Hvað getum við lært af framtíðinni?

20. sep. 2009 – 11:07 Hermann Guðmundsson

Fyrirlestrar Jeff Taylors, Salem Samhoud og mín, sem fluttir voru á Start09 ráðstefnunni í Borgarleikhúsinu í sumar, hafa nú verið settir á vefinn. Hægt er að horfa á fyrirlestrana í 10 mínútna löngum myndbrotum á myndbandavefnum Youtube. Mér er sagt að þetta sé í fyrsta sinn að ráðstefna sem fram fer hérlendis er sett í heilu lagi á vefinn.

Stórar ráðstefnur sem haldnar eru erlendis eru í auknum mæli teknar upp á myndband og settar inn á vefinn. En það hefur ekki verið gert áður hérlendis, svo vitað sé, að heil ráðstefna sé sett á vefinn með þessum hætti. Margir Íslendingar þekkja Ted-ráðstefnurnar svonefndu, en hægt er að horfa á marga áhugaverða fyrirlestra sem fluttir hafa verið þar, á vefnum Ted.com.

Start09 ráðstefnan ætti þó ekki að höfða síður sterkt til Íslendinga, enda fjalla fyrirlesararnir meðal annars um það hvernig íslenskir frumkvöðlar og Íslendingar almennt geti markað kúrsinn út úr kreppunni og inn í framtíðina.

Fyrirlestur minn fjallar um hvaða hlutverk menntun og framtíðarsýn þurfi að leika í uppbyggingu íslensks samfélags.


Fyrirlestur Salem Samhoud fjallar um stefnumótunarvinnu sem hann skipulagði fyrir Holland fyrir nokkrum árum og heimfærir hér upp á Ísland. Samhoud rekur 200 manna ráðgjafarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Hollandi.

Fyrirlestur Jeff Taylor fjallaði um skapandi hugsun og mikilvægi þess fyrir frumkvöðla að gefast aldrei upp. Taylor hefur stofnað nokkur fyrirtæki, en er þekktastur fyrir að hafa sett á fót stærstu atvinnumiðlun í heimi; Monster.com.

Ráðstefnan var vel sótt og N1 hefur í kjölfarið sett af stað hugmyndasamkeppni fyrir almenning, þar sem í boði eru rífleg peningaverðlaun annars vegar, og hins vegar sérfræðiráðgjöf og aðstoð við að koma hugmyndunum í framkvæmd. Góðar hugmyndir leynast víða og N1 vill leggja sitt af mörkum við að draga þær upp úr skúffum fólks og í framkvæmd þjóðinni allri til heilla.

Samkeppnin er öllum opin, útfærsla eða vinnslustig hugmyndar er frjálst og er skilafrestur til og með 30. september næstkomandi. Allar nánari upplýsingar á http://www.n1.is/start.

1. verðlaun eru ein milljón króna
2. verðlaun eru fimm hundruð þúsund krónur
3. verðlaun eru tvö hundruð og fimmtíu þúsund krónur

Einnig hljóta sigurvegarar að launum sérfræðiráðgjöf og ýmsa aðra aðstoð við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Ákveðinn fjöldi hugmynda verður kynntur mögulegum fjárfestum og samstarfsaðilum.

Dómnefnd skipa raðfrumkvöðullinn Jeff Taylor, Guðjón Már Guðjónsson hugmyndaráðuneytismaður, Ragnheiður H. Magnúsdóttir frumkvöðull, Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ og Hermann Guðmundsson forstjóri N1.

Töpuð tækifæri

03. okt. 2009 – 16:30 Hermann Guðmundsson

Nú er að birtast fjármálafrumvarp fyrir 2010. Sú mynd sem þar er dregin upp er skelfingu líkust.

Í desember 2008 var talið að hallarekstur ársins 2009 yrði 154 milljarðar, staðreyndin í dag er sú að áætlað er að hallinn verði 180 milljarðar í árslok.

Spá um afkomu Ríkissjóðs gerir því ráð fyrir um 26 milljarða verri afkomu en fyrri áætlun og það þrátt fyrir að atvinnuleysi og þjóðarframleiðsla hafi verið heldur hagstæðara en ráð var fyrir gert. Það verður áhugavert að sjá hvaða kostnaðarliðir fóru mest úr böndunum. Verandi sjálfur í rekstri þá þekki ég það að sumir kostnaðarliðir eru illviðráðanlegir en öðrum má stjórna.

