Öll í einum bát

20. maí 2009 – 10:23 Hermann Guðmundsson

Sú staða sem þjóðin er stödd í um þessar mundir er að hluta til heimatilbúin og að hluta til heimskreppa.

Það liggur í augum uppi að sú ákvörðun að byggja upp alþjóðlega banka í landi sem ekki réði yfir lánveitanda til þrautavara umfram innanlandsmarkað var meingölluð. Sú ákvörðun að leyfa slíka uppbyggingu var alveg jafn gölluð.

Nú sitjum við íslendingar í rústum kerfisins og af ráðaleysi þeirra sem valdið hafa er ljóst að svo langt er síðan að stjórnvöld í þessu landi glímdu við bráðavanda að kjarkurinn og kunnáttan er ekki til staðar.

Það er ekki að skiljast með skýrum hætti að bankarnir hrundu yfir þjóðina en það voru ekki atvinnulífið eða heimilin sem hrundu yfir bankana. Það var með vitund og vilja stjórnvalda sem bankarnir fengu að vaxa og síðan að há sitt dauðastríð á kostnað gjaldmiðilsins okkar með hörmulegum afleiðingum.

Núverandi stjórnvöld hafa sagt margoft á fundum að þau vilji ekki fá fyrirtækin í fangið en staðan sé erfið. Það þarf kjark og þor til að glíma við mikin vanda og nú er tíminn til að sýna dug.

Staðan í dag er afar þröng og í þröngri stöðu verður að vinna með skýr markmið að leiðarljósi. Markmið stjórnvalda hljóta að vera þau ein að lágmarka tjón þegnanna horft til lengri tíma. Allt annað er einfaldlega hávaði og truflun á leið að því markmiði.

Ríkisstjórn eru í raun sem hópur framkvæmdastjóra í fyrirtæki sem glímir við risavaxin vanda. Tekjur félagsins hafa hrunið um 20 – 25% og munu ef ekkert verður að gert minnka talvert meira.

Þetta tekjutap er nógu slæmt í sjálfu sér en stóri vandinn sem þessir framkvæmdastjórar horfa framan í er að stór hluti viðskiptavinanna á líka í gríðarlegum fjárhagsvanda og sumir þeirra ætla ekki að versla áfram í heimabyggð heldur flytja sig í annað hagkerfi. Fyrirtæki sem á fjárhagslega veika viðskiptavini verður aldrei sterkt fyrirtæki. Það er því úr vöndu að ráða.

Einn vandinn sem þessir framkvæmdastjórar horfa framan í er að ólíkt öðrum fyrirtækjum í hagkerfinu þá losnar þetta fyrirtæki (ríkið) aldrei alveg við kostnað af vinnuaflinu þótt að uppsagnir séu óumflýjanlegar. Þetta er staðreynd sem þarf að viðurkenna og vinna útfrá. Það skiptir samt máli hvernig á er haldið.

Hættulegasta staðan sem uppi er um þessar mundir er að framkvæmdastjórnin ætlar sér að taka lán í stórum stíl til þess að styðja við hagkerfið. Sú aðferð er ekki ósvipuð því að fá sér yfirdráttarheimild í von um að ekki verði gripið til hennar. Kostnaðurinn getur orðið gríðarlegur og er ekki á bætandi. Hver einasta króna sem við sköpum í gjaldeyri er okkur ómetanleg við þessar aðstæður, þær krónur sem stjórnvöld þurfa til að greiða vexti erlendis verða ekki notaðar í annað.

Sú hugsun sem einnig ræður ferðinni er að nú sé brýnt að hækka skatta. Allir íslendingar hafa þegar tekið á sig yfir 20% kaupmáttarskerðingu vegna lífsnauðsynja og sumir margfalt það í greiðslubyrði lána. Samt telja stjórnvöld að það sé enn rými til að leggja meira á bak þegnanna.

Það má auðveldlega sýna frammá að af 100.000 krónum í nýjum tekjuskatti frá einstakling fá ríkið nú þegar um 30.000 kr. í formi vsk og aðflutningsgjalda af þeim vörukaupum sem þessir peningar annars yrðu notaðir til. Þær 70.000 – krónur sem eftir eru nýtast sem framlegð og virðisauki í atvinnulífinu og tryggir störf. Það er alveg öruggt að aukin skattheimta mun fækka störfum, auka útgjöld ríkissjóðs til atvinnulausra og minnka hagkerfið enn frekar. Það getur ekki verið góð hagstjórn að fækka störfum í einkageiranum til að verja störfin hjá hinu opinbera.

Í atvinnulífinu býr mikil þekking, sú þekking getur nýst að hluta til að takast við það tjón sem við öll horfum nú framan í. Ég veit ekki hvort stjórnvöld nú eða fyrr hafi sótt sér tillögur að lausnum til þeirra sem best þekkja til í rekstri hér innanlands. Við erum öll sammála um gildi þess að halda uppi góðri þjónustu við íbúa þessa lands, það skiptir hins vegar máli hvernig það er gert og hvað það kostar. Vitið kemur ekki að utan þótt að margir haldi það.

Nú eru liðnir 8 mánuðir frá falli bankanna en það eru liðnir 14 mánuðir síðan að atvinnulífið missti eðlilegt aðgengi að rekstrarfjármögnun. Í allan þennan tíma hafa heyrst frasarnir um að það verði að tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Frasarnir duga engum.

