okt. 2009 – 12:14 Hermann Guðmundsson
Talsvert hefur verið fjallað um sölu á hlutabréfum í Landsbankanum sem voru í eigu Baldurs Guðlaugssonar ráðuneytisstjóra. Nú berast fréttir af því málið hafi verið sett í rannsókn hjá sérstökum saksóknara.
Málið sýnir að afar óheppilegt er að háttsettir starfsmenn ríkisins séu almennir fjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hugsanlega væri skynsamlegt sé að bjóða slíkum aðilum að leggja frekar sitt sparifé inná vaxtareikning hjá Seðlabanka Íslands sem tryggði ávöxtun markaðarins án þess að kaupa verðbréf. Augljóst er að ekki er ásættanlegt að fólk efnist á því að komast yfir upplýsingar sem markaðurinn býr ekki yfir. Slíkan hagnað mætti gera upptækan.
Það er hins vegar ekkert spurt út í rétt einstaklingsins. Þegar einstaklingur kemst að því að fyrirtæki sem hann á mikið undir í er annað hvort búið að gefa út rangar eða villandi upplýsingar um stöðu sína eða þá að að því steðji slík ógn að líkur séu á gjaldþroti, hver er þá réttur hans?
Það geta ekki verið þeir valkostir einir að lýsa sig gjaldþrota og tapa þar með öllu sparifé sínu og fjölskyldunnar eða að brjóta lög um innherjaviðskipti.
Ekki þarf að benda á að slíkt gjaldþrot myndi líka tryggja atvinnumissi. Það verða að vera grundvallarmannréttindi að ekki sé svo búið um hnútana að einstaklingum sé fórnað á altari kerfisins til að fullnægja afar ófullkomum lögum og reglum. Ef ég man rétt þá er líka bannað með lögum að ýja að því að fjármálafyrirtæki sé ótraust og með því skapa því fyrirtæki ófyrirsjáanlegt tjón.
Í mínum huga þá er það grundvallarréttur og skylda hvers manns að verja sig og sína fjölskyldu fyrir áföllum og forða tjóni þar sem það er hægt. Hvað er til ráða þegar svona aðstæður koma upp? Þetta litla dæmi er enn eitt merki þess hversu ófullkomið regluverkið er á mörgum sviðum viðskiptalífsins.
Rétt er að taka fram að ég þekki ekki manninn sem um er fjallað og hef aldrei hitt hann svo ég viti.
