöfalt siðgæði eða frelsisblinda.

Ekkert af þessum málum eru forgangsmál í öðrum skilningi en þeim að okkur þarf að miða í átt að meira frelsi fólki og fyrirtækjum til handa. Það hefur ekki gerst.

Öll þekkjum við málefni heilbrigðismála, til mín kom maður um daginn og sagðist vera búinn að bíða í 6 mánuði eftir liðskiptum og eftir því sem Landspítalinn sagði honum þá væru 7 – 9 mánuðir þar til að hann kæmist að.

Þessi maður er auðvitað búinn að bóka sig inná Klínikina í Ármúla og hann fær þar sín liðskipti eftir 4 vikur. Auðvitað ætti sá kostnaður sem hann tekur á sig að vera að fullu frádráttarbær frá skatti enda er honum í raun neitað um þjónustu sem hann hefur þegar greitt fyrir með sínum skattgreiðslum til áratuga.

Það er formlega búið að stofna tvöfalt heilbrigðiskerfi sem enginn bað um.

Er fólki ekki treystandi fyrir eigin ákvörðunum í heilbrigðismálum, viðbrögð almennings á Covid tímum segir mér að allur þorri fólks er traustsins verður.

Featured

Er Samfylkingin óþörf?

Þegar Samfylkingin var stofnuð var talað um að hún ætti að sameina fólk á vinstri vængnum til þess að keppa við Sjálfstæðisflokkinn um forystu í íslenskum stjórnmálum. Það var mikill hugur í þeim sem stóðu að þessari stofnun þrátt fyrir að hluti Kvennalistans og Alþýðubandalagsins hafi ekki viljað feta þess slóð.

Þetta nýja afl bauð fyrst fram í kosningunum 1999 og fékk þá rúm 44 þús. atkvæði og tæp 27% fylgi. Talsmaður hreyfingarinnar í þessum fyrstu kosningum var Margrét Frímannsdóttir.

Næstu kosningar árið 2003 voru sögulegar að því leyti að þá fékk Samfylkingin 56,700 atkvæði og 31% fylgi. Þessu fylgdu 20 þingsæti, formaðurinn Össur Skarphéðinsson leiddi þennan mikla kosningasigur.

Síðan að þessi tímamót urðu í íslenskri pólitík hefur leiðin frekar legið niðurávið þegar frá eru taldar kosningarnar 2009 þegar þjóðfélagið stóð allt á brauðfótum og enginn vissi hvað myndi taka við.

Ég var einn af þeim sem batt vonir við að skörungurinn Jóhanna Sigurðardóttir myndi berjast eins og ljón fyrir hagsmunum íslenskra heimila og þá ekki síst þeirra sem verst stóðu.

Það gekk ekki eftir og á endanum þurfti afl Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins til þess að hrinda atlögu erlendra vogunarsjóða að íslenskum hagsmunum. Það varð til þess að staða íslendinga batnaði svo að fáar þjóðir stóðu okkur framar í efnahagslegu tilliti.

Í kosningum 2016 mátti minnstu muna að þessi flokkur sem átti að verða stærsta aflið á vinstri vængnum félli útaf þingi þegar hann fékk aðeins tæp 11 þús. atkvæði sem dugði í 5.7% fylgi.

Þá leiddi Oddný Harðardóttir flokkinn en hafði ekki neitt það að bjóða sem kjósendur voru að leita að.

Þarna náðu aðeins 3 þingmenn kjöri inná þing sem er minnkun um 85% frá því sem mest var. Í síðustu kosningum tvöfaldaðist fylgið og hann fékk rúm 12% atkvæða. Það er langur vegur frá þeirri sýn sem skilaði þeim 31% atkvæðamagni á árum áður og stefnumarkandi stöðu í íslenskum stjórnmálum.

Það vekur athygli að flestir þeir sem voru burðarásar í Samfylkingunni á síðasta áratug eru hættir afskiptum af stjórnmálum og draga ekki lengur vagninn. Lítil vigt virðist í stefnumálunum og þegar heimasíðan er skoðuð er helst talað um 3 atriði: sjálfbærni, frið og jöfnuð.

Ekkert land er með meiri sjálfbærni en Ísland þegar kemur að nýtingu auðlinda og orkubúskap.

Ekkert land mælist með meiri jöfnuð í efnahagslegu tilliti þegar horft er til dreifingu launatekna.

Ekkert land hefur oftar verið mælt sem friðsælasta land heims en einmitt Ísland.

Ekkert land mælist hærra í jafnrétti kynjanna.

Frægasta stefnumálið hefur löngum verið aðild að ESB, þar hefur meirihluti þjóðarinna verið ósammála Samfylkingunni og þess vegna hefur það mál ekki dugað til að bera uppi fylgið og þá sérstaklega eftir að Viðreisn bættist við flóruna.

Orðræða formannsins snýst að mestu um að brýnast sé að taka fé frá einum og færa það öðrum til að jafn kjörin niðurávið.

Því er eðlilegt að spyrja hvort að Samfylkingin eigi nokkuð erindi við þjóðina þegar baráttumálin eru þegar uppfyllt. Það væru hæg heimatökin fyrir ESB sinnaða flokksmenn að finna sér farveg í Viðreisn og þá sem eru lengra til vinstri að sameinast VG.

