17. jún. 2009 – 09:54 Hermann Guðmundsson
Við þurfum sem þjóð að fara að marka okkur atvinnustefnu auk þess að marka okkur framtíðarsýn í mörgum öðrum málum. Það er ekki einfalt mál að sameina þjóð um atvinnustefnu og verður það ekki reynt hér, hins vegar verður gerð tilraun til að leggja eitthvað til málanna.
Þessi þjóð þarf að skapa 4 – 500.000 störf næstu 100 árin ef spár um mannfjölda rætast. Hugsanlegt er að við höfum ekki svona langan tíma heldur muni flykkjast hingað evrópubúar til búsetu vegna þeirra náttúrugæða sem við búum við umfram margar aðrar þjóðir.
Þegar horft er til stórra atvinnugreina, sem er alger nauðsyn þegar hugsað er til langs tíma, er líklegt að störfum í heiminum muni fjölga næstu áratugina í hátækni, fjarskiptum, hugbúnaðargerð, lífeðlisfræði, samgöngum, afþreyingu, raftækjaframleiðslu, textílvörum ofl.
Margar aðrar atvinnugreinar munu standa í stað eða tapa störfum. Störf tapast bæði vegna tækniþróunar og breytinga í samfélögum. Nýjar lausnir leysa þær eldri af hólmi. Við eigum að marka okkur stefnu og reyna allt til að hagsmunaaðilar sjái sér hag í því að taka þátt í því að hrinda slíkri stefnu í framkvæmd.
Mikilvægt er í svona stóru máli að stefna ekki atvinnumálum þjóðar inn í atvinnuvegi sem eiga ekki ljósa framtíð. Það þarf líka að byggja á þeirri arfleið sem þjóðin hefur byggt upp. Á meðan maðurinn gengur um jörðina þarf hann fæðu. Það er því mín hugmynd að Ísland marki sér þá stefnu að verða matvælaframleiðsluþjóð í breiðasta skilningu þess orðs.
Við erum nú þegar all stór fiskveiði og fiskvinnsluþjóð en ég tel að við gætum náð árangri horft til langs tíma í flestum matvörum. Að flytja út vatn er einfaldasta mynd þess að flytja út fæðu. Það eitt er ekki mjög arðsöm eða vinnufrek starfsemi.
Vatn má hins vegar flytja út með mörgum mismunandi aðferðum. Það má sjá fyrir sér stórfelldan útflutning á íslenskum bjór, vítamínbættum drykkjum, orkudrykkjum, sterkum drykkjum og öðrum þróuðum drykkjavörum sem búa til virðisauka og kalla á vöruþróun og markaðsetningu á stórum mörkuðum.
Það er hægt að sjá fyrir sér að framleiðsla slíkra vara geti líka verið samstarf við heimsins stærstu fyrirtæki í sölu á drykkjarvörum. Við höfum gnótt hreins vatns og næga orku auk þess sem að gæði verða auðveldlega tryggð með legu landsins. Sá flutningskostnaður sem vara héðan tekur á sig má auðveldlega slétta út með þeirri umgjörð sem slíkum útflutningi yrði búin. Ef að sýkingar eða sóttir herja á aðrar þjóðir má leiða líkum að því að við værum betur stödd hér úti í hafi með hreinar afurðir.
Það ber merki um gæði að íslenskur bjór er með meira en 50% af innlenda markaðnum, það ber líka vott um gæði að innlent sælgæti selst betur en erlent.
Það er styrkur að íslenskur fiskur telst vera gæðavara, það er líka styrkur að íslenskar landbúnaðarvörur hafa selst vel hjá Whole Foods verslunum í Bandaríkjunum. Mér heyrast flestir á þeirri skoðun að þegar íslenskt grænmeti kemur í verslanir á vorin að þá sé greiðandi hærra verð vegna gæða fyrir það en erlent grænmeti.
Vatn er undirstaða allrar matvælaframleiðslu. Það þarf m.a. 5.000 lítra af vatni til að framleiða 1.kg af hrísgrjónum, við getum því flutt út gríðarlegt magn af vatni án þess að flytja út vatn. Ekki legg ég til að við förum að framleiða hrísgrjón heldur mikið frekar alla þá vöru sem okkur sýnist að geti borið þokkalegan virðisauka. Það er ekki lögmál að Sviss selji osta og súkkulaði um allan heim en við ekki, það er heldur ekki lögmál að Austurríksmenn eigi fyrsta sætið á orkudrykkjamarkaði heimsins en við ekki.
Við búum svo vel að vera ágætlega tæknivædd þjóð. Sem slík gætum við boðið uppá spennandi hluti í samskiptum við erlenda kaupendur. Margir bændur eiga tölfræði yfir allar sínar kýr og halda ýmsar skrár. Við getum rakið uppruna allrar framleiðslu, við getum merkt matvöru með rafrænum merkjum sem gera seljendum leyft að fylgjast með sendingum á sjó og í landi, það er hægt að skrá tíma, hitastig við flutning og geymslu og ótalmargt fleira er hægt að bjóða uppá sem gæðadrifnar lausnir.
Ef við getum reiknað með og jafnvel ákveðið að IKR eigi áfram að vera nálægt 200 stigum þá sýnist mér að íslenskt matvælaverð sé frekar hagstætt og eigi alla möguleika á gæða enda markaðarinns.
Allt er þetta framkvæmanlegt ef við sem þjóð getum sameinast um langtímamarkmið.
Matvælaframleiðsla í stórum stíl myndi styðja við flutningafyrirtæki, skipafélög og flugfélög, myndi gagnast Marel og markaðsfólki og efla nýsköpun í mannvirkjagerð og orkulausnum fyrir innanhúss ræktun. Við eigum mikið landnæði, við getum byggt upp í öllum fjórðungum og við getum fléttað saman sölu á gæða sjávarafurðum og annari gæða matvöru. Stefnumótun þarf að vinna.
Í Bandaríkjunum er talið að á milli 3 og 4 milljónir starfa hafi verið útvistað til annara landa með beinum hætti af þarlendum fyrirtækjum. Almennt er talið að hvert starf geti af sér 1 – 1,5 starf og því má reikna með að útvistun bandarískra fyrirtækja hafi kostað þjóðarbúið þar allt að 10 milljónir starfa.
Hugmyndafræðin hefur verið sú að með því að útvista störfum með takmarkaðann virðisauka í skiptum fyrir störf með meiri virðisauka vænkist hagur hluthafa. Lækkað vöruverð auki hag neytenda og til verði þjónustustörf í stað framleiðslustarfa.
Mín skoðun er sú að engin störf séu þess eðlis að þau eigi ekki rétt á sér í okkar samfélagi. Það á að vera kappsmál allra að verja störf og ekki leggja allt kapp á skammtímahagnað á kostnað langtíma hagsmuna samfélaga. Það er ekki tilviljun að þær þjóðir sem nú standa hvað best í atvinnumálum og eru með mestan hagvöxt eru þær sömu og nutu þess að störfin voru flutt til þeirra.
Stöndum vörð um íslenskt atvinnulíf og byggjum á sterkum grunni.
