Eftir ansi langan feril í atvinnurekstri hef ég gert mér ljóst hversu inngróinn óttinn við breytingar er hjá mörgu fólki. Allt sem kallar á breytingar eða breytta hegðun mætir andstöðu og gagnrýni.
Þingmenn í of miklu mæli eru bugaðir af óttanum við breytingar og virðast trúa því að fólki sé almennt ekki treystandi til að lifa lífi sínu eða höndla freistingar.
Tökum nokkur dæmi sem allir þekkja:
- Áfengi fæst ekki keypt nema í Vínbúðum Ríkisins og hjá 300 einkaaðilum í veitingarekstri. Hvorki almennar verslanir né sérverslanir mega afgreiða áfenga drykki til þeirra sem þess óska.
- Ekki má selja magnyl og önnur hættulaus lyf til okkar nema með leyfi lyfjafræðings og afgreiðslufólki í hvítum sloppi. Þetta væri kjörin vara til að vera með í netverslun og matvöruverslunum.
- Músaeitur sem er nánast hættulaust öllum stærri dýrum má ekki selja öðrum en þeim sem setið hafa námskeið hjá Ríkisstarfsmanni og geta kallað sig meindýraeyða. Í Evrópu og Bandaríkjunum er þetta selt í neytendapakkningum í almennum búðum.
- Í flestum löndum er leyft að selja einföld og ódýr mótefnapróf við Covid í almennum verslunum eða á netinu. Hér á landi er bannað að selja slíka vöru.
Þetta eru bara nokkur augljós dæmi um það hversu gamaldags og kjarklaus við erum þegar kemur að því að stíga skref sem létta fólki lífið. Öll þessi þjónusta er afar vinsæl hjá íslendingum á meðan þeir eru erlendis í fríi en svo breytast þeir í óttaslegna innipúka þegar þeir koma heim aftur.
Allir þekkja stæðurnar af verkjatöflum og flensutöflum sem íslendingar taka með sér heim frá Bandaríkjunum. Þetta heitir tvöfalt siðgæði eða frelsisblinda.
Ekkert af þessum málum eru forgangsmál í öðrum skilningi en þeim að okkur þarf að miða í átt að meira frelsi fólki og fyrirtækjum til handa. Það hefur ekki gerst.
Öll þekkjum við málefni heilbrigðismála, til mín kom maður um daginn og sagðist vera búinn að bíða í 6 mánuði eftir liðskiptum og eftir því sem Landspítalinn sagði honum þá væru 7 – 9 mánuðir þar til að hann kæmist að.
Þessi maður er auðvitað búinn að bóka sig inná Klínikina í Ármúla og hann fær þar sín liðskipti eftir 4 vikur. Auðvitað ætti sá kostnaður sem hann tekur á sig að vera að fullu frádráttarbær frá skatti enda er honum í raun neitað um þjónustu sem hann hefur þegar greitt fyrir með sínum skattgreiðslum til áratuga.
Það er formlega búið að stofna tvöfalt heilbrigðiskerfi sem enginn bað um.
Er fólki ekki treystandi fyrir eigin ákvörðunum í heilbrigðismálum, viðbrögð almennings á Covid tímum segir mér að allur þorri fólks er traustsins verður.