Þegar litið er á tölur fjármálaráðuneytisins um afkomu Ríkissjóðs fyrstu 8 mánaði ársins þá sést að útgjöldin hafa aukist um 65 milljarða á milli ára og tekjurnar hafa dregist saman um 18 milljarða á sama tíma. Staðan hefur því versnað um 83 milljarða. Ríkissjóður hefur ekki greitt framlög sín til lífeyrissjóða LSR og LH það sem af er ári.

Það sem svíður mest er að þetta ár sem við leyfðum okkur að reka Ríkissjóð án niðurskurðar, átti að gagnast okkur til að undirbúa mótvægisaðgerðir fyrir atvinnulífið, bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr hafa haft uppi fögur orð í þá veru.

Nú þegar fáar vikur eru eftir af árinu hefur ekkert verið frágengið af þeim verkefnum sem til greina kemur að fara í. Það sem gerir stöðuna enn verri er að fjármagn er enn á okurverði og ekki arðbært fyrir atvinnulífið eða einstaklinga að fjármagna framkvæmdir smáar sem stórar.

Við leyfðum okkur að fresta kreppunni um eitt ár vegna sterkrar stöðu Ríkissjóðs og við höfum nú tapað ómetanlegu tækifæri sem okkur var gefið til að styrkja atvinnulífið og undirbúa efnahagslífið undir skattahækkanir og niðurskurð. Reyndar ef miðað er við tölulega úrvinnslu www.datamarket.is þá er niðurskurðurinn ansi rýr og allt kapp lagt á að þyngja skattbyrðarnar.

Með öðrum orðum þá á að taka gríðarlega fjármuni úr einkageiranum með skattheimtu til að verja störf ríkisstarfsmanna, ég veit ekki um neina hagfræðibók sem kennir að það séu góð vísindi.Það er ekki langt síðan að tryggingagjaldið var stórhækkað til að styðja við atvinnulausa úr einkafyrirtækjum og nú á með skattahækkunum að forða ríkisstarfsmönnum frá sömu örlögum.

Við stöndum því í þeim sporum að ósekju að skattahækkanir af áður óséðri stærðargráðu koma nú til framkvæmda án þess að neinar mótvægis aðgerðir séu í frágengnar og frekar virðist vera kappkostað að hindra þá fáu sem treysta sér til að uppbyggingar.

Ofaná þetta er hótað að gera útaf við helstu gjaldeyrisaflendur landsins, útgerðina.

Ekki skal lítið gert úr því verkefni sem stjórnvöld glíma við en að það skuli ekki skiljast að án þess að atvinnulífið fái lífvænleg skilyrði verður ekki um neina endurreisn að ræða. Það skiptir engu máli hversu mikið er lengt í lánum heimilanna ef engin eru launin, lánin verða ekki greidd upp með atvinnuleysisbótum.

Það sem um tíma leit út fyrir að geta verið skammvinn fjármálakreppa er nú hratt að breytast í langvinna skuldakreppu og það er að hluta okkar eigin verk eða frekar verkleysi.

Orkuskipti

15. okt. 2009 – 07:00 Hermann Guðmundsson

Mikil umræða hefur verið síðast liðin 4-5 ár um orkuskipti. Umræðan snýst að mestu hér á landi um að skipta úr olíu og yfir í rafmagn sem sannanlega er framtíðarorkumiðill okkar í samgöngum.

Að mínu mati þá verða orkumálin stærsta einstaka viðfangsefni mannkynsins næstu 100 árin. Iðnbyltingin og öll sú þróun hefur komið okkur á tiltölulega fáum árum úr búskap með húsdýr og sjósókn yfir í að vera tæknivæddur heimur þar sem lítil takmörk virðast sett getu mannsins.

Öll þessi tækni er að mestu knúin orku. Ísland býr svo vel að yfir 80% af okkar orkunotkun er frá endurnýjanlegum orkugjöfum þ.e.a.s. rennslisvirkjunum og jarðhita. Hin 20% sem uppá vantar eru olíuknúin, skiptist sú notkun í nokkra flokka t.d. bifreiðar, skip og bátar og síðan flug.

