feb. 2010 – 20:09 Hermann Guðmundsson
Í Silfri Egils í dag kom í ljós að „rannsóknarvinnan“ er rétt að byrja. Þar var talað um að það yrði að rannsaka einkavæðingu bankanna, rannsaka skilanefndir, rannsaka hvernig bankarnir vinna með atvinnulífinu að endurreisn fyrirtækjanna og ýmislegt fleira þarf örugglega að rannsaka.
Þetta minnir mig á sögu sem erlendur prófessor sagði mér af fyrirtæki í Evrópu sem varð gjaldþrota. Þeir sem komu að þrotabúinu til að vinna úr eignum og skuldum sögðust aldrei hafa komið að fyrirtæki þar sem allar upplýsingar, öll gögn og allt bókhald var jafn fullkomið og villufrítt. Þetta hefur verið kallað best skipulagða gjaldþrot sögunnar. Það var ekki skipulagt til að fara í þrot en eigandinn og framkvæmdastjórnin voru með alla áhersluna á innviði og kerfið en gleymdu að hafa stjórn á tekjum og gjöldum. Við virðumst stefna í svipaða átt.
Stjórnmálamenn eru með rannsóknir á heilanum en skeyta engu þeirri staðreynd að Ríkissjóður stefnir í þrot verði ekkert að gert og það hratt. Sjúklingurinn mun ekki lifa af rannsókn læknanna.
Við erum löngu búin að greina allt sem þarf að greina og skrifa allt sem þarf að skrifa. Aðgerða er þörf og sú þörf er brýn.Ég tel það vera löngu fullreynt að stjórnkerfið er ekki í stakk búið til að glíma við það sem við nú stöndum frammi fyrir, væntanleg hrunskýrsla verður eins og olía á eld og skattborgarar munu borga fyrir allt karpið og skítkastið sem framundan er.
Eina aflið sem til staðar er til að knýja hagkerfið áfram og um leið afstýra því sem sumir hafa kallað seinni bylgjuna í efnahagshruni Íslands eru aðilar vinnumarkaðarins.
ASÍ og SA verða að snúa bökum saman og leggja upp efnahagsáætlun sem byggir á fjölda smárra aðgerða til að örva hagkerfið og fækka atvinnulausum. Þessir aðilar verða að hafa lífeyrissjóði landsins með sér í slíkri vinnu því að fjármögnun slíkra aðgerða er þörf. Slíkar aðgerðir verða að snúa alfarið að einkageiranum en ekki að því að fjármagna verkefni sem síðan eiga að greiðast úr ríkissjóði sem hleður svo á sig fjármagnskostnaði.
Það hefur gleymst í öllu Icesave þrasinu að kjarasamningar eru lausir í haust. Launafólk verður að reyna að ná fram einhverjum kjarabótum eftir það sem á undan er gengið, en atvinnulífið er stórlaskað og ekki líklegt til að lifa af langt verkfall. Mesta hættan við þessar aðstæður er sú að verðbólgan verði enn og aftur sett í gang til að lækka kaupmáttinn eftir innistæðulausar kauphækkanir.
Fyrirtækin í landinu eru að greiða beint ca.22 – 26 milljarða á þessu ári til að standa undir útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Framlag fyrirtækja hækkar um 61% á milli ára, þetta fé verður ekki notað í annað. Það er nokkuð ljóst að þessi mikla hækkun mun líklega knýja fram enn frekari uppsagnir og kannski ekkert við því að gera.
Þorsteinn Pálsson fyrrum ráðherra hitti naglann á höfðuðið á Viðskiptaþingi í síðustu viku þegar hann sagði að við værum ekki eingöngu að glíma við efnahagskreppu heldur einnig pólitíska kreppu. Hann sagði einnig að efnahagskreppan myndi ekki leysast fyrr en sú pólitíska væri leyst.
Staðreyndin er sú að við höfum ekki efni á að bíða eftir því að pólitíkin greiði úr sínum vanda.
Einn kollegi minn segir reglulega: Við eyðum 95% af tímanum í að greina stöðuna og fortíðina en 5% af tímanum í að ræða framtíðina og aðgerðir. Þetta er kjarni málsins.
Álitsgjafar og blogg-hetjur ríða röftum og allt þjóðfélagið er sem lamað, nú er mál að linni ef ekki á illa að fara. Ég ætla hér að lokum að gefa ykkur nokkrar algengar og talsvert mikið notaðar afsakanir fyrir því að gera áfram ekki neitt, þetta er gert til að spara tíma:
- Það verður að leysa Icesave áður en nokkuð annað er gert
- Óvissan í efnahagsmálum er svo mikil að rétt er að bíða enn um stund
- Vextir eru of háir
- Bíðum eftir að rannsóknum ljúki svo við vitum hverjum á að refsa
- Óvissan um stöðu bankanna er svo mikil
- Kannski fer krónan að styrkjast, bíðum átekta
- Það má ekki nýta fjármagn lífeyrissjóða í endurreisninni því að það gæti meira tapast
- Nýsköpun er eina leiðin
- Það þarf að ákveða hvar á að virkja næst
- Fyrirtækin og heimilin eru svo skuldsett að það er ekki óhætt að lána þangað fé
Það hefur sig enginn í að reikna hvað það kostar að gera ekki neitt, (aðgerðarleysiskostnaðurinn) hann er ógnvænlegur og afleiðingin getur orðið kerfisleg áhætta þar sem fjöldagjaldþrot verr stæðra fyrirtækja dregur þau betur stæðu með sér.
Niðurstaðan væri líklega sú að 10 – 15.000 manns til viðbótar verða atvinnulaus og ríkissjóður fer klárlega í þrot.Ég legg til að SA og ASÍ setji saman vinnuhóp úr sínum röðum til að hefja strax aðgerðir sem leiða til verðmætasköpunar og fjölgun starfa áður en næsta bylgja Íslendinga flytur erlendis, sá hópur fer ört stækkandi og það er engin furða.
Úrræðaleysið er æpandi.
