Að gefnu tilefni um N1

01. nóv. 2012 – 16:01 Hermann Guðmundsson

Að undanförnu hefur málefni N1 og móðurfélags þess, BNT, borið á góma í opinberri umræðu. Fyrst eru gefnar forsendur sem enga skoðun standast og svo dregnar af þeim glórulausar ályktanir. Þegar vel er að gáð býr ávallt að baki einhver hvati, nú síðast að slá pólitískar keilur. Allt er þetta frekar ósmekklegt.

Þar sem ég var forstjóri þeirra félaga sem um ræðir er mér bæði ljúft og skylt að benda á nokkrar staðreyndir varðandi kaup Olíufélagsins (nú N1) og fjárhagslega endurskipulagningu þess eftir efnahagshrunið.

1. Þeir hluthafar sem keyptu Olíufélagið (N1) reiddu fram 10,2 milljarða í hlutafé. Allt tal um að félagið hafi alfarið verið keypt á grundvelli forréttindaaðgangs að lánsfé er út í hött.

2. Á árinu 2007 færði félagið stóran hluta lánsviðskipta frá Glitni til Kaupþings eftir að hagstæðara tilboð um fjármögnun barst. Hugmyndir um forréttindakjör hjá Glitni eru því algjörlega úr lausu lofti gripnar.

3. Fjölmargir aðilar tóku þátt í 5 milljarða skuldabréfaútboði til fjármögnunar á félaginu eftir kaupin sem sýnir að forsendur kaupanna og efnahagslegur styrkur frá byrjun þótti ágætur. N1 tók engin önnur langtímalán fram að fjárhagslegri endurskipulagningu.

4. Hluthafar greiddu sér aldrei arð.

5. Skuldir félagsins jukust mest á árinu 2008 þegar olíuverð sló öll met og fjármagna þurfti með skammtímalánum aukna fjárbindingu.

6. Frá kaupum félagsins fram að endurskipulagningu skulda varð gengisfall íslensku krónunnar um 60% og verðbólga rúmlega 30%. Vextir fóru hæst yfir 20% á sama tíma.

7. Félögin stóðu í skilum við alla lánardrottna þar til að samningar hófust um fjárhagslega endurskipulagningu. Frá hruninu árið 2008 og til 2011 greiddi félagið 6 milljarða í vexti og afborganir.

8. Við fjárhagslega endurskipulagningu töpuðu hluthafar öllu hlutafé sínu, 10,2 milljörðum.

9. Kröfuhafar eignuðust fyrirtækið að fullu.

10. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu var eigið fé N1 um 14 milljarðar og má áætla að heildarvirði félagsins sé rúmir 20 milljarðar. Tíminn mun leiða það betur í ljós.

Þær aðstæður sem urðu á Íslandi eru nú kennsluefni í háskólum víða um heim þar sem slíkar hamfarir hafa tæpast sést áður. Að kalla þá braskara sem hættu eigin fé til kaupa á traustum rekstrarfyrirtækjum með verulegu eiginfjárframlagi en lentu síðar í fellibyl hamfaranna dæmir sig sjálft.

Við þessar aðstæður lentu flest íslensk fyrirtæki í miklum vanda og það eru viðbrögðin við þeim, þ.m.t. samskiptin við kröfuhafa, sem að mínu áliti munu á endanum ráða mestu um trúverðugleika fyrri hluthafa, stjórnarmanna og stjórnenda. Dómi sögunnar í þeim efnum þarf enginn sem tengdist stjórn eða rekstri N1 á umræddu tímabili að kvíða.

Skínandi falleg hrúga!

mar. 2011 – 20:00 Hermann Guðmundsson

Mikil umræða geysar nú á Íslandi um framtíðar peningamálastefnu og hvort krónan okkar sé ónýt eða ekki. Enginn skortur er á sérfræðingum um þetta efni og rökin með og á móti gjaldmiðlinum eru flestum orðin vel kunn.

Mikið minni umræða er hins vegar um það sem meira máli skiptir og það er stefna okkar í hagstjórn og markmiðasetningu um fjölbreytt atvinnulíf.

Krónan er í eðli sínu eins og hlutabréf, hún er pappír sem inniheldur greiðsluloforð og hlutdeild í framleiðslu þjóðarinnar, allt annað tal er eingöngu umbúðir utan um það sem máli skiptir.

Ég ætla því ekki að þvælast um akra orðræðunnar um peningamálastefnu, hún verður afleiðing af því sem máli skiptir.

Ef við hugleiðum örstutt myntir heimsins almennt og metum verðmæti þeirra horft fram á veginn, er alveg víst að flestar myntir búa við meiri óvissu en sú íslenska.

Bandaríkjadalur sem er langstærsta mynt veraldar með um 60% af veltunni rambar á barmi óvissunar vegna gríðarlegra skulda þjóðarbússins og það sem enn verra er:

Viðskiptahalla sem er óbærilegur og taprekstri ríkissjóðs, fylkja og sveitarfélaga. Það er öllum ljóst sem vilja að skuldadagar nálgast hratt og eina leiðin er að verðfella myntina enda er hún ekki að sýna framá raunvirði til lengri tíma litið. Það fer t.d. ekki hátt í umræðunni um hina vonlausu krónu að 1 bandaríkjadollar er í dag aðeins 1/16 af því verðmæti sem hann hafði fyrir 80 árum síðan. Allar myntir missa verðgildi til lengri tíma litið, það er óumflýjanlegt en hraðinn skiptir máli.

Evran stendur enn mun traustari fótum en bandaríska myntin en það eru samt komnar fram vísbendingar um að verðmæti hennar fáist ekki staðist í núverandi hæðum þar sem sú verðmætasköpun sem að baki hennar er byggir á of fáum og það sem verra er þeim fer fækkandi.

Ekki má heldur horfa framhjá því að skuldir Evruþjóðanna eftir heimskreppuna hafa magnast upp og grafa enn undan virði myntarinnar. Ég spái því að þau lífsgæði sem Evrópubúar töldu sig eiga vís næstu 10 – 20 árin munu rýrna í takt við vaxandi útgjöld þjóðanna til heilbrigðis og tryggingamála sem vaxa mun hraðar en þjóðartekjur.

Þessi jafna mun leita jafnvægis með skerðingum og verðfellingu myntarinnar.

Þetta ferli tekur hins vegar langan tíma og verður brokkgengt.

Sú mynt sem til næstu framtíðar er án efa verðmætust og líklegust til að eflast mjög á kostnað hinna tveggja stóru er kínverska RMB. Kínverjar hafa til nokkuð margra ára verið að byggja upp nútímaborgir af gríðarlegum myndarskap. Geysistórt vegakerfi með hraðbrautum og vegstyttingum hefur verið byggt nánast frá grunni, það eykur verulega  framleiðni og auðveldar flutninga á verðmætum og vinnuafli á sama tíma og uppbygging á járnbrautum hefur líka verið stórbrotin.

Samgöngur í lofti eru orðnar mjög greiðar og óvíða eru fleiri nýjar þotur af bestu gerð að sinna almennu farþegarflugi. Allt þetta hafa Kínverjar getað gert á sama tíma og þeir hafa safnað upp mesta gjaldeyrisvarasjóði sögunnar. Peningaráð Kínverja eru margföld á við olíuríkin eða þau önnur fáu lönd sem eru lánveitendur heimsins til skuldugra þjóða. Þessi mikli varasjóður er síðan sjálfbær vegna allra þeirra vaxtatekna sem hann myndar, þeir vextir eru útflutningstekjur þeirra þjóða sem fá lánin. Þannig deila þær þjóðir sínum tekjum með þeirri þjóð sem mestum afgangi allra skilar af vöruskiptum.

Þetta er draumastaða fyrir Kínverja og er árangur áratuga erfiðis og skipulagðrar atvinnustefnu.

Aftur hingað heim. Ef við íslendingar ætlum okkur að halda áfram að bæta lífskjörin eins og við höfum gert af svo miklum þrótti síðustu 60 árin er aðein ein leið til þess og hún er sú að framleiða okkur út úr vandanum og flytja hann út í formi vöru og þjónustu.

Vegna þess mikla afgangs sem við njótum af vöruskiptum  nú þá hefur kreppan ekki orðið verri en raun ber vitni, vandinn er hins vegar sá að við skuldum of mikið af erlendum lánum og það sogar útflutningstekjur okkar út úr hagkerfinu og í önnur hagkerfi. Þessu þarf að snúa við sem allra fyrst og aftur er lausnin einföld, við þurfum að framleiða meira af vörum og þjónustu til að flytja út í skiptum fyrir erlendar myntir sem við verðum að nota til uppgreiðslu lána en ekki til að framkvæma innanlands.

