Tavares er fæddur 1958 í Lissabon og menntaður sem vélaverkfræðingur og útskrifaður frá École Centrale Paris.
Hann talar 4 tungumál reiprennandi.
Hann hóf störf 23 ára gamall hjá Renault sem verkefnastjóri yfir Renault Megane II framleiðslunni sem var að fara í gang. Næstu árin á eftir þáði hann mörg og fjölbreytileg störf fyrir Renault samsteypuna vítt og breitt.
Eftir að Renault hafi keypt ráðandi hlut í Nissan þá var Tavares sendur yfir til Nissan árið 2004 sem einn af yfirmönnum félagsins í stefnumótun og vöruþróun.
Þar var hann við störf til ársins 2011 þegar hann tók aftur við starfi hjá Renault samsteypunni sem COO – eða framkvæmdastjóri rekstrar undir stjórn hins litríka og umdeilda forstjóra Carlos Ghosn sem á sína eigin merku sögu.
Tavares sagði í viðtali við blaðamann frá Bloomberg að hann hefði hug á að verða forstjóri bílafyrirtækis og nefndi GM og Ford sem spennandi verkefni til að takast á við. Carlos Ghosn varð brjálaður við þessi orð og krafðist að Tavares myndi biðja starfsfólk Renault afsökunar, hann neitaði og hætti störfum fyrir Renault.
Fljótlega eftir að hann hætti var honum boðið að taka við sem forstjóri hjá PSA sem framleiðir Peugot, Citroen, DS og núna Opel og Vauxhall. Félagið var í rekstrarvanda og taprekstri á þessum tíma.
Á fáum árum sneri Tavares taflinu við hjá PSA. Hann fækkaði bílgerðum úr 45 í 26 og undirvögnum úr 7 í 2.
Með þessu móti einfaldaðist allt í fyrirtækinu og með aðstoð verkalýðsfélaga sem fengu að fylgjast með hans áformum frá fyrsta degi var störfum fækkað umtalsvert í gegnum eingreiðslur til þeirra sem misstu störfin eða fóru snemma á eftirlaun. Ekki var ráðið í störf sem losnuðu nema brýna þörf þyrfti til.
Afkoma samstæðunnar gjörbreyttist og hagnaðurinn óx frá ári til árs. Úr tapi og í hagnað árið 2017 uppá 2,3 milljarða evra en árið 2019 var hagnaðurinn kominn í 3,6 milljarða evra.
Gerbreytt sjóðsstaða og sterkur efnahagur sem er nauðsynlegur til að hanna og þróa nýja rafbíla gefur samstæðunni þann styrk sem þarf.
Eitt af því sem kom á óvart hjá Tavares var þegar hann gekk til samninga við GM um kaup á Opel – Vauxhall bílaframleiðslunni í lok árs 2017 fyrir 1,2 milljarða evra. Á þeim tímapunkti hafði þetta dótturfélag GM tapað nærri 20 milljörðum dollara á tveimur áratugum og var almennt talið dauðadæmt.
Árangur Tavares sem með nýrri stefnu til einföldunar í rekstri varð til þess að Opel samstæðan skilaði 1 milljarði evra í hagnað 2019.
Án efa mikill árangur á stuttum tíma.
Sem dæmi um flækjustigið sem Opel hafði búið til var að félagið þurfti að framleiða 27 mismunandi stýrishjól vegna sinna bílgerða.
Þeim var fækkað á fyrsta ári niður í 8 mismunandi gerðir.
Svona aðferðafræði er stundum kölluð Value Engineering, það er þegar er leitað allra leiða til að einfalda framleiðslu eða ferla til að létta á fyrirtækjum og fækka mistökum, minnka fjárbindingu og einfalda vöruframboð.
Hann sagði í viðtali að bílageirinn væri knúinn áfram af harðri samkeppni og að Opel þyrfti að finna leiðir til að lækka framleiðslukostnað í landi þar sem vinnuafl er dýrt. Það virðist hafa tekist.
Með þennan árangur í farteskinu stakk Tavares uppá því við Agnelli fjölskylduna að réttast væri að sameina Fiat – Chrysler samstæðuna við PSA og hann tæki að sér að leiða þessa nýju samstæðu sem skírð var Stellantis í gegnum krefjandi tíma í þróun rafbíla og sjálfkeyrandi bifreiða.
Þetta nýja stórfyrirtæki tók til starfa nú um áramótin, með 50 milljarða evra í áætluð markaðsverðmæti þrátt fyrir að PSA hafi selt 28% færri bíla 2020 en árið á undan vegna Covid.
Það verður spennandi að fylgjast áfram með Tavares og hans aðferðum til að tryggja samkeppnishæfni á bílamarkaði og á sama tíma glíma við gerbreyttar áherslur frá neytendum vítt og breytt sem kalla eftir meiri rafvæðingu og minni losun á koltvísýringi.
Eitt af því sem Tavares hefur sagt við sína stjórnendur er að árangurinn mun ekki mælast í fjölda vinnustunda og á stundum hefur hann skammað sína stjórnendur fyrir of mikil ferðalög og of langa vinnudaga. Hann trúir því að betra sé vit en strit og að örþreyttir stjórnendur geri lítið gagn.
Athyglisverð saga manns sem 62 ára gamall stendur nú á tindi ferilsins og ber ábyrgð á 4 stærsta bílaframleiðanda heims og þess sem á eftir að finna leiðir til að spara 4 milljarða dollara á ári í rekstri til að ná þeim árangri sem að var stefnt.
Félagið framleiðir 14 mismunandi vörumerki í dag en líklega mun þeim fækka í kjölfar þessarar sameiningar. Starfsmenn eru um 400.000 í dag við að framleiða og selja 8,7 milljónir bifreiða en til samanburðar þá eru starfsmenn GM um 180.000 og salan um 8.4 milljónir bifreiða á ári.
Það liggja breytingar í loftinu.
