Er menntakerfið ónýtt?

jún. 2010 – 07:00 Hermann Guðmundsson

Hér er ekki sérstaklega verið að fjalla um íslenska menntakerfið heldur mikið frekar allt menntakerfi heimsins.  Það gera sér ekki allir grein fyrir því að menntakerfið sem við þekkjum er nánast nákvæmlega eins upp byggt í öllum löndum. Auðvitað er einhver blæbrigðamunur en enginn grundvallarmunur.

Kerfið er að verða 150 ára gamalt í grunninn og er algerlega byggt upp fyrir tíma fjölmiðlunar og þeirrar miklu byltingar sem sjónvarpið var, svo ekki sé talað um Netið sjálft.

Einn grundvöllur kerfisins var sá að mennta vinnuafl sem nýttist á tíma iðnbyltingarinnar. Allt til þessa dags þá er það einn grunnur kerfisins að framleiða fólk sem nýtist því atvinnulífi sem við þekkjum.

Börn sem eru að hefja sína skólagöngu núna munu koma útá vinnumarkaðinn á árunum 2025 – 2030.

Hvaða vinnumarkað eru þau að undirbúa sig fyrir?

Hvernig störf voru í boði 1980?  Tölvur voru að fæðast, farsímar ekki til, ekkert internet, engar heimilistölvur, engir töflureiknar, engin þrívídd og fyrsta faxtækið ekki fætt. Þrátt fyrir að það sé fullkomlega öruggt að störfin sem verða í boði 2030 séu ekki þau sömu og störfin 1980 þá hefur lítið breyst í því hvernig við nálgumst menntun.

Það sem alltaf hefur einkennt menntakerfið er að það er línuleg hugsun í því. Bekkjakerfi eða áfangakerfi sem allt miðar að því að staðla námið og lágmarka sveigjanleika. Það sparar hugsanlega einhverjar krónur en það tapast nánast örugglega margfalt meira af hæfileikum sem margir hverjir eru verðmætir.

Það hefur aldrei verið reiknað með því að einstaklingarnir sem stunda námið eru ekki línulegir heldur eru þeir líffræðilegt fyrirbæri sem þroskast afar misjafnlega. Sumir verða fullþroska um 16 ára aldur á meðan aðrir verða það ekki fyrr um þrítugt. Sumir eru uppfullir af sköpunarþrá en aðrir af athafnaþrá.

Það er í engu verið að sinna menntun einstaklinga heldur er alfarið verið keyra áfram menntun á færibandi sem framkallar einhæfni, drepur niður skapandi hugsun, heldur aftur af þeim sem skara frammúr og kyrkir þá sem ekki finna áhugavert efni til að glíma við.

Ég tel augljóst að menntakerfi heimsins þurfi að taka stakkaskiptum. Við með okkar litla land gætum farið hraðar yfir í því en aðrar þjóðir. Víða um heim hefur þegar verið vakin athygli á þessum málum og víða er verið að endurhanna menntun en þar er aðallega verið að bæta gamla kerfið í stað þess að smíða nýtt kerfi frá grunni.

Nýtt kerfi sem gerði ráð fyrir því að allir þurfi að læra að nota tölvu frá unga aldri vegna þess að allir hlutir eru eða verða tölvustýrðir. Þeir sem ekki ná hæfni á tölvur við 10 ára aldur verða eftirbátar.

Nýtt kerfi sem eyðir ekki miklum tíma í að fá börn til að muna allt það sem þegar stendur í bókum og á netinu heldur mikið frekar býr til hvetjandi umhverfi til sköpunar og sjálfstæði í hugsun.

Hluti af lokaprófi úr barnaskóla sé t.d. að skila frumsömdum bút úr lagi, smíða lítið forrit og eða teikna mannvirki eða myndir til að sýna frammá skapandi hugsun. Það er búið að leysa stærðfræðina fyrir okkur flest og tölvan kemur  með svörin. Eyðum ekki mörgum árum í að fylla höfuð barnanna með gömlum fréttum.

Það er einhver hugsun til sem segir að sá sem útskrifast úr háskóla sé menntaður. Það vita þeir sem lengur hafa lifað að 20 ár á vinnumarkaði er margfalt verðmætara nám en 4 ár í háskóla. Það er hins vegar erfitt að meta skóla lífsins til einkunnar og þess vegna er því sleppt.

Ég tel að við gætum sett okkur markmið um að allir nemendur eigi að geta verið tilbúnir inná vinnumarkað eða skapandi brautir við 20 ára aldurinn. Ég er að tala um nýja hugsun sem skilar mikið meiri hæfni en þekkingu inná vinnumarkaðinn. Undantekningar á því verða alltaf til og einstakar greinar eru svo krefjandi að það er ekki raunhæft að stytta námið mjög mikið.

Kannski er tíminn núna til að endurhugsa menntun vegna þess að okkur vantar fjármagn til að reka gömlu verksmiðjuskólana.

Sú stóriðja sem dregur hug barnanna okkar að sér er mannlega stóriðjan. Hugbúnaðargerð, kvikmyndagerð, tónlist, ritsmíðar, iðnhönnun, listhönnun og ótal margt fleira sem auðvelt er að gleyma sér við. Öll þekkjum tilfinninguna þegar við gerum eitthvað sem við elskum þá flýgur tíminn en þegar við gerum eitthvað sem hugurinn stendur ekki til þá líður tíminn lúshægt.

Lífið er til að njóta þess og skólar eiga að vera skapandi fyrirbæri fyrir lifandi misþroskaðar verur á leið útí lífið en ekki skylduverk sem margir passa engan veginn inní.

Leave a comment