Það vantar matreiðslumeistarann

Hinn aldni meistari Warren Buffett var spurður að því fyrir fáum dögum hvernig stæði á því að hann væri ekki þátttakandi í kaupum og sölum á hrávörum eins og olíu, korni, bómull og málmum. Hann var ekki lengi til svars og sagði að bragði að ástæðan væri sú að hann vissi ekkert hvert verðmæti hennar væri og hvert það yrði síðar, síðan tók hann dæmi sem er minnisstætt:

„ Ef öllu gulli heimsins væri safnað saman á einn stað þá myndar það stafla sem er ca. 23 mt hvern kant . Allt þetta gull er að verðmæti 7 trillion usd í dag eða u.þ.b. hálf þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna. Fyrir sömu upphæð væri hægt að kaupa þriðjung af öllum fyrirtækjum í Bandaríkjunum eða allt ræktanlegt land frá New York til Los Angeles. Þótt að það geti verið gaman að eiga svo stóra skínandi fallega hrúgu af málmi þá mundi ég velja annað hvort fyrirtækin eða ræktunarlandið. Ástæður er tvær, gull framleiðir engin verðmæti og hin ástæðan er sú að eina ástæðan fyrir því að einhver myndi vilja borga meira fyrir gull á morgun en greitt var í gær er hræðsla.“

Umræðan á íslandi er um of drifin áfram af hræðslu, hræðslan um að við séum ekki nógu gáfuð eða úrræðagóð til að skapa góð lífskjör, við séum vanmáttug gegn afli alþjóðaviðskipta og á endanum fari allt til fjandans. Að mínu mati þá er þessi ótti ekki ástæðulaus en hann er ekki byggður á góðum líkum.Ég tel líka vafasamt að lausn á okkar vanda felist í því að nota annara manna fé í stað þess að framleiða okkar eigið eða eins og segir í máltækinu „ you can´t borrow your way out of debt“.

Það stendur einhvers staðar skrifað að þú gerir ekki góðan mat nema úr góðu hráefni og það gildir það sama í efnahagsmálum. Án verðmætasköpunar verður ekkert byggt upp og lífskjör versna, í samanburði við marga þá stöndum við enn mjög vel og í flestu þá erum við með frábært hráefni en það vantar alveg matreiðslumeistarann.

Verða Bandaríkin gjaldþrota?

22. júl. 2009 – 16:55 Hermann Guðmundsson

Nú þegar umræðan á Íslandi snýst um það hvort að við séum að stefna ríkissjóði í þrot með því að takast á hendur skuldbindingar vegna innlána Landsbankans er ekki úr vegi að skoða stöðu annara þjóða.

Stærsta hagkerfi heimsins er í Bandaríkjunum eins og flestir vita.

Talið er að hagkerfi heimsins sé u.þ.b. 47 billjón (trillion) USD að stærð og að hagkerfi Bandaríkjanna sé u.þ.b. 13 billjón (trillion) USD af því eða tæp 30% af hagkerfi heimsins.

Erlendar skuldir BNA voru 4,5% af öllum skuldum heimsins árið 2007 en í dag tveimur árum síðar eru þær orðnar 9%. Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa erlendar skuldir Bandaríkjanna farið úr 17% og uppí 35% á tveimur árum. Það sem verra er, að hvergi sér fyrir endann á þeim halla sem er á vöruskiptajöfnuði þeirra og því er ljóst að skuldasöfnun mun halda áfram á ægihraða enn um sinn.

Þekktur hagfræðingur sagði eitt sitt: „ef að eitthvað getur ekki haldið áfram endalaust þá mun það ekki gera það“.

Með öðrum orðum: Slík skuldasöfnun mun taka enda þar sem það verða engir kaupendur að skuldaviðurkenningum Bandaríkjamanna. Skuldir ríkisins eru nú um 14 billjón USD eða rúmlega 100% af GDP og þar af eru erlendar skuldir ríkissjóðs BNA í lok maí 2009 3.3 billjón USD. Útlit er fyrir að erlendar skuldir BNA hækki um 50% á þessu ári og næsta og vegna gríðarlegs halla á vöruskiptum en ekki síður vegna rekstrarhalla ríkissjóðs. Þegar horft er á það hvaðan skuldir BNA eru fjármagnaðar má sjá nokkrar athygliverðar niðurstöður.

Kínverska alþýðulýðveldið (Kína – Hong Kong – Taiwan) eiga 1 billjón USD í ríkisskuldabréfum eða tæpan þriðjung skuldanna og Japan á 20% af erlendum skuldum BNA. Þetta er að miklu leyti í takti við þann gríðarlega halla sem er á vöruskiptum BNA við þessi lönd. Í maí sl. varð vöruskiptahalli BNA við Kína yfir 17 milljarðar USD á meðan að sami halli var „aðeins“ 4 milljarðar við OPEC þjóðirnar.

Þegar skoðað er ár aftur í tímann má sjá að Bretar, Norðmenn,Mexíkó og Kanada hafa á einu ári minnkað stöðu sína verulega í bandarískum ríkisskuldabréfum á meðan flest allar aðrar þjóðir hafa bætt við sína stöðu og þá ekki síst lönd eins og Kína, Japan, OPEC löndin, Rússland, Ísrael, Luxemburg og Írland. Mikið tal um að USD geti fallið verulega að verðgildi á næstu árum hefur hugsanlega spilað þar hlutverk.

Fyrir fáum vikum síðan kom háttsettur embættismaður úr kínverska stjórnkerfinu til fundar með litlum fyrirvara til New York. Hann hafði óskað eftir óformlegum fundi með Pete Peterson. Hann er fyrrum viðskiptaráðherra og síðar annar stofnandi Blackstone Group og stjórnarformaður Seðlabanka New York.

Erindi kínverska embættismannsins, sem er vel kunnugur Peterson, var að lýsa áhyggjum kínverskra stjórnvalda á því hvernig Bandaríkjastjórn ætlaði að fjármagna 2 billjón USD halla á fjárlögum.

Hann sagði að við (Kínverjar) eigum nú þegar 1.4 billjón USD í eignum og okkur þykir það verulega stór hluti af okkar varaforða. Ef rekstur ríkissjóðs BNA lagast ekki þá er allt eins líklegt að það komi mikil sölupressa á ríkisskuldabréf BNA með tilheyrandi hruni á USD og hækkandi vöxtum.

Þetta er í sjálfu sér ekki aðalfréttin heldur frekar það sem á eftir kom. Að sögn þessa embættismanns verða Kínversk stjórnvöld vegna samdráttar í heiminum að setja gríðarlega fjármuni inní sitt eigið hagkerfi til að viðhalda hagvexti og áframhaldandi uppbyggingu á hagkerfi sínu innanlands sem er á góðri leið með að verða langstærsta hagkerfi heimsins með 6 – 700 milljónir neytenda með yfir 10.000 USD í árslaun sem telst til millistéttar í Kína.

Með öðrum orðum, að sá mikli jákvæði vöruskiptajöfnuður sem Kínverjar njóta í dag verður nýttur til að byggja upp innri markað Kína í stað þess að fjármagna umframeyðslu BNA.

Nú gæti einhver sagt að Bandaríkjamenn búi svo vel að eiga USD sem alþjóðlega mynt og þeir muni einfaldlega prenta meira af seðlum til að greiða sínar skuldir og halda ríkissjóði á floti. Slíkt hefur þegar verið gert í svo miklu mæli að margir hagfræðingar hafa af því verulegar áhyggjur að í uppsiglingu sé tímabil óðaverðbólgu og fleiri vandamála í bandarísku hagkerfi.

Skilaboðin eru kannski þau að það er sama hversu stór og máttug þjóðin er, hún getur lent í skuldavanda. Skuldir eru til þess fallnar að draga kjark og kraft úr einstaklingum og fyrirtækjum, þjóð sem skuldar óheyrilega mikið mun eiga mun erfiðara með halda saman sem samfélag en þjóð sem ekki skuldar mikið.

Það kemur ekkert í staðinn fyrir ábyrga fjármálastjórn og eða hagstjórn.

