des. 2009 – 09:59 Hermann Guðmundsson
Mikið er talað um að endurreisa þurfi íslenskt atvinnulíf og eru það orð í tíma töluð. Reyndar hafa þessi orð heyrst í heilt ár en engar almennar aðgerðir hafa enn staðið til boða þeim sem standa í atvinnurekstri. Ekki verður farið hér yfir nýjustu sendingu stjórnvalda í þeim efnum.
Síðan kemur reglulega upp sá tónn að mikilvægt sé að öll fyrirtæki landsins sem skulda of mikið skipti um eigendur. Hvort að fyrri eigendur séu þá ákjósanlegir til að kaupa önnur óskyld fyrirtæki er ekki rætt í þessu samhengi. Með þessum sömu rökum þá ættu opinber fyrirtæki og sveitarfélög líka að skipta um eigendur því vandinn er sá sami.
Væri ekki skynsamlegt að horfa til einfaldra staðreynda.
Atvinnulífið hefur haft tvo valkosti í fjármögnun á síðari árum; krónu á okurverði sem oftast þýddi taprekstur og greiðsluþrot eða ódýrara fjármagn með mikilli gengisáhættu en þokkalegu sjóðstreymi. Í öllum hagkerfum þar sem skuldir atvinnulífsins tvöfaldast á einni nóttu myndast mikill vandi. Þetta er ekki óalgengt í löndum sem reka eigin myntir sem ekki eru alþjóðlegar. Dæmin eru víða t.d. í Suður Ameríku, Asíu og Austur Evrópu.
Þegar slík staða kemur upp er voðinn vís. Atvinnulífið heldur nefnilega gangverki þjóðfélagsins gangandi og sjóðstreymi heimila og ríkissjóðs á upptök sín í atvinnulífinu.
Þegar vinna á hratt að endurskipulagningu fyrirtækja sem allra jafna ganga þokkalega, eru það án efa þeir eigendur og stjórnendur sem staðið hafa vaktina árum saman sem búa yfir mestri þekkingu. Ef ráða á skipstjóra á bát sem veiðir við erfiðar aðstæður þá stendur sá betur sem áður hefur staðið slíka vakt. Slíkir aðilar munu auka endurheimtur verðmæta og starfa og það hlýtur að vera aðal markmiðið í endurreisninni þótt að það skíni ekki í gegn hjá öllum.
Hér er ekki fjallað um þá staðreynd að í einhverjum undantekningatilfellum ríkir ekki lengur traust á milli lánþega og lánadrottna sem þá ráða för.
Stundum virðist sem sumum þyki mikilvægara að bjarga fjósinu en kúnum.
Annað viðhorf sem hefur náð tökum á hluta landsmanna er að hagnaður í rekstri sé neikvætt fyrirbrigði en ekki jákvætt. Án hagnaðar í rekstri verða skuldir ekki greiddar niður og það verður heldur ekki fjárfest til að endurnýja búnað og aðrar eignir sem viðkomandi félag nýtir.
Án hagnaðar fær ríkissjóður engar tekjur og launþegar engar kjarabætur. Á stundum virðast aðeins tvenns konar sjónarmið uppi; ef þú ert í taprekstri þá ertu aumingi en ef þú hagnast þá ertu glæpamaður!
Þetta hugarfar verður að ná einhverju jafnvægi. Hóflegur hagnaður og traustar undirstöður hljóta að vera þau markmið sem atvinnulífið setur sér eftir storminn mikla.
