Fæddur 1947 í New Hampshire
MBA frá Harvard 1977
Forstjóri Procter og Gamble og starfsmaður félagsins til 33 ára.
Lafley er á margan hátt klassískur fyrirtækjamaður sem hefur gengið í gegnum margar deildir innan P&G. Hann starfaði lengi sem yfirmaður í Japan og sá um uppbyggingu félagsins í Kína með frábærum árangri.
Það var síðan árið 2000 sem hann er ráðinn sem forstjóri félagsins eftir að Durk Jager var rekinn eftir aðeins 1 ár í starfi.
Þegar hann tók við sem forstjóri voru grunneiningar félagsins mat og drykkjarvara, pappírsvörur og hreinlætisvörur. Þegar hann hætti störfum 2015 þá var félagið ekki lengur með neinar matvörur, engar drykkjavörur, engin lyf og margt fleira var búið að selja í burtu. Grunneiningarnar voru 2, hreinlætisvörur og vörur til persónulegra nota eins og hárvörur, snyrtivörur og Gillette rakstursvörurnar.
Á valdatíma Lafley jókst verðmæti félagsins úr 50 milljörðum dollara í 150 milljarða dollara og félagið eitt af 10 verðmætustu fyrirtækjum í Bandaríkjunum.
Það sem einkenndi stefnu Alan G. Lafley sem stjórnanda var stefnumótun sem gekk útá að félagið ætti ekki að vera í vöruflokkum nema getað sigrað andstæðinga sína á markaði.
Að vera sífellt að elta við miðlungsárangur og hafa ekki afl til að stýra þróun og verðmyndun væri ekki nægilega arðbært til lengri tíma.
Fræg saga er til af því þegar P&G ákvað að reyna að komast inná klórmarkaðinn í Bandaríkjunum sem var undir styrkri stjórn Clorox í áratugi.
P&G hafði þróað og fundið upp nýjan mildan klór sem fór betur með fatnað og liti en mest seldi klórinn frá Clorox.
Það var ákveðið að fara í prufur á afskekktum stað til að reyna að fá endurgjöf frá neytendum. Á endanum var valið að hefja þessa prufusölu í borginni Portland í Maine fylki þar sem Eimskip er nú með sín vöruhús og siglingar. Þetta er lítil borg með um 65.000 íbúa sem lifir á ferðamennsku, sjávarútvegi og siglingum.
P&G keypti allt fáanlegt auglýsingapláss í fjölmiðlum fyrir þetta svæði, undirbjó dreifibréf, samdi við Hannaford sem er aðal smásölukeðjan og stillti upp stöndum í öllum verslunum.
Þegar herferðin fór mjög rólega af stað fór að spyrjast út að Clorox hafði fengið veður af því sem til stóð og var búið að senda heim til allra íbúa í Portland 4 lítra brúsa af Clorox klór og afsláttarmiða fyrir næsta brúsa. Það var því ljóst að engin klórsala myndi eiga sér stað í Portland næstu mánuði.
P&G hætti því við allt saman og á endanum varð til ný vara sem kölluð var Tide w bleach sem varð ansi vinsælt þvottaefni í Bandaríkjunum.
Alan G. Lafley hefur oft komið fram og fullyrt að fæst fyrirtæki séu með skýra stefnumótun, flest hafi markmið og einhverja hugmynd um í hverju þau vilja vera en engin virk stefnumótun sé til staðar sem á endanum verður til þess að árangurinn verður miðlungs til lengri tíma.
Lafley hefur hlotið fjölda viðurkenninga á sínum ferli og árið 2006 var hann kjörinn forstjóri ársins í Bandaríkjunum.
