Er verðtrygging ólögleg?

jún. 2010 – 16:40 Hermann Guðmundsson

Mikill meirihluti landsmanna er skuldari að verðtryggðum lánum. Almennt telur fólk að þessi lán séu í íslenskum krónum.

Það er auðvitað alrangt eins og ég mun rekja hér síðar.

Það er algert grundvallaratriði þegar skuldbinding verður til að báðir málsaðilar viti fyrir víst hvað sú skuldbinding felur í sér. Íslensk verðtryggð lán eru þeim eiginleikum gædd að hvorki skuldari né lánveitandi hafa nokkra hugmynd um það hvert verður endavirði lánsins. Fyrir nokkrum árum var tekin upp sú vinnuregla að meta greiðsluhæfi lántakenda horft til lengri tíma. Slíkt mat var hins vegar allan tímann gagnslaust vegna þess að enginn gat séð fyrir þróun lánsins, þróun ISK eða þróun á erlendum mörkuðum.

Kjarninn sem verður að horfa til er sá að enginn fjármagnseigandi er tilbúinn til að lána íslenskar krónur til lengri tíma án verðtryggingar. Þetta þýðir með öðrum orðum að krónan okkar hefur ekkert verðgildi horft til lengri tíma. Af þessum sökum var búið til lánsform sem hafði það að markmiði að innihalda mælieiningar sem myndu tryggja innra virði þeirra verðmæta sem fjármagnseigandinn lætur af hendi. Það sem ekki var hægt að fyrirbyggja við þessa smíð var að áhætta lántakandanns óx alveg gríðarlega.

Lengi vel hefur okkur sem þjóð þótt þetta alveg þolanlegt fyrirkomulag sérstaklega þar sem lánstíminn er langur og að mestur hluti verðbólgunar leggst við höfuðstól og dreifist á lengri tíma. Yfir lengri tíma tíma dregur hins vegar í sundur með kaupmætti sem er bundinn við ISK og láninu sem ekki er í ISK.

Þær mælieiningar sem mynda vísitöluna eru þverskurður þess kostnaðar sem myndast í heimilisbókhaldi landsmanna. Allar breytingar á slíkum kostnaði leggst við höfuðstól lánsins. Þetta þýðir meðal annars að þegar olía hækkar á heimsmarkaði þá hækka húsnæðislán á Seyðisfirði. Þegar stálverð hækkar í kauphöllinni í New York þá hækka húsnæðislán á Siglufirði. Þegar fasteignabóla myndast í Garðabæ þá hækka húsnæðislánin á Patreksfirði.

Allar þessar breytur gera það að verkum að fjármagnseigandinn á yfirgnæfandi líkur á að fá til baka mun meiri verðmæti en hann lét af hendi í upphafi. Þetta þýðir líka að ef húsnæðisverð stendur í stað í lengri tíma eins og gæti nú verið í uppsiglingu þá flyst eigið fé fasteignaeigandanns mánaðarlega úr eigninni til skuldareigandanns jafnvel þar til að ekkert eigið fé er lengur til staðar.

Í engu hagkerfi þekkist það að lána fé til almennings án þess að endurgreiðslu upphæðin sé þekkt og jafnvel fest við upphaf lánstímanns.

Við íslendingar höfum um árabil látið hafa okkur í að taka lán til áratuga sem við vitum ekkert hvað muni kosta okkur. Það sem ekki hefur verið nefnt er að ekki er eingöngu um verðhækkanir á mörkuðum um allan heim að ræða heldur er tryggt að þegar verðgildi ISK fellur þá fáum vikum síðar hrúgast upp verðbólguhagnaður hjá lánveitendum með tilheyrandi upptöku eigin fjár fasteignaeigenda.

Slík lán eru því afar flókin afleiðuviðskipti með vöruverði, þjónustuverði, skattabreytingum, fasteignaverðs og gengisáhættu. Mér er til efs að til séu mikið flóknari vörur í heimi afleiðuviðskipta en íslensk húsnæðislán.

Fyrir ekki löngu síðan setti ESB reglur sem kallaðar eru MIFID reglur og er m.a. ætlað að tryggja að almenningi séu ekki seldar flóknar fjármálaafurðir þar sem ætla má að seljandinn (fjármagnseigandinn) hafi verulegt þekkingarforskot á viðskiptavininn. Því þurfum við að átta okkur á því hvort að þessi flóknu afleiðulán séu í raun lögleg vara til að selja almennum borgurum þessa lands.

Eitt atriði enn sem hvergi er fjallað um í lánaskjölum er sú staðreynd að hið opinbera getur með einfaldri ákvörðun breytt að geðþótta vægi allra mælieininga án þess að skuldari eða skuldaeigandi hafi neitt um það að segja, eru til fleiri óvissuþættir í einni fjármálaafurð?

Sjálfur hef ég talið um langa hríð að verðtryggingin sjálf sé hluti af verðbólguvélinni sem við íslendingar höfum ekið í um árabil.

Leave a comment