Alrangur mælikvarði á skuldir ríkisins

15. júl. 2009 – 13:31 Hermann Guðmundsson

Í þeirri umræðu sem nú geisar um skuldir ríkissjóðs annars vegar og skuldir þjóðarbúsins hins vegar er mikið talað um „hlutfall af þjóðarframleiðslu“ og hvort að skuldir séu undir eða yfir einhverjum hlutföllum. Að mínu mati er þessi umræða algerlega á röngum forsendum byggð.

Þjóðarframleiðsla mælir eingöngu umsvifin í hagkerfinu en ekki tekjur sem falla ríkissjóði í skaut. Til að setja þetta í einfaldan búning þá má nefna sem dæmi að þegar umsvif opinberra framkvæmda eykst t.d. með vegagerð þá eykst þjóðarframleiðslan (umsvifin) en um leið aukast útgjöld ríkissjóðs vegna framkvæmdanna og hann verður síður í stakk búinn til að greiða niður skuldir. Með þessari mælingaaðferð þá lækka skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu vegna aukinna umsvifa, en þvert á það sem ætla mætti þá hríðversnar staða ríkissjóðs.

Í heimilisbókhaldi þá mætti líkja þessu við að mæla veltu heimilisins í stað innkomu. Veltan er verðlaus ein og sér, það er eingöngu nettó innkoman sem skiptir máli.

Ég sakna þess mjög að sjá ekki sjóðstreymisáætlun fyrir ríkissjóð í tengslum við þessa umræðu alla. Ég sakna þess líka að þingmenn skuli ekki fara fram á slíka áætlun. Það virðist vera komin af stað keppni um að finna sem hæsta  skuldatölu í stað þess að greina hina raunverulegu nettó stöðu og hvaða aðgerða ríkisvaldið þarf að grípa til svo að greiðslustaða ríkissjóðs verði jákvæð.Það skiptir mestu máli til lengri tíma litið að afgangur verði á fjárlögum til að mæta gjalddögum erlendra skulda.

Mikið hefur verið ritað um að hugsanlega skuldi sjávarútvegsfyrirtækin 3 falda ársveltu greinarinnar.

Er ekki rétt að fá upplýst hversu margföld fjárlög ríkissjóður skuldar í erlendri mynt þegar allar skuldbindingar eru týndar til? Það verður jú aðeins með þeim fjármunum sem við greiðum niður skuldirnar auk þeirra eigna sem til staðar verða þ.e.a.s. gjaldeyrisvarasjóðurinn, fjármálaeignir sem komust í hendur ríkissjóðs og síðan hlutafjáreign í bönkum og sparisjóðum auk annara smærri eigna sem hugsanlegt er að selja.

Það virðist vera gefin forsenda að viðskiptajöfnuður verði jákvæður um allt að 10% út spátímabilið. Það er spá sem gerir ekki ráð fyrir miklum sveiflum í afla eða verði á erlendum hráefnum. Gangi spáin samt eftir þá vantar að svara þeirri spurningu hvort að þessi jákvæði viðskiptajöfnuður dugar til að greiða vexti af erlendum skuldum ríkis og einkaaðila. Ef ekki þá aukast áfram erlendar skuldir þjóðarbússins.

Ítrustu varúðar er þörf nú sem aldrei fyrr.

Framtíðin er björt

09. júl. 2009 – 13:35 Hermann Guðmundsson

Við sem búum í þessu landi erum heppnari en flest annað fólk í heiminum. Þau lífsgæði sem þessi eyja bíður uppá eru öfundsverð.

Við munum aldrei glíma við orkuvandamál, offjölgun, hungursneyð, vatnsskort eða önnur þau vandamál sem gera mörgum löndum framtíðina nánast óbærilega. Þess fyrir utan búum við svo vel að vera með nánast óspillt land og haf.

Við erum með öflugt samfélag þar sem heilbrigði, menntun og mannréttindi eru grunnstoðir sem allir eru sammála um að eigi að verja eins og hægt. Glæpir eru ekki sama vandamál og í stærri samfélögunum og ófriður ógnar ekki landi eða íbúum.

Sá vandi sem að okkur steðjar er skammtímavandi nema við kjósum að gera hann að langtímavanda. Það er mjög áríðandi að hafa í huga orð Próf. Pedro Videlo sem er hagfræðiprófessor við IESE viðskipaháskólann í Barcelona þegar hann sagði: „kreppur koma og fara og það ræðst af stefnu stjórnvalda á hverjum tíma hversu alvarlegar afleiðingar til lengri tíma verða í hagkerfum þjóða“

Í skýrslu Reinhart og Rogoff um fjármálakreppur kemur t.d. fram að ekkert land hefur varið fleiri árum í fjármálakreppu en Noregur frá árinu 1800 að telja.

Í öðru sæti eru Bandaríkin og Bretland í hinu þriðja. Þrátt fyrir áföllin þá eru lífsgæðin í þessum löndum að meginatriðum öfundsverð þótt ekki séu þau fullkomin.Það skiptir okkur Íslendinga öllu máli að hagkerfi landanna í kringum okkur braggist sem fyrst.

Til allrar gæfu þá erum við framleiðsludrifið þjóðfélag sem hefur alla tíð dregið fram lífið á að framleiða verðmæti og selja öðrum. Við erum mjög góð í þessum þætti en mér hefur alltaf þótt skorta mikið uppá markaðshluta þessa starfs. Við eigum að mínu mati ótrúleg tækifæri á erlendri grundu með þær vörur sem við höfum sterka grunnþekkingu á en við þurfum að standa okkur betur í vörumerkjamálum, ímyndarmálum og uppbyggingu markaða.

Það er mikilvægt að muna að árangur stjórnvalda í baráttunni við kreppuna verður mældur. Hann verður mældur í töpuðum störfum, í skuldasöfnun ríkisins, í hagvexti, í því tjóni sem einstaklingar og fyrirtækja verða fyrir vegna verðbólgu og gengisfalls. Það eru því vandasöm þau verkefni sem stjórnvöld hafa með höndum.Það er mikilvægt á svona tímum að allir standi vaktina hver á sínu ábyrgðarsviði.

Atvinnurekendur verða með öllum ráðum að reyna að skapa sem mest verðmæti fyrir þjóðarbúið og stjórnvöld verða að styðja slíkt starf. Launþegahreyfingin verður að standa vörð um réttindi og hagsmuni launafólks og með nýgerðum samningum hefur náðst mikilvægur áfangi í því starfi. Lífeyrissjóðir þurfa að taka markvissan þátt í atvinnulífinu með því að standa að baki þeirri verðmætasköpun sem þjóðin þarf á að halda.

Tíminn er liðinn sem við höfðum til að reyna að átta sig á aðstæðum og tími ákvarðana og framkvæmda er kominn.

Mikið er ritað og rætt um bankakerfið. Ef að bankarnir fá að vinna að langtímalausnum fyrir íslenskt atvinnulíf með hagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi þá kvíði ég engu. Ef að einhver önnur sjónarmið verði látin ráða mun illa fara.Nú er byrjað að tala um að ríkið þurfi að selja bankana sem fyrst. Í prinsippinu þá get ég tekið undir þau sjónarmið en ég set samt fyrirvara á þau áform.

Ef það er eitthvað sem yfirstjórn fjármálakerfa heimsins eru sammála um þá er það sú staðreynd að fjármálastofnanir fengu að verða of stórar. Of stórar stofnanir verða svo mikilvægar fyrir þjóðarhagsmuni að þeim er í raun fyrirmunað að fá að fara í gjaldþrot.

Ben Bernanke seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði í janúar s.l. að bankar sem nálgist það í stærð að vera jafnstórir þjóðarframleiðslu séu í raun og með réttu að vinna á ábyrgð ríkissjóða viðkomandi lands. Slík stofnun sé svo mikilvæg í sínu hagkerfi að hún með réttu fái aldrei að fara í þrot.

Það er því mikið ábyrgðarhlutverk að stýra slíku fyrirtæki þannig að hagsmunum þjóðar sé  ekki stefnt í hættu.Ég tel algerlega ógerlegt að smíða það regluverk sem komi í veg fyrir að ekki þurfi aftur að horfa uppá bankastofnun í vanda í framtíðinni. Allt útlit er fyrir að við verðum með 2 – 3 banka sem verða það stórir að í raun verða þeir á ábyrgð ríkissjóðs ef allt færi á versta veg.

