okt. 2009 – 11:57 Hermann Guðmundsson
Nú þegar rannsóknir á bankahruninu standa sem hæst er talsvert talað um hversu fáir einstaklingar það voru raunverulega sem höfðu þær ákvarðanir á valdi sínu sem réðu úrslitum um farsæld íslenska kerfisins. Við höfum tilhneigingu til að halda að íslenska umhverfið hafi verið með öðrum hætti en annars staðar.
Þegar horft er til stærsta fjármálamarkaðarins sem er á Wall Street kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Mesta uppgangstímabil fjárfestingabanka voru án efa árin frá 1988 og fram til loka síðasta árs. Eftir hrunið á mörkuðum 1987 kom tímabil þar sem mikill kraftur var settur í þóknanadrifin viðskipti, sameiningar og yfirtökur á fyrirtækjum sem voru bæði vinveittar og óvinveittar.Á þessum árum voru engir viðskiptabankar á leikvellinum þar sem Glass – Seagall löggjöfin bannaði viðskiptabönkum að stunda fjárfestingar og fjárfestingaráðgjöf.
Það voru því stóru fjárfestingabankarnir auk nokkurra sérhæfðra fjárfestingafélaga sem réðu lögum og lofum á þessum risamarkaði, án þeirra gerðust ekki stór viðskipti nema í einstaka undantekningatilfellum og þá helst vegna styrkleika stórfyrirtækja sem þurftu ekki fjármögnun til að kaupa. Á þessu árabili voru það sárafáir sem tóku hinar endanlegu ákvarðanir á Wall Street um þau viðskipti sem náðu fram að ganga. Þessir sömu aðilar samþykktu að versla með fjármálaafurðir sem á endanum lögðu kerfið allt í stórhættu.
Skynsemin borin ofurliði
Á fáum árum fór nánast allt úr lagi sem telja má góða áhættustjórn og eða skynsamlega meðferð á fjármuna annara. Eitt af því sem bar skynsemina ofurliði var sú trú að því stærri sem stofnanirnar yrðu því betra fyrir hluthafanna.Helstu leikendurnir á stóra sviðinu á Wall Street á þessum árum voru:
- Sandy Weill – bjó til Citigroup, stærsta banka heims
- James Robinson III – stjórnarformaður American Express
- Stan O´Neal – forstjóri Merrill Lynch
- John Gutfreund – forstjóri Salomon
- Bruce Wasserstein – Wasserstein Perella
- Henry Kravis – Kohlberg Kravis Roberts & co
- Peter Cohen – Shearson Lehman
- Alan Schwartz og Jimmy Cayne – Bear Sterns
- Alan Greespan – stjórnarformaður Federal Reserve (Seðlabanka Bandaríkjanna)
Auðvitað voru margir fleiri þáttakendur og gerendur á þessum árum en stóru málin voru ekki kláruð án þess að þessi hópur væri með í ráðum. Warren Buffett var einn af þeim sem fékk tilboð um að vera með í mörgum viðskiptum en hann afþakkaði flest slík boð.
Einn er sá maður sem ekki er nefndur hér vegna þess að hann var ekki formlega við völd fyrr en hann tók við sem forstjóri og stjórnarformaður Banc One í Chicago, þessi maður heitir James Dimon.
James Dimon er rúmlega fimmtugur New York búi og eftir að hafa komið á samruna Banc One og JP Morgan Chase árið 2004 tók Dimon við forstjórastólnum hjá næst stærsta banka heims á eftir Citigroup. Ferill Dimon er ansi merkilegur. Hann gerðist náinn samstarfsmaður Sandy Weill þegar hann var einn yfirmanna American Express. Sandy var síðar rekinn frá Amex og hætti þá Dimon líka og fylgdi sínum læriföður eftir. Samstarf þeirra varð viðfrægt þar sem Sandy var maðurinn með stefnuna, hugmyndirnar og samböndin en James Dimon var maðurinn sem vann úr öllum þeim aragrúa af hugmyndum og greiningum sem vinna þurfti.
Eftir að Sandy Weill keypti fyritækið Commercial Credit þá upphófst mikil endurskipulagning á efnahagsreikningi félagsins og rekstri. Sú vinna lenti mest hjá Dimon. Í hönd fóru fjölmargar yfirtökur og uppkaup á fyrirtækjum í fjármálastarfsemi, alltaf var það Dimon sem fékk það verkefni að endurskipuleggja reksturinn, draga úr kostnaði og selja burt óþarfa einingar og eignir.Að fáum árum liðnum höfðu þeir félagar búið til risastórt fjármálafyrirtæki að nafni Travelers Group sem innihélt tryggingastarfsemi, verðbréfaviðskipti, eignastýringu og eitt stærsta kreditkortasafn landsins. Sandy var ekki hættur og stóri draumurinn rættist þegar hann gat sannfært forstjóra Citicorp, John Reed, um að sameina Travelers og Citicorp í Citigroup sem þar með varð stærsta fjármálafyrirtæki heims.
James Dimon fékk gríðarlega reynslu í gegnum þau 15 ár sem hann starfaði með Sandy Weill. Honum var treyst til að endurskipuleggja hvert stórfyrirtækið á fætur öðru, endurbæta efnahagsreikninga, lækka rekstrarkostnað og velja úr stjórnendur til að stjórna deildum sviðum og heimsálfum. Í gegnum allar þessar breytingar þá komu upp aðstæður þar sem þeir urðu ósammála félagarnir um stefnu og strauma. Þetta leiddi síðan til þess að Weill bað Dimon að hætta skömmu eftir samrunann mikla. Sú ákvörðun kom Wall Street algerlega í opna skjöldu, allir töldu að Dimon væri sjálfsagður eftirmaður Sandy þegar hann kysi að minnka álagið.
Sandy Weill verður ekki síst minnst sem maðurinn sem fékk Bandaríkjaþing til að fella úr gildi Glass Seagall löggjöfina sem takmarkaði mjög möguleika viðskiptabanka til að stunda aðra starfsemi. Þessi löggjöf hafði lifað frá heimskreppunni miklu og var ætlað að tryggja að annað eins hrun gæti ekki orðið. Eins og áður sagði þá steig James Dimon úr skugga Sandy Weill þegar hann tók yfir JP Morgan Chase. Á fáum árum hefur hann breytt mjög áherslum félagsins og sem dæmi seldi hann í burtu árið 2006 flest vafasöm húsnæðislán bankanns. Hann dró verulega saman heimildir til afleiðuviðskipta, neitaði að fjármagna vaxtamunaviðskipti og krafðist í æ ríkari mæli trygginga fyrir þau útlán sem lánuð voru til vogunarsjóða og fjárfestingabanka. Hans mottó er „ Fortress balance sheet“ eða ógnarsterkur efnahagsreikningur.
Hann segist ekki hafa séð fyrir hrunið mikla en hann vill reka banka sem þolir bæði gott veður og slæmt því að það skiptast á skin og skúrir í fjármálaheiminum og ekki í neinni annari starfsemi er hægt að tapa aleigunni hraðar.
Jamie Dimon hefur viðurnefnið „ the toughest man on Wall Street“ og það fékk hann vegna vægðarleysis við að skera niður kostnað jafnt hjá yfirmönnum og þeim lægra settu. Hann er andsnúinn útvistun og ráðgjafakaupum og frægt er þegar hann sagði upp stærsta útvistunarsamningi heims á milli JP Morgan og IBM. Samningur þessi var uppá 5 milljarða USD.
James Dimon var gagnrýndur fyrir að halda ekki í við aðra stóra banka sem skiluðu hverju metuppgjörinu á fætur öðru á árunum 2006 og 2007. JP Morgan skilaði nánast sama hagnaði á milli ára á meðan hagnaður annara banka jókst um 40 – 70% á milli ára. Allar þessar raddir eru þagnaðar enda kom í ljós að aðrir bankar voru að ofmeta stórlega gæði eigna sinna á meðan JP Morgan lagði risaupphæðir á varúðarafskriftir og seldi eignir sem töldust of mikil áhætta.
Það var því nánast ekki við aðra að tala þegar Bear Sterns fjárfestingabankinn var kominn að fótum fram en Dimon. Með ríkisábyrgð á skuldbindingum Bear Stearns samþykkti Dimon að kaupa félagið á 2 USD á hlut. Þegar hann var spurður að því af hverju verðið hefði ekki verið hærra stóð ekki á svarinu:„Buying a house and buying a house on fire are two different things.“
Verðið var síðar hækkað í 10 USD á hlut. Það kom líka í ljós fljótlega að þrátt fyrir ríkisábyrgð og ábyrgð JP Morgan á skuldbindingum Bear Sterns hófst áhlaup á bankann strax á daginn eftir að kaupin voru tilkynnt í lok mars 2008.
Hlutabréfaverð JP Morgan hefur tvöfaldast frá lægsta gildi ársins og ég trúi því að hluthafar Bear Sterns sem fengu allir greitt með hlutabréfum séu ánægðir með að vera í höndum þess bankamanns sem var best undirbúinn fyrir storminn.
