des. 2010 – 10:00 Hermann Guðmundsson
Nú eru þriðju jólin eftir bankahrunið að ganga í garð. Ekki verður reynt að fara yfir það ferðalag hér enda hefur það verið ágætlega gert á mörgum vígstöðvum.
Ég hef áður skrifað að svona kreppa eins og Ísland er í, mun ekki leysast með niðurskurði og skattahækkunum. Eina raunhæfa og arðbæra leiðin er sú að reyna að vaxa með öllum ráðum til að stækka hagkerfið og minnka áhættuna. Með þeirri aðferð aukast tekjur heimila og fyrirtækja og ekki minnst ríkissjóðs sem aftur leiðir til minni lántöku og uppgreiðslu skulda.
Við höfum stíft verið að reyna að fara hina leiðina í von um að hægt sé að skera svo hratt niður að við náum jafnvægi í ríkisfjármálum á stuttum tíma. Það eru skiljanleg viðbrögð við áfallinu og að einhverju leyti virðingarverð, hitt er samt staðreynd að við slíkar aðstæður þá dragast umsvif alltaf meira saman en reiknað er með og því koma aldrei þær tekjur í hús sem stefnt var að. Þá þarf að fara aðra umferð í niðurskurð og svo koll af kolli.
Langtímaáhrifin geta verið afar eyðileggjandi fyrir lítið samfélag, þessi hugmyndafræði að heilbrigðisþjónusta eigi ekki að vera hluti af grunnþjónustu hinna dreifðu byggða er ekkert öðruvísi en að t.d. öllum matvöruverslunum væri lokað af því að það er ódýrara að fá fólk í stórmarkaði sem finnast í stærri bæjum. Okkur hefur tekist í yfir 100 ár að vera með sæmilega læknaþjónustu um land allt og það getur ekki verið ásættanlegt fyrir okkur sem þjóð að við hverfum aftur til 1950 með það þjónustustig.
Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig geðheilsu þjóðarinnar er háttað eftir gengdarlausar kreppufréttir í tvö ár frá morgni til kvölds. Eitt verulegt áhyggjuefni er sú staðreynd að ung börn eru farin að tala um kreppuna eins og hún sé alltumlykjandi mara og henni verði að bægja á brott. Það getur ekki verið brýnt að börn séu með hugann við hagstjórn alla daga í stað þess að njóta sín. Nýjasta mantran er síðan sú að brýnasta verkefnið í Reykjavík sé að efla trúleysi enda höfum við hin sem vorum fórnarlömb kristnifræðslu og prestsheimsókna ekki komist ósködduð úr þeim hildarleik.
Að þessu sögðu hljótum við að spyrja okkur að því hvort ekki sé rétt að þjóðin sameinist um að taka sér frí í desember frá kreppunni og einbeitum okkur þess í stað við að halda gleðileg jól með börnum þessa lands. Notum tímann til að styðja við þá sem minna mega sín til að þeir geti líkað öðlast ró og frið og börnin þeirra fái einnig notið sín til jafns við önnur börn.
Ég legg til að öllum aðgerðum og aðförum að skuldugum heimilum verði gefið frí í desember og mánuðurinn notaður til að græða sár og brotnar sálir.
Djöfulgangurinn getur síðan hafist að nýju í janúar.
