1999

ágú. 2009 – 14:29 Hermann Guðmundsson

Það er um margt fróðlegt að fara 10 ár aftur í tímann og skoða stöðu fyrirtækja og hlutabréfa markaða á Íslandi. Þegar litið er á verðmæti fyrirtækja, verðmæti eigin fjár og eiginfjárhlutföll má sjá að ýmislegt hefur breyst á þessum 10 árum.

Arðsemi fyrirtækja og og eiginfjárhlutföll á þessum tíma var með ágætum í sögulegu samhengi.

Árið 1999 voru skráð 63 fyrirtæki á verðbréfaþinginu og flóran var mikil, allt frá stærstu fyrirtækjum landsins og niður í mun smærri félög með takmarkaða framtíðarmöguleika.

Það er forvitnilegt að lesa í Frjálsri Verslun vegna ársins 1999 hvað álitsgjöfum þótti athyglisvert frá árinu sem var liðið. Þar mátti sjá m.a. eftirfarandi ummæli:

Jákvæð / óvænt tíðindi ársins:

  •     Skráning Decode á Nasdaq
  •     Slök afkoma í sjávarútvegi
  •     Lækkun Evru / USD
  •     Sameining ISB og FBA
  •     Kaup fjármálafyrirtækja á hlutabréfum / Greenmail
  •     Kaup Össurar á Flexfoot

Neikvæð / óvænt tíðindi:

  •     Hækkun á olíuverði
  •     Spár um afkomu rangar / skortur á reynslu úr atvinnulífinu  við greiningar
  •     Slök afkoma sumra félaga
  •     Hægagangur við einkavæðingu ríkisfyrirtækja og ríkisbanka
  •     Háir vextir fæla fjárfesta frá hlutabréfum
  •     Lífeyrissjóðir sýna skuldabréfum lítinn áhuga

Laun tekjuhæstu forstjóranna voru nálægt 60 milljónum króna á árinu 1999 og tekjuhæsti bankastjórinn var í 5. sæti með um 37 milljónir í árslaun.

Mestum hagnaði þetta ár skiluðu eftirfarandi fyrirtæki:

  •     Ísal
  •     Íslandsbanki
  •     Landsvirkjun
  •     Landsíminn
  •     Eimskip

Hagnaður hvers félags var að núvirði um 3,4 – 3,9 milljarðar króna. Sem er verulegur hagnaður þegar horft er til þess að GVT breyttist aðeins um 2,4% á árinu.

Þegar reiknað er upp til verðlags, t.d. eigið fé Eimskipafélags Íslands í ársbyrjun 1999, þá jafngildir það 15 milljörðum króna.  Eiginfjárhlutfall félagsins á þessum tíma var 41% og ávöxtun ársins því mjög góð.  Reyndar var mikið dulið eigið fé í bókum félagsins en það var þekkt staðreynd.

Hvernig okkur tókst á fáum árum að fara svona rækilega útaf sporinu er og verður sérstakt viðfangsefni fræðimanna að útskýra.

Hvernig okkur tókst að trúa því að til væru ný lögmál um það hvernig verðmæti yrðu til en ekki síður hvernig meta ætti verðmæti er jafn forvitnilegt að skoða.

Ég hef stundum undrað mig á því að þegar maður fer í kjörbúð og stendur við kjötborðið, koma stundum þrautreyndar húsmæður og fara að spyrja 18 ára gamlan afgreiðslumann að þvi hvort að eldunartíminn á kjötinu eigi að vera styttri eða lengri.

Það eitt að standa fyrir innan borðið í slopp gefur greinilega ákveðinn trúverðugleika. Það er mér alla vega augljóst að húsmóðirin er sá sem er með reynsluna og alla áhættuna í þessu samtali.

Að sama skapi er það rannsóknarverkefni hvernig stendur á því að fjölmargir vel upplýstir einstaklingar gátu blindast jafn rækilega og raun ber vitni í velgengni síðustu ára. Getur verið að jakkafötin hafi villt mönnum sýn?

Árið 1999 var mikið til af fyrirtækjum sem voru með vanmetnar eignir í bókum sínum og þrátt fyrir það var hlutfall eiginfjár hátt. Ég man að þegar ég tók þátt í því að kaupa félagið Bílanaust af Matthíasi Helgasyni og fjölskyldu var eigið fé félagsins uppreiknað 86%. Hann hafði einfalda sýn á reksturinn og sagði stundum:

„ þú efnast ekki á háum launum heldur á lágum útgjöldum“.

Af sama meiði segir Warren Buffett að betra sé einn fugl í hendi en tveir í skógi. Þarf að kenna meira í viðskiptafræði en þetta?

Á árum áður var það kappsmál að byggja upp eigið fé fyrirtækja í stað þess að hámarka „arðsemi“ með því að minnka eigið fé fyrirtækjanna. Það hefur alveg gleymst að með því að auka skuldirnar og lækka eiginfjárhlutföll þá margfaldast áhættan umfram vöxt arðseminnar.

Hugtakið dautt eigið fé kemur fljótt upp í hugann sem frasi síðustu ára. Þeir sem lengi hafa rekið fyrirtæki á Íslandi hafa farið í gegnum ótrúlegar sveiflur í gengismálum, vaxtamálum, eftirspurn og mannafla. Þeir vita að enginn  hefur orðið gjaldþrota á því að vera með of mikið eigið fé en ansi margir á hinu gagnstæða.

Það er mikilvægt atriði sem að mínu mati gerði markaðinn heilbrigðan og treysti mjög undirstöður hans á árum áður. Það var sú staðreynd að þeir sem áttu hlutabréf í fyrirtækjum á þessum tíma skulduðu ekkert í þeim. Það heyrði til hreinna undantekninga ef  lán fengust til kaupa á hlutabréfum.

Það sem vinnst með því er að hluthafar geta verið rólegir með eign sína í mótvindi, það verður ekki til sölupressa vegna veðkalla, bankar þurfa ekki að hafa mikil umsvif í veltubókum sínum, verð hlutabréfa verður raunhæfara þar sem lánsfé flýtur ekki um markaðinn og það verður heilbrigð samkeppni um hlutabréf í traustum fyrirtækjum sem sýna stöðugleika í afkomu.

Þá er ótalin sú staðreynd að áhætta lánadrottna er mikið mun minni vegna minni skuldsetningar. Minni skuldsetning í atvinnulífinu tryggir stöðugleika, fleiri störf,  betri afkomu til lengri tíma og þar af leiðandi meiri kaupmátt öllum til handa.

Ég hef lengi sagt að upphaf ógæfunar megi rekja til þess einstaka atburðar þegar stærsti banki landsins (Landsbankinn) réðist í yfirtöku á einum af sínum stærstu viðskiptavinum (Eimskip)  í óþökk mörg hundruð (eða þúsunda) hluthafa félagsins. Það er nánast óþekkt að viðskiptabanki gangi þannig fram við einn sinn elsta og traustasta viðskiptavin sem hafði starfað náið með bankanum í hart nær 100 ár. Það tók 100 ár að byggja Eimskip upp en það tók 4 ár að leggja þá vinnu í rústir einar. Hvorki eftirlitsaðilar á fjármálafyrirtækjum né stjórnvöld þess tíma sáu neitt athugavert við þessa aðgerð, það voru komnir nýir tímar.

Leave a comment