01. nóv. 2012 – 16:01 Hermann Guðmundsson
Að undanförnu hefur málefni N1 og móðurfélags þess, BNT, borið á góma í opinberri umræðu. Fyrst eru gefnar forsendur sem enga skoðun standast og svo dregnar af þeim glórulausar ályktanir. Þegar vel er að gáð býr ávallt að baki einhver hvati, nú síðast að slá pólitískar keilur. Allt er þetta frekar ósmekklegt.
Þar sem ég var forstjóri þeirra félaga sem um ræðir er mér bæði ljúft og skylt að benda á nokkrar staðreyndir varðandi kaup Olíufélagsins (nú N1) og fjárhagslega endurskipulagningu þess eftir efnahagshrunið.
1. Þeir hluthafar sem keyptu Olíufélagið (N1) reiddu fram 10,2 milljarða í hlutafé. Allt tal um að félagið hafi alfarið verið keypt á grundvelli forréttindaaðgangs að lánsfé er út í hött.
2. Á árinu 2007 færði félagið stóran hluta lánsviðskipta frá Glitni til Kaupþings eftir að hagstæðara tilboð um fjármögnun barst. Hugmyndir um forréttindakjör hjá Glitni eru því algjörlega úr lausu lofti gripnar.
3. Fjölmargir aðilar tóku þátt í 5 milljarða skuldabréfaútboði til fjármögnunar á félaginu eftir kaupin sem sýnir að forsendur kaupanna og efnahagslegur styrkur frá byrjun þótti ágætur. N1 tók engin önnur langtímalán fram að fjárhagslegri endurskipulagningu.
4. Hluthafar greiddu sér aldrei arð.
5. Skuldir félagsins jukust mest á árinu 2008 þegar olíuverð sló öll met og fjármagna þurfti með skammtímalánum aukna fjárbindingu.
6. Frá kaupum félagsins fram að endurskipulagningu skulda varð gengisfall íslensku krónunnar um 60% og verðbólga rúmlega 30%. Vextir fóru hæst yfir 20% á sama tíma.
7. Félögin stóðu í skilum við alla lánardrottna þar til að samningar hófust um fjárhagslega endurskipulagningu. Frá hruninu árið 2008 og til 2011 greiddi félagið 6 milljarða í vexti og afborganir.
8. Við fjárhagslega endurskipulagningu töpuðu hluthafar öllu hlutafé sínu, 10,2 milljörðum.
9. Kröfuhafar eignuðust fyrirtækið að fullu.
10. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu var eigið fé N1 um 14 milljarðar og má áætla að heildarvirði félagsins sé rúmir 20 milljarðar. Tíminn mun leiða það betur í ljós.
Þær aðstæður sem urðu á Íslandi eru nú kennsluefni í háskólum víða um heim þar sem slíkar hamfarir hafa tæpast sést áður. Að kalla þá braskara sem hættu eigin fé til kaupa á traustum rekstrarfyrirtækjum með verulegu eiginfjárframlagi en lentu síðar í fellibyl hamfaranna dæmir sig sjálft.
Við þessar aðstæður lentu flest íslensk fyrirtæki í miklum vanda og það eru viðbrögðin við þeim, þ.m.t. samskiptin við kröfuhafa, sem að mínu áliti munu á endanum ráða mestu um trúverðugleika fyrri hluthafa, stjórnarmanna og stjórnenda. Dómi sögunnar í þeim efnum þarf enginn sem tengdist stjórn eða rekstri N1 á umræddu tímabili að kvíða.