Það heyrðist um daginn að stór hluti Samfylkingarfólks vildi helst Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra, það er hugsanlega merki um að hugurinn er farinn hálfa leið.

Featured

Hank Paulson

Hank Paulson

Fæddur 1946 á Palm Beach í Flórida.
Hann er stundum kallaður frægasti skáti í heimi.

Hank Paulson er stór maður, 194 cm á hæð og kraftalegur enda fyrrum varnarmaður í Bandaríska fótboltanum.

Hann útskrifaðist með MBA gráðu frá Harvard árið 1970 og fór strax til starfa sem aðstoðarmaður í Pentagon. Þaðan fluttist hann í Hvíta húsið og varð þar aðstoðarmaður John Ehrlichman í eitt ár eða þar til að Watergate málið brast á með fullum þunga.

Hank var boðin staða hjá Goldman Sachs 1974 á Chicago skrifstofunni þar sem fjárfestingabankinn vann mikið með iðnfyrirtækjum að fjármögnun og útgáfu verðbréfa.

14 árum síðar er hann orðinn partner hjá Goldman og tekinn við sem framkvæmdastjóri Chicago skrifstofunnar. 6 árum síðar tók hann við sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá bankanum (COO). Aldarfjórðungi eftir að hann kom til starfa hjá Goldman Sachs tók Hank Paulson við sem forstjóri bankans eftir að Jon Corsine hætti og hellti sér útí stjórnmálin.

Á sínum langa ferli hjá Goldman átti Hank í miklum samskiptum og miklum viðskiptum í Kína, bæði við stjórnvöld og stórfyrirtæki. Hann er líklega sá bankamaður sem hefur komið saman flestum stórviðskiptum á milli bandarískra og kínverskra fyrirtækja. Þegar hann hætti hjá bankanum 2006 til að taka við sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna kom fram að hann ætti hlut að verðmæti um 100 milljarða króna sem hann varð að selja áður en hann gat tekið við sem ráðherra.

Hank Paulson hlaut heimsfrægð þegar hann sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna ásamt Ben Bernanke stjórnarformanns Federal Reserve (seðlabankans) og Timothy Geithner forstjóri seðlabanka New York fylkis fengu það verkefni að reyna að bjarga Wall Street og AIG eftir að risabankinn Lehmans Brothers urðu gjaldþrota í september 2008.

Það komst engin ró á í fjármálakerfinu fyrr en að þessir aðilar skikkuðu bankastjóra 11 stærstu bankana til þess að gefa út nýtt hlutafé og selja Bandaríska ríkinu og að auki þiggja himinháa fyrirgreiðslu frá seðlabönkum til þess að skapa traust á kerfinu á ný. Það tók allt kvöldið og alla nóttina að fá bankastjórana og stjórnir þessara stofnana til að fallast á þessar kröfur Hank Paulson. Hann sagði þeim að sá sem ekki spilaði með fengi ekki einn dollar frá seðlabankanum í fyrirgreiðslu og öllum væri gert það ljóst. Slík yfirlýsing hefði fellt hvaða banka sem er.

Það var þessa nótt sem Hank Paulson lagðist á fjóra fætur undir skrifborðinu sínu og ældi í ruslafötuna vegna svefnleysis og þreytu. Ógleymanleg sena úr bókinni hans On the Brink.

Bragðið heppnaðist og á fáum mánuðum komust Bandaríkin aftur í gang með sína stóru efnahagsvél og ríkissjóður seldi öll sín bréf og skuldabréf á bankana með hagnaði.

Í einu viðtali eftir að ró komst á markaði og hann var hættur sem ráðherra og Tim Geithner tekinn við sagði hann að lykillinn að árangrinum hefði verið sá að ef þú heldur á risastórri eldvörpu eru miklar líkur á að þú þurfir ekki að nota hana. Sem sagt, allir vissu að Bandaríska ríkið gat prentað peninga til eilífðar ef það þurfti.

Í dag er Hank Paulson formaður loftslagsráðs Bandaríkjanna auk þess að gefa út podcastið Straight Talk with Hank Paulson sem finna má á Spotify. 

Howard Schultz og Starbucks

Það er ekki hægt að skrifa um stærsta fyrirtæki heims í kaffihúsarekstri nema að skrifa um Howard Schultz í leiðinni.

Fyrirtæki sem hefur vaxið undir hans stjórn, úr 6 útsölustöðum og í rúmlega 36.000 útsölustaði.  (Nafn félagsins er fengið frá stýrimanninum úr bókinni um Moby Dick)

Áform eru um enn meiri vöxt á næstu árum.

Það er þekkt saga að fyrsti Starbucks staðurinn var opnaður í Seattle, Washington í mars 1971. Stofnendurnir voru 3 vinir, nýlega útskrifaðir úr háskólanum USF í Seattle.

Þessir vinir, Jerry Baldwin, Zev Siegl og Gordon Bowker réðu síðar Howard Schultz (f.1953) sem markaðsstjóra félagsins.

