Þegar Samfylkingin var stofnuð var talað um að hún ætti að sameina fólk á vinstri vængnum til þess að keppa við Sjálfstæðisflokkinn um forystu í íslenskum stjórnmálum. Það var mikill hugur í þeim sem stóðu að þessari stofnun þrátt fyrir að hluti Kvennalistans og Alþýðubandalagsins hafi ekki viljað feta þess slóð.
Þetta nýja afl bauð fyrst fram í kosningunum 1999 og fékk þá rúm 44 þús. atkvæði og tæp 27% fylgi. Talsmaður hreyfingarinnar í þessum fyrstu kosningum var Margrét Frímannsdóttir.
Næstu kosningar árið 2003 voru sögulegar að því leyti að þá fékk Samfylkingin 56,700 atkvæði og 31% fylgi. Þessu fylgdu 20 þingsæti, formaðurinn Össur Skarphéðinsson leiddi þennan mikla kosningasigur.
Síðan að þessi tímamót urðu í íslenskri pólitík hefur leiðin frekar legið niðurávið þegar frá eru taldar kosningarnar 2009 þegar þjóðfélagið stóð allt á brauðfótum og enginn vissi hvað myndi taka við.
Ég var einn af þeim sem batt vonir við að skörungurinn Jóhanna Sigurðardóttir myndi berjast eins og ljón fyrir hagsmunum íslenskra heimila og þá ekki síst þeirra sem verst stóðu.
Það gekk ekki eftir og á endanum þurfti afl Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins til þess að hrinda atlögu erlendra vogunarsjóða að íslenskum hagsmunum. Það varð til þess að staða íslendinga batnaði svo að fáar þjóðir stóðu okkur framar í efnahagslegu tilliti.
Í kosningum 2016 mátti minnstu muna að þessi flokkur sem átti að verða stærsta aflið á vinstri vængnum félli útaf þingi þegar hann fékk aðeins tæp 11 þús. atkvæði sem dugði í 5.7% fylgi.
Þá leiddi Oddný Harðardóttir flokkinn en hafði ekki neitt það að bjóða sem kjósendur voru að leita að.
Þarna náðu aðeins 3 þingmenn kjöri inná þing sem er minnkun um 85% frá því sem mest var. Í síðustu kosningum tvöfaldaðist fylgið og hann fékk rúm 12% atkvæða. Það er langur vegur frá þeirri sýn sem skilaði þeim 31% atkvæðamagni á árum áður og stefnumarkandi stöðu í íslenskum stjórnmálum.
Það vekur athygli að flestir þeir sem voru burðarásar í Samfylkingunni á síðasta áratug eru hættir afskiptum af stjórnmálum og draga ekki lengur vagninn. Lítil vigt virðist í stefnumálunum og þegar heimasíðan er skoðuð er helst talað um 3 atriði: sjálfbærni, frið og jöfnuð.
Ekkert land er með meiri sjálfbærni en Ísland þegar kemur að nýtingu auðlinda og orkubúskap.
Ekkert land mælist með meiri jöfnuð í efnahagslegu tilliti þegar horft er til dreifingu launatekna.
Ekkert land hefur oftar verið mælt sem friðsælasta land heims en einmitt Ísland.
Ekkert land mælist hærra í jafnrétti kynjanna.
Frægasta stefnumálið hefur löngum verið aðild að ESB, þar hefur meirihluti þjóðarinna verið ósammála Samfylkingunni og þess vegna hefur það mál ekki dugað til að bera uppi fylgið og þá sérstaklega eftir að Viðreisn bættist við flóruna.
Orðræða formannsins snýst að mestu um að brýnast sé að taka fé frá einum og færa það öðrum til að jafn kjörin niðurávið.
Því er eðlilegt að spyrja hvort að Samfylkingin eigi nokkuð erindi við þjóðina þegar baráttumálin eru þegar uppfyllt. Það væru hæg heimatökin fyrir ESB sinnaða flokksmenn að finna sér farveg í Viðreisn og þá sem eru lengra til vinstri að sameinast VG.
Það heyrðist um daginn að stór hluti Samfylkingarfólks vildi helst Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra, það er hugsanlega merki um að hugurinn er farinn hálfa leið.