Því er ég þeirrar skoðunar að ríkissjóður eigi að halda á hlut í þessum bönkum til að með beinum hætti sé hægt að tryggja að hagsmunir almennings séu hafðir fremst í röðinni þegar ákvarðanir um stefnu og strauma eru teknar. Ég tel að selja eigi meirihluta hlutafjár til fjárfesta en að skýr kjölfesta sé til staðar í formi almannaeignar. Heppilegt gæti verið að einn banki kæmist í eigu erlendra banka.

Við íslendingar höfum í gegnum tíðina verið afar upptekin af skammtímamálum og í of mörgu vanrækt langtíma stefnumál. Það er í krísum sem kemur í ljós hvort að stefna stjórnenda í fyrirtækjum og stjórnkerfum ber árangur. Ef að markmiðin hafa verið skammtíma þá er ekki von á langtíma árangri.

Hvað sem öllu líður þá trúi ég að framtíðin okkar íslendinga sé öfundsverð og látum engan segja okkur annað, það er ekki þar með sagt að við höfum efni á ótal mistökum.

Græn íslensk stóriðja

17. jún. 2009 – 09:54 Hermann Guðmundsson

Við þurfum sem þjóð að fara að marka okkur atvinnustefnu auk þess að marka okkur framtíðarsýn í mörgum öðrum málum. Það er ekki einfalt mál að sameina þjóð um atvinnustefnu og verður það ekki reynt hér, hins vegar verður gerð tilraun til að leggja eitthvað til málanna.

Þessi þjóð þarf að skapa 4 – 500.000 störf næstu 100 árin ef spár um mannfjölda rætast. Hugsanlegt er að við höfum ekki svona langan tíma heldur muni flykkjast hingað evrópubúar til búsetu vegna þeirra náttúrugæða sem við búum við umfram margar aðrar þjóðir.

Þegar horft er til stórra atvinnugreina, sem er alger nauðsyn þegar hugsað er til langs tíma, er líklegt að störfum í heiminum muni fjölga næstu áratugina í hátækni, fjarskiptum, hugbúnaðargerð, lífeðlisfræði, samgöngum, afþreyingu, raftækjaframleiðslu, textílvörum ofl. 

Margar aðrar atvinnugreinar munu standa í stað eða tapa störfum. Störf tapast bæði vegna tækniþróunar og breytinga í samfélögum. Nýjar lausnir leysa þær eldri af hólmi. Við eigum að marka okkur stefnu og reyna allt til að hagsmunaaðilar sjái sér hag í því að taka þátt í því að hrinda slíkri stefnu í framkvæmd.

Mikilvægt er í svona stóru máli að stefna ekki atvinnumálum þjóðar inn í atvinnuvegi sem eiga ekki ljósa framtíð.  Það þarf líka að byggja á þeirri arfleið sem þjóðin hefur byggt upp. Á meðan maðurinn gengur um jörðina þarf hann fæðu. Það er því mín hugmynd að Ísland marki sér þá stefnu að verða matvælaframleiðsluþjóð í breiðasta skilningu þess orðs.

Við erum nú þegar all stór fiskveiði og fiskvinnsluþjóð en ég tel að við gætum náð árangri horft til langs tíma í flestum matvörum. Að flytja út vatn er einfaldasta mynd þess að flytja út fæðu. Það eitt er ekki mjög arðsöm eða vinnufrek starfsemi.

Vatn má hins vegar flytja út með mörgum mismunandi aðferðum. Það má sjá fyrir sér stórfelldan útflutning á íslenskum bjór, vítamínbættum drykkjum, orkudrykkjum, sterkum drykkjum og öðrum þróuðum drykkjavörum sem búa til virðisauka og kalla á vöruþróun og markaðsetningu á stórum mörkuðum.

Það er hægt að sjá fyrir sér að framleiðsla slíkra vara geti líka verið samstarf við heimsins stærstu fyrirtæki í sölu á drykkjarvörum. Við höfum gnótt hreins vatns og næga orku auk þess sem að gæði verða auðveldlega tryggð með legu landsins. Sá flutningskostnaður sem vara héðan tekur á sig má auðveldlega slétta út með þeirri umgjörð sem slíkum útflutningi yrði búin. Ef að sýkingar eða sóttir herja á aðrar þjóðir má leiða líkum að því að við værum betur stödd hér úti í hafi með hreinar afurðir.

Það ber merki um gæði að íslenskur bjór er með meira en 50% af innlenda markaðnum, það ber líka vott um gæði að innlent sælgæti selst betur en erlent.

Það er styrkur að íslenskur fiskur telst vera gæðavara, það er líka styrkur að íslenskar landbúnaðarvörur hafa selst vel hjá Whole Foods verslunum í Bandaríkjunum.  Mér heyrast flestir á þeirri skoðun að þegar íslenskt grænmeti kemur í verslanir á vorin að þá sé greiðandi hærra verð vegna gæða fyrir það en erlent grænmeti.

Vatn er undirstaða allrar matvælaframleiðslu. Það þarf m.a. 5.000 lítra af vatni til að framleiða 1.kg af hrísgrjónum, við getum því flutt út gríðarlegt magn af vatni án þess að flytja út vatn. Ekki legg ég til að við förum að framleiða hrísgrjón heldur mikið frekar alla þá vöru sem okkur sýnist að geti borið þokkalegan virðisauka. Það er ekki lögmál að Sviss selji osta og súkkulaði um allan heim en við ekki, það er heldur ekki lögmál að Austurríksmenn eigi fyrsta sætið á orkudrykkjamarkaði heimsins en við ekki.

Við búum svo vel að vera ágætlega tæknivædd þjóð. Sem slík gætum við boðið uppá spennandi hluti í samskiptum við erlenda kaupendur. Margir bændur eiga tölfræði yfir allar sínar kýr og halda ýmsar skrár. Við getum rakið uppruna allrar framleiðslu, við getum merkt matvöru með rafrænum merkjum sem gera seljendum leyft að fylgjast með sendingum á sjó og í landi, það er hægt að skrá tíma, hitastig við flutning og geymslu og ótalmargt fleira er hægt að bjóða uppá sem gæðadrifnar lausnir.

Ef við getum reiknað með og jafnvel ákveðið að IKR eigi áfram að vera nálægt 200 stigum þá sýnist mér að íslenskt matvælaverð sé frekar hagstætt og eigi alla möguleika á gæða enda markaðarinns.

Allt er þetta framkvæmanlegt ef  við sem þjóð getum sameinast um langtímamarkmið.

Matvælaframleiðsla í stórum stíl myndi styðja við flutningafyrirtæki, skipafélög og flugfélög, myndi gagnast Marel og markaðsfólki og efla nýsköpun í mannvirkjagerð og orkulausnum fyrir innanhúss ræktun. Við eigum mikið landnæði, við getum byggt upp í öllum fjórðungum og við getum fléttað saman sölu á gæða sjávarafurðum og annari gæða matvöru. Stefnumótun þarf að vinna.

Í Bandaríkjunum er talið að á milli 3 og 4 milljónir starfa hafi verið útvistað til annara landa með beinum hætti af þarlendum fyrirtækjum. Almennt er talið að hvert starf geti af sér 1 – 1,5 starf og því má reikna með að útvistun bandarískra fyrirtækja hafi kostað þjóðarbúið þar allt að 10 milljónir starfa.

 Hugmyndafræðin hefur verið sú að með því að útvista störfum með takmarkaðann virðisauka í skiptum fyrir störf með meiri virðisauka vænkist hagur hluthafa. Lækkað vöruverð auki hag neytenda og til verði þjónustustörf í stað framleiðslustarfa.

Mín skoðun er sú að engin störf séu þess eðlis að þau eigi ekki rétt á sér í okkar samfélagi. Það á að vera kappsmál allra að verja störf og ekki leggja allt kapp á skammtímahagnað á kostnað langtíma hagsmuna samfélaga. Það er ekki tilviljun að þær þjóðir sem nú standa hvað best í atvinnumálum og eru með mestan hagvöxt eru þær sömu og nutu þess að störfin voru flutt til þeirra.

Stöndum vörð um íslenskt atvinnulíf og byggjum á sterkum grunni.

Öll í einum bát

20. maí 2009 – 10:23 Hermann Guðmundsson

Sú staða sem þjóðin er stödd í um þessar mundir er að hluta til heimatilbúin og að hluta til heimskreppa.

Það liggur í augum uppi að sú ákvörðun að byggja upp alþjóðlega banka í landi sem ekki réði yfir lánveitanda til þrautavara umfram innanlandsmarkað var meingölluð. Sú ákvörðun að leyfa slíka uppbyggingu var alveg jafn gölluð.