Árið 1986 þá keypti Starbucks, fyrirtæki í Seattle sem heitir Peet´s Coffee. Það fyrirtæki var með 6 góð kaffihús í borginni. Til að fjármagna kaupin ákváðu stofnendurnir að bjóða fyrrum markaðsstjóranum sínum að kaupa Starbucks kaffihúsin. Howard hafði þá rekið eigið kaffihús um tíma undir nafninu ll Giornale í borginni.

Þetta tilboð þótti Howard mjög spennandi enda hafði hann nýlega ferðast um Ítalíu og séð hvernig kaffihúsin þar drógu til viðskiptavini sem kunnu að meta expresso kaffi og valið bakkelsi með, á meðan hefðin í Bandaríkjunum var að drekka uppáhelling og borða kleinuhringi eða svipað sykrað bakkelsi. Kaffibollinn á Ítalíu kostaði á þessum tíma 3 falt sem það kaffi uppáhellingur var almennt seldur á í Bandaríkjunum.

Það var samþykkt að Howard fengi 3 vikur til þess að finna fjármagn til að kaupa fyrirtækið. Þegar vika var liðin var hann spurður af seljendum hvernig gengi að sækja fjármagn, hann svaraði því til að hann væri kominn með sirka þriðjung. Daginn eftir var hringt aftur og hann beðinn um að hitta seljendur. Þegar hann kom til fundarins, var honum sagt að það væri komið staðgreiðslutilboð í fyrirtækið og að þetta tilboð hefði komið frá einum af þeim fjárfestum sem Howard hafði nálgast til að koma með sér í kaupin.

Þetta kom honum illilega á óvart og honum virtist að þarna væri hans tækifæri að fara útum þúfur. Hann færði þetta í tal við góðan vin sinn síðar um daginn, sá bað hann að koma daginn eftir til sín í vinnuna.

Þessi vinur hans var lögmaður á lögmannsstofu Bill Gates eldri (f.1925) sem á þessum tíma var ekki bara einn virtasti lögmaður borgarinnar heldur var hann einnig frammámaður í viðskiptalífinu í Seattle. Þess má geta að Microsoft var nýlega skráð í kauphöllina á þessum tíma og var skráningunni vel tekið.

Bill Gates eldri var rúmlega 2 metra maður og mikill að burðum. Hann bauð Howard að setjast inná skrifstofu hjá sér og segja sér alla söguna. Þegar hann hafði lokið máli sínu sagði Bill Gates að hann hefði aðeins 2 spurningar, hvort að allt sem hann segði væri sannleikanum samkvæmt og hvort að  það væri eitthvað ósagt sem hann þyrfti að vita.

Þegar Howard staðfesti að rétt væri farið með allar staðreyndir málsins þá stóð Bill Gates upp og bað Howard að koma með sér.

Hann fór með niður á jarðhæð og gekk þar út og yfir götuna, þar fóru þeir inní bygginguna beint á móti og tóku þar lyftuna uppá efstu hæð. Þegar þangað var komið skundaði Bill Gates inn ganginn og inná skrifstofuna sem var inní enda, þar stóð hann yfir manni á bakvið skrifborð.

Þessi maður á bakvið skrifborðið var sá sem hafði ætlað að kaupa Starbucks einn, þrátt fyrir að hafa lofað Howard að taka þátt í kaupunum með honum.

Bill Gates gnæfði yfir skrifborði mannsins og spurði hvort að það væri rétt sem honum hefði verið sagt um tilraun þessa manns til að kaupa Starbucks. Sá staðfesti að sagan væri sönn.

Honum var þá sagt að hann skyldi umsvifalaust draga sitt tilboð til baka. Maðurinn féllst á það enda var risinn við borðsendann ekki árennilegur.

Þessum kafla lauk síðan þannig að feðgarnir Bill Gates eldri og yngri hjálpuðu Howard Schultz að klára fjármögnun á kaupunum. Þannig komst félagið í hendur á manni sem alla tíð síðan hefur lagt líf og sál í að byggja upp stærsta smásölufyrirtæki heims í sölu á kaffidrykkjum, bæði heitum og köldum.

Þótt að uppbygging og rekstur á Starbucks hafi í það heila gengið vel þá hefur oft gengið á ýmsu.

Howard ákvað fyrst að hætta 2005 sem forstjóri en halda áfram sem stjórnarformaður.

Hann þurfti hins vegar að taka aftur við starfinu tveimur árum síðar þegar reksturinn hafði daprast umtalsvert. Það var síðan árið 2017 sem nýr forstjóri var ráðinn, hann fékk erfiða glímu í fangið þegar Covid skall á og á endanum tók Howard við félaginu eitt skiptið enn.

Það var síðan í lok árs 2022 sem Laxman Narasimhan var ráðinn forstjóri félagsins og Howard Schultz hefur fullyrt að hann muni aldrei aftur koma að daglegum rekstri félagsins enda orðinn 71 árs gamall.

Þau hjónin Howard og Sheri hafa stofnað góðgerðastofnun fyrir nokkrum árum og eyða þar kröftum sínum við að bæta líf annara. Schultz Family Foundation hefur sérhæft sig  í að hjálpa ungu fólki að fóta sig á vinnumarkaði og koma auk þess fyrrum hermönnum til hjálpar eftir að herskyldu líkur.

