Töpuð tækifæri

03. okt. 2009 – 16:30 Hermann Guðmundsson

Nú er að birtast fjármálafrumvarp fyrir 2010. Sú mynd sem þar er dregin upp er skelfingu líkust.

Í desember 2008 var talið að hallarekstur ársins 2009 yrði 154 milljarðar, staðreyndin í dag er sú að áætlað er að hallinn verði 180 milljarðar í árslok.

Spá um afkomu Ríkissjóðs gerir því ráð fyrir um 26 milljarða verri afkomu en fyrri áætlun og það þrátt fyrir að atvinnuleysi og þjóðarframleiðsla hafi verið heldur hagstæðara en ráð var fyrir gert. Það verður áhugavert að sjá hvaða kostnaðarliðir fóru mest úr böndunum. Verandi sjálfur í rekstri þá þekki ég það að sumir kostnaðarliðir eru illviðráðanlegir en öðrum má stjórna.

Þegar litið er á tölur fjármálaráðuneytisins um afkomu Ríkissjóðs fyrstu 8 mánaði ársins þá sést að útgjöldin hafa aukist um 65 milljarða á milli ára og tekjurnar hafa dregist saman um 18 milljarða á sama tíma. Staðan hefur því versnað um 83 milljarða. Ríkissjóður hefur ekki greitt framlög sín til lífeyrissjóða LSR og LH það sem af er ári.

Það sem svíður mest er að þetta ár sem við leyfðum okkur að reka Ríkissjóð án niðurskurðar, átti að gagnast okkur til að undirbúa mótvægisaðgerðir fyrir atvinnulífið, bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr hafa haft uppi fögur orð í þá veru.

Nú þegar fáar vikur eru eftir af árinu hefur ekkert verið frágengið af þeim verkefnum sem til greina kemur að fara í. Það sem gerir stöðuna enn verri er að fjármagn er enn á okurverði og ekki arðbært fyrir atvinnulífið eða einstaklinga að fjármagna framkvæmdir smáar sem stórar.

Við leyfðum okkur að fresta kreppunni um eitt ár vegna sterkrar stöðu Ríkissjóðs og við höfum nú tapað ómetanlegu tækifæri sem okkur var gefið til að styrkja atvinnulífið og undirbúa efnahagslífið undir skattahækkanir og niðurskurð. Reyndar ef miðað er við tölulega úrvinnslu www.datamarket.is þá er niðurskurðurinn ansi rýr og allt kapp lagt á að þyngja skattbyrðarnar.

Með öðrum orðum þá á að taka gríðarlega fjármuni úr einkageiranum með skattheimtu til að verja störf ríkisstarfsmanna, ég veit ekki um neina hagfræðibók sem kennir að það séu góð vísindi.Það er ekki langt síðan að tryggingagjaldið var stórhækkað til að styðja við atvinnulausa úr einkafyrirtækjum og nú á með skattahækkunum að forða ríkisstarfsmönnum frá sömu örlögum.

Við stöndum því í þeim sporum að ósekju að skattahækkanir af áður óséðri stærðargráðu koma nú til framkvæmda án þess að neinar mótvægis aðgerðir séu í frágengnar og frekar virðist vera kappkostað að hindra þá fáu sem treysta sér til að uppbyggingar.

Ofaná þetta er hótað að gera útaf við helstu gjaldeyrisaflendur landsins, útgerðina.

Ekki skal lítið gert úr því verkefni sem stjórnvöld glíma við en að það skuli ekki skiljast að án þess að atvinnulífið fái lífvænleg skilyrði verður ekki um neina endurreisn að ræða. Það skiptir engu máli hversu mikið er lengt í lánum heimilanna ef engin eru launin, lánin verða ekki greidd upp með atvinnuleysisbótum.

Það sem um tíma leit út fyrir að geta verið skammvinn fjármálakreppa er nú hratt að breytast í langvinna skuldakreppu og það er að hluta okkar eigin verk eða frekar verkleysi.

Leave a comment