Nú sitjum við íslendingar í rústum kerfisins og af ráðaleysi þeirra sem valdið hafa er ljóst að svo langt er síðan að stjórnvöld í þessu landi glímdu við bráðavanda að kjarkurinn og kunnáttan er ekki til staðar.

Það er ekki að skiljast með skýrum hætti að bankarnir hrundu yfir þjóðina en það voru ekki atvinnulífið eða heimilin sem hrundu yfir bankana. Það var með vitund og vilja stjórnvalda sem bankarnir fengu að vaxa og síðan að há sitt dauðastríð á kostnað gjaldmiðilsins okkar með hörmulegum afleiðingum.

Núverandi stjórnvöld hafa sagt margoft á fundum að þau vilji ekki fá fyrirtækin í fangið en staðan sé erfið. Það þarf kjark og þor til að glíma við mikin vanda og nú er tíminn til að sýna dug.

Staðan í dag er afar þröng og í þröngri stöðu verður að vinna með skýr markmið að leiðarljósi. Markmið stjórnvalda hljóta að vera þau ein að lágmarka tjón þegnanna horft til lengri tíma. Allt annað er einfaldlega hávaði og truflun á leið að því markmiði.

Ríkisstjórn eru í raun sem hópur framkvæmdastjóra í fyrirtæki sem glímir við risavaxin vanda. Tekjur félagsins hafa hrunið um 20 – 25% og munu ef ekkert verður að gert minnka talvert meira.

Þetta tekjutap er nógu slæmt í sjálfu sér en stóri vandinn sem þessir framkvæmdastjórar horfa framan í er að stór hluti viðskiptavinanna á líka í gríðarlegum fjárhagsvanda og sumir þeirra ætla ekki að versla áfram í heimabyggð heldur flytja sig í annað hagkerfi. Fyrirtæki sem á fjárhagslega veika viðskiptavini verður aldrei sterkt fyrirtæki. Það er því úr vöndu að ráða.

Einn vandinn sem þessir framkvæmdastjórar horfa framan í er að ólíkt öðrum fyrirtækjum í hagkerfinu þá losnar þetta fyrirtæki (ríkið) aldrei alveg við kostnað af vinnuaflinu þótt að uppsagnir séu óumflýjanlegar. Þetta er staðreynd sem þarf að viðurkenna og vinna útfrá. Það skiptir samt máli hvernig á er haldið.

Hættulegasta staðan sem uppi er um þessar mundir er að framkvæmdastjórnin ætlar sér að taka lán í stórum stíl til þess að styðja við hagkerfið. Sú aðferð er ekki ósvipuð því að fá sér yfirdráttarheimild í von um að ekki verði gripið til hennar. Kostnaðurinn getur orðið gríðarlegur og er ekki á bætandi. Hver einasta króna sem við sköpum í gjaldeyri er okkur ómetanleg við þessar aðstæður, þær krónur sem stjórnvöld þurfa til að greiða vexti erlendis verða ekki notaðar í annað.

Sú hugsun sem einnig ræður ferðinni er að nú sé brýnt að hækka skatta. Allir íslendingar hafa þegar tekið á sig yfir 20% kaupmáttarskerðingu vegna lífsnauðsynja og sumir margfalt það í greiðslubyrði lána. Samt telja stjórnvöld að það sé enn rými til að leggja meira á bak þegnanna.

Það má auðveldlega sýna frammá að af 100.000 krónum í nýjum tekjuskatti frá einstakling fá ríkið nú þegar um 30.000 kr. í formi vsk og aðflutningsgjalda af þeim vörukaupum sem þessir peningar annars yrðu notaðir til. Þær 70.000 – krónur sem eftir eru nýtast sem framlegð og virðisauki í atvinnulífinu og tryggir störf. Það er alveg öruggt að aukin skattheimta mun fækka störfum, auka útgjöld ríkissjóðs til atvinnulausra og minnka hagkerfið enn frekar. Það getur ekki verið góð hagstjórn að fækka störfum í einkageiranum til að verja störfin hjá hinu opinbera.

Í atvinnulífinu býr mikil þekking, sú þekking getur nýst að hluta til að takast við það tjón sem við öll horfum nú framan í. Ég veit ekki hvort stjórnvöld nú eða fyrr hafi sótt sér tillögur að lausnum til þeirra sem best þekkja til í rekstri hér innanlands. Við erum öll sammála um gildi þess að halda uppi góðri þjónustu við íbúa þessa lands, það skiptir hins vegar máli hvernig það er gert og hvað það kostar. Vitið kemur ekki að utan þótt að margir haldi það.

Nú eru liðnir 8 mánuðir frá falli bankanna en það eru liðnir 14 mánuðir síðan að atvinnulífið missti eðlilegt aðgengi að rekstrarfjármögnun. Í allan þennan tíma hafa heyrst frasarnir um að það verði að tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Frasarnir duga engum.

Nú er svo komið að staða allra fyrirtækja er mun verri en hún var fyrir ári síðan þar sem búið er að blóðmjólka þau með okurvöxtum, verðbólgu og síðan hruni krónunnar. Það virðist vera sem að bönkunum okkar sé nánast bannað að vinna að lausnum á vanda fyrirtækja nema henda út fyrst út eigendum þeirra sem þegar hafa tekið á sig gríðarleg töp vegna hrunsins.

Hér er búið að snúa öllu á haus. Verkefni bankanna eiga eingöngu að snúast um þjóðarhag og að bjarga sem mestum verðmætum fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Ef eigendum og stjórnendum fyrirtækja verður boðið uppá það viðmót að glæfraför gömlu bankanna og máttleysi stjórnvalda eigi að vera á kostnað atvinnulífins og heimilinna þá verður engin sátt um slíkt. Ófriður mun ráða ríkjum næstu árin með gríðarlegu tjóni fyrir þjóðarbúið allt þar sem allir reyna að bjarga eigin skinni og það án tillits til kostnaðar fyrir samfélagið.

Hugsum okkur þá mynd þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands situr uppi á sviði eftir vel heppnaða tónleika og hlýðir á áhorfendur klappa. Að því loknu þá er öllum liðsmönnum hljómsveitarinnar skipað útí sal og áheyrendur settir í stóla hljóðfæraleikara. Sá samhljómur sem þessi hópur áhorfenda þyrfti að ná til jafna getu þeirra sem fyrir voru tekur mörg ár og næst jafnvel aldrei. Með nákvæmlega sama hætti tekur það mörg ár að stilla saman í einu fyrirtæki, stjórnendur og starfsfólk, birgja og viðskiptavini til að úr verði samhljómur sem síðan breytist í áþreifanleg verðmæti öllum þessum aðilum og þjóðfélaginu í heild sinni til gagns.

Í bönkunum okkar starfar frábært fólk með mikla reynslu í að vinna með fyrirtækjum að því að leysa erfið mál. Með því að gefa þessu fólki og fyrirtækjunum tíma til að fara í gegnum þau erfiðu mál sem bíða lausna er öruggt að miklum verðmætum verður ekki kastað á bálið. Nú er tíminn til að nýta kraftana og snúa bökum saman fyrir hagsmunum heildarinnar.

Sú hugsun að ætla að ganga fram gegn atvinnulífinu þegar krónan er í sinni veikustu stöðu, eftirspurn í lágmarki og skuldastaðan í hámarki, eftir gengishrun og óðaverðbólgu er hreinn dónaskapur. Það verður að nást um það sátt að heildarhagsmunir þjóðfélagsins skuli ganga fyrir og að verja skuli öll þau störf sem hægt er jafnvel þótt að það geti kallað á að skuldum verði breytt í eigið fé tímabundið, lánum breytt í víkjandi lán eða með frjálsum nauðasamningum þar sem hagsmunir heildarinnar ráða för. 

Gleymum því ekki að hvorki fyrirtækin, heimilin eða stjórnvöld gerðu ráð fyrir í sínum plönum að það þyrfti að glíma við 100% hækkun gjaldeyris, 20% verðbólgu, 25% vexti og 30% samdrátt í einkaneyslu. Voru það mistök?

Það er ekkert sem gagnast hagsmunum bankanna betur en að atvinnulífið ná aftur styrk sínum og geti greitt skuldir sínar. Fleiri störf í einkageiranum þýða að færri eru atvinnulausir sem aftur þýða minni útgjöld ríkissjóðs sem að auki fær nýjar tekjur frá auknum umsvifum. Eina leiðin út úr vandanum er sá að ná aftur vexti í hagkerfið ella til frambúðar að sætta okkur við verulega verri lífskjör.