Það vakti t.d. mikla athygli þegar Starbucks hóf að ráða fyrrum hermenn til starfa og lofuðu allt að 25,000 störfum til þessa hóps. Fjöldi starfsmanna félagsins er nú kominn yfir 400.000.

Það má fullyrða að ævistarf Howard Schultz hefur borið svipaðan ávöxt og starf Henry Ford, Michael Dell, Andrew Grove og fleiri slíkra frumkvöðla sem breyttu heiminum í sinni starfsgrein.

Markaðsvirði Starbucks er í dag um ISK 11.500 milljarða virði eða sirka fimmfalt verðmæti allra skráðra fyrirtækja á Íslandi.  

Satya Nadella

Nadella hjónin

Satya er fæddur 1964 í Hyderabad í miðju Indlands. Faðir hans var valdamikill embættismaður og hvatti hann Satya til menntunar. Hann útskrifaðist sem rafmagnsverkfræðingur 1988 og hélt síðan til Bandaríkjanna þar sem hann skráði sig í framhaldsnám í kerfisfræði í háskólanum í Wisconsin.

Hann hefur sagt frá því að eitt það besta við að fara í nám í Wisconsin var sú staðreynd að hann ákvað að hætta að reykja. Í skólanum mátti bara reykja utandyra og kuldinn var slíkur að honum leist ekkert á að halda reykingum áfram.

Eftir útskrift frá háskólanum í Wisconsin bauðst honum að koma til starfa hjá Sun Microsystems. Sun Microsystem var fyrirtæki sem var stofnað af nokkrum Stanford nemendum og skammstöfunin SUN stendur fyrir Stanford University Network. Höfuðstöðvar félagsins voru í lítilli borg sem heitir Santa Clara og er suður af San Francisco. Þarna starfaði Satya sem óbreyttur forritari.

Reyndar hefur höfundur þessara greinar komið þangað í tvígang og litist afar vel á borgina.

Árið 1992 er Satya boðið starf hjá Microsoft sem hann þáði. Á næsta ári heldur hann því uppá 30 ára starfsafmæli hjá Microsoft.

Sama ár og hann hóf störf hjá Microsoft giftist hann Anupama sem er dóttir besta vinar pabba hans og heldur þar með í hefðir frá heimalandinu. Saman eiga þau 3 börn, elsta barnið sem er drengur að nafni Zain fæddist fjölfatlaður eftir að hafa greinst með heilabilun. Að eignast svona mikið fatlað barn hefur breytt öllu í þeirra heimilislífi og hefur Satya líst því hvernig hans eigið lífs viðhorf breyttist eftir þessa barneign.

 Í gegnum árin hefur honum verið falið að stýra fjölmörgum sviðum og deildum hjá félaginu og þeim störfum hefur hann skilað vel af sér. Það sem varð til þess að honum var á endanum falið að verða forstjóri Microsoft 2014 er hversu vel honum gekk í að byggja upp tekjur af skýja þjónustu félagsins og festa í sessi áskriftartekjur.

Þegar hann samþykkti að taka að sér forstjórastarfið sagði Bill Gates við hann að nú þyrfti hann að standa sig því að annars væri þetta síðasta starfið sem hann fengi á ævinni.

Eitt af því fyrsta sem sást til Satya var sú stefnubreyting sem hann tók með því að loka síma framleiðsludeildinni hjá Nokia. Hann sagði upp í það heila 18.000 manns við þá stefnubreytingu sem hann vildi fara. Hann dró stórlega úr aðstoð við notendur á Windows kerfum og fjölgaði fólki sem starfar við skýjalausnir og netöryggismál.

Eitt af þeim ráðum sem Bill Gates og Steve Ballmer gáfu honum sem þriðja forstjóra félagsins frá stofnun var að hann skyldi á engan hátt taka tillit til þess sem á undan væri gengið heldur eingöngu horfa fram á veginn og breyta hverju því sem hann vildi til að tryggja vöxt og viðgang félagsins.

Árangurinn er stórbrotinn þegar litið er á hag hluthafanna. (sjá töflu neðst)

Hans ferill sýnir líka að það er líf eftir að stofnendur sleppa taumunum. Það er þekkt að stofnendur fyrirtækja eiga það til að vera svo vissir um eigin hugmyndir að þeir missa af ótal tækifærum.

Hjá Microsoft er talað um leitarvéla markaðinn og farsímamarkaðinn sem risa tækifæri sem stjórnendum yfirsást. Þeir félagar Bill Gates og Steve Ballmer hafa talað oft um það við núverandi forstjóra að þeir sjái mest eftir því sem þeir hunsuðu sem óspennandi tækifæri á markaði en þeir sjái aldrei eftir þeim mistökum sem þeir framkvæmdu og mistókust.

Satya hefur keypt Linkedin sem hann kallar samfélagsmiðla atvinnurekenda. Þar muni milljarður manna sem í dag nota Microsoft vörur tengjast saman og geta átt viðskipti sín á milli eða fundið starfskrafta og tækifæri.

Þetta var stærsta fjárfesting félagsins til þessa og kostaði hún 26 milljarða dollara.

