Michael Burry og hrun AIG

mar. 2010 – 08:00 Hermann Guðmundsson

Það er merkileg sagan af læknanemanum Michael Burry sem hætti einn daginn á spítalanum og stofnaði sinn eigin fjárfestingsjóð Scion Capital fyrir 10 árum síðan. Hann hafði um langa hríð stúderað fjárfestingar í sínum frítíma og hans uppáhalds fjárfestir er Warren Buffett.

Michael er svokallaður virðisfjárfestir að upplagi, það þýðir að hann rannsakar ársreikninga og alla útgáfu þeirra fyrirtækja sem vekja hjá honum áhuga.

Hann kaupir í fyrirtækjum sem hann telur vanmetin út frá eignahlið og tekjum.

Eftir 5 ára rekstur á sjóðnum Scion þá hafði ávöxtun náð 242% yfir tímabilið á meðan S&P vísitalan fyrir sama tímabil var neikvæð um tæp 7%. Eitt af því sem hann nýtti sér til að fjárfesta var að fylgjast með slæmum fréttum af fyrirtækjum sem keyrðu hlutabréfaverðið niður tímabundið.


Það er rétt að nefna að á þessu árabili varð einhver mesta eignabóla sögunar í hlutabréfum staðreynd, fjárfestar seldu í miklu magni hlutabréf í traustum fyrirtækjum til að kaupa í hinum spennandi netfyrirtækjum. Scion var einn af þeim sem keypti þessi hlutabréf í traustu fyrirtækjunum en ekkert í hinum.

Alþekkt er í Bandaríkjunum að mál eru höfðuð oft af litlu tilefni, slíkar málsóknir eiga það til að keyra niður hlutabréfaverð langt niður fyrir innra virði félags. Þetta nýtti Scion sér iðulega til að kaupa sig inn í góð fyrirtæki á afsláttarverði.    Þessi velgengi Scion varð til þess að framboð af fjármagni varð fljótlega meira en Michael Burry kærði sig um og því lokaði hann fyrir innborganir 2005 tímabundið. Hann ólíkt nánast öllum sjóðum tók eingöngu við fjárfestaframlögum með þeirri reglu að féð var ekki til útborgunar fyrr en í fyrsta lagi eftir 12 mánuði.

Hann rak líka sjóðinn með þeim hætti að í stað þess innheimta 2% af höfuðstól eins og flestir þá rukkaði hann eingöngu raunkostnað fyrir umsjón og flest árin var hann innan við 1% af eignum.

Michael Burry varð mjög hugsi yfir þeirri staðreynd að lán til fasteignakaupa urðu sífellt ódýrari fyrir neytendur og það sem áður var frekar einsleitur markaður varð sífellt fjölbreyttari.

Áður fyrr var valið um lán með föstum vöxtum eða breytilegum, til 20 eða 30 ára. Nú var öldin önnur.Nú var hægt var að velja um lán sem t.d. voru afborgunarlaus fyrstu 6 mánuðina, 50% af vöxtum greitt næstu 6 mánuði og síðan tók alvaran við. Önnur lán voru t.d. þannig að lántakandinn gat hreinlega tilkynnt að hann myndi ekki greiða afborgun eða vexti og þá varð kröfueigandinn að leggja þá afborgun við höfuðstólinn.

Michael Burry fannst sérkennilegt að heyra frá fyrrum barnafóstru sinni, sem var 24 ára gömul, að hún ætti 6 raðhús í Brooklyn þar sem hún bjó. Hún sagði frá því að fyrst hafi hún tekið afborgunarlaust lán á eitt hús og þegar það hús hafði á fáum mánuðum hækkað um 250 þ. dali þá gat hún tekið þá upphæð að láni líka og keypt annað hús, svona gekk þetta allt þar til að hún átti 6 hús sem öll voru hætt að hækka í verði og hún gat ekki greitt afborganir.

Það sem Michael gerði var að loka sig inná skrifstofunni í marga daga þar sem hann las mörg hundruð lánasamninga sem og sölugögn frá þeim sem höfðu pakkað lánunum inní nýjan búning og selt sem fjárfestingavöru til lífeyrissjóða og fjárfesta. Því meira sem hann las því sannfærðari varð hann um að þessi lán væru tifandi tímasprengja. Ein ógnvekjanleg staðreynd var sú að flest lánin gengu út frá því að þau yrðu greidd upp með öðrum lánum þegar verðmæti hússins hefði hækkað.

Þannig væri með stöðugum endurfjármögnunum hægt að kaupa gott hús án þess að greiða neitt nema vexti í mörg ár. Tekjur og greiðslugeta kaupanda skiptu engu máli í mati þeirra sem veittu lánin enda var ætlun þeirra aldrei sú að eiga lánin heldur voru þau seld jafnharðan til fjárfesta um allan heim. Michael vildi fyrir alla muni reyna að hagnast fyrir hönd sinna sjóðfélaga á þessar þekkingu en það var ekki einfalt.