Bankar eiga ekki að reka bílaumboð, ritfangaverslanir né önnur fyrirtæki, ég veit reyndar að þeir eru mér sammála um það.

Bankar skapa ekki verðmæti í sjálfu sér, þeir gæta verðmæta annara.

Verði önnur sjónarmið en hagsmunir heildarinnar látnir ráða för þá mun hagkerfið halda áfram að minnka jafnt og þétt þar til að ríkissjóði er sá einn kostur eftir að óska eftir nauðasamningum við sína lánadrottna.

Við skulum ekki gleyma ábyrgð atvinnurekenda á þeirri stöðu sem við nú erum í. Mörg okkar hafa treyst um of á að áframhaldandi vöxtur yrði íslensku hagkerfi og einnig fannst okkur lengi vel að fjármagnskostnaður yrði alltaf lágur.

Þetta voru klár mistök.

Við hlustuðum á áform um fjölda stórra framkvæmda sem allar voru á sjóndeildarhringnum og velgengni bankanna virtust engin takmörk sett.

Langflestir stóðu þó vaktina sem fyrr og töpuðu ekki áttum þótt að margt spennandi væri að gerast. Það sem stendur þó uppúr er að alla gagnrýni og aðhald vantaði frá Samtökum atvinnurekenda og Viðskiptaráði.

Þegar stjórnendur fyrirtækja voru farnir að taka með sér eftir árið 200 föld árslaun meðalstarfsmanns þá var ljóst að við vorum komin útaf sporinu. Það er ekkert sem réttlætir að forstjóri fái greidd slík laun, þegar mikil velgengni er á mörkuðum þá eiga hluthafarnir þann hagnað. Stjórnendur eiga góð laun skilið fyrir góðan árangur en samhengi kjaranna verður að vera til staðar.

Þörf víðtækrar samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarinns um að lágmarka skaðann og ná sátt um leiðirnar til úrbóta hefur aldrei verið brýnni. Það bíða sársaukafullar aðgerðir og þær verða ekki auðveldari með tímanum.

Róum bátnum heilum heim.

Warren Buffett og Charlie Munger

13. maí 2009 – 10:32 Hermann Guðmundsson

Ein best heppnaða viðskiptasaga síðustu aldar er án efa saga Berkshire Hathaway.

Þetta félag sem hóf rekstur sinn sem vefnaðarvöruframleiðandi en er í dag risavaxin samsteypa iðnfyrirtækja, tryggingafélaga og fjárfestingastarfsemi.

Stefna og gildi þessarar samsteypu eru samgróin forstjóranum og og stærsta hluthafanum Warren Buffett.

Hvað er það öðru fremur sem hefur gert það að verkum að velgengni félagsins er með slíkum ólíkindum sem raun ber vitni.

Sá sem var svo framsýnn að kaupa hlutabréf að verðmæti 5.000 USD árið 1964 á í dag hlut að verðmæti 18.2 milljónir USD. Uppsöfnuð ávöxtun þessa hlutafjár hefur verið 364.000% á þessum 45 árum en til samanburðar hefur hækkun SP500 vísitölu verið 4.276% á þesus sama tímabili. Þessi velgengni er með ólíkindum og nánast útilokað að hún verði endurtekin eða hún að hún endist til eilífðar.

Það er ekki eitthvað eitt sem getur tryggt slíka velgengni heldur mikið frekar uppsöfnuð áhrif góðra ákvarðana, kjarkur, þolinmæði, sterk grunngildi og mikið traust sem byggt hefur verið upp á mörgum árum. Hvað er það samt sem Warren gerir öðru vísi en aðrir fjárfestar? Það er ansi margt og verður ekki allt talið upp hér, ég nefni samt nokkur atriði sem ég tel sjálfur að skipti gríðarlegu máli, horft til áratuga:

•    Þegar fyrirtæki eru keypt að fullu þá er það aldrei með það í huga að selja það aftur. Aðeins eru keypt fyrirtæki sem skara framúr í sinni grein og mikið lagt í að halda stjórnendum áfram í starfi. Stjórnendur og starfsmenn vita að þeir eru í traustri höfn.

•    Aðeins eru keypt fyrirtæki sem uppfylla þá kröfu að vera betri eign en reiðufé. Í sjálfu sér þá snýst fjárfesting um að leggja fram fé í dag til að fá meira fé til baka síðar. Það fé sem á að koma til baka í fjárfestingum Berkshire verður að koma úr sjóðsstreymi (rekstrarafgangi) sem arður því að Berkshire selur aldrei félagið aftur og heldur ekki eigur þess sem nýtast rekstrinum.

•    Eingöngu er horft til atvinnugreina sem Warren telur að verði til staðar til langrar framtíðar og aldrei er fjárfest í atvinnugreinum sem ekki eiga langa sögu. Warren telur sig ekki geta sagt til um arðsemi í atvinnugreinum sem eru að slíta barnskónum og mikil óvissa ríkir um hverjir eða hvaða tækni muni ná forystu.

•    Stjórnendur þeirra fyrirtækja sem keypt eru hafa allir langa og farsæla rekstrarsögu að baki. Þeir vita allir að þótt að það komi kreppa (eins og núna) þá er þeim ekki gert að rústa fyrirtækjunum með því að reka fjölda verðmætra starfsmanna eða loka og selja verksmiðjum. Öryggið sem þeir búa við er að þeir reka skuldlaus eða skuldlítil fyrirtæki, þeir eru með eiganda sem að veit af langri reynslu að það koma slæm og góð ár til skiptis og það er engin pressa frá eigendum um að búa til skammtíma hagnað til að þóknast markaðnum á kostnað langtíma arðsemi. Báðir aðilar vita að arðsamur rekstur byggist upp á áratugum en honum er auðveldlega fórnað á 2-3 árum með slæmum ákvörðunum. Kreppa er tækifæri til að auka markaðshlutdeild þegar aðrir gefa eftir á markaði.

Sá hluti starfsemi Berkshire sem að hefur hvað mest áhrif er tryggingahlutinn. Þeirra sérgrein eru endurtryggingar og þá helst risavaxnar áhættur sem aðrir hafa tæpast efni á að fá í fangið.

Sem dæmi má nefna að þegar turnarnir í New York féllu auk mikilla skemmda á öðrum byggingum þá varð Berkshire fyrir gríðarlegu tjóni.

Vegna styrks félagsins þá varð þetta viðskiptatækifæri. Berkshire greiddi 2.7 milljarða USD (330 milljarða króna) strax og búið var að meta þeirra hlut í tjóninu. Þetta var ekki nema 5% af lausafé félagsins.

Daginn eftir hækkaði Berkshire sína gjaldskrá fyrir tryggingar á sambærilegum tjónum um 25%. Viðskiptin meira en tvöfölduðust þrátt fyrir þetta þar sem 4 önnur tryggingafélög urðu gjaldþrota vegna þeirra bóta sem þau þurftu að greiða.

Tryggingatakar áttuðu sig á því að ódýr iðgjöld hjá tryggingafélagi sem ekki gat greitt var of hátt iðgjald.

Einn lykilþáttur í velgengni Berkshire er eins og áður sagði tryggingahlutinn. Vegna þess að tryggingastarfsemin skilar að jafnaði hagnaði (að frádregnum bótaagreiðslum) þá er Berkshire í raun með gríðarlega sjóði (bótasjóði) sem kostar félagið minna en 0% í vexti. Þetta fjármagn er síðan nýtt til að kaupa arðsamar eignir sem aftur eykur verðmæti hlutafjár í Berkshire.

Grunnurinn að öllu er sá að aldrei er keypt eign sem ekki hefur annað hvort mikið og traust sjóðsstreymi eða að innra virði eignarinnar er þannig að tryggt er að það muni hækka þegar horft er til áratuga. Grunnurinn að því að geta beðið eftir hækkun, er að skulda lítið og hafa fjármagn sem kostar minna en 0% vexti.

