Alrangur mælikvarði á skuldir ríkisins

15. júl. 2009 – 13:31 Hermann Guðmundsson

Í þeirri umræðu sem nú geisar um skuldir ríkissjóðs annars vegar og skuldir þjóðarbúsins hins vegar er mikið talað um „hlutfall af þjóðarframleiðslu“ og hvort að skuldir séu undir eða yfir einhverjum hlutföllum. Að mínu mati er þessi umræða algerlega á röngum forsendum byggð.

Þjóðarframleiðsla mælir eingöngu umsvifin í hagkerfinu en ekki tekjur sem falla ríkissjóði í skaut. Til að setja þetta í einfaldan búning þá má nefna sem dæmi að þegar umsvif opinberra framkvæmda eykst t.d. með vegagerð þá eykst þjóðarframleiðslan (umsvifin) en um leið aukast útgjöld ríkissjóðs vegna framkvæmdanna og hann verður síður í stakk búinn til að greiða niður skuldir. Með þessari mælingaaðferð þá lækka skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu vegna aukinna umsvifa, en þvert á það sem ætla mætti þá hríðversnar staða ríkissjóðs.

Í heimilisbókhaldi þá mætti líkja þessu við að mæla veltu heimilisins í stað innkomu. Veltan er verðlaus ein og sér, það er eingöngu nettó innkoman sem skiptir máli.

Ég sakna þess mjög að sjá ekki sjóðstreymisáætlun fyrir ríkissjóð í tengslum við þessa umræðu alla. Ég sakna þess líka að þingmenn skuli ekki fara fram á slíka áætlun. Það virðist vera komin af stað keppni um að finna sem hæsta  skuldatölu í stað þess að greina hina raunverulegu nettó stöðu og hvaða aðgerða ríkisvaldið þarf að grípa til svo að greiðslustaða ríkissjóðs verði jákvæð.Það skiptir mestu máli til lengri tíma litið að afgangur verði á fjárlögum til að mæta gjalddögum erlendra skulda.

Mikið hefur verið ritað um að hugsanlega skuldi sjávarútvegsfyrirtækin 3 falda ársveltu greinarinnar.

Er ekki rétt að fá upplýst hversu margföld fjárlög ríkissjóður skuldar í erlendri mynt þegar allar skuldbindingar eru týndar til? Það verður jú aðeins með þeim fjármunum sem við greiðum niður skuldirnar auk þeirra eigna sem til staðar verða þ.e.a.s. gjaldeyrisvarasjóðurinn, fjármálaeignir sem komust í hendur ríkissjóðs og síðan hlutafjáreign í bönkum og sparisjóðum auk annara smærri eigna sem hugsanlegt er að selja.

Það virðist vera gefin forsenda að viðskiptajöfnuður verði jákvæður um allt að 10% út spátímabilið. Það er spá sem gerir ekki ráð fyrir miklum sveiflum í afla eða verði á erlendum hráefnum. Gangi spáin samt eftir þá vantar að svara þeirri spurningu hvort að þessi jákvæði viðskiptajöfnuður dugar til að greiða vexti af erlendum skuldum ríkis og einkaaðila. Ef ekki þá aukast áfram erlendar skuldir þjóðarbússins.

Ítrustu varúðar er þörf nú sem aldrei fyrr.

Leave a comment