Warren Buffett og Charlie Munger

13. maí 2009 – 10:32 Hermann Guðmundsson

Ein best heppnaða viðskiptasaga síðustu aldar er án efa saga Berkshire Hathaway.

Þetta félag sem hóf rekstur sinn sem vefnaðarvöruframleiðandi en er í dag risavaxin samsteypa iðnfyrirtækja, tryggingafélaga og fjárfestingastarfsemi.

Stefna og gildi þessarar samsteypu eru samgróin forstjóranum og og stærsta hluthafanum Warren Buffett.

Hvað er það öðru fremur sem hefur gert það að verkum að velgengni félagsins er með slíkum ólíkindum sem raun ber vitni.

Sá sem var svo framsýnn að kaupa hlutabréf að verðmæti 5.000 USD árið 1964 á í dag hlut að verðmæti 18.2 milljónir USD. Uppsöfnuð ávöxtun þessa hlutafjár hefur verið 364.000% á þessum 45 árum en til samanburðar hefur hækkun SP500 vísitölu verið 4.276% á þesus sama tímabili. Þessi velgengni er með ólíkindum og nánast útilokað að hún verði endurtekin eða hún að hún endist til eilífðar.

Það er ekki eitthvað eitt sem getur tryggt slíka velgengni heldur mikið frekar uppsöfnuð áhrif góðra ákvarðana, kjarkur, þolinmæði, sterk grunngildi og mikið traust sem byggt hefur verið upp á mörgum árum. Hvað er það samt sem Warren gerir öðru vísi en aðrir fjárfestar? Það er ansi margt og verður ekki allt talið upp hér, ég nefni samt nokkur atriði sem ég tel sjálfur að skipti gríðarlegu máli, horft til áratuga:

•    Þegar fyrirtæki eru keypt að fullu þá er það aldrei með það í huga að selja það aftur. Aðeins eru keypt fyrirtæki sem skara framúr í sinni grein og mikið lagt í að halda stjórnendum áfram í starfi. Stjórnendur og starfsmenn vita að þeir eru í traustri höfn.

•    Aðeins eru keypt fyrirtæki sem uppfylla þá kröfu að vera betri eign en reiðufé. Í sjálfu sér þá snýst fjárfesting um að leggja fram fé í dag til að fá meira fé til baka síðar. Það fé sem á að koma til baka í fjárfestingum Berkshire verður að koma úr sjóðsstreymi (rekstrarafgangi) sem arður því að Berkshire selur aldrei félagið aftur og heldur ekki eigur þess sem nýtast rekstrinum.

•    Eingöngu er horft til atvinnugreina sem Warren telur að verði til staðar til langrar framtíðar og aldrei er fjárfest í atvinnugreinum sem ekki eiga langa sögu. Warren telur sig ekki geta sagt til um arðsemi í atvinnugreinum sem eru að slíta barnskónum og mikil óvissa ríkir um hverjir eða hvaða tækni muni ná forystu.

•    Stjórnendur þeirra fyrirtækja sem keypt eru hafa allir langa og farsæla rekstrarsögu að baki. Þeir vita allir að þótt að það komi kreppa (eins og núna) þá er þeim ekki gert að rústa fyrirtækjunum með því að reka fjölda verðmætra starfsmanna eða loka og selja verksmiðjum. Öryggið sem þeir búa við er að þeir reka skuldlaus eða skuldlítil fyrirtæki, þeir eru með eiganda sem að veit af langri reynslu að það koma slæm og góð ár til skiptis og það er engin pressa frá eigendum um að búa til skammtíma hagnað til að þóknast markaðnum á kostnað langtíma arðsemi. Báðir aðilar vita að arðsamur rekstur byggist upp á áratugum en honum er auðveldlega fórnað á 2-3 árum með slæmum ákvörðunum. Kreppa er tækifæri til að auka markaðshlutdeild þegar aðrir gefa eftir á markaði.

Sá hluti starfsemi Berkshire sem að hefur hvað mest áhrif er tryggingahlutinn. Þeirra sérgrein eru endurtryggingar og þá helst risavaxnar áhættur sem aðrir hafa tæpast efni á að fá í fangið.

Sem dæmi má nefna að þegar turnarnir í New York féllu auk mikilla skemmda á öðrum byggingum þá varð Berkshire fyrir gríðarlegu tjóni.