Fræg er sagan af því þegar Berkshire keypti ráðandi hlut í fjárfestingabankanum Salomon Brothers sem síðar varð Citigroup Global Markets. Starfsmaður félagsins hafði beitt ólöglegum aðferðum til að hagnast á kaupum og sölu á bandarískum ríkiskuldabréfum. Félagið var lögsótt umsvifalaust af bandarískum yfirvöldum, Warren rak forstjórann og tók við rekstrinum í nokkra mánuði. Það sem mesta athygli vakti á meðan hann barðist fyrir lífi félagsins var að hann sagði á opnum yfirheyrslufundi fyrir þingnefnd eftirfarandi:

Starfsmaður minn sem vegna mistaka veldur fjárhagslegu tjóni á allan minn stuðning en starfsmaður sem með aðgerðum sínum tapar trúverðugleika félagsins hlýtur enga miskunn.

Eitt af því sem við íslendingar getum haft í huga, er sú skoðun Warren að ekkert í heimi fjárfestinga hafi farið verr með gott fólk en lántaka til kaupa á skráðum hlutabréfum.

Hann trúir því að hluthafar eigi að kaupa hlutabréf fyrir eigið fé eingöngu til að hagir þeirra raskist ekki þegar sveiflur á mörkuðum ríða yfir. Sveiflur á fjármálamörkuðum hafa alltaf verið til staðar og verða það áfram, skuldlaus fjárfestir bíður einfaldlega og jafnvel kaupir til viðbótar hlutabréf á lágu verði. Þannig verður tjón hagkerfa lágmarkað og öfgafullum hækkunum og lækkunum (þvinguð sala) hlutabréfa líklega afstýrt.

Að lokum er rétt að nefna að nánasti samverkamaður Warren hefur um langa hríð verið Charlie Munger (85 ára), Charlie er lærður lögmaður og er um margt enn íhaldsamari en Warren í mörgum málum en um leið kjarkaðri þegar kemur að því setja út risastórar fjárhæðir í einstök verkefni. Warren segir reglulega að hann hafi sjálfur á sínum ferli gert ótal mistök sem hafa kostað hlutahafa Berkshire mikið fé en að Charlie hafi ávalt fyrirgefið honum á endanum.

Berkshire hefur á síðustu 12 mánuðum fjárfest fyrir um 25 milljarða USD ( 3.100 milljarða króna) með það fyrir augum að hagnast á hinum miklu verðlækkunum á markaði og að auki að tryggja sér stórar arðgreiðslur frá traustum fyrirtækjum. Á aðalfundi Berkshire þann 2. maí sl., sem ég sótti ásamt fleiri Íslendingum,  sagði Warren að honum og Charlie liði eins og 2 moskítóflugum á nektarströnd, það væru tækifæri alls staðar.

Þess má geta að Warren hefur þegar gefið 95% af eigum sínum til góðgerðasamtaka.

1999

ágú. 2009 – 14:29 Hermann Guðmundsson

Það er um margt fróðlegt að fara 10 ár aftur í tímann og skoða stöðu fyrirtækja og hlutabréfa markaða á Íslandi. Þegar litið er á verðmæti fyrirtækja, verðmæti eigin fjár og eiginfjárhlutföll má sjá að ýmislegt hefur breyst á þessum 10 árum.

Arðsemi fyrirtækja og og eiginfjárhlutföll á þessum tíma var með ágætum í sögulegu samhengi.

Árið 1999 voru skráð 63 fyrirtæki á verðbréfaþinginu og flóran var mikil, allt frá stærstu fyrirtækjum landsins og niður í mun smærri félög með takmarkaða framtíðarmöguleika.

Það er forvitnilegt að lesa í Frjálsri Verslun vegna ársins 1999 hvað álitsgjöfum þótti athyglisvert frá árinu sem var liðið. Þar mátti sjá m.a. eftirfarandi ummæli:

Jákvæð / óvænt tíðindi ársins:

  •     Skráning Decode á Nasdaq
  •     Slök afkoma í sjávarútvegi
  •     Lækkun Evru / USD
  •     Sameining ISB og FBA
  •     Kaup fjármálafyrirtækja á hlutabréfum / Greenmail
  •     Kaup Össurar á Flexfoot

Neikvæð / óvænt tíðindi:

  •     Hækkun á olíuverði
  •     Spár um afkomu rangar / skortur á reynslu úr atvinnulífinu  við greiningar
  •     Slök afkoma sumra félaga
  •     Hægagangur við einkavæðingu ríkisfyrirtækja og ríkisbanka
  •     Háir vextir fæla fjárfesta frá hlutabréfum
  •     Lífeyrissjóðir sýna skuldabréfum lítinn áhuga

Laun tekjuhæstu forstjóranna voru nálægt 60 milljónum króna á árinu 1999 og tekjuhæsti bankastjórinn var í 5. sæti með um 37 milljónir í árslaun.

Mestum hagnaði þetta ár skiluðu eftirfarandi fyrirtæki:

  •     Ísal
  •     Íslandsbanki
  •     Landsvirkjun
  •     Landsíminn
  •     Eimskip

Hagnaður hvers félags var að núvirði um 3,4 – 3,9 milljarðar króna. Sem er verulegur hagnaður þegar horft er til þess að GVT breyttist aðeins um 2,4% á árinu.

Þegar reiknað er upp til verðlags, t.d. eigið fé Eimskipafélags Íslands í ársbyrjun 1999, þá jafngildir það 15 milljörðum króna.  Eiginfjárhlutfall félagsins á þessum tíma var 41% og ávöxtun ársins því mjög góð.  Reyndar var mikið dulið eigið fé í bókum félagsins en það var þekkt staðreynd.

Hvernig okkur tókst á fáum árum að fara svona rækilega útaf sporinu er og verður sérstakt viðfangsefni fræðimanna að útskýra.

Hvernig okkur tókst að trúa því að til væru ný lögmál um það hvernig verðmæti yrðu til en ekki síður hvernig meta ætti verðmæti er jafn forvitnilegt að skoða.

Ég hef stundum undrað mig á því að þegar maður fer í kjörbúð og stendur við kjötborðið, koma stundum þrautreyndar húsmæður og fara að spyrja 18 ára gamlan afgreiðslumann að þvi hvort að eldunartíminn á kjötinu eigi að vera styttri eða lengri.

Það eitt að standa fyrir innan borðið í slopp gefur greinilega ákveðinn trúverðugleika. Það er mér alla vega augljóst að húsmóðirin er sá sem er með reynsluna og alla áhættuna í þessu samtali.

Að sama skapi er það rannsóknarverkefni hvernig stendur á því að fjölmargir vel upplýstir einstaklingar gátu blindast jafn rækilega og raun ber vitni í velgengni síðustu ára. Getur verið að jakkafötin hafi villt mönnum sýn?

Árið 1999 var mikið til af fyrirtækjum sem voru með vanmetnar eignir í bókum sínum og þrátt fyrir það var hlutfall eiginfjár hátt. Ég man að þegar ég tók þátt í því að kaupa félagið Bílanaust af Matthíasi Helgasyni og fjölskyldu var eigið fé félagsins uppreiknað 86%. Hann hafði einfalda sýn á reksturinn og sagði stundum:

„ þú efnast ekki á háum launum heldur á lágum útgjöldum“.

Af sama meiði segir Warren Buffett að betra sé einn fugl í hendi en tveir í skógi. Þarf að kenna meira í viðskiptafræði en þetta?

Á árum áður var það kappsmál að byggja upp eigið fé fyrirtækja í stað þess að hámarka „arðsemi“ með því að minnka eigið fé fyrirtækjanna. Það hefur alveg gleymst að með því að auka skuldirnar og lækka eiginfjárhlutföll þá margfaldast áhættan umfram vöxt arðseminnar.

Hugtakið dautt eigið fé kemur fljótt upp í hugann sem frasi síðustu ára. Þeir sem lengi hafa rekið fyrirtæki á Íslandi hafa farið í gegnum ótrúlegar sveiflur í gengismálum, vaxtamálum, eftirspurn og mannafla. Þeir vita að enginn  hefur orðið gjaldþrota á því að vera með of mikið eigið fé en ansi margir á hinu gagnstæða.

Það er mikilvægt atriði sem að mínu mati gerði markaðinn heilbrigðan og treysti mjög undirstöður hans á árum áður. Það var sú staðreynd að þeir sem áttu hlutabréf í fyrirtækjum á þessum tíma skulduðu ekkert í þeim. Það heyrði til hreinna undantekninga ef  lán fengust til kaupa á hlutabréfum.

Það sem vinnst með því er að hluthafar geta verið rólegir með eign sína í mótvindi, það verður ekki til sölupressa vegna veðkalla, bankar þurfa ekki að hafa mikil umsvif í veltubókum sínum, verð hlutabréfa verður raunhæfara þar sem lánsfé flýtur ekki um markaðinn og það verður heilbrigð samkeppni um hlutabréf í traustum fyrirtækjum sem sýna stöðugleika í afkomu.

