Tvö ár frá hruni

ágú. 2010 – 14:51 Hermann Guðmundsson

Nú eru að verða 2 ár síðan bankarnir féllu um koll og með þeim stór hluti af hagkerfinu.

Á þessum tíma hefur alveg ótrúlega margt verið sagt og ritað en glettilega lítið verið aðhafst í raunheimum. Flest fólk hefur haldið áfram að lifa lífinu og einbeitt sér að því verkefni að hlúa að sér og sínum en um leið reynt að tryggja framfærslu sína.

Atvinnulífið hefur af öllum mætti reynt að standa af sér áföllin og mikill meirihluti fyrirtækja er enn starfandi en við misjafnar aðstæður. Bankarnir sem lengi vel voru nánast óstarfhæfir vegna atgangs stjórnmálamanna og álitsgjafa allra handa, eru farnir að stunda bankaviðskipti aftur þótt í litlu mæli sé. Það er mikilvægt því að ekkert atvinnulíf þrífst án aðgengis að rekstrarfjármögnun.

Það sem starir á mann er sú staðreynd að hlutverk stjórnmálamanna við endurreisnina er afar takmarkað. Það er reyndar þannig sem ég vil hafa það, en meirihluti landsmanna er mér ósammála heyrist mér á þeirri umræðu sem fer fram í fjölmiðlum og víðar.

Hingað til þá hafa stjórnmálin tafið endurreisnina og verið til óþurftar og því eigum við ekki að gleyma.

Ríkið á að tryggja umgjörðina

Sjálfur tel ég að það sé hlutverk atvinnulífsins og fjárfesta að skapa verðmæt störf í gegnum uppbyggingu atvinnugreina sem við þekkjum eða í gegnum nýsköpun og þróun. Hlutverk hins opinbera á fyrst og síðast að vera það að tryggja umgjörðina og að gæta þess að hagkerfið sé í þokkalegu jafnvægi. Mikilvægasta starf stjórnmálamanna er síðan að reka þjónustustarfsemi ríkisins með eins skilvirkum hætti og raunhæft getur talist.

Við getum séð kristallast í umræðunni um Magma og fjárfestinguna í HS Orku að þriðjungur ríkisstjórnarinnar vill alls ekki sætta sig við erlenda fjárfestingu í greininni en hinn hluti stjórnarinnar stefnir af öllum mætti inní ESB þar sem bannað er að takmarka fjárfestingar eftir þjóðerni. Þar gildir reglan um jafnan rétt án tillits til þjóðernis eða hugsjóna.

Við sjáum æfingarnar í kringum sjávarútveginn þar sem það er kallað að opna fyrir nýliðun að gefa veiðar frjálsar í nokkra klukkutíma á ári. Með sömu rökum ættu allir að hafa leyfi til að aka leigubílum þegar þeim sýndist enda er það skerðing á atvinnufrelsi að takmarka fjölda leigubifreiða.

Afkoman versnar

Hugsjónin getur verið göfug en afleiðingin er einfaldlega sú að við sem þjóð stofnum til mikið meiri kostnaðar við veiðar en áður og afkoma þjóðarbúsins versnar. Óvissan sem skapast í greininni lamar bæði þróun og fjárfestingu og kostnaðurinn verður borin uppi af skattgreiðendum.

Ég hef sagt við þá sem skammast út í núverandi stjórnvöld að það sé ómetanlegt fyrir unga kjósendur sem aldrei hafa fundið á eigin skinni hvað það kostar að hafa ríkisstjórn sem er ekki með atvinnumál sem sitt helsta áhugasvið.

Prufa ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins er nauðsynlegt til að munurinn finnist.

Þetta tímabil mun seint gleymast og þótt kostnaðurinn af því verði talsverður fyrir samfélagið þá er það vel þess virði.

Sú staðreynd hefur fallið í skuggann að það verða aldrei stjórnmálamenn sem lyfta þjóðinni úr þeim vanda sem hún nú glímir við. Það verður verðmætasköpun í gegnum öflugt atvinnulíf sem keyrir hagkerfið uppúr öldudalnum en það verða stjórnmálamenn sem ráða nokkru um það hvort tíminn verður lengri eða skemmri.

Án verðmætasköpunar verður ekkert velferðarkerfi, ekkert menntakerfi og engar kjarabætur.

Þótt að það hafi tekið 2 ár að finna uppá embætti sem heitir „Umboðsmaður skuldara“ þá er líka jafnljóst að ef engin verður vinnan þá verða engin lán greidd upp.

Endurreisnin hefst með árangri atvinnlífsins en í stað þess að leggja atvinnulífinu lið þá telja núverandi stjórnvöld mikilvægara að smíða slagorð. Það er mikið lagt uppúr því að „orða“ hlutina rétt í staðinn fyrir að breyta rétt.

Það sjást nú orðið víða merki þess að hagkerfið sé að jafna sig af eigin rammleik eftir áfallið af heimskreppu á fjármálamörkuðum.

Ytra umhverfið hefur hjálpað til en síðan sú einfalda heimilishagfræði að við erum að eyða minna en við öflum og mikilvægasta talan sem við eigum að horfa til er vöruskiptajöfnuður við útlönd. Í dag eigum við geysilegan afgang af þessum vöruskiptum og það mun verða mikilvægasta tækið í endurreisninni. Niðurstaðan af þessum afgangi er hægfara styrking krónunnar.

Ríkisvæðing ekki líkleg til árangurs

Kjósendur virðast vera búnir að átta sig á því samkvæmt síðustu könnunum að sú hugsun að ríkisvæða landið er ekki líklegt til árangurs enda hefur það verið reynt í mörgum löndum án árangurs.

Eftir standa þær hugsanir hvort að stjórnmál sem slík hafi hlutverk. Það sem hefur breyst á vesturlöndum í minni lífstíð sem spannar bráðum hálfa öld er að allir eru orðnir sammála um grundvallaratriðin sem eru mannréttindi, frelsi einstaklingsins, velferðarkerfi, markaðshagkerfi, menntun og sköpun.

Það sem rifist er um í dag eru prósentur, skatthlutföll, þjónustustig og utópíur allra handa.

Er kannski tími hugsjónafólksins liðinn og tími verkfræðinganna kominn?

Hagkvæmni, arðsemi, skilvirkni og langtíma stefnumótun í rekstri ríkisins til að efla þjónustuna án þess að auka kostnað?

Ef þú spyrð stjórnmálamenn þá er svarið nei og geta haft um það langt mál en margir aðrir telja að tíminn sem fer í þrasið sé betur nýttur í að ná árangri fyrir þjóðina alla með skipulögðum og öguðum vinnubrögðum.

Leave a comment