Nú hefur síðustu 10 árin verið rætt af mikilli ákefð um stöðu RÚV, stöðu á auglýsingamarkaði og samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla. Öll þessi umræða hefur ekki skilað sér í stefnumótun og skýrum leikreglum á markaði fyrir fjölmiðla.
Það er ljóst að stjórnmálin munu aldrei ná saman um stefnuna, slík er gjáin á milli flokka um þennan málaflokk. Á meðan verðum við einfaldlega föst á hringtorgi stefnuleysis.
Það liggur fyrir að ef RÚV lendir í fjárhagsvanda þá borga á endanum skattgreiðendur fyrir allan þann kostnað sem yfirstjórn RÚV hefur samþykkt. Á einkareknum miðlum þá annað hvort tapa hluthafar, starfsmenn eða birgjar þegar fjárhagsvandi myndast, ef illa fer þá tapa allir þessir hagaðilar. Þess vegna þarf jafnari leikreglur á markaði.
Þegar ég skoða margar af þeim greinum sem um þetta mál hefur verið ritað þá koma fram margar skoðanir og misjafnar.
Ein skoðun var á þá leið að RÚV ætti að efla verulega til þess að geta keppt við Facebook og Google á auglýsingamarkaði. Grunnurinn að þeirri skoðun var að sú að erlendar efnisveitur myndu á endanum ná til sín stærri hluta þess auglýsingafjár sem nú fer til RÚV yrði þeirri stofnun bannað að taka við þeim kynningum sem þeim er boðið.
Sem sagt að þeim fjármunir sem íslensk fyrirtæki ráðstafa í sín kynningarmál væru líklega að fara frekar til miðla sem ráða yfir farsímunum og tölvuskjá en ekki sjónvarpstækjum.
Það er án vafa innistæða fyrir þessari hugsun enda er skjátími fólks í símanum alveg með eindæmum.
Önnur útbreidd skoðun er að RÚV beri að víkja af auglýsingamarkaði auk þess að RÚV verði bannað að sækja fé í samkeppnissjóði eða framleiða efni með kostendum. Stjórnmálin myndu einfaldlega bera fulla ábyrgð á RÚV með þeim fjármunum sem stofnunin fær á hverjum tíma.
Þannig væri tryggt fullt frelsi fyrir einkarekna miðla til að bítast um auglýsendur, kostendur og framleiðslustyrki til innlendrar dagskrárgerðar. Það væri næstum því hægt að segja að þetta væri heilbrigt samkeppnis umhverfi.
Á hátíðarstundum er tekið undir seinna sjónarmiðið af hagsmunaaðilum atvinnulífsins.
Það sem þá er órætt er sú staðreynd að stjórnendur í atvinnulífinu sem segjast styðja einkaframtakið og að prinsippið sé að einkarekstur muni á endanum skapa meiri verðmæti en ríkisrekstur gera ekkert í verki til þess að styðja við einkarekna miðla.
Sjálfur tók ég ákvörðun fyrir nokkrum árum um að nýta eingöngu einkarekna miðla og nýta mér ekki fjölmörg góð tilboð frá auglýsingadeild RÚV. Það var ekki vegna þess að kaupin hjá hinum miðlunum væru endilega árangursríkari leið til að ná til neytenda heldur eingöngu til þess að halda í prinsippið um einkaframtakið.
Sjálfur myndi ég ekki vilja standa í þeirri samkeppni við ríkisstofnun sem einkareknum miðlum er boðið uppá.
Við kollega mína í atvinnulífinu segir ég því, hættið að suða í stjórnmálamönnum og sýnið ábyrgð í verki með því að hætta kaupum á auglýsingum hjá RÚV og finnið aðrar leiðir til að tala við neytendur. Að öðrum kosti eru allar þessar hátíðarræður innihaldslausar.