Þá er ótalin sú staðreynd að áhætta lánadrottna er mikið mun minni vegna minni skuldsetningar. Minni skuldsetning í atvinnulífinu tryggir stöðugleika, fleiri störf,  betri afkomu til lengri tíma og þar af leiðandi meiri kaupmátt öllum til handa.

Ég hef lengi sagt að upphaf ógæfunar megi rekja til þess einstaka atburðar þegar stærsti banki landsins (Landsbankinn) réðist í yfirtöku á einum af sínum stærstu viðskiptavinum (Eimskip)  í óþökk mörg hundruð (eða þúsunda) hluthafa félagsins. Það er nánast óþekkt að viðskiptabanki gangi þannig fram við einn sinn elsta og traustasta viðskiptavin sem hafði starfað náið með bankanum í hart nær 100 ár. Það tók 100 ár að byggja Eimskip upp en það tók 4 ár að leggja þá vinnu í rústir einar. Hvorki eftirlitsaðilar á fjármálafyrirtækjum né stjórnvöld þess tíma sáu neitt athugavert við þessa aðgerð, það voru komnir nýir tímar.

Ég sé botninn

sep. 2009 – 11:40 Hermann Guðmundsson

Nú er liðið ár frá falli Lehmans bankanns. Þetta er stærsta gjaldþrot veraldar. Bankinn var með efnahag uppá 619 milljarða USD, hann var 6 sinnum stærri en bankarnir okkar þrír, samanlagt.  Fróðlegt verður að fylgjast með því uppgjöri og hversu miklir fjármunir endurheimtast fyrir lánadrottna til samanburðar.

Það var á þessum tíma 2008 sem ljóst var hvert stefndi. Við hjá N1 eyddum mörgum dögum í að reyna að kaupa 20 milljónir USD til að greiða fyrir olíuskip sem var að lesta í Noregi en án árangurs.

Það stefndi í óefni, en á síðustu stundu tókst að fá keyptan gjaldeyri með aðstoð Seðlabanka Íslands og við þekkjum öll söguna sem síðan tók við.

Nokkrum dögum eftir fall bankanna voru komnir til landsins fjölmargir aðilar sem vildu gera góð kaup hjá þjóð í vanda. Ég hitti suma þessara aðila. Þeir vildu kaupa flugfélag, skipafélög, olíufélög, orkufyrirtæki, tryggingafélög og banka. Þeir vissu að vandinn var mikill og þeir vildu greiða út í hönd gegn ríflegum afslætti. Engum slíkum tilboðum var tekið, hvorki af stjórnvöldum eða atvinnulífi og það skiptir verulegu máli við endurreisnina.

Og hvar erum við stödd ári eftir þennan örlagaríka dag?  Ekki er hægt að segja að staðan sé góð en hún er samt á margan hátt mun betri en verstu spár gerðu ráð fyrir.

Hvað veldur því?, spyrja þá margir.Skýringarnar eru fjölmargar eins og alltaf þegar leitað er skýringa á gangi hagkerfa. Ein stór ástæða er að hagvél heimsins stöðvaðist ekki. Stóru mótorarnir í þeirri vél eru hagkerfin í Kína, Japan Indlandi, Kóreu og auðvitað Bandaríkin. Hinar risavöxnu aðgerðir stjórnvalda í þessum löndum til að styðja við hagkerfin hafa borið árangur. Hagvélin malar sem sagt hraustlega  fram á veginn þrátt fyrir all nokkrar gangtruflanir síðustu tvö árin.

Hér innanlands hefur margt hjálpað til við að lina þjáningarnar. 

Frestun afborgana og lenging lána heimilanna var brýn aðgerð. Miklar stýrivaxtalækkanir á erlendu fjármagni hafa hjálpað íslenskum fyrirtækjum sem flest skulda lán í erlendri mynt. Mikil umferð erlendra ferðamanna bæði í flugi og sjó færðu landinu miklar tekjur í sumar.

Veiðar hafa gengið vel og þrátt fyrir að aflaheimildir hafi verið skornir niður um allt 50 milljarða að útflutningsverðmæti, hefur sú mikla veiking sem varð á krónunni unnið upp allan þann niðurskurð. Ekki má gleyma að álverð hefur hækkað um 50% frá lægstu stöðu ársins.

Þjóðarframleiðsla er enn vel yfir 30.000 USD pr. íbúa og því erum við enn í hópi þeirra þjóða sem hvað hæstar þjóðartekjur hafa hlutfallslega. Við erum eitt af 20 tekjuhæstu löndum heims mælt í íbúafjölda. Það er gömul saga og ný að það eru grundvallar atriðin sem ráða úrslitum í rekstri fyrirtækja og hagkerfa. Ísland er framleiðsluland með mikil verðmæti í höndunum og gríðarlega gott sjóðstreymi, það er jú sjóðsstreymi sem á endanum skilur á milli þeirra sem geta greitt og hinna.

Yfirskrift þessa pistils er fullyrðing um að botninum sé náð í efnahagskreppunni. Það er mín trú þegar horft er á hagvél heimsins. Nokkur augljós merki eru t.d. eftirfarandi:

  • Álverð hefur hækkað um 50% á árinu
  • Olía hefur hækkað um 110% frá lægstu stöðu
  • Hlutabréfavísitalan SP500 hefur hækkað um tæp 50% á s.l. 6mán
  • Fasteignaverð er hætt að lækka á flestum mörkuðum
  • Atvinnuleysistölur í flestum löndum eru hættar að rísa

Markaðir verðleggja framtíðina og allir virðast sammála um að það sjáist í botninn.

Fjölmargt fleira má týna til en ég tel öll merki benda til sömu niðurstöðu. Með þessu er ekki sagt að leiðin verði greið til hagvaxtar alls staðar. Það eru samt sterkar líkur á að árið 2010 verði ár talsverðs bata í öllum helstu hagkerfum heims. Við munum njóta þess eins og aðrir.

Staðan hér innanlands er skárri en vænta mátti og t.d. þá hefur þjóðarframleiðslan ekki dregist saman jafn mikið og spáð var og eins hefur atvinnuleysið orðið minna en reikna mátti með. Það má samt reikna með að veturinn geti orðið erfiður ef ekki verða settar af stað framkvæmdir til að örva hagkerfið til skemmri tíma litið. Það má líka engan tíma missa í því að leiðrétta skuldir heimilanna, það ræður miklu um langtíma horfur atvinnulífsins.

Ef horft er til lengri tíma má reikna með að sá kraftur sem hefur borist inní efnahagslífið með veikingu krónunnar muni kveikja upp mörg störf sem annars kæmu ekki fram. Sú mikla kaupmáttarrýrnun sem hefur orðið má alls ekki festast í sessi. Það er brýnt verkefni aðila vinnumarkaðarinns.Mikill kraftur er hlaupinn í frumkvöðla og margt spennandi er að fæðast.

Það gleymist stundum að hagkerfi þrífast á frumkvæði einstaklinga en ekki vegna pólitískra ákvarðana. Það skiptir samt sköpum að grundvallarmálin í hagkerfum virki og það er hlutverk stjórnmálamanna.Nú þegar er búið að sækja um aðild að ESB, Icesave málið er komið í farveg, fjármögnun tveggja banka er lokið og vonandi koma erlendir kröfuhafar að þeim báðum og létta þeirri byrði af ríkissjóði.

Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var er einstakur á Vesturlöndum og sýnir hversu samhent þjóðin er þegar á reynir. Stærsta einstaka vandamál stjórnvalda um þessar mundir er rekstrarstaða ríkisins og nauðsyn þess að skera niður útgjöld. Sennilega eru kröfur AGS óþarflega harkalegar og mitt mat er að við eigum að leyfa okkur að taka 3 – 5 ár héðan í frá til að ná aftur afgangi af fjárlögum. Á þeim tíma mun hagkerfið vaxa talsvert og umtalsvert ef t.d. Helguvík kemst í gagnið. Með þessu móti yrði ekki um jafn alvarlegar afleiðingar að ræða fyrir grunnþjónustu íbúanna.

Hvort sem að þjóðin kýs að ganga í ESB eða ekki þá trúi ég því að okkur muni farnast vel á þessari eyju og mun betur en flestum öðrum þjóðum.