09. júl. 2009 – 13:35 Hermann Guðmundsson
Við sem búum í þessu landi erum heppnari en flest annað fólk í heiminum. Þau lífsgæði sem þessi eyja bíður uppá eru öfundsverð.
Við munum aldrei glíma við orkuvandamál, offjölgun, hungursneyð, vatnsskort eða önnur þau vandamál sem gera mörgum löndum framtíðina nánast óbærilega. Þess fyrir utan búum við svo vel að vera með nánast óspillt land og haf.
Við erum með öflugt samfélag þar sem heilbrigði, menntun og mannréttindi eru grunnstoðir sem allir eru sammála um að eigi að verja eins og hægt. Glæpir eru ekki sama vandamál og í stærri samfélögunum og ófriður ógnar ekki landi eða íbúum.
Sá vandi sem að okkur steðjar er skammtímavandi nema við kjósum að gera hann að langtímavanda. Það er mjög áríðandi að hafa í huga orð Próf. Pedro Videlo sem er hagfræðiprófessor við IESE viðskipaháskólann í Barcelona þegar hann sagði: „kreppur koma og fara og það ræðst af stefnu stjórnvalda á hverjum tíma hversu alvarlegar afleiðingar til lengri tíma verða í hagkerfum þjóða“
Í skýrslu Reinhart og Rogoff um fjármálakreppur kemur t.d. fram að ekkert land hefur varið fleiri árum í fjármálakreppu en Noregur frá árinu 1800 að telja.
Í öðru sæti eru Bandaríkin og Bretland í hinu þriðja. Þrátt fyrir áföllin þá eru lífsgæðin í þessum löndum að meginatriðum öfundsverð þótt ekki séu þau fullkomin.Það skiptir okkur Íslendinga öllu máli að hagkerfi landanna í kringum okkur braggist sem fyrst.
Til allrar gæfu þá erum við framleiðsludrifið þjóðfélag sem hefur alla tíð dregið fram lífið á að framleiða verðmæti og selja öðrum. Við erum mjög góð í þessum þætti en mér hefur alltaf þótt skorta mikið uppá markaðshluta þessa starfs. Við eigum að mínu mati ótrúleg tækifæri á erlendri grundu með þær vörur sem við höfum sterka grunnþekkingu á en við þurfum að standa okkur betur í vörumerkjamálum, ímyndarmálum og uppbyggingu markaða.
Það er mikilvægt að muna að árangur stjórnvalda í baráttunni við kreppuna verður mældur. Hann verður mældur í töpuðum störfum, í skuldasöfnun ríkisins, í hagvexti, í því tjóni sem einstaklingar og fyrirtækja verða fyrir vegna verðbólgu og gengisfalls. Það eru því vandasöm þau verkefni sem stjórnvöld hafa með höndum.Það er mikilvægt á svona tímum að allir standi vaktina hver á sínu ábyrgðarsviði.
Atvinnurekendur verða með öllum ráðum að reyna að skapa sem mest verðmæti fyrir þjóðarbúið og stjórnvöld verða að styðja slíkt starf. Launþegahreyfingin verður að standa vörð um réttindi og hagsmuni launafólks og með nýgerðum samningum hefur náðst mikilvægur áfangi í því starfi. Lífeyrissjóðir þurfa að taka markvissan þátt í atvinnulífinu með því að standa að baki þeirri verðmætasköpun sem þjóðin þarf á að halda.
Tíminn er liðinn sem við höfðum til að reyna að átta sig á aðstæðum og tími ákvarðana og framkvæmda er kominn.
Mikið er ritað og rætt um bankakerfið. Ef að bankarnir fá að vinna að langtímalausnum fyrir íslenskt atvinnulíf með hagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi þá kvíði ég engu. Ef að einhver önnur sjónarmið verði látin ráða mun illa fara.Nú er byrjað að tala um að ríkið þurfi að selja bankana sem fyrst. Í prinsippinu þá get ég tekið undir þau sjónarmið en ég set samt fyrirvara á þau áform.
Ef það er eitthvað sem yfirstjórn fjármálakerfa heimsins eru sammála um þá er það sú staðreynd að fjármálastofnanir fengu að verða of stórar. Of stórar stofnanir verða svo mikilvægar fyrir þjóðarhagsmuni að þeim er í raun fyrirmunað að fá að fara í gjaldþrot.
Ben Bernanke seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði í janúar s.l. að bankar sem nálgist það í stærð að vera jafnstórir þjóðarframleiðslu séu í raun og með réttu að vinna á ábyrgð ríkissjóða viðkomandi lands. Slík stofnun sé svo mikilvæg í sínu hagkerfi að hún með réttu fái aldrei að fara í þrot.
Það er því mikið ábyrgðarhlutverk að stýra slíku fyrirtæki þannig að hagsmunum þjóðar sé ekki stefnt í hættu.Ég tel algerlega ógerlegt að smíða það regluverk sem komi í veg fyrir að ekki þurfi aftur að horfa uppá bankastofnun í vanda í framtíðinni. Allt útlit er fyrir að við verðum með 2 – 3 banka sem verða það stórir að í raun verða þeir á ábyrgð ríkissjóðs ef allt færi á versta veg.
Því er ég þeirrar skoðunar að ríkissjóður eigi að halda á hlut í þessum bönkum til að með beinum hætti sé hægt að tryggja að hagsmunir almennings séu hafðir fremst í röðinni þegar ákvarðanir um stefnu og strauma eru teknar. Ég tel að selja eigi meirihluta hlutafjár til fjárfesta en að skýr kjölfesta sé til staðar í formi almannaeignar. Heppilegt gæti verið að einn banki kæmist í eigu erlendra banka.
Við íslendingar höfum í gegnum tíðina verið afar upptekin af skammtímamálum og í of mörgu vanrækt langtíma stefnumál. Það er í krísum sem kemur í ljós hvort að stefna stjórnenda í fyrirtækjum og stjórnkerfum ber árangur. Ef að markmiðin hafa verið skammtíma þá er ekki von á langtíma árangri.
Hvað sem öllu líður þá trúi ég að framtíðin okkar íslendinga sé öfundsverð og látum engan segja okkur annað, það er ekki þar með sagt að við höfum efni á ótal mistökum.
