Undrasagan Facebook

nóv. 2009 – 10:57 Hermann Guðmundsson

Spurnir berast af því að u.þ.b. 100.000 íslenskir notendur séu nú virkir á samfélagsvefnum Facebook.

Þetta er sennilega heimsmet eins og svo margt annað sem við tökum uppá. Mér segir svo hugur að hrunið mikla hafi ýtt verulega undir vinsældir vefsins enda eru það þekkt viðbrögð þegar mótlæti steðjar að,  þá snýr fólk sér að því að rækta vini og fjölskyldu í meira mæli en ella.

Fyrsta formið af Facebook var sett í loftið 4.febrúar 2004 innan veggja Harvard háskóla í Boston.

Upphaflega hugmyndin gekk útá að smíða vef þar sem allir nemendur í Harvard gætu sjálfir sett inná vefinn upplýsingar um sig og sín hugðarefni. Grunnurinn var sá að notandinn gæti búið til sitt eigið stoðkerfi innan veggja skólanns með því raða saman nemendum og vinum inná sitt svæði sem ekki var opið öðrum. Vefurinn var líka búinn spjallsvæði.Eitt af því sem kerfið bauð uppá var að notendur gátu séð hvaða nemendur voru skráðir í hvaða tíma.


Eitt meginmarkmiðið var síðan að búa til vettvang þar sem stelpur og strákar gátu kynnst án þess að hittast. Nemendur skólans eru u.þ.b. 20.000 og því ekki létt verk að kynnast þeim öllum. Klúbbar gátu skyndilega talað við félaga sína á vefnum og íþróttastarfið fékk nýtt tæki til að boða æfingar.

Með þessari aðferð þá gátu nemendur fundið aðra nemendur með svipuð áhugamál án þess að þurfa rölta á milli öldurhúsa í misgóðu ástandi í þeirri von að finna líklegan förunaut.

Höfundurinn að Facebook heitir Mark Zuckerberg og er fæddur 1984 og er því 25 ára gamall í dag. Mark er undrabarn í heimi forritunar og eins og margir með snilligáfu þá entist hann ekki í skólanum út námstímann. Hann er því ekki með prófgráðu frekar en t.d. Bill Gates.  

Þegar vefurinn fór í loftið þá hafði hann eytt 10 vikum í forritun og 1.000 bandaríkjadölum sem hann fékk frá vini sínum Eduardo Saverin. Þeir ákváðu að Mark ætti 70% í fyrirtækinu en Eduardo fengi 30% fyrir sína 1.000 USD.

Ekki entist það samstarf en í staðinn fékk Mark herbergisfélaga sína Chris Hughes og Dustin Moskovits til að vinna að verkefninu með sér.Áður en Mark fullkomnaði vefinn og opnaði hann þá var honum boðið að vinna að svipaðri hugmynd sem reyndar gekk ekki eins og langt en bar nafnið ConnectU. Sú hugmynd hafði verið í vinnslu í marga mánuði á vegum tvíburanna Cameron og Tyler Winklevoos. Á með tvíburarnir æfðu róður sem mest þeir máttu þá störfuðu forritarar að því að byggja upp vefinn þeirra.

Þeir bræður eru margfaldir meistarar í sinni grein og kepptu saman á Ólympíuleikunum síðasta sumar. Þegar aðalforritari bræðranna hætti snögglega þá fréttu þeir af Mark vegna þess að hann hafði hakkað sig inná nemendavefi skólans til að stela þaðan myndum af öllum nemendum. Uppátækið komst upp og Mark slapp með viðvörun frá aganefnd skólanns og blaðagrein í skólablaðinu Crimson.

Bræðurnir fengu Mark til fundar við sig og sögðu honum hvað þeir væru að smíða. Þeirra hugmynd snerist aldrei um að vefurinn væri samskiptavefur heldur eingöngu upplýsingaveita þar sem nemendur gætu skráð upplýsingar um sig og sín áhugamál. Vefur bræðranna átti ekki að vera gagnvirkur. Mark lét líklega við þá um tíma en á endanum kom í ljós að hann ætlaði ekki að vinna að þeirra hugmynd heldur skapa sína eigin.

Síðar þegar Facebook, sem var upphaflega hugsaður eingöngu sem Harvard vefur, var orðinn aðalvefur flestra betri háskóla landsins, ákváðu bræðurnir að stefna Mark fyrir að hafa stolið hluta af þeirra hugmynd og jafnvel einhverjum hluta af forritunarmálinu.

Eftir þriggja ára hark með lögmönnum varð niðurstaðan á endanum sú að Facebook inc. greiddi bræðrunum 65 milljónir USD (8 milljarða) í leynilegu samkomulagi þar sem Mark Zuckerberg viðurkenndi aldrei að hafa nýtt sér neinar hugmyndir bræðranna eða forritunarmál.

Í dag eru yfir 300 milljón notendur á Facebook frá flestum löndum heims. Þetta þýðir að nálægt 5% jarðarbúa eru notendur og það verður að teljast ævintýralegur árangur á ekki lengri tíma.

Stofnandinn Mark Zuckerberg er orðinn í dag einn efnaðasti maður heims aðeins 25 ára gamall. Nýlegt mat á eignum Marks hljóðar uppá rúma 2 milljarða USD eða á milli 250 og 300 milljarða króna. Það er eftirtektarvert að fyrirtækið hefur ekki enn verið skráð í kauphöll og ekki er vitað hvort að það freistar Marks.


Þótt að hann sé aðeins metinn á 4% þeirrar upphæðar sem Bill Gates er metinn á, ber á það að líta að Bill hefur verið að í rúm 30 ár. Ekki er óhugsandi að Mark Zuckerberg taki við titlinum einn daginn sem ríkasti maður heims.

Bill Gates sá snemma hversu spennandi Facebook hugmyndin er og hann keypti 1,6% í félaginu fyrir 240 milljón USD fyrir 2 árum síðan. Þetta kaupverð verðmetur félagið í heild á 15 milljarða USD eða u.þ.b. 1.800 milljarða króna.

Sá sem þetta skrifar notar Facebook reglulega og er þeirrar skoðunar að gildi vefsins sé mjög mikið í samfélagslegu tilliti. Á vefnum fylgist maður með tíðindum af ættingjum og vinum, umræðu um mál dagsins og fjölmargt fleira. Fámennar þjóðir eins og við geta nýtt vef eins og Facebook til að drífa áfram fjölmörg samfélagsmál eins og t.d. Þjóðfundinn og Hugmyndaráðuneytið.

Við eigum eftir að sjá mikið til Facebook á heimsvísu á næstu árum og ekki er víst að bann Kínverja á notkun hans lifi af áhuga íbúanna á að tengjast öðru fólki.

Leave a comment