Það verður að teljast líklegt að þetta starf verði hans síðasta. Hann hefur haft í laun og bónusa hátt í 25 milljarða frá því að hann tók við stjórninni auk þess sem hann seldi hlutabréf í Microsoft fyrir tæpa 40 milljarða fyrir nokkrum dögum. Það er helmingur þeirra bréfa sem honum hefur áskotnast í gegnum samninga sína við félagið.

Robert Bosch

Hann fæddist í Albeck 23 september 1861 og eru því rétt 160 ár frá fæðingu hans. Hann lést 80 árs gamall í mars 1942. Hann var 11 í röðinni af 12 systkinum.

Faðir hans var menntaður, hann var frímúrari og rak stórt bóndabýli. Hans skoðun var sú að menntun væri mikilvæg og lagði áherslu á að börnin gengju menntaveginn.

Robert Bosch gekk menntaveginn, hann fór í iðnskóla og síðan á samning sem nemi í vélfræði. Að námi loknu starfaði hann í nokkrum fyrirtækjum í Þýskalandi og þaðan fór hann til New York og starfaði fyrir Thomas Edison raftæknifyrirtækið. Síðar flutti hann til Bretlands og starfaði fyrir þýska fyrirtækið Siemens.

Þegar hann varð 25 ára gamall (1886) ákvað hann að opna sitt eigið vélaverkstæði í Stuttgart. Fyrsta stóra tækifærið kom upp úr því þegar hann endurbætti kveikjukerfi sem Deutz fyrirtækið hafði sett á markað og hannað það fyrir bílvélar fyrstur manna. Það gerbreytti möguleikum bifreiða til að ferðast um langan veg.

Síðar fann verkfræðingurinn Gottlob Honold upp fyrsta háspennukertið á rannsóknarstofu Bosch sem aftur gerði sprengihreyfilinn að hagstæðasta valkosti bílaframleiðenda.

Robert Bosch var metnaðarfullur atvinnurekandi og á fáum árum var hann búinn að opna söluskrifstofur í Bretlandi, Bandaríkjunum, Asíu og Afríku. Hann opnaði fyrstu verksmiðjuna utan Þýskalands 1906 og árið 1913 var 88% af sölu félagsins utan Þýskalands.

Robert hafði alla tíð skýra sýn á það hvernig fyrirtæki ætti að bæta sitt samfélag. Honum var umhugað um að bjóða sem flestum ungum mönnum nemasamning til að þeir gætu menntað sig og bætt kjör sín. Allar tekjur sem Bosch samsteypan hafði af samningum við herinn í Þýskalandi í fyrri heimstyrjöldinni gaf hann til góðgerðamála.

Hann var fyrstur til að taka upp 8 klst vinnudag og bauð starfsfólki upp á góða vinnuaðstöðu. Stærsta breytingin var síðan þegar hann gaf Stuttgart borginni nýjan spítala 1940 gegn því skilyrði að starfsmenn Bosch samsteypunnar fengu forgang að læknisþjónustu þegar mikið lægi við.

Árið 1937 breytti Robert Bosch rekstrarformi félagsins yfir í lokað hlutafélag og lét skrifa ýmis skilyrði um reksturinn sem enn eru í fullu gildi. Þessi samsteypa er í dag stærsta fyrirtæki heims í einkaeigu með yfir 400.000 starfsmenn um allan heim. Félagið má aldrei skrá á markað eða selja, hluti hagnaðar fer ávallt til góðgerðamála, hluti veltu fer ávallt til rannsóknar og þróunar án tillits til afkomu.

Enn þann dag í dag er framleiðsla og sala á bílhlutum og tengdum vörum 60% af veltu samstæðunnar. Velta félagsins 2019 var 11.700 milljarðar króna og hagnaður eftir skatt var um 150 milljarðar króna.

Stjórnkerfi félagsins er óvenjulegt og það var sett upp 1937 eftir fyrirskrift Robert Bosch. Fjölskyldan á öll hlutabréfin í félaginu í gegnum eignarhaldsfélag en það félag hefur engan atkvæðisrétt. Stærsti hluti hagnaðar gengur til þess félags sem aftur styður mörg góðagerðarmál um allan heim.

Annað eignarhaldsfélag heldur á öllum atkvæðum hlutafjár og stjórn þess er ávallt skipuð stjórnendum samstæðunnar, utanaðkomandi forstjórum og örfáum fulltrúm fjölskyldunnar. Þetta fyrirkomulag er ætlað að tryggja að allar ákvarðanir um fjárfestingar og þróun eru teknar með hagsmuni félagsins eins að leiðarljósi en ekki tekið tillit til sjónarmiða erfingja og afkomenda.

Sjálfur hef ég verið í viðskiptum við þetta fyrirtæki í 20 ár og get vottað að samstæðan er rekin með aðra sýn á hlutina en flest önnur félög.

Ég man eftir atviki þar sem yfirmaður Bosch í Danmörku fékk kransæðastíflu fyrir nokkrum árum, honum var sagt að vera heima í 6 mánuði á meðan beðið væri eftir þræðingu. Degi síðar kom þota frá Stuttgart og sótti manninn, hann fékk þræðingu á Bosch spítalanum og var kominn til vinnu nokkrum dögum síðar.

Robert Bosch var ekki minni frumkvöðull en Steve Jobs eða Elon Musk.

Nokkur gullkorn frá Robert Bosch:

I would rather lose money than trust.