Mest hefur verið fjallað um að brýnt sé að hefja rafbílavæðingu á Íslandi í bland við aðra orkugjafa eins t.d. metangas, methanol, bíodísel, vetni ofl.

Nú þegar eru all nokkur faratæki knúin áfram af metangasi og þó nokkur fjöldi af bíódísel sem N1 selur á allnokkrum útsölustöðum nú þegar. Þegar litið er yfir þróun mála í öðrum löndum og síðan litið til Íslands þá sést talverður munur á okkar hegðun og t.d. meginlands Evrópu. Á Íslandi er bensínbíllinn enn vinsælasti bíllinn og þá ekki endilega þeir sparneytnustu þótt að þeir séu vissulega með í bland.

Þegar við veljum okkur dísilbíla þá eru það oftast stærri jeppar með stórar dísilvélar.

Mér finnst líklegt þótt ekki séu til nein gögn um það að meðaleyðsla á bifreið hér á landi sé nálægt 10l á hverja hundrað kílómetra.

Þegar litið er á meginland Evrópu og þróun bifreiðaeignar þar kemur í ljós að vel yfir 50% af bifreiðaflotanum þar er nú díselknúinn. Fyrir utan að vera díselknúnir þá eru þessar bifreiðar mikið mun sparneytnari en það meðaltal sem hér var nefnt. Algengur millistór díselbíll í Evrópu eyðir frá 4 – 7 lítrum á hundrað kílómetrum. Þess utan er minni losun CO2 frá slíkum bifreiðum ekki síst vegna sparneytni.

Hver ástæðan er fyrir því að við erum ekki að sama marki að horfa til þessa valkosts er ekki gott að segja en þó má benda á að þær bifreiðar sem eru vinsælastar í Evrópu eru það ekki hér á landi.Hér er verið að benda á þær sem eru lengst komnir í að markaðssetja dísilbifreiðar eru t.d. Audi, Opel, Peugot, Citroen, Ford, BMW, Skoda og Mercedes Bens. Fleiri valkostir eru að sjálfsögðu til staðar en þessir eru hvað fyrirmestir í markaðsetningu á dísilbifreiðum á meginlandinu og víðar.

Markaðsstarfið í Evrópu hófst að mörgu leyti á fyrirtækjamarkaði þar sem samið var við stórfyrirtæki sem kaupa tugi og eða hundruði bifreiða fyrir sína starfsmenn. Þegar starfsmennirnir fundu hversu raunhæfur valkostur slíkur bíll var og hversu mikið minni eyðslan var þá um leið varð þetta að fyrsta valkosti almennings.  

Nú þegar er dísilbíllinn orðin regla frekar en undantekning á meginlandinu, því er ekki þannig farið hér á landi.  Þegar horft er fram á veginn þá skiptir máli að við eigum í dag bifreiðar að verðmæti yfir 500 milljarðar króna hér í landinu. Að endurnýja flotann kostar mun meira vegna stöðu krónunnar um þessar mundir.

Ég hef sjálfur reiknað út með einföldum hætti að sá Íslendingur sem raunverulega vill leggja sitt lóð á vogarskálar heimsins í því tilliti að minnka hlýnun jarðar er sá sem ekki skiptir um bifreið eða kaupir notaða bifreið.

Það er einfaldlega staðreynd að sú orka sem fer í að framleiða eina bifreið, vinna öll hráefnin, flytja hráefni og fullsmíðaðar bifreiðar á milli heimshluta er svo mikil að sparneytnin ein vegur hana seint upp. Þegar horft er til rafbíla þarf að mjög að huga að þessum þáttum sem og úrvinnslu á þeim rafgeymum sem notaðir verða.

Þess utan þá er sá sparnaður sem hlýst af því fyrir einstaklinginn að endurnýja ekki bifreiðina og taka ekki bílalán svo gríðarlegur að yfir eina starfsævi manneskju þá sparast tugir milljóna. Alveg ótrúlega háar tölur.

Þarna er búið að taka tillit til verulegs viðhaldskostnaðar á bifreið sem væri orðin t.d. 35 ára gömul. Nú er ljóst í mínum huga að þrátt fyrir þessar staðreyndir