Robert Bosch

Hann fæddist í Albeck 23 september 1861 og eru því rétt 160 ár frá fæðingu hans. Hann lést 80 árs gamall í mars 1942. Hann var 11 í röðinni af 12 systkinum.

Faðir hans var menntaður, hann var frímúrari og rak stórt bóndabýli. Hans skoðun var sú að menntun væri mikilvæg og lagði áherslu á að börnin gengju menntaveginn.

Robert Bosch gekk menntaveginn, hann fór í iðnskóla og síðan á samning sem nemi í vélfræði. Að námi loknu starfaði hann í nokkrum fyrirtækjum í Þýskalandi og þaðan fór hann til New York og starfaði fyrir Thomas Edison raftæknifyrirtækið. Síðar flutti hann til Bretlands og starfaði fyrir þýska fyrirtækið Siemens.

Þegar hann varð 25 ára gamall (1886) ákvað hann að opna sitt eigið vélaverkstæði í Stuttgart. Fyrsta stóra tækifærið kom upp úr því þegar hann endurbætti kveikjukerfi sem Deutz fyrirtækið hafði sett á markað og hannað það fyrir bílvélar fyrstur manna. Það gerbreytti möguleikum bifreiða til að ferðast um langan veg.

Síðar fann verkfræðingurinn Gottlob Honold upp fyrsta háspennukertið á rannsóknarstofu Bosch sem aftur gerði sprengihreyfilinn að hagstæðasta valkosti bílaframleiðenda.

Robert Bosch var metnaðarfullur atvinnurekandi og á fáum árum var hann búinn að opna söluskrifstofur í Bretlandi, Bandaríkjunum, Asíu og Afríku. Hann opnaði fyrstu verksmiðjuna utan Þýskalands 1906 og árið 1913 var 88% af sölu félagsins utan Þýskalands.

Robert hafði alla tíð skýra sýn á það hvernig fyrirtæki ætti að bæta sitt samfélag. Honum var umhugað um að bjóða sem flestum ungum mönnum nemasamning til að þeir gætu menntað sig og bætt kjör sín. Allar tekjur sem Bosch samsteypan hafði af samningum við herinn í Þýskalandi í fyrri heimstyrjöldinni gaf hann til góðgerðamála.

Hann var fyrstur til að taka upp 8 klst vinnudag og bauð starfsfólki upp á góða vinnuaðstöðu. Stærsta breytingin var síðan þegar hann gaf Stuttgart borginni nýjan spítala 1940 gegn því skilyrði að starfsmenn Bosch samsteypunnar fengu forgang að læknisþjónustu þegar mikið lægi við.

Árið 1937 breytti Robert Bosch rekstrarformi félagsins yfir í lokað hlutafélag og lét skrifa ýmis skilyrði um reksturinn sem enn eru í fullu gildi. Þessi samsteypa er í dag stærsta fyrirtæki heims í einkaeigu með yfir 400.000 starfsmenn um allan heim. Félagið má aldrei skrá á markað eða selja, hluti hagnaðar fer ávallt til góðgerðamála, hluti veltu fer ávallt til rannsóknar og þróunar án tillits til afkomu.

Enn þann dag í dag er framleiðsla og sala á bílhlutum og tengdum vörum 60% af veltu samstæðunnar. Velta félagsins 2019 var 11.700 milljarðar króna og hagnaður eftir skatt var um 150 milljarðar króna.

Stjórnkerfi félagsins er óvenjulegt og það var sett upp 1937 eftir fyrirskrift Robert Bosch. Fjölskyldan á öll hlutabréfin í félaginu í gegnum eignarhaldsfélag en það félag hefur engan atkvæðisrétt. Stærsti hluti hagnaðar gengur til þess félags sem aftur styður mörg góðagerðarmál um allan heim.

Annað eignarhaldsfélag heldur á öllum atkvæðum hlutafjár og stjórn þess er ávallt skipuð stjórnendum samstæðunnar, utanaðkomandi forstjórum og örfáum fulltrúm fjölskyldunnar. Þetta fyrirkomulag er ætlað að tryggja að allar ákvarðanir um fjárfestingar og þróun eru teknar með hagsmuni félagsins eins að leiðarljósi en ekki tekið tillit til sjónarmiða erfingja og afkomenda.

Sjálfur hef ég verið í viðskiptum við þetta fyrirtæki í 20 ár og get vottað að samstæðan er rekin með aðra sýn á hlutina en flest önnur félög.

Ég man eftir atviki þar sem yfirmaður Bosch í Danmörku fékk kransæðastíflu fyrir nokkrum árum, honum var sagt að vera heima í 6 mánuði á meðan beðið væri eftir þræðingu. Degi síðar kom þota frá Stuttgart og sótti manninn, hann fékk þræðingu á Bosch spítalanum og var kominn til vinnu nokkrum dögum síðar.

Robert Bosch var ekki minni frumkvöðull en Steve Jobs eða Elon Musk.

Nokkur gullkorn frá Robert Bosch:

I would rather lose money than trust.

I don´t pay good wages because I have a lot of money, I have a lot of money because I pay good wages.

None of us should ever be satisfied with what has been achieved, but should always endeavor to do better.

Leave a comment