I don´t pay good wages because I have a lot of money, I have a lot of money because I pay good wages.

None of us should ever be satisfied with what has been achieved, but should always endeavor to do better.

Carlos Tavares

Tavares er fæddur 1958 í Lissabon og menntaður sem vélaverkfræðingur og útskrifaður frá École Centrale Paris.
Hann talar 4 tungumál reiprennandi.

Hann hóf störf 23 ára gamall hjá Renault sem verkefnastjóri yfir Renault Megane II framleiðslunni sem var að fara í gang. Næstu árin á eftir þáði hann mörg og fjölbreytileg störf fyrir Renault samsteypuna vítt og breitt.

Eftir að Renault hafi keypt ráðandi hlut í Nissan þá var Tavares sendur yfir til Nissan árið 2004 sem einn af yfirmönnum félagsins í stefnumótun og vöruþróun.

Þar var hann við störf til ársins 2011 þegar hann tók aftur við starfi hjá Renault samsteypunni sem COO – eða framkvæmdastjóri rekstrar undir stjórn hins litríka og umdeilda forstjóra Carlos Ghosn sem á sína eigin merku sögu.

Tavares sagði í viðtali við blaðamann frá Bloomberg að hann hefði hug á að verða forstjóri bílafyrirtækis og nefndi GM og Ford sem spennandi verkefni til að takast á við. Carlos Ghosn varð brjálaður við þessi orð og krafðist að Tavares myndi biðja starfsfólk Renault afsökunar, hann neitaði og hætti störfum fyrir Renault.

Fljótlega eftir að hann hætti var honum boðið að taka við sem forstjóri hjá PSA sem framleiðir Peugot, Citroen, DS og núna Opel og Vauxhall. Félagið var í rekstrarvanda og taprekstri á þessum tíma.

Á fáum árum sneri Tavares taflinu við hjá PSA. Hann fækkaði bílgerðum úr 45 í 26 og undirvögnum úr 7 í 2.

Með þessu móti einfaldaðist allt í fyrirtækinu og með aðstoð verkalýðsfélaga sem fengu að fylgjast með hans áformum frá fyrsta degi var störfum fækkað umtalsvert í gegnum eingreiðslur til þeirra sem misstu störfin eða fóru snemma á eftirlaun. Ekki var ráðið í störf sem losnuðu nema brýna þörf þyrfti til.

Afkoma samstæðunnar gjörbreyttist og hagnaðurinn óx frá ári til árs. Úr tapi og í hagnað árið 2017 uppá 2,3 milljarða evra en árið 2019 var hagnaðurinn kominn í 3,6 milljarða evra.

Gerbreytt sjóðsstaða og sterkur efnahagur sem er nauðsynlegur til að hanna og þróa nýja rafbíla gefur samstæðunni þann styrk sem þarf.

Eitt af því sem kom á óvart hjá Tavares var þegar hann gekk til samninga við GM um kaup á Opel – Vauxhall bílaframleiðslunni í lok árs 2017 fyrir 1,2 milljarða evra. Á þeim tímapunkti hafði þetta dótturfélag GM tapað nærri 20 milljörðum dollara á tveimur áratugum og var almennt talið dauðadæmt.

Árangur Tavares sem með nýrri stefnu til einföldunar í rekstri varð til þess að Opel samstæðan skilaði 1 milljarði evra í hagnað 2019.

Án efa mikill árangur á stuttum tíma.

Sem dæmi um flækjustigið sem Opel hafði búið til var að félagið þurfti að framleiða 27 mismunandi stýrishjól vegna sinna bílgerða.

Þeim var fækkað á fyrsta ári niður í 8 mismunandi gerðir.

Svona aðferðafræði er stundum kölluð Value Engineering, það er þegar er leitað allra leiða til að einfalda framleiðslu eða ferla til að létta á fyrirtækjum og fækka mistökum, minnka fjárbindingu og einfalda vöruframboð.

Hann sagði í viðtali að bílageirinn væri knúinn áfram af harðri samkeppni og að Opel þyrfti að finna leiðir til að lækka framleiðslukostnað í landi þar sem vinnuafl er dýrt. Það virðist hafa tekist.

Með þennan árangur í farteskinu stakk Tavares uppá því við Agnelli fjölskylduna að réttast væri að sameina Fiat – Chrysler samstæðuna við PSA og hann tæki að sér að leiða þessa nýju samstæðu sem skírð var Stellantis í gegnum krefjandi tíma í þróun rafbíla og sjálfkeyrandi bifreiða.

Þetta nýja stórfyrirtæki tók til starfa nú um áramótin, með 50 milljarða evra í áætluð markaðsverðmæti þrátt fyrir að PSA hafi selt 28% færri bíla 2020 en árið á undan vegna Covid.

Það verður spennandi að fylgjast áfram með Tavares og hans aðferðum til að tryggja samkeppnishæfni á bílamarkaði og á sama tíma glíma við gerbreyttar áherslur frá neytendum vítt og breytt sem kalla eftir meiri rafvæðingu og minni losun á koltvísýringi.

