jan. 2010 – 10:00 Hermann Guðmundsson
Fyrir hálfu ári síðan skrifaði ég pistil sem heitir „Ég sé botninn“. Þar leiddi ég líkum að því að það væri farið að sjá fyrir endann á samdrættinum í hagkerfum heimsins.
Flest bendir til að svo sé komið nú, nýjustu hagtölur frá Bandaríkjunum og Kanada auk talna frá Asíu benda til að það versta sé yfirstaðið. Fréttir bárust m.a. af því að Ford bílaverksmiðjurnar væru farnar að skila hagnaði aftur eftir nokkur mjög erfið rekstarár. Það er jú enn þannig að ef hagvélarnar í Norður Ameríku og Austur Asíu mala hraustlega draga þær restina af heiminum með sér beint og óbeint.
Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur er eðlilegt að spyrja? – Svarið er einfalt, þetta skiptir sköpum.
Það er samt ekki svo að við fáum fyrirhafnarlaust ágóða vegna þessa en þetta gefur okkur tækifæri sem annars væru jafnvel ekki til staðar. Um leið og kaupgeta eykst í stóru löndunum þá eykst neyslan sem kallar á vörur sem m.a. eiga upptök sín hjá okkur.
Fjárfestingar lífeyrissjóðanna okkar í erlendum verðbréfum hafa hækkað mikið á einu ári og það er mikil gæfa að þær hafi ekki verið seldar þegar stormurinn stóð sem hæst. Það sem öllu máli skiptir er að æðakerfi viðskiptalífsins virðist vera að gróa saman og súrefnið er að byrja að streyma að vöðvunum. Sem sagt fjármálakerfi vesturlanda er að komast á lygnan sjó eftir ótrúlega baráttu uppá líf og dauða síðustu 18 mánuði. Fjöldi banka og fjármálastofnanna er horfinn með öllu og tugþúsundir starfa hafa tapast á meðan allt kerfið nötraði og skalf.
Hafin er smíði nýrra regluverka til að minnka áhættu í kerfunum og er það vel. Á það ber samt að líta að ekkert kemur í staðinn fyrir skynsamlega afstöðu stjórnenda þegar kemur að ákvarðanatöku í einstökum málum. Það er jú þannig að með ríkum vilja má alltaf finna „löglegar“ leiðir að sömu niðurstöðu og reglunum er stefnt gegn. Ný upplýst rannsókn á gjaldeyrisviðskiptum sýnir að „andi“ í reglum nær ekki alltaf til allra.
Í auknum mæli berast fregnir af erlendum fjármálastofnunum og fjárfestum sem vilja stíga inní okkar litla hagkerfi með fjármagn og leggja okkur lið með von um ábata í huga. Það eru mikil umskipti frá því fyrir ári síðan, þá voru hér nær eingöngu hræætur og áhættufíklar að leita að auðveldum tekjum.
Það er ekki síst í atvinnulífinu sem orðstýr landsins ræðst, við hjá N1 eigum regluleg viðskipti við um 500 erlend fyrirtæki á ári hverju. Þessi fyrirtæki hafa ekki undan neinu að kvarta í þeim viðskiptum og hafa furðað sig á neikvæðri umræðu um land og þjóð í fjölmiðlum.
Íslendingar hafa stundað milliríkjaviðskipti í áratugi og þau viðskipti eru okkar fótspor í viðskiptaheiminum mikið frekar en alþjóðleg bankastarfsemi. Það er augljóst að rætur okkar liggja í útflutningi á sjávarafurðum og þar eigum við merka sögu að baki og mikinn árangur. Á meðan stjórnvöld hafa verið að berjast við erfið milliríkjamál hefur atvinnulífið staðið vaktina og haldið vel á spöðunum við að halda hagkerfinu gangandi. Vegna þessa hefur kreppan ekki náð að bíta jafn illa og reikna mátti með. Þessu starfi þarf að halda áfram og of hægar vaxtalækkanir lina aðeins verkina en stærri skref hefðu skilað meiri árangri eins og í löndunum í kringum okkur.
Eitt er það mál sem skiptir okkur öll máli og það er hvernig standa á að fiskveiðistjórnun. Sem betur fer er enn fiskur í hafinu í kringum Ísland, það er ekki sjálfgefið eins og sést á miðum annara landa þar sem búið er nánast að eyðileggja alla fiskistofna.Með því að ýkja aðstæður þá má kalla fram öfgakennda afstöðu.
Ef að við ímyndum okkur í stutta stund að t.d. Vestmannaeyjar hefðu með aðstoð erlendra lána keypt allar fiskveiðiheimildir þjóðarinnar og stóraukið útgerð frá Eyjum og lagt hana af í öðrum byggðalögum, kæmi fljótt í ljós að það yrði aldrei sátt um slíka stöðu.
Vesturland, Norðurland og Austfirðir gætu aldrei búið sínum íbúum þolanleg kjör án þeirra tekna sem hafið tryggir.
Grundvallaratriðið er að við verðum að veiða fisk með sem minnstum tilkostnaði til að arðsemi sé í greininni og þjóðarbúið hagnist verulega. Það er samt þannig í mínu huga að byggðir landsins eiga frumbyggjarétt. Vandinn er fólginn í því að finna aðferðafræði þar sem arðseminni er ekki kastað á bál hugsjóna en um leið verður að verja réttinda þeirra íbúa sem búa við ströndina og hafa haft viðurværi af hafinu í margar aldir.
Fyrirtæki eins og HB Grandi, Samherji, Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Fisk Seafood, Ísfélagið, Þorbjörninn og fleiri slík geta ekki búið við það ástand að stjórnvöld standi í hótunum við greinina á meðan þau sjálf eru að berjast á erlendum mörkuðum við að tryggja sölusamninga og langtímaviðskipti.
Íbúar á landsbyggðinni geta ekki heldur búið við þá ógn að fyrirtækið sem allir sækja sína afkomu til sé selt úr byggðalaginu og tekjurnar með. Það er ekki annað að heyra en að útgerðin sé til samninga reiðubúin en stjórnvöld virðast ekki ætla að ganga veg friðar og farsældar og er það óábyrg stefna að mínu mati.
Það er gömul saga og ný að mestur ávinningur næst alltaf fram þegar samtakamáttur er nýttur til hagsbóta fyrir heildina, ófriður og átök kosta alltaf meira en samningar og sárin eru lengi að gróa.
Verkefnin eiga að snúast um að bjarga verðmætum en ekki hugsjónum.
