feb. 2010 – 10:08 Hermann Guðmundsson
Þessa dagana er að koma út bók sem skrifuð er af Hank Paulson fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna og þar áður forstjóri virtasta fjárfestingabanka heims, Goldman Sachs.
Í þessar bók lýsir Paulson í smáatriðum þeirri atburðarás sem við þekkjum orðið svo vel frá haustinu 2008. Hann er að lýsa glímu Bandaríkjamanna við stærsta fjármálakerfi heimsins.
Það er athyglisvert að þegar hann hafði samþykkt að hætta í einu best launaða starfi heims til að verða fjármálaráðherra , var hvatinn að eigin sögn sá að hann langaði að verða landinu að liði síðasta hluta starfsævinnar í stað þess að halda áfram að hagnast á bankarekstri. Hank Paulson var álitinn eiga allt að 100 milljarða í eignum þegar hann var skipaður fjármálaráðherra.
Þegar hann hitti George W. Bush forseta í fyrsta sinn til að ræða stefnumál í ágúst 2006, sagði hann við forsetann; „Við eigum eftir að glíma við mikinn vanda á fjármálamörkuðum næstu misserin.“ Forsetinn spurði Paulson hvað myndi verða til að kveikja þann vanda og Paulson sagðist ekki vita það. Hann sá ekki fyrir að fasteignalán til kaupenda sem ekki gátu greitt myndi verða sú þúfa sem velti þessu þunga hlassi. Honum fannst hins vegar sem boginn væri almennt of spenntur og það myndi ekki leysast nema í gegnum sársaukafulla leiðréttingu.
Það sem mér þykir athyglisvert er að þegar hann er spurður að því hvaða lærdóm megi draga af því sem gerðist og hvaða endurbætur séu brýnar á eftirlitshlutverkinu þá telur hann að brýnasta verkefnið sé að á einum stað í stjórnkerfinu verði að vera til staðar valdamikill aðili sem horfir eingöngu til kerfisáhættu.
Þessi aðili þurfi að horfa inní banka, sjóði, lífeyrisjóði, tryggingafélög og skylda aðila með það að markmiði að tryggja að áhættan í kerfinu sé þekkt og henni megi stýra með beinum tilskipunum. Að ekki hlaðist upp á mörgum stöðum stórar skuldbindingar sem samanlagt geta haft mjög alvarlegar afleiðingar.
Hann hefur ekki sterka skoðun á því hver á að hafa þetta hlutverk þ.e.s.a. Seðlabanki (Fed) eða fjármálaráðuneyti eða aðrir.
Aðalatriðið sé að ekki verði svo mikil innri áhætta í kerfunum að þegar ein stofnun kemst í vanda geti hún dregið allt kerfið með sér eins og t.d. í tilfelli AIG. Það sem vekur mig til frekari umhugsunar er sú staðreynd sem Hank Paulson talar um:
Að engu mátti muna að fjármálakerfi Bandaríkjanna hefði raunverulega fallið og dregið mörg lönd með sér í fallinu. Hann er sannfærður um að slíkt fall hefði orðið að verri kreppu en 1929 og atvinnuleysi í Bandaríkjunum væri ekki 10% í dag heldur mikið nær 30% ef ekki hefði tekist að afstýra fallinu.
Hann skýrir þetta m.a. með því að mörgum mánuðum fyrir dramatíkina í kringum Bear Stearns hafi stærstu fyrirtæki landsins þegar átt erfitt með að fjármagna skammtímaþarfir á markaði sem eitt og sér var geysilega varasamt. Það var kominn markaðsbrestur sem hélt áfram að versna.
Hann telur að sá tími sem þurfti til að sannfæra þingmenn um að samþykkja þau risavöxnu útgjöld sem gripið var til í baráttunni hefði getað leitt til verstu hugsanlegu niðurstöðu. Sem betur fer tókst honum, Bernanke og Tim Geithner að sannfæra þingheim nógu tímanlega til að hægt var að bjarga kerfi sem riðaði til falls.
Þetta leiðir hugann að þeirri stundu þegar íslensku bankarnir féllu allir í sömu vikunni.
Það hlýtur að teljast gríðarlegt afrek að ekki fór verr.
Vegna þess að nýir bankar komust strax í gang og að greiðslumiðlunarkerfið hélst gangandi, var miklum hörmungum forðað. Skaðinn fyrir hagkerfið ef kortakerfin hefðu fallið og almenn bankaþjónusta lamast hefði orðið óbætanlegur.
Það er hætt við að búsáhaldabyltingin hefði litið út eins og barnaafmæli við hliðina á því öngþveiti sem þá hefði myndast. Við slíkar aðstæður hefðu fyrirtæki farið í þrot á augabragði og almenningur hefði varla getað keypt sér matvöru eða aðrar nauðsynjar. Slíkt neyðarástand hefði leitt til fjölda innbrota, uppþota og óeirða.
Seðlabankinn var á tíma eina færa leiðin fyrir gjaldeyri inn og út úr landinu og það þurfti á köflum mikla hörku til að sú leið lokaðist ekki líka.
Sennilega eru stærstu einstöku mistökin sem gerð voru þegar nýju bankarnir voru stofnaðir þau, að lánin skyldu ekki vera færð yfir í krónum á því gengi sem var t.d. 1.september 2008.
Hefði slíkt verið gert í upphafi í stað þess að verðmeta hvert lán sérstaklega þá er alveg víst að vandi heimilanna og fyrirtækjanna væri aðeins brot af því sem nú er. Slík aðferð hefði líka breytt hagkerfinu í einni aðgerð úr fjölmynta hagkerfi og yfir í krónu hagkerfi eins og var í kringum árið 2000. Öll þau þúsundir mála sem nú bíða skoðunar og lausna væru ekki til staðar og dómskerfið væri kannski ekki að fá yfir sig skriðu deilumála sem bíða úrlausna.
Það verður mikill lærdómur dreginn af þessu tímabili Íslandssögunnar en vonandi verða það aðrir en við sem þurfum að grípa til hans.