Eitt af því sem Tavares hefur sagt við sína stjórnendur er að árangurinn mun ekki mælast í fjölda vinnustunda og á stundum hefur hann skammað sína stjórnendur fyrir of mikil ferðalög og of langa vinnudaga. Hann trúir því að betra sé vit en strit og að örþreyttir stjórnendur geri lítið gagn.

Athyglisverð saga manns sem 62 ára gamall stendur nú á tindi ferilsins og ber ábyrgð á 4 stærsta bílaframleiðanda heims og þess sem á eftir að finna leiðir til að spara 4 milljarða dollara á ári í rekstri til að ná þeim árangri sem að var stefnt.

Félagið framleiðir 14 mismunandi vörumerki í dag en líklega mun þeim fækka í kjölfar þessarar sameiningar. Starfsmenn eru um 400.000 í dag við að framleiða og selja 8,7 milljónir bifreiða en til samanburðar þá eru starfsmenn GM um 180.000 og salan um 8.4 milljónir bifreiða á ári.

Það liggja breytingar í loftinu.

Alan G. Lafley

Fæddur 1947 í New Hampshire

MBA frá Harvard 1977

Forstjóri Procter og Gamble og starfsmaður félagsins til 33 ára.

Lafley er á margan hátt klassískur fyrirtækjamaður sem hefur gengið í gegnum margar deildir innan P&G. Hann starfaði lengi sem yfirmaður í Japan og sá um uppbyggingu félagsins í Kína með frábærum árangri.

Það var síðan árið 2000 sem hann er ráðinn sem forstjóri félagsins eftir að Durk Jager var rekinn eftir aðeins 1 ár í starfi.

Þegar hann tók við sem forstjóri voru grunneiningar félagsins mat og drykkjarvara, pappírsvörur og hreinlætisvörur. Þegar hann hætti störfum 2015 þá var félagið ekki lengur með neinar matvörur, engar drykkjavörur, engin lyf og margt fleira var búið að selja í burtu. Grunneiningarnar voru 2, hreinlætisvörur og vörur til persónulegra nota eins og hárvörur, snyrtivörur og Gillette rakstursvörurnar.

Á valdatíma Lafley jókst verðmæti félagsins úr 50 milljörðum dollara í 150 milljarða dollara og félagið eitt af 10 verðmætustu fyrirtækjum í Bandaríkjunum.

Það sem einkenndi stefnu Alan G. Lafley sem stjórnanda var stefnumótun sem gekk útá að félagið ætti ekki að vera í vöruflokkum nema getað sigrað andstæðinga sína á markaði.

Að vera sífellt að elta við miðlungsárangur og hafa ekki afl til að stýra þróun og verðmyndun væri ekki nægilega arðbært til lengri tíma.

Fræg saga er til af því þegar P&G ákvað að reyna að komast inná klórmarkaðinn í Bandaríkjunum sem var undir styrkri stjórn Clorox í áratugi.

P&G hafði þróað og fundið upp nýjan mildan klór sem fór betur með fatnað og liti en mest seldi klórinn frá Clorox.

Það var ákveðið að fara í prufur á afskekktum stað til að reyna að fá endurgjöf frá neytendum. Á endanum var valið að hefja þessa prufusölu í borginni Portland í Maine fylki þar sem Eimskip er nú með sín vöruhús og siglingar. Þetta er lítil borg með um 65.000 íbúa sem lifir á ferðamennsku, sjávarútvegi og siglingum.

P&G keypti allt fáanlegt auglýsingapláss í fjölmiðlum fyrir þetta svæði, undirbjó dreifibréf, samdi við Hannaford sem er aðal smásölukeðjan og stillti upp stöndum í öllum verslunum.

Þegar herferðin fór mjög rólega af stað fór að spyrjast út að Clorox hafði fengið veður af því sem til stóð og var búið að senda heim til allra íbúa í Portland 4 lítra brúsa af Clorox klór og afsláttarmiða fyrir næsta brúsa. Það var því ljóst að engin klórsala myndi eiga sér stað í Portland næstu mánuði.

P&G hætti því við allt saman og á endanum varð til ný vara sem kölluð var Tide w bleach sem varð ansi vinsælt þvottaefni í Bandaríkjunum.

Alan G. Lafley hefur oft komið fram og fullyrt að fæst fyrirtæki séu með skýra stefnumótun, flest hafi markmið og einhverja hugmynd um í hverju þau vilja vera en engin virk stefnumótun sé til staðar sem á endanum verður til þess að árangurinn verður miðlungs til lengri tíma.

Lafley hefur hlotið fjölda viðurkenninga á sínum ferli og árið 2006 var hann kjörinn forstjóri ársins í Bandaríkjunum. 

Ján Ludvík Hoch

Fæddur 1923 í bænum Slatinské Doly í Tékkóslovakíu.

Einn af 7 systkinum og strangtrúaður gyðingur.

1940 flúði Ján til Frakklands og gekk í raðir andspyrnuhreyfingar Tékka þar.

Öll hans fjölskylda var síðar drepin í útrýmingarbúðum Nazista í Auschwitz.

Eftir fall Frakklands flúði Ján og félagar hans til Bretlands 1943 og gengu í breska herinn til að berjast gegn yfirgangi þjóðverja í Evrópu. Þar tók hann upp nýtt nafn til hægðarauka og gekk undir nafninu Ivan du Maurier sem hann fékk lánað af sígarettupakka.

