Brasilía og Eike Batista

apr. 2010 – 21:08 Hermann Guðmundsson

Það er ekki ofsögum sagt að heimurinn sé að breytast hratt og á mörgum vígstöðvum í senn.

Nú er ríkasti maður heims Mexikaninn Carlos Slims, eftir að Bandaríkjamenn hafa einokað efsta sætið á þeim lista í hundrað ár, eða frá því John D. Rockefeller tók afgerandi forystu eftir að Standard Oil (ESSO) varð stærsta olíufélag heims.

Hann var heimsins fyrsti milljarðamæringur og enn í dag er talið að miðað við stærð hagkerfa heimsins þá sé hann enn ríkasti maður sem uppi hefur verið.

Flest þekkjum við að hagkerfi Kína vex örum skrefum og talið er öruggt að um 2020 verði það orðið jafnstórt því bandaríska. Sem sagt: Nýtt stórveldi verður þá fætt og nú er talið að með sömu þróun þá geti kínverska hagkerfið orðið allt að 50% af þjóðarframleiðslu heimsins. Slík stærð á hagkerfi hefur ekki sést síðan kínverska hagkerfið náði þeirri stærð að talið er 800 árum fyrir Krist.

Annað stórveldi í efnahagslegu tilliti er að verða Brasilía og þaðan gæti komið næsti ríkasti maður heims, Eike Batista. Brasilía er í dag áttunda stærsta hagkerfi heimsins og vex hratt. Það búa um 200 milljónir manna í landinu og það er ríkt af náttúruauðlindum.

Helstu útflutningsvörur landsins eru járngrýti, timbur, flugvélar, efnavörur, fiskveiðar og bifreiðaframleiðsla. Nýjasta útflutningvara Brasilíu verður olía úr olíulindum sem nýlega fundust undan ströndum landsins í gríðarlega magni. Í dag er talið að auðunnið magn nemi að minnsta kosti 100 milljörðum tunna og mikið magn sé á djúpsævi sem verður betur rannsakað á næstu árum. Stærsta viðskiptaland Brasilíu er Kína og því er eftirspurnin tryggð langt inní framtíðina.

Einn er sá maður sem vakið hefur athygli utan sín heimalands sem kraftmikill og hugrakkur frumkvöðull. Þessi maður heitir Eike Batista og er menntaður málmfræðingur frá háskólanum í Aachen í Þýskalandi.

Eike er sonur manns sem lengst af stýrði stærsta námufyrirtæki landsins (Vale) sem var lengst af í ríkisseigu en varð síðar almenningshlutafélag.  Eftir námið ákvað Eike fljótlega að fara út í eigin rekstur og keypti gamla gullnámu í Amazon skógunum og hóf vinnslu. Á fáum árum keypti hann 8 námur og rak þær með miklum hagnaði enda fór verð á góðmálmi sífellt hækkandi.

Eignir Eike voru nýlega metnar á 18 milljarða dollara og það var áður en hann varð hlutskarpastur í útboði ríkisins um réttinn til að bora eftir og vinna olíu í hafinu umhverfis Brasilíu. Hann sagði í síðustu viku að eftir að hafa borað 46 holur í tilraunaskyni að það ótrúlega hafi gerst að allar holurnar hafi sýnt fulla vinnslugetu. Það er mjög óvenjulegt við olíuleit.

Eike hefur sagt sjálfur að hann stefni að því að verða fyrsti maðurinn til að eignast 100 milljarða bandaríkjadala og þegar því marki verði náð þá hefjist hann handa við að gefa féð til góðra verka því að hann vill feta í fótspor þeirra Bill Gates og Warren Buffett og gefa aftur það sem jörðin hefur gefið í bókstaflegum skilningi.

Það er mjög athyglisvert að Brasilía fékk rúmlega 30 milljarða dala neyðaraðstoð frá IMF eða Alþjóða gjaldeyrissjóðnum um mitt ár 2002, eftir að landið hafði lent í miklum vandræðum við rússnesku fjármálakreppuna og gat ekki fjármagnað skuldir ríkissins með hefðbundnum hætti. Lánið var síðan endurgreitt að fullu árið 2005 þótt að það gjaldfélli ekki fyrr en ári síðar.

Það var vegna mikillar erlendrar fjárfestingar sem Seðlabanki Brasilíu komst yfir gjaldeyri í því mæli sem þurfti til að greiða skuldir landsins erlendis. Nú er svo komið að Brasilía er komið hóp þeirra ríkja sem lána öðrum þjóðum fé í stað þess að þiggja lán sjálft.

Árangur Lula sem er forseti Brasilíu (fullt nafn: Luis Inacio Lula da Silva) hefur verið góður við að stýra hagkerfinu. Lula er um margt merkilegur maður sem fór úr því að vera harður vinstri maður og yfir í að vera harður fylgismaður markaðshagkerfis. Honum hefur tekist að þróa hagkerfið hratt áfram til hagsbóta fyrir hinn mikla fjölda íbúa landsins. Nú er valdatíma hans að ljúka og við síðustu könnun þá voru 82% íbúanna ánægð með hans störf, það er mikill árangur.

Eitt af því sem talið hefur verið að hafi hjálpað Brasilíu þegar óróinn á fjármálamörkuðum 2008 var sem mestur var að Lula gat þá í krafti neyðarlaga skipað fyrir með beinum hætti um aðgerðir til að tryggja stöðu bankanna og ríkisins. Slík lög gilda í 6 mánuði án þess að þingið geti afnumið þau fyrr en að þeim tíma liðnum. Með þessu móti var hægt að bregðast hratt við og leysa hver þau mál sem upp komu.

Slíkt vald er t.d. ekki til staðar í Bandaríkjunum og það hefur komið skýrt fram hjá Hank Paulson fyrrum fjármálaráðherra að það hafi næstum riðið fjármálakerfi heimsins að fullu að bíða eftir að þingið samþykkti þær aðgerðir sem grípa þurfti til.Það er annað atriði sem vakti athygli mína við lestur bókar ráðherrans „On the Brink“ um páskana, að ekki eingöngu þurfti hann að vera í stöðugu sambandi við alla innlenda hagsmunaaðila til að vakta kerfið heldur var jafnvel enn brýnna að róa ráðamenn í Kína og Rússlandi sem eiga gríðarlegar upphæðir í ríkisskuldabréfum. Hefðu þessi lönd misst trúna á að kerfið myndi halda og farið að selja bandarísk skuldabréf í miklu mæli þá er hætt við að illa hefði farið.

Það var annað atriði sem kom fram í bókinni, sem ekki hefur vakið mikla athygli á Íslandi, nefnilega sú staðreynd að þegar Lehman Brothers urðu gjaldþrota þá frysti breska ríkið allar eigur þess þrotabús í Bretlandi. Viðskiptavinir sem m.a. áttu eignir í fjárvörslu hjá bankanum fengu þær eignir ekki afhentar fyrr en allnokkru síðar. Þetta bendir til að harkan sem var ríkjandi hafi snúið að fleirum en okkur.

Þegar litið er til þess tíma sem liðinn er frá falli íslensku bankanna eru nokkrar augljósar staðreyndir farnar að blasa við að mínu mati:

  1. Kröftugt markaðshagkerfi er eini raunhæfi valkosturinn
  2. Verulegar erlendar fjárfestingar myndu flýta mjög fyrir bættum lífskjörum
  3. Það er ekki hægt að skera sig í gegnum kreppu, það verður að vaxa úr kreppu
  4. Án verulegs hagvaxtar munu lífskjörin okkar ekki batna að neinu marki og sennilega versna talsvert þegar fjármagnskostnaður ríkissins er farinn að bíta í af fullum þunga
  5. Verðbólga verður áfram talsverð ef krónan getur ekki styrkst vegna gjaldeyrisskorts

Það er því brýnasta verkefnið nú um stundir að reyna með öllum ráðum að liðka til fyrir þeim erlendu aðilum sem sýna okkur áhuga og eru verðmætaskapandi. Ekki má samt gleypa við hverju sem er.

Að lokum hlýtur að vera umhugsunarefni þegar horft er til breytinga sem verið er að boða á stjórnkerfinu hvort að það eigi að vera á valdi einfalds meirihluta Alþingis að breyta skipulagi stjórnkerfis sem tekið hefur langan tíma að byggja upp.

Í raun býður þetta uppá að hver sú ríkisstjórn sem hefur meirihluta á Alþingi getur breytt skipulagi framkvæmdavaldsins fram og aftur án tillits til þess hversu vel eða illa sú vinna er undirbúin.

Það er hægt að gera geysilegt ógagn á stuttum tíma með illa undirbúnum „skipulagsbreytingum“ og ef þær ganga líka gegn útbreiddum skoðunum starfsmanna í ráðuneytum þá munu þær ekki heppnast nema á yfirborðinu. Það er auðvelt að teikna upp skipulag en það er erfitt að fá það til að virka og tekur langan tíma.

Leave a comment