nóv. 2009 – 09:24 Hermann Guðmundsson
Nú stöndum við frammi fyrir því að þurfa að setja ný fjárlög. Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er sú staðreynd að fjárlög hafa mjög lengi haft sitt eigið líf og illa gengur að halda útgjöldum innan ramma fjárlaga. Ég á ekki von á að það breytist á næstunni. Þetta er ekki vegna slæms vilja heldur mikið frekar sú staðreynd að allur kostnaður er sjaldnast þekktur 15 mánuði fram í tímann.
Á sama tíma og vinnandi fólk hefur tekið á sig meiri kaupmáttarrýrnun en áður eru dæmi um, finnst stjórnvöldum réttast að stórhækka skatta á almenning. Tillögur um miklar skattahækkanir eru meira að segja kynntar sem réttlætismál, þ.e.a.s. að það sé verkefni Alþingis að stíga inní kjarasamninga á milli launþega og atvinnurekenda og lækka laun. Sú launalækkun verður síðan uppspretta ófriðar á vinnumarkaði þegar skattpíndir launþegar reyna að rétta sinn hlut en atvinnulífið sem er jafnþjakað og launþegararnir reynir að verjast. Líkleg niðurstaða er víxlhækkun launa og verðlags með áframhaldandi hækkun verðtryggðra lána og lækkandi kaupmætti.
Hærri skattar leiðir af sér að laun hækka sem hlutfall gjalda í rekstri fyrirtækja og minnkar um leið samkeppnishæfni og arðsemi í rekstri. Við þurfum að örva rekstur en ekki öfugt. Hrunið sýndi hið rétta andlit verðtryggingar þegar fall krónunnar og stórhækkun vaxta varð til að hækka allt verðlag með öfgakenndum hætti. Sá sem lánaði verðtryggt fé fyrir einni íbúð gat eftir hrunið keypt 2 íbúðir þar sem höfuðstóll lánsins hafði hækkað um 30% og eignaverð lækkað verulega.
Með því setja skatta í sama ljós má sýna fram á sömu öfgar. Ef tekjuskattur væri 100% af launum þá verður að telja afar líklegt að vilji til að vinna myndi minnka verulega og viljinn til að vinna mikið hverfa alveg. Með sama hætti er líklegt að ef tekjuskattur væri enginn að þá myndi áhuginn á að afla tekna aukast verulega.
Með öðrum orðum þá skipta skattar verulegu máli þegar kemur að því að letja eða hvetja launafólk til verðmætasköpunar, við höfum ekki efni á að draga viljann úr fólki til að skapa verðmæti. Í mínum huga snúast skattamál um grundvallaratriði.
Annað hvort að ríkið eigi rétt á að taka til sín allar þínar tekjur og skammta þér svo til baka það sem þú þarft til að draga fram lífið, eða hin leiðin sem er sú að einstaklingarnir eigi sín laun sjálfir og láti ríkið hafa það fé sem það nauðsynlega þarf til að veita þá þjónustu sem við viljum að sé sameiginleg. Ég tilheyri seinni hópnum og það gera sennilega fleiri.
Núverandi stjórnvöld virðast annað hvort tilheyra fyrri hópnum eða kannski það sem verra er, að þau treysta sér ekki til að draga saman ríkisútgjöldin af sömu festu og fyrirtækin og launþegar hafa orðið að gera.
Það er grundvöllur þess að almenningur samþykki skattahækkanir að búið sé að draga svo úr útgjöldum ríkissjóðs að engin önnur leið sé eftir en að biðja eigendurnar um hærra framlag til að standa undir rekstrinum, það vantar mikið uppá að slík vinnubrögð sjáist hjá stjórnvöldum.
Þegar örfáir þingmenn hafa það verkefni að festa í lög eyðslu á skattfé uppá 550 milljarða króna sem að hluta til þarf að taka að láni, er eins gott að þeir hafi sannfæringu fyrir því að þessu fé sé öllu varið í bráðnauðsynlega útgjöld. Það er á ábyrgð þingmanna sem þessu fé verður eytt, en ekki ráðherra, fjárlögin 2010 eru prófsteinn á getu stjórnarliða til að stunda ábyrgan ríkisrekstur.