Eftir stríðið skipti Ján – Ivan aftur um nafn og tók upp nafnið Ian Robert Maxwell.

Engum óraði fyrir því að þetta nafn yrði síðar heimsfrægt.

Robert Maxwell eins og hann var ávallt kallaður nýtti sér sambönd sín eftir hermennskuna til að ná umboði fyrir þekkt útgáfufélag vísindarita Springer Verlag fyrir Bretland og Bandaríska markaðinn. Með honum var þekktur ristjóri Paul Rosbaud sem keypti fjórðung í félaginu sem skýrt var Pergamon Press eftir kaupin. Þetta félag varð síðan stórveldi og skráð bresku í kauphöllina.

Robert Maxwell var stór maður og mikill skrokkur, hann var frekur og yfirgangsmaður sem gekk eins langt og hægt var í hverju máli.

Honum var sem dæmi vikið úr stjórn Pergamon Press 1969 eftir að upp komst að hann hafði í gegnum eigin félög hækkað hlutabréfaverð í félaginu með kaupum og sölum án þess að aðrir vissu.

Hann náði inná þing fyrir Verkamannaflokkinn 1964 og sat á breska þinginu í 6 ár samhliða miklum umsvifum í viðskiptum. Hann lýsti dvöl sinni þar sem vonbrigðum þar sem þingmenn fengu litlu áorkað.

Árið 1974 náðu Maxwell að kaupa Pergamon Press á ný með skuldsettri yfirtöku auk þess að kaupa félag sem hét British Printing Corp. Þessi félög voru síðan sameinuð í nýtt félag sem var skráð í Licthenstein undir firmaheitinu Maxwell Communications Corporation.

Það urðu mikil tímamót 1984 þegar Maxwell tókst að kaupa dagblaða útgáfuna Mirror Group sem meðal annars gaf út hið þekkta dagblað Daily Mirror auk 5 annara blaða. Þar með hófst stríð á milli risanna á breska dagblaðamarkaðnum Robert Maxwell og Rubert Murdoch sem hafði þá þegar keypt The Sun og News of the World.

Kaup Maxwell á Macmillian útgáfunni í Bandaríkunum fyrir 2.6 milljarða dollara gerðu þetta útgáfuveldi það öflugasta á sinni tíð.

Þegar þarna var komið átti Maxwell helming í MTV Europe, Nimbus Records og Berlitz tungumála skólana auk fjölda annara smærri fyrirtækja.

Allt þetta veldi var hins vegar skuldsett um of sem á endanum varð til þess að selja þurfti miklar eignir að kröfu viðskiptabankanna.

Það gengu alltaf miklar sögur af þessum fátæka innflytjanda frá Tékkóslóvakíu. Það var vitað að hann átti sterk tengsl inní MI6, KGB og Mossad. Á tímabili var því haldið fram að hann hefði alla tíð verið á mála hjá Mossad sem njósnari. Því neitaði Maxwell ávallt og lögsótti menn hiklaust sem staðhæfðu slíkt.

Hvað sem því líður þá mættu 4 fyrrum forstjórar Mossad í jarðför Roberts Maxwell auk Itshak Rabin forsætisráðherra sem sagði í ræðu að enginn hefði verið betri vinur Ísraels.

Robert Maxwell féll útbyrðis af snekkju sinni fyrir utan Gran Canary eyjuna og lést árið 1991. Talið er að hann hafi fengið hjartaáfall og fallið útbyrðis, krufning leiddi í ljós að hann hafði ekki drukknað.

Það þótti merkilegt að hann skyldi einmitt látast á þessum tímapunkti í ljósi þess að Englandsbanki hafi óskað eftir fundi með honum eftir að stór lán voru komin í vanskil hjá viðskiptabönkum í Englandi.

Robert Maxwell eignaðist níu börn með eiginkonu sinni Betty, 2 börn létust ung en frægust er líklega yngsta dóttirin Ghislaine Maxwell sem var sambýliskona Jeffrey Epstein sem eins og Robert Maxwell dó óvænt rétt áður en að mikið uppgjör átti sér stað.

Nú er mál að linni

11. apr. 2013 – 23:17 Hermann Guðmundsson

Bjarni Benediktsson hefur í fjögur ár staðið í ströngu. Hann hefur í 4 skipti boðið sig fram til formanns, öll skiptin fengið mótframboð og sigrað. Samt er stundum talað eins og framið hafi verið valdarán. Þar hafa þeir oft hafa hæst sem minnst hafa lagt á sig.

Hann hefur orðið fyrir meiri og rætnari umfjöllun en nokkur annar maður sem ég hef fylgst með í opinberri umræðu. Þessu hefur hann mætt með jafnargeði og stundum um of. Að honum og hans fjölskyldu hefur verið vegið linnulaust án þess á því séu klárar skýringar. Hugsanlega er hann ekki nægilega innmúraður.

Hver sem hann ákvörðun verður um framhaldið þá er ljóst að sú meðferð sem stjórnmálamenn sæta í okkar þjóðfélagi er til skammar og það er hrein furða að einhver skuli fást til þessara starfa yfir höfuð.

Nú er mál að linni.