Leiðtogar!

mar. 2010 – 17:30 Hermann Guðmundsson

Mikil umræða hefur verið um að leiðtogar séu miklir skaðvaldar. Þeir ani stjórnlaust um víðan völl og með yfirblásnu egói stofni þeir öllu samfélaginu í bráðan voða.

Það er líka sagt að nú séu komnir nýir tímar með nýjum aðferðum, allar ákvarðanir eigi að vera hópniðurstaða (japanska aðferðin) og enginn eigi að rísa yfir hópinn og hvetja til athafna eða breytinga.Hversu mikla skoðun þolir þetta sjónarmið og hvar hefur þetta gefist vel?

Alveg frá upphafi dýralífs þá hafa verið til leiðtogar. Einhver skepna í hópnum fær það hlutverk að gefa stefnuna, hraðann eða ákveða hvar er étið og drukkið. Mannskepnan er reyndar lengra komin á þróunarbrautinni, en við höfum samt haft sama háttinn á frá örófi alda. Íslendingar hafa átt marga leiðtoga í leik og starfi frá upphafi byggðar.

Leiðtogar hafa mörg andlit og marga titla og þeir birtast í flestum tilbrigðum mannlífsins.Það er brýnt að hafa það í huga að leiðtogar eru alveg eins og allt annað fólk. Þeir eru ekki betri eða verri en annað fólk, ekki gallalausir eða gáfaðri en aðrir. Þeir hafa samt eiginleika sem erfitt er að henda reiður á en samt má lýsa því þannig að leiðtogi er einstaklingur sem laðar að sér fólk.

Það sem leiðtogi leggur með sér er hæfileiki til að fá annað fólk til að vinna saman og ná meiri árangri sem hópur en sem einstaklingar. Þetta er hæfileiki sem ekki verður kenndur frekar en margt annað sem fólki er í blóð borið. Það má líka ekki gleymast að leiðtogar eru misgóðir sem slíkir.

Margir misskilja hugtakið leiðtogi. Það er ekki þannig að allt fólk sem er ráðið til ábyrgðarstarfa séu leiðtogar eða þurfi að vera slíkir. Það er ekki heldur þannig að leiðtogi þurfi alltaf að vera með meiri ábyrgð en aðrir. Sá sem er t.d. leiðtogi í íþróttaliði er oft ósýnilegur á vinnustað og sá sem er leiðtogi í atvinnulífinu er ekki endilega líklegri til að vera í forystu í íþróttastarfi eða félagsmálum en aðrir.

Margir gera þá kröfu að einstaklingar sem taka að sér ábyrgðarstörf séu líka leiðtogar, það er skiljanlegt en ekki alltaf raunhæft. Sumir telja líka að það sé brýnt að hafa marga leiðtoga við hendina ef einn skyldi ekki duga. Það er eins og að blanda saman olíu og vatni.

Fyrir nokkrum árum var gerð viðamikil rannsókn á 100 forstjórum í Bandaríkjunum sem höfðu náð betri árangri til lengri tíma en aðrir í sömu stöðu. Leitað var að einkennum, vinnubrögðum, stefnum eða öðru sem þeir áttu sameiginlegt. Niðurstaðan var alveg skýr og kom á óvart. Staðreyndin var einfaldlega sú að þeir áttu ekkert sameiginlegt.Það er ekki til nein formúla eða námskeið sem hægt er að taka til að verða leiðtogi.

Við höfum nú um hríð horft uppá þjóðfélagið lamað í flestu tilliti og nú kalla margir eftir leiðtoga sem getur rofið kyrrstöðuna og hafið vinnuna við að endurreisa samfélagið sem við viljum gjarnan búa í.

Ég tel sjálfur að leiðtogalaust samfélag eigi margfalt erfiðari leið fyrir höndum en samfélag sem ræður yfir góðum leiðtoga sem hefur hæfileika til að leiða saman hóp sterkra einstaklinga. Ég tel sjálfur að eitt mikilvægasta hlutverk leiðtoga sé að taka ákvarðanir. Þær á að taka þegar allar upplýsingar liggja fyrir og ekkert vinnst með þvi að bíða. Ákvarðanir á ekki að taka fyrr en þörf er á.

Best er að samhljómur sé með þeim sem að málum koma til að úrvinnslan verði sem skilvirkust en stundum er ekki í boði að bíða eftir samhljómi.Þeir sem taka margar ákvarðanir gera líka marga feila. Þeir sem gera ekkert gera engin mistök, sem eru reyndar mistök í sjálfu sér.

Þekktasti fjárfestir heims Warren Buffett hefur þá reglu að skrifa hluthöfum sínum bréf 60 dögum fyrir aðalfund ár hvert. Á hverju ári eys hann lofi yfir þá stjórnendur sem reka hin fjölmörgu fyrirtæki sem félagið Berkshire Hathaway  á, í sama bréfi týnir hann alltaf til sín eigin mistök hvort sem þau stöfuðu af aðgerðum hans eða aðgerðaleysi.

Þetta er hans aðferð til að sanna að allir geri mistök og hann sé ekki síður mannlegur en aðrir dauðlegir menn. Hann verður ekki minni fyrir vikið heldur meiri. Slíkt uppgjör við sjálfan sig með skriflegum hætti fyrir framan alþjóð er örugglega til þess fallið að vanda ákvarðanir og koma í veg fyrir að maður geri sömu mistökin aftur.

Við íslendingar höfum ekki vanist því að leiðtogar okkar komi fram og staðfesti eigin mistök, það væri samt þeim til framdráttar og öðrum til eftirbreytni.

Leave a comment