okt. 2009 – 16:50 Hermann Guðmundsson
Þegar maður er staddur í Kína þá skynjar maður hvílíkir ógnarkraftar hafa verið leystir úr læðingi hjá þessari fjölmennustu þjóð heimsins.
Hvert sem litið er hafa verið reistar nýjar byggingar og margar eru byggðar af slíkum metnaði að öðrum þjóðum hefði varla dottið í hug að reyna slíkar framkvæmdir.
Heilu hverfin spretta upp frá grunni og allt kapp lagt á gæði og glæsilegt yfirbragð. Þegar horft er til hæstu bygginga heims þá eru aðeins ein á vesturlöndum og sú var byggð 1974. Síðustu 10 ár hafa 9 af hæstu byggingunum verið reistar í Asíu eða Miðausturlöndum, það sýnir metnað þeirra þjóða.
Bifreiðaeign er að verða almennari í Kína með tilheyrandi umferðarvandamálum og mengun.
Í þessum mánuði gerðist sá tímamótaviðburður að 10 milljónasti bíllinn var framleiddur á árinu. Aðeins 2 aðrar þjóðir framleiða 10 milljón bifreiðar á ári, Bandaríkin og Japan.
Þetta staðfestir hvílíkur kraftur er hlaupinn í innri markaðinn því að lítill útflutningur er enn á bifreiðum frá Kína. Orkumál eru fyrirferðamikil enda vöxtur í orkunotkun mikill. Í síðustu viku kom fyrsti farmurinn af LPG (fljótandi gasi) til Kína frá Katar.
Fyrir ári síðan gerðu kínverska risafyrirtækið CNOOC og Quatargas, 25 ára samning þar sem Katar tryggir 2 milljónir tonna á ári í 25 ár til afhendingar í birgðastöð félagsins í Shenshen. Þetta samstarf hefur m.a. þann tilgang að hjálpa Kína til að nýta sér minna mengandi orkugjafa en kol og olíu. Reikna má með að bæði Petrochina og Sinopec fari svipaðar leiðir til að tryggja orkuöryggi til lengri tíma litið.
Fyrirtækið Sinohydro er án efa langstærsta fyrirtæki heims í framkvæmdum við stíflugerð og virkjanasmíði. Samkvæmt nýjustu heimildum þá er félagið í dag með um 50% af öllum þeim framkvæmdum sem standa yfir í heiminum.
Þegar maður les yfir þær framkvæmdir sem félagið stendur í bæði í Asíu og Afríku þá áttar maður sig á því að ekki er lengur um það að ræða að eingöngu gæði og verðlagning framkvæmda ráði úrslitum um það hver fær verkin heldur ekki síður að Sinohydro með aðstoð Bank of China getur oftast boðið fjármögnun sem hluta af lausninni.
Það ræður úrslitum í heimi sem er þjakaður af ótta og lausafjárskorti. Annað atriði sem vekur athygli er að ekki eru allar virkjanir nýttar til raforkuframleiðslu eingöngu heldur er þær í æ meira mæli orðnar lífsnauðsyn til að tryggja að vatn sé til staðar í heitum löndum til ræktunar. Vatni sem áður rann óhindrað til sjávar er nú í æ meira mæli safnað saman og dreift til að hægt sé að stunda matvælaframleiðslu þar sem þurrkar og óáran hafa lagt framfærslu íbúanna í rúst.
Með áframhaldandi hlýnun má reikna með að þörf fyrir slíkar framkvæmdir vaxi verulega. Kínversk stjórnvöld hafa í miklu mæli örvað hagkerfið á þessu ári til að tryggja að hagvöxtur haldist áfram hár. Stjórnvöld þurfa að tryggja að til geti orðið 25 milljón störf á ári til að atvinnuleysi grafi ekki um sig hjá þeim stóru hópum sem eru að ljúka skólagöngu. Þetta eru gríðarlega mörg störf í samhengi við evrópskan vinnumarkað og t.d. þá eru þetta fleiri störf á ári en allir þeir sem eru nú atvinnulausir í Bandaríkjunum.
Auðvitað borgar hvert starf lægri laun en á Vesturlöndum en framfærslan kostar líka minna.Þegar litið er á fasteignamarkaðinn þá kvikna efasemdir um gæði hans. Góðar íbúðir kosta hiklaust 200 – 500 milljónir í stóru borgunum og við erum ekki að tala um lúxusíbúðir. Verð á fermetra í góðu verslunarhúsnæði fer auðveldlega í 14 milljónir króna, það þykir hátt í flestum löndum.
Öll merki eru um að eignabóla hafi myndast nú þegar og ekki eru mörg dæmi um að slíkt ástand leysist af sjálfu sér. Það sem heldur áfram að knýja hagvélina stóru fyrir utan aðgerðir stjórnvalda eru miklar erlendar fjárfestingar í framleiðslufyrirtækjum og þjónustu og þá má ekki gleyma ansi myndarlegum vöruskiptaafgangi Kína við önnur lönd.
Mér er til efs að áður í mannkynssögunni hafi þjóð sem telur yfir 20% af mannkyninu vaxið jafnt hratt efnahagslega. Ef ekkert óvænt kemur uppá má reikna með að langöflugasta efnahagsveldi sögunnar verði til hér í Kína á þessari öld. Þeir eru þegar komnir í 2. sætið.
