05. júl. 2010 – 18:33 Hermann Guðmundsson
Fyrir nokkrum dögum hringdi til mín blaðamaður og erindið var að spyrja hvort ég hefði séð skýrslu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg um þéttleika á eldsneytisafgreiðslustöðvum í borginni. Ég hefði lauslega rennt yfir hana fyrir all nokkru og gat því samsinnt því.
Næsta spurning var um það hver skýringin væri á því að þessi staða væri uppi. Ég sagði eins og satt er að þetta væri áratuga uppsöfnuð staða þar sem ávallt var sótt um þær lóðir sem komu til úthlutunar af þeim 3 félögum sem störfuðu þá við eldsneytissölu. Smátt og smátt fjölgaði þessum stöðvum og síðan þegar nýr aðili kemur inná markaðinn 2003 þá þarf að hann að byggja upp sitt sölukerfi og við það fjölgar aftur stöðvunum.
Það að afkastageta fastafjármuna sé langt umfram þörfina á markaði heitir „offjárfesting“ í flestum kennslubókum. Það eiga ekki að vera fréttir fyrir neinn að slík staða sé uppi hér á Íslandi því að þannig virðist þetta ávallt hafa verið. Það er heldur ekki rétt að halda að þetta sé íslenskt fyrirbæri, þetta er mjög alþjóðlegt fyrirbæri. Þessi offjárfesting hefur tíðkast í nánast öllum greinum viðskipta í áratugi.
Fyrir ekki mörgum árum þá ríkti hér einokun á fjarskiptamarkaði. Símakostnaður var samt ekki mjög stór hluti af útgjöldum heimila. Í dag eru rekin að minnsta kosti 4 – 5 símafyrirtæki sem keppa um hylli neytenda. Símakostnaður hefur margfaldast á heimilum landsmanna og ekki síst vegna tilkomu farsíma og tölvutenginga. Það er hins vegar alveg ljóst að í kerfinu er til staðar talsvert mikið meiri afkastageta en nú er nýtt og því er um talsverða offjárfestingu að ræða sem á endanum verður kostnaður þeirra sem greiða símareikninga.
Með sama hætti var umhorfs á fjölmiðlamarkaði fyrir all nokkrum árum. Nú er meiri fjölbreytni, meiri þjónusta og mikið meiri afkastageta en notuð er. Kostnaður heimila vegna notkunar á fjölmiðlum hefur vaxið hröðum skrefum og nú er svo komið að margir hafa orðið að neita sér um hluta þjónustunnar vegna kostnaðar.
Það eru 20 ár síðan að verslunin Bónus hóf starfsemi og breytti þar með varanlega því smásölu fyrirkomulagi sem hafði ríkt í áratugi á Íslandi. Þeir sem eru það ungir að muna ekki eftir þeim tíma þegar 40 – 50 litlar hverfisbúðir voru helstu matvörumarkaðir landsins eru afsakaðir.
Venjan var sú að heildsölufyrirtæki sérhæfðu sig í því að kaupa inn og lagera dagvöru frá þekktum framleiðendum og dreifa síðan í matvöruverslanir eftir því sem að þarfir þeirra voru á hverjum tíma. Heildsölufyrirtæki þess tíma voru að jafnaði með 40 – 60% álagningu og smásalinn var síðan með 50 -70% álagningu.Með öðrum orðum þá kostaði vara sem kom inn í landið á 100 kr. nálægt 240 kr. út úr búð fyrir utan söluskatt sem þá var við líði.
Ástæðan fyrir því að álagningin þurfti að vera þetta há var sú að flest fyrirtækin voru smá og velta hvers og eins lítil. Þegar fasti kostnaðurinn er hlutfallslega hár vegna lítillar veltu þá verður álagningin hærri. Of stór hluti sölunnar var líka lánaður út tryggingalaust sem aftur gerir hærri kröfu til álagningar.
Bónus fór nýjar leiðir þegar sú verslun hóf rekstur. Allar vörur voru staðgreiddar til að knýja fram betra innkaupsverð. (félagið naut heldur ekki lánstrausts) Kostnaður við innréttingar var lægri en áður þekktist, vöruval var mun minna og þjónustan í lágmarki. Bónus hóf fljótlega beinan innflutning til að knýja enn á um betra innkaupsverð.
Hugmyndafræðin var sú að neytendur væru tilbúnir til að fórna hluta af þægindunum fyrir áþreifanlegan sparnað. Það var líka hluti af hugsuninni að með því að vera með minna fé bundið, þá er hægt að vera með lægri álagningu. Öll þekkjum við eftirleikinn.
Í dag eru heildsölur margfalt stærri fyrirtæki en áður og geta því lagt mun minna á og smásalar eru flestir talsvert í eigin innflutningi. Álagning í greininni hefur lækkað talsvert á 20 árum, magn í gegnum hverja verslun hefur vaxið og störfum pr. sölueiningu hefur fækkað. Ein aðal ástæðan fyrir þessari hagræðingu og um leið bættum hag neytenda er sú að fram náðist stærðarhagkvæmni í öllum þrepum greinarinnar.
Áður voru 40 – 50 heildsalar um að sinna lítilli matvöruverslun en nú duga 8 – 10 til að fá sömu þjónustu eða jafnvel meiri. Þetta er dæmi um það hvernig samkeppni getur unnið sigur fyrir neytendur. Í dag, 20 árum síðar eru hins vegar komnar fjölmargar aðrar verslanir með sambærilega hugmyndafræði. Fjöldi m2 í matvöruverslun er talsvert meiri en þörf er fyrir og því er því tímabili lokið sem dreif áfram lækkandi vöruverð. Of hár kostnaður við að halda úti of mörgum verslunum gerir það erfitt að lækka enn frekar vöruverð. Neytendur greiða fyrir að hafa meira val og meiri þjónustu.
Að lokum má nefna að það fyrirtæki sem hvað best er að reka um þessar mundir er ÁTVR. Félagið getur sniðið sína þjónustu að hagkvæmnissjónarmiðum en þarf ekki endalaust að fjölga verslunum og lengja opnunartíma með sömu tekjur að vopni. Markaðskostnaður er í lágmarki og hagkvæmni í aðfangakeðjunni er hámörkuð.
Það hefur lengi verið kallað eftir því að sala á áfengi yrði gefin frjáls. Verði það niðurstaðan þá eru litlar líkur á að slíkt lækki vöruverð, það eru meiri líkur á að vöruverð hækki til lengri tíma litið en um leið mun þjónustan og úrvalið vaxa.
Íbúar á vesturlöndum hafa til þessa viljað hafa all nokkra valkosti þegar kemur að því kaupa vöru eða þjónustu. Þeir hafa slæma reynslu af einokun og það þarf að halda vel á spilunum til að einokun leiði ekki til verri þjónustu og jafnvel engrar þjónustu. Það er líka alveg klárt að þegar margir bítast um viðskiptin sem í boði eru þá kvikna margar nýstárlegar hugmyndir sem geta leitt til varanlegra breytinga neytendum til heilla.
Það stendur því enn það sem sagt var: Samkeppni kostar helling, en kannski er enn dýrara að hafa enga.
