22. júl. 2009 – 16:55 Hermann Guðmundsson
Nú þegar umræðan á Íslandi snýst um það hvort að við séum að stefna ríkissjóði í þrot með því að takast á hendur skuldbindingar vegna innlána Landsbankans er ekki úr vegi að skoða stöðu annara þjóða.
Stærsta hagkerfi heimsins er í Bandaríkjunum eins og flestir vita.
Talið er að hagkerfi heimsins sé u.þ.b. 47 billjón (trillion) USD að stærð og að hagkerfi Bandaríkjanna sé u.þ.b. 13 billjón (trillion) USD af því eða tæp 30% af hagkerfi heimsins.
Erlendar skuldir BNA voru 4,5% af öllum skuldum heimsins árið 2007 en í dag tveimur árum síðar eru þær orðnar 9%. Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa erlendar skuldir Bandaríkjanna farið úr 17% og uppí 35% á tveimur árum. Það sem verra er, að hvergi sér fyrir endann á þeim halla sem er á vöruskiptajöfnuði þeirra og því er ljóst að skuldasöfnun mun halda áfram á ægihraða enn um sinn.
Þekktur hagfræðingur sagði eitt sitt: „ef að eitthvað getur ekki haldið áfram endalaust þá mun það ekki gera það“.
Með öðrum orðum: Slík skuldasöfnun mun taka enda þar sem það verða engir kaupendur að skuldaviðurkenningum Bandaríkjamanna. Skuldir ríkisins eru nú um 14 billjón USD eða rúmlega 100% af GDP og þar af eru erlendar skuldir ríkissjóðs BNA í lok maí 2009 3.3 billjón USD. Útlit er fyrir að erlendar skuldir BNA hækki um 50% á þessu ári og næsta og vegna gríðarlegs halla á vöruskiptum en ekki síður vegna rekstrarhalla ríkissjóðs. Þegar horft er á það hvaðan skuldir BNA eru fjármagnaðar má sjá nokkrar athygliverðar niðurstöður.
Kínverska alþýðulýðveldið (Kína – Hong Kong – Taiwan) eiga 1 billjón USD í ríkisskuldabréfum eða tæpan þriðjung skuldanna og Japan á 20% af erlendum skuldum BNA. Þetta er að miklu leyti í takti við þann gríðarlega halla sem er á vöruskiptum BNA við þessi lönd. Í maí sl. varð vöruskiptahalli BNA við Kína yfir 17 milljarðar USD á meðan að sami halli var „aðeins“ 4 milljarðar við OPEC þjóðirnar.
Þegar skoðað er ár aftur í tímann má sjá að Bretar, Norðmenn,Mexíkó og Kanada hafa á einu ári minnkað stöðu sína verulega í bandarískum ríkisskuldabréfum á meðan flest allar aðrar þjóðir hafa bætt við sína stöðu og þá ekki síst lönd eins og Kína, Japan, OPEC löndin, Rússland, Ísrael, Luxemburg og Írland. Mikið tal um að USD geti fallið verulega að verðgildi á næstu árum hefur hugsanlega spilað þar hlutverk.
Fyrir fáum vikum síðan kom háttsettur embættismaður úr kínverska stjórnkerfinu til fundar með litlum fyrirvara til New York. Hann hafði óskað eftir óformlegum fundi með Pete Peterson. Hann er fyrrum viðskiptaráðherra og síðar annar stofnandi Blackstone Group og stjórnarformaður Seðlabanka New York.
Erindi kínverska embættismannsins, sem er vel kunnugur Peterson, var að lýsa áhyggjum kínverskra stjórnvalda á því hvernig Bandaríkjastjórn ætlaði að fjármagna 2 billjón USD halla á fjárlögum.
Hann sagði að við (Kínverjar) eigum nú þegar 1.4 billjón USD í eignum og okkur þykir það verulega stór hluti af okkar varaforða. Ef rekstur ríkissjóðs BNA lagast ekki þá er allt eins líklegt að það komi mikil sölupressa á ríkisskuldabréf BNA með tilheyrandi hruni á USD og hækkandi vöxtum.
Þetta er í sjálfu sér ekki aðalfréttin heldur frekar það sem á eftir kom. Að sögn þessa embættismanns verða Kínversk stjórnvöld vegna samdráttar í heiminum að setja gríðarlega fjármuni inní sitt eigið hagkerfi til að viðhalda hagvexti og áframhaldandi uppbyggingu á hagkerfi sínu innanlands sem er á góðri leið með að verða langstærsta hagkerfi heimsins með 6 – 700 milljónir neytenda með yfir 10.000 USD í árslaun sem telst til millistéttar í Kína.
Með öðrum orðum, að sá mikli jákvæði vöruskiptajöfnuður sem Kínverjar njóta í dag verður nýttur til að byggja upp innri markað Kína í stað þess að fjármagna umframeyðslu BNA.
Nú gæti einhver sagt að Bandaríkjamenn búi svo vel að eiga USD sem alþjóðlega mynt og þeir muni einfaldlega prenta meira af seðlum til að greiða sínar skuldir og halda ríkissjóði á floti. Slíkt hefur þegar verið gert í svo miklu mæli að margir hagfræðingar hafa af því verulegar áhyggjur að í uppsiglingu sé tímabil óðaverðbólgu og fleiri vandamála í bandarísku hagkerfi.
Skilaboðin eru kannski þau að það er sama hversu stór og máttug þjóðin er, hún getur lent í skuldavanda. Skuldir eru til þess fallnar að draga kjark og kraft úr einstaklingum og fyrirtækjum, þjóð sem skuldar óheyrilega mikið mun eiga mun erfiðara með halda saman sem samfélag en þjóð sem ekki skuldar mikið.
Það kemur ekkert í staðinn fyrir ábyrga fjármálastjórn og eða hagstjórn.
