Þjóðfundur – stórmerkur áfangi

nóv. 2009 – 10:54 Hermann Guðmundsson

Þann 14.nóvember n.k. verður haldinn þjóðfundur í Laugardalshöll.

Á þennan fund hefur verið stefnt 1.200 íslendingum sem valdir hafa verið með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Auk þessa hóps verða þarna 300 manns sem eru handvaldir vegna þess að þeir geta í gegnum störf sín haft veruleg áhrif á að hrinda í framkvæmd því sem fundurinn skilar.

Undirbúningur fyrir þetta verkefni hófst fyrir nokkrum mánuðum síðan af hópi sem taldi svona viðburð geta verið fyrsta stóra skrefið í átt að því að græða þau fjölmörgu sár sem þjóðin ber um þessar mundir.

Hópurinn kallar sig Maurþúfuna til að leggja áherslu á að þetta verkefni er án leiðtoga þ.e.a.s. allir maurarnir eru jafn mikilvægir. Hópurinn er svona samsettur:

Þorgils Völundarson, Guðjón Már Guðjónsson, Halla Tómasdóttir, María Ellingsen, Lárus Ýmir Óskarsson, Bjarni Snæbjörn Jónsson, Svandís Svavarsdóttir, Gunnar Jónatansson, Haukur Ingi Jónasson, Sigrún Þorgeirsdóttir, Ólafur Stephensen, Benjamín Axel Árnason, Guðfinna Bjarndóttir og fjölmargir aðrir sem leggja fundinum lið með ýmsum hætti.

Það eina sem þessi hópur á sameiginlegt er að hann á ekkert sameiginlegt, nema kannski það að vilja þjóðinni vel.

Sjálfur hef ég notað þá aðferðafræði að ræða hugmyndir og stefnur í þaula við mína vinnufélaga í stað þess að skipa fyrir í stóru sem smáu. Gildi þess að ræða hugmyndir, hugsanir og skoðanir er ómetanlegt.

Marktæku úrtaki þjóðarinnar er þarna stefnt saman til að ræða gildi, stefnur, markmið og drauma. Engin framsaga og enginn er öðrum rétthærri. Umræður verða samt leiddar til lykta og niðurstöður dregnar saman.

Aldrei áður hefur heilli þjóð staðið til boða að taka svona djúpar samræður um grunngildin og samfélagið.

Kannski er þessi fundur fyrsta skrefið í að þjóðin taki í meira mæli þátt í stefnumótun stjórnmála. Við höfum um langa hríð stundað foringja stjórnmál í stað þess að eiga raunveruleg skoðanaskipti og ræða til þrautar hvernig samfélag við viljum byggja. Á stundum virðast skoðanir stjórnmálaflokka einsleitar og ekki fullmótaðar nema í örfáum málaflokkum. Á Þjóðfundi fæðast hugsanir heillar þjóðar og sá sem ekki leggur við hlustir er ekki tengdur við þjóðarsálina.

Fundurinn er prófsteinn á fjölmiðla þ.e.a.s. hvort þeir geta flutt tíðindi af framtíðinni eða hvort þær ætla áfram að skrifa fréttir ársins 2008 til eilífðar.

Leave a comment