Hank Paulson

Hank Paulson

Fæddur 1946 á Palm Beach í Flórida.
Hann er stundum kallaður frægasti skáti í heimi.

Hank Paulson er stór maður, 194 cm á hæð og kraftalegur enda fyrrum varnarmaður í Bandaríska fótboltanum.

Hann útskrifaðist með MBA gráðu frá Harvard árið 1970 og fór strax til starfa sem aðstoðarmaður í Pentagon. Þaðan fluttist hann í Hvíta húsið og varð þar aðstoðarmaður John Ehrlichman í eitt ár eða þar til að Watergate málið brast á með fullum þunga.

Hank var boðin staða hjá Goldman Sachs 1974 á Chicago skrifstofunni þar sem fjárfestingabankinn vann mikið með iðnfyrirtækjum að fjármögnun og útgáfu verðbréfa.

14 árum síðar er hann orðinn partner hjá Goldman og tekinn við sem framkvæmdastjóri Chicago skrifstofunnar. 6 árum síðar tók hann við sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá bankanum (COO). Aldarfjórðungi eftir að hann kom til starfa hjá Goldman Sachs tók Hank Paulson við sem forstjóri bankans eftir að Jon Corsine hætti og hellti sér útí stjórnmálin.

Á sínum langa ferli hjá Goldman átti Hank í miklum samskiptum og miklum viðskiptum í Kína, bæði við stjórnvöld og stórfyrirtæki. Hann er líklega sá bankamaður sem hefur komið saman flestum stórviðskiptum á milli bandarískra og kínverskra fyrirtækja. Þegar hann hætti hjá bankanum 2006 til að taka við sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna kom fram að hann ætti hlut að verðmæti um 100 milljarða króna sem hann varð að selja áður en hann gat tekið við sem ráðherra.

Hank Paulson hlaut heimsfrægð þegar hann sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna ásamt Ben Bernanke stjórnarformanns Federal Reserve (seðlabankans) og Timothy Geithner forstjóri seðlabanka New York fylkis fengu það verkefni að reyna að bjarga Wall Street og AIG eftir að risabankinn Lehmans Brothers urðu gjaldþrota í september 2008.

Það komst engin ró á í fjármálakerfinu fyrr en að þessir aðilar skikkuðu bankastjóra 11 stærstu bankana til þess að gefa út nýtt hlutafé og selja Bandaríska ríkinu og að auki þiggja himinháa fyrirgreiðslu frá seðlabönkum til þess að skapa traust á kerfinu á ný. Það tók allt kvöldið og alla nóttina að fá bankastjórana og stjórnir þessara stofnana til að fallast á þessar kröfur Hank Paulson. Hann sagði þeim að sá sem ekki spilaði með fengi ekki einn dollar frá seðlabankanum í fyrirgreiðslu og öllum væri gert það ljóst. Slík yfirlýsing hefði fellt hvaða banka sem er.

Það var þessa nótt sem Hank Paulson lagðist á fjóra fætur undir skrifborðinu sínu og ældi í ruslafötuna vegna svefnleysis og þreytu. Ógleymanleg sena úr bókinni hans On the Brink.

Bragðið heppnaðist og á fáum mánuðum komust Bandaríkin aftur í gang með sína stóru efnahagsvél og ríkissjóður seldi öll sín bréf og skuldabréf á bankana með hagnaði.

Í einu viðtali eftir að ró komst á markaði og hann var hættur sem ráðherra og Tim Geithner tekinn við sagði hann að lykillinn að árangrinum hefði verið sá að ef þú heldur á risastórri eldvörpu eru miklar líkur á að þú þurfir ekki að nota hana. Sem sagt, allir vissu að Bandaríska ríkið gat prentað peninga til eilífðar ef það þurfti.

Í dag er Hank Paulson formaður loftslagsráðs Bandaríkjanna auk þess að gefa út podcastið Straight Talk with Hank Paulson sem finna má á Spotify. 

Leave a comment