Vinalaus þjóð

feb. 2010 – 19:22 Hermann Guðmundsson

Margt hefur yfir þessa þjóð gengið síðustu 18 mánuði.

Segja má að við höfum staðið í efnahagslegri styrjöld í heil 2 ár. Í fyrstu varð almenningur lítið var við stríðið sem stóð á bakvið tjöldin. Hér er ég að vísa til þess að fyrst réðust spákaupmenn og vogunarsjóðir að hagkerfinu úr öllum áttum og í beinu framhaldi lokuðu flestallir erlendir bankar á Ísland. Þessir sömu aðilar sitja nú á skrifstofum sínum í London og víðar og skipta með sér ránsfeng í formi bónusa fjármálafyrirtækja.

Þetta hófst seint á árinu 2007 og stóð þar til yfir lauk. Við hjá N1 höfðum átt smávægileg lánaviðskipti við þýska bankann HSH Nordbank um nokkurra ára skeið; skyndilega tilkynnti okkar tengiliður að yfirstjórn bankanns hefði ákveðið að loka öllum lánum á Íslandi. Engin skýring og engin umræða. Við greiddum upp lánið sem var ein milljón bandaríkjadala og það verður bið á að erlendur banki fái okkar viðskipti aftur.

Það er síðan í október 2008 sem Bretar lýstu yfir stríði við íslensk yfirvöld og Hollendingar fylgdu fast á eftir. Öll þessi atburðarás er orðin vel þekkt og ekki ástæða til að lýsa henni frekar hér. Það sem ég hef verið að velta fyrir allar götur síðan er sú staðreynd að öll okkar fortíð virtist ekki skipta neinu máli þegar til kastanna kom. Í rúm 60 ár höfum við talið okkur sjálfstæða þjóð á meðal þjóða.

Við höfum lagt okkur fram í alþjóðlegu starfi bæði innan vébanda Nató, Sameinuðu þjóðanna, EFTA, Norðurlandaráði, ÖSE og fleiri slíkra fjölþjóðlegra samtaka. Allt kostar þetta talsvert fé og mannskap.Við höfum stundað alþjóðlegt mannúðarstarf við hlið annara bæði í Afríku og víðar.  Íslendingar hafa einnig  margoft safnað fjármunum til að senda öðrum þjóðum í neyð.

Í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins steðjaði að okkur ógn sem við réðum ekki við, enda við ofurefli að etja. Það hefur vakið undrun mína að engin þjóð steig fram og bauðst til að miðla málum eða með neinum hætti sýndi því skilning að Ísland sætti ofbeldi og þyrfti aðstoð. Ekki fjármuni heldur pólitíska aðstoð. Kannski er skýringin einfaldlega sú að aðrar þjóðir voru sjálfar að berjast fyrir sínum efnahag og höfðu ekki tíma til að líta til með öðrum.

Snemma varð ljóst að ESB gat ekki komið sér saman um stuðningsaðgerðir innan sinna eigin landamæra heldur var ákveðið að hver þjóð skildi glíma við sinn vanda sjálf og efnameiri þjóðir myndu ekki aðstoða þær efnaminni. Nú er ljóst að Þjóðverjar vilja t.d. ekki að ESB stígi inn í vanda Grikklands og reyni að aðstoða. Það sem til þessa hefur verið talið helsti styrkur ESB (evran) er óðum að gliðna og jafnvel vogunarsjóðir eru byrjaðir að skortselja evruna í áður óþekktum mæli.

Þeir hafa þegar hagnast verulega á einni viku og eru ekki hættir.

Þegar mest á reyndi hvarf öll samstaða. Öll fögru orðin sem notuð eru í hátíðarræðum um samkennd þjóða voru innantóm.  60 ára saga okkar í samfélagi þjóðanna var ekki krónu virði þegar á reyndi. Enginn frændskapur nema hjá Færeyingum sem án hiks stigu fram fyrir skjöldu og lýstu yfir stuðningi við þjóð í vanda.

Það er fyrst í dag sem virðist sem það séu að verða vatnaskil. Það hillir undir að umsátrinu sé að ljúka og að til verði samkomulag sem hægt er að búa við fyrir skattgreiðendur á Íslandi. Nokkur fjöldi erlendra aðila er farinn að tala okkar málstað og farinn að átta sig á því sem um er að tefla.Það er líka í þessari viku sem dómur hefur fallið neytendum í vil. Sú staðreynd að lög sem sett voru til að verja neytendur fyrir gylliboðum sem þeir ekki gátu áhættumetið eru að sanna gildi sitt og gefa mörgum von.

Hér innanlands hefur vantað alla samúð með skuldurum sem margir sjá ekki út úr vandanum.

Það er skylda siðmenntaðra þjóða að búa svo um  hnútana að fólk sé ekki hneppt í ánauð þegar svona fordæmalausir atburðir hellast yfir. Skrýtnast þykir mér viðhorf þeirra sem ekki vilja að ungt fólk í vanda fái frelsi frá yfirskuldsettum eignum.

Svipað sjónarmið heyrist um atvinnulífið, það verður aldrei of oft sagt að endurreisn heimilanna og ríkissjóðs hefst með því að lækka skuldir atvinnulífsins sem mest.

Aðeins þannig er hægt að auka kaupmátt og umsvif í hagkerfinu. Það ætti að vera nánast eina baráttumál SA og ASÍ að þessari vinnu verði hraðað sem mest.
Fjöldi fólks telur það mikið óréttlæti að útlán lánastofnanna sem aldrei fáist greidd séu færð út úr bókum fyrirtækja og banka – hér er öllu snúið á haus.

Þessi niðurfærsla skulda atvinnulífsins er löngu tímabær og lykillinn að því að samdrátturinn stöðvist og störfum hætti að fækka. Vandi atvinnulífsins á að mestu upptök sín í slakri hagstjórn og áhættusækni banka.

Þeir sem hæst hafa í þessu efni er fólk sem aldrei ætlar að leggja fram áhættufé í atvinnurekstur.

Mér segir svo hugur að langtímavandi okkar eftir þetta mikla hrun verði rakinn til halla á ríkissjóði sem er gífurlegur um þessar mundir og ekki í sjónmáli að það breytist. Eina vörnin í slíkri baráttu er að auka sem mest umsvifin til að auka tekjur ríkissjóðs. Það er margreynt í atvinnulífinu að taprekstur snýst sjaldnast við í gegnum niðurskurð einan, það þarf nýjar tekjur. Þessar nýju tekjur þurfa að eiga upptök sín auknum umsvifum en ekki með því að þyngja enn frekar byrðarnar.

Leave a comment