Það var þekkt staðreynd að fasteignaverð í Bandaríkjunum hafði aldrei lækkað að meðaltali frá 1931. Aldrei áður höfðu fasteignir hækkað eins hratt og á árunum 1995 – 2005, það var ljóst að það sem ekki var talið mögulegt var orðið yfirvofandi. Stærðin á þessum markaði er gríðarleg, húsnæðislán í Bandaríkjunum eru margfalt hærri fjárhæðir en öll útgáfa ríkisskuldabréfa og hlutabréfamarkaðurinn er aðeins brot af þessum markaði.

Engin leið var að skortselja húsnæðislán, þú gast bara átt þau eða selt. Fáum árum áður varð til markaður í kringum vaxtaviðskipti, fyrirtæki sem seldu skuldabréf með breytilegum vöxtum vildu gjarnan festa vextina eftirá og greiða þóknun fyrir. Þetta varð upphafið að hinum síðar illræmdu CDS og CDO afleiðum. CDS virkar sem trygging gegn greiðslufalli og það var nákvæmlega þannig trygging sem Scion Capital vildi kaupa.

Þar sem engar slíkar tryggingar voru til þá varð Michael að fá einhvern til að búa til slíka vöru. Hann hringdi í alla stóru fjárfestingabankana en án árangurs. Hann áttaði sig fljótt á því að enginn virtist hafa neinar áhyggjur af þessum lánum eða síversnandi hegðun þeirra sem lánin seldu. Bankarnir högnuðust gríðarlega á að taka lánin og selja þau áfram og eyddu engum tíma í að skoða gæði lánanna.

Einn daginn kom símtal frá Goldman Sachs sem hann hafði suðað hvað mest í. Þeir voru tilbúnir að selja honum CDS tryggingu á húsnæðislán. Þeir meira að segja sendu honum langan lista af lánum sem hann mátti velja úr. Hann valdi auðvitað lökustu lántakendurnar og dýrustu kjörin. Áður en langt var liðið þá hafði honum tekist að kaupa CDS tryggingar fyrir milljarð bandaríkjadala eða um 125 milljarða króna.

Goldman Sachs hafði enn einu sinni búið til gullnámu fyrir sig og sína eigendur. Þeir tóku þóknun af bæði kaupendum og seljendum. Á 2 árum náðu þeir inn 400 milljónum í þóknanir án þess að taka neina áhættu sjálfir.Það sem Michael vissi ekki fyrr en síðar var að allar greiðslufallstryggingar sem Scion keypti voru tryggðar af einu og sama fyrirtækinu AIG FG sem var dótturfélag tryggingarisanns AIG. Áður en AIG hafði áttað sig á því sem það hafði raunverulega tryggt var búið að selja tryggingar fyrir 50 milljarða bandaríkjadali.

Eins og flestir vita þá kom sá dagur að AIG þurfti að standa við tryggingarnar sem seldar voru. Sú staðreynd þurrkaði út allar eignir félagsins og um leið hluthafanna.  AIG hefði orðið gjaldþrota ef ekki hefði komið til þess að stjórnvöld lögðu því til 132 milljarða bandaríkjadali.  Sömu sögu er hægt að segja um Citigroup sem ólíkt hinum bönkunum hafði ákveðið að eiga sjálfir áhættuna í tryggingaarmi bankans í stað þess að selja.

Áður en yfir lauk þá hafði Scion fimmfaldað eignir sinna skjólstæðinga með því einu að greina þá augljósu staðreynd að fasteignir gætu ekki hækkað endalaust og að fólk með engar eða litlar tekjur myndu aldrei geta staðið í skilum með lán sem voru 50 föld árslaun sín.

Einn annar fjárfestir synti í sömu átt og með svipaðar skoðanir. Þetta var Steve Eisman fyrrum yfirmaður greiningardeildar Oppenheimar. Hann fór yfir götuna og stofnaði sjóð hjá félagi í eigu Morgan Stanley sem heitir Front Point. Aðferðir Steve Eisman gengu meira útá að skortselja hlutabréf í þeim fyrirtækjum sem yrðu illa úti ef að lánamarkaðurinn færi útaf sporinu eins og Steve hafði marg oft varað við. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu mikill ágóði beið þeirra sem veðjuðu á fall húsnæðismarkaðarinns í bandaríkjunum.

Kveikjan að hruninu var yfirgengilegt framboð af ódýru lánsfé til húsnæðiskaupenda sem ekki gátu greitt lánin til baka.  Michael Burry sá fyrstur hvað verða vildi og með aðstoð Goldman Sachs urðu afleiðingarnar skelfilegar fyrir fjármálafyrirtæki í Evrópu og í Bandaríkjunum.  

Leave a comment