Vegna styrks félagsins þá varð þetta viðskiptatækifæri. Berkshire greiddi 2.7 milljarða USD (330 milljarða króna) strax og búið var að meta þeirra hlut í tjóninu. Þetta var ekki nema 5% af lausafé félagsins.

Daginn eftir hækkaði Berkshire sína gjaldskrá fyrir tryggingar á sambærilegum tjónum um 25%. Viðskiptin meira en tvöfölduðust þrátt fyrir þetta þar sem 4 önnur tryggingafélög urðu gjaldþrota vegna þeirra bóta sem þau þurftu að greiða.

Tryggingatakar áttuðu sig á því að ódýr iðgjöld hjá tryggingafélagi sem ekki gat greitt var of hátt iðgjald.

Einn lykilþáttur í velgengni Berkshire er eins og áður sagði tryggingahlutinn. Vegna þess að tryggingastarfsemin skilar að jafnaði hagnaði (að frádregnum bótaagreiðslum) þá er Berkshire í raun með gríðarlega sjóði (bótasjóði) sem kostar félagið minna en 0% í vexti. Þetta fjármagn er síðan nýtt til að kaupa arðsamar eignir sem aftur eykur verðmæti hlutafjár í Berkshire.

Grunnurinn að öllu er sá að aldrei er keypt eign sem ekki hefur annað hvort mikið og traust sjóðsstreymi eða að innra virði eignarinnar er þannig að tryggt er að það muni hækka þegar horft er til áratuga. Grunnurinn að því að geta beðið eftir hækkun, er að skulda lítið og hafa fjármagn sem kostar minna en 0% vexti.

Fræg er sagan af því þegar Berkshire keypti ráðandi hlut í fjárfestingabankanum Salomon Brothers sem síðar varð Citigroup Global Markets. Starfsmaður félagsins hafði beitt ólöglegum aðferðum til að hagnast á kaupum og sölu á bandarískum ríkiskuldabréfum. Félagið var lögsótt umsvifalaust af bandarískum yfirvöldum, Warren rak forstjórann og tók við rekstrinum í nokkra mánuði. Það sem mesta athygli vakti á meðan hann barðist fyrir lífi félagsins var að hann sagði á opnum yfirheyrslufundi fyrir þingnefnd eftirfarandi:

Starfsmaður minn sem vegna mistaka veldur fjárhagslegu tjóni á allan minn stuðning en starfsmaður sem með aðgerðum sínum tapar trúverðugleika félagsins hlýtur enga miskunn.

Eitt af því sem við íslendingar getum haft í huga, er sú skoðun Warren að ekkert í heimi fjárfestinga hafi farið verr með gott fólk en lántaka til kaupa á skráðum hlutabréfum.

Hann trúir því að hluthafar eigi að kaupa hlutabréf fyrir eigið fé eingöngu til að hagir þeirra raskist ekki þegar sveiflur á mörkuðum ríða yfir. Sveiflur á fjármálamörkuðum hafa alltaf verið til staðar og verða það áfram, skuldlaus fjárfestir bíður einfaldlega og jafnvel kaupir til viðbótar hlutabréf á lágu verði. Þannig verður tjón hagkerfa lágmarkað og öfgafullum hækkunum og lækkunum (þvinguð sala) hlutabréfa líklega afstýrt.

Að lokum er rétt að nefna að nánasti samverkamaður Warren hefur um langa hríð verið Charlie Munger (85 ára), Charlie er lærður lögmaður og er um margt enn íhaldsamari en Warren í mörgum málum en um leið kjarkaðri þegar kemur að því setja út risastórar fjárhæðir í einstök verkefni. Warren segir reglulega að hann hafi sjálfur á sínum ferli gert ótal mistök sem hafa kostað hlutahafa Berkshire mikið fé en að Charlie hafi ávalt fyrirgefið honum á endanum.

Berkshire hefur á síðustu 12 mánuðum fjárfest fyrir um 25 milljarða USD ( 3.100 milljarða króna) með það fyrir augum að hagnast á hinum miklu verðlækkunum á markaði og að auki að tryggja sér stórar arðgreiðslur frá traustum fyrirtækjum. Á aðalfundi Berkshire þann 2. maí sl., sem ég sótti ásamt fleiri Íslendingum,  sagði Warren að honum og Charlie liði eins og 2 moskítóflugum á nektarströnd, það væru tækifæri alls staðar.

Þess má geta að Warren hefur þegar gefið 95% af eigum sínum til góðgerðasamtaka.

Leave a comment