Eggjastokkalottóið

jan. 2010 – 13:40 Hermann Guðmundsson

Ef við horfum 100 ár aftur í tímann kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Íslendingar voru þá 85 þúsund talsins en okkur hefur tekist að fjölga þjóðinni uppí 319 þús á 100 árum, að jafnaði fjölgaði þjóðinni um rúmlega 1% á ári nema þegar kreppti að árin  1926 – 1934 en þá tvöfölduðust fæðingar.

Á þessu tímabili hefur heimurinn gengið í gegnum 2 heimsstyrjaldir, heimskreppuna miklu, fjölmörg  stríð, fjölda samdráttarskeiða, olíukreppu og fjölmargar náttúruhamfarir. Þrátt fyrir þetta þá hafa lífsgæði heimsins aukist alla síðustu öld og jafnvel meira á Íslandi en annars staðar.

Á síðustu 65 árum hefur mannkyninu fjölgað úr 2.500 milljónum manna og í 6.500 milljónir manna. Þessi gríðarlega fólksfjölgun er einsdæmi í sögu jarðarinnar og með svona miklum breytingum koma fjölmörg vandamál. Víða er glímt við næringarskort, vatnskort, orkuskort, mengun, vosbúð, heilsufarsvandamál og offjölgun.

Grínistinn Billy Connolly sem er frá Glasgow var einu sinni spurður að því hvernig honum litist á þessi  vandamál og þá ekki síst offjölgun mannkynsins, hann sagði eitthvað á þessa leið:

„ef allir hjálpast að og borða eina manneskju hver þá höfum við þegar helmingað vandann, fangelsin tæmast, sjúkrahúsin losna, atvinnuleysi hverfur og flest öll okkar vandamál.” 

Þetta verður örugglega ekki lausnin.

Við sem erum Íslendingar höfum unnið stóra vinninginn í „eggjastokkalottóinu“ þ.e.a.s. við höfum til ráðstöfunar land sem býr yfir öllum þeim náttúruauðlindum sem hægt er að biðja um. Flest þau vandamál sem við höfum og munum glíma við eru af manna völdum eða í það minnsta leysanleg af mönnum.

Warren Buffett fann upp þetta hugtak „eggjastokkalottó“ og í hans huga þá er það ótækt að fólk sem fæðist fyrir tilviljun inní ríka fjölskyldu þurfi aldrei að leggja neitt á sig til að öðlast það sem almenningur vill og þráir. Hann gaf 95% af sínum eignum til að leggja áherslu á að auðæfi heimsins eigi ekki að safnast á fárra hendur heldur nýtast öllum íbúum jarðarinnar.

Það eru ekki mörg ár síðan það skipti sköpum fyrir tækifæri fólks hvort að það fæddist í austur eða vestur Þýskalandi, Mexikó eða Bandaríkjunum eða norður og suður Kóreu. Það getur því verið algerri tilviljun háð hvort einstaklingurinn hefur þau tækifæri sem gera honum kleyft að fullnýta sína getu samfélaginu og einstaklingnum til hagsbóta. Ef t.d. David Beckham hefði fæðst sem hirðingi í Mongólíu þá eru engar líkur á að hann hefði náð þeim árangri sem hann hefur náð sama má segja um Bill Gates ofl.

Alla síðustu öld voru náttúruauðlindir af ýmsum toga að uppgötvast víða á jörðinni. Þegar litið er yfir efnahag heimsins þá sést vel hversu miklu það hefur ráðið að eiga náttúruauðlindir. Augljóst er að þær þjóðir sem ekki ráða yfir slíkum auðlindum þurfa með einhverjum ráðum að búa til verðmæti til að geta keypt þau hráefni sem þeim vantar. Við sjáum um þessar mundir hvernig fjármunir vegna olíusölu eru að safnast upp hjá fáum þjóðum á kostnað annara.

Er hugsanlegt að það þurfi á þessari öld að leita nýrra leiða til að sumar þjóðir verði ekki uppiskroppa með hráefni? Er eðlilegt að þeir sem í gegnum eggjastokkalottó sitja t.d. á miklum olíulindum sem öðrum þjóðum vantar þurfi ekki að hreyfa legg eða lið vegna þess að önnur hagkerfi verða að sæta því verði sem hæst er hverju sinni?

Ef ein þjóð ætti allt ferskvatn á jörðinni gæti sú þjóð þá verðlagt það mjög hátt í sama tilgangi eða jafnvel neitað að selja vatn til annara? Eftir því sem gengið er meira á auðlindir jarðar þá styttist alltaf í að svara verður áleitnum spurningum um siðferði þess hvernig gæðum jarðarinnar er skipt. Er barn í Eþíópíu minna virði en barn í Frakklandi?

Það eru oft aðstæður sem ráða mestu um það hvernig einstaklingum vegnar og samfélög eru byggð upp af krafti einstaklinga. Það er vert að rifja upp að t.d. Ástralía var í upphafi byggð upp af ævintýramönnum, sakamönnum og erfiðum einstaklingum sem illa þrifust í sínum heimalöndum.  Ástralía er gjöful heimsálfa og því hefur þessum fólki vegnað vel að það hefur byggt upp samfélag sem gefur öðrum þróuðum ríkjum ekkert eftir. Íbúum Ástralíu fjölgar enn talsvert hraðar en meðaltal heimsins. 

Ástæða þess að lífskjör Íslendinga hafa batnað jafnt og þétt í s.l. 100 ár er m.a. vegna þeirra tækifæra sem landið okkar bíður uppá. Með réttri nýtingu og skynsamlegum áætlunum þá eigum við öll tækifæri til að halda áfram að byggja upp lífsgæði, koma núverandi vandamálum í lóg og undirbúa að afhenda landið börnum okkar til framtíðar. Ísland hefur allt til að vera land tækifæranna ef að við kjósum það sjálf og það þarf talsverð inngrip okkar mannanna til að skemma þau tækifæri.

Árið 2009 er um margt tapað ár í tíma, með samhug og krafti þá hefði mátt ná viðspyrnu mjög fljótt í þeim erfiðleikum sem steðja að heimilum og fyrirtækjum. Þess í stað fór árið að mestu í að ala á sundrungu, ófriði og mannorðsmorð eru daglegt brauð. Margir hafa látið stór orð falla ítrekað og með því fellt sitt eigið mannorð í svaðið. Ekkert af þessu gerir þjóðinni gagn heldur þvert á móti.

Ég hef á tilfinningunni að nýhafið ár geti í of mörgu líkst síðasta ári og ekki síst vegna þess að umfjöllun um rannsóknir allra aðila á hruninu munu bera ávöxt á þessu ári.

Ef umræðan um þau málefni verður það eina sem þjóðin fær að heyra og lesa í fjölmiðlum þessa árs þá verður endurreisnin erfið og við munum enn á ný lengja kreppuna sem gat orðið skammlíf en hefur nú alla burði til að verða margra ára skuldavandi ríkissjóðs og þar með þjóðarinnar allrar.

Það verður aldrei of oft sagt að framtíðin er í okkar eigin höndum og hún kemur hvort sem við verðum undirbúin eða ekki.

Leave a comment