Nú er svo komið að staða allra fyrirtækja er mun verri en hún var fyrir ári síðan þar sem búið er að blóðmjólka þau með okurvöxtum, verðbólgu og síðan hruni krónunnar. Það virðist vera sem að bönkunum okkar sé nánast bannað að vinna að lausnum á vanda fyrirtækja nema henda út fyrst út eigendum þeirra sem þegar hafa tekið á sig gríðarleg töp vegna hrunsins.

Hér er búið að snúa öllu á haus. Verkefni bankanna eiga eingöngu að snúast um þjóðarhag og að bjarga sem mestum verðmætum fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Ef eigendum og stjórnendum fyrirtækja verður boðið uppá það viðmót að glæfraför gömlu bankanna og máttleysi stjórnvalda eigi að vera á kostnað atvinnulífins og heimilinna þá verður engin sátt um slíkt. Ófriður mun ráða ríkjum næstu árin með gríðarlegu tjóni fyrir þjóðarbúið allt þar sem allir reyna að bjarga eigin skinni og það án tillits til kostnaðar fyrir samfélagið.

Hugsum okkur þá mynd þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands situr uppi á sviði eftir vel heppnaða tónleika og hlýðir á áhorfendur klappa. Að því loknu þá er öllum liðsmönnum hljómsveitarinnar skipað útí sal og áheyrendur settir í stóla hljóðfæraleikara. Sá samhljómur sem þessi hópur áhorfenda þyrfti að ná til jafna getu þeirra sem fyrir voru tekur mörg ár og næst jafnvel aldrei. Með nákvæmlega sama hætti tekur það mörg ár að stilla saman í einu fyrirtæki, stjórnendur og starfsfólk, birgja og viðskiptavini til að úr verði samhljómur sem síðan breytist í áþreifanleg verðmæti öllum þessum aðilum og þjóðfélaginu í heild sinni til gagns.

Í bönkunum okkar starfar frábært fólk með mikla reynslu í að vinna með fyrirtækjum að því að leysa erfið mál. Með því að gefa þessu fólki og fyrirtækjunum tíma til að fara í gegnum þau erfiðu mál sem bíða lausna er öruggt að miklum verðmætum verður ekki kastað á bálið. Nú er tíminn til að nýta kraftana og snúa bökum saman fyrir hagsmunum heildarinnar.

Sú hugsun að ætla að ganga fram gegn atvinnulífinu þegar krónan er í sinni veikustu stöðu, eftirspurn í lágmarki og skuldastaðan í hámarki, eftir gengishrun og óðaverðbólgu er hreinn dónaskapur. Það verður að nást um það sátt að heildarhagsmunir þjóðfélagsins skuli ganga fyrir og að verja skuli öll þau störf sem hægt er jafnvel þótt að það geti kallað á að skuldum verði breytt í eigið fé tímabundið, lánum breytt í víkjandi lán eða með frjálsum nauðasamningum þar sem hagsmunir heildarinnar ráða för. 

Gleymum því ekki að hvorki fyrirtækin, heimilin eða stjórnvöld gerðu ráð fyrir í sínum plönum að það þyrfti að glíma við 100% hækkun gjaldeyris, 20% verðbólgu, 25% vexti og 30% samdrátt í einkaneyslu. Voru það mistök?

Það er ekkert sem gagnast hagsmunum bankanna betur en að atvinnulífið ná aftur styrk sínum og geti greitt skuldir sínar. Fleiri störf í einkageiranum þýða að færri eru atvinnulausir sem aftur þýða minni útgjöld ríkissjóðs sem að auki fær nýjar tekjur frá auknum umsvifum. Eina leiðin út úr vandanum er sá að ná aftur vexti í hagkerfið ella til frambúðar að sætta okkur við verulega verri lífskjör.

Bankar eiga ekki að reka bílaumboð, ritfangaverslanir né önnur fyrirtæki, ég veit reyndar að þeir eru mér sammála um það.

Bankar skapa ekki verðmæti í sjálfu sér, þeir gæta verðmæta annara.

Verði önnur sjónarmið en hagsmunir heildarinnar látnir ráða för þá mun hagkerfið halda áfram að minnka jafnt og þétt þar til að ríkissjóði er sá einn kostur eftir að óska eftir nauðasamningum við sína lánadrottna.

Við skulum ekki gleyma ábyrgð atvinnurekenda á þeirri stöðu sem við nú erum í. Mörg okkar hafa treyst um of á að áframhaldandi vöxtur yrði íslensku hagkerfi og einnig fannst okkur lengi vel að fjármagnskostnaður yrði alltaf lágur.

Þetta voru klár mistök.

Við hlustuðum á áform um fjölda stórra framkvæmda sem allar voru á sjóndeildarhringnum og velgengni bankanna virtust engin takmörk sett.

Langflestir stóðu þó vaktina sem fyrr og töpuðu ekki áttum þótt að margt spennandi væri að gerast. Það sem stendur þó uppúr er að alla gagnrýni og aðhald vantaði frá Samtökum atvinnurekenda og Viðskiptaráði.

Þegar stjórnendur fyrirtækja voru farnir að taka með sér eftir árið 200 föld árslaun meðalstarfsmanns þá var ljóst að við vorum komin útaf sporinu. Það er ekkert sem réttlætir að forstjóri fái greidd slík laun, þegar mikil velgengni er á mörkuðum þá eiga hluthafarnir þann hagnað. Stjórnendur eiga góð laun skilið fyrir góðan árangur en samhengi kjaranna verður að vera til staðar.

Þörf víðtækrar samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarinns um að lágmarka skaðann og ná sátt um leiðirnar til úrbóta hefur aldrei verið brýnni. Það bíða sársaukafullar aðgerðir og þær verða ekki auðveldari með tímanum.

Róum bátnum heilum heim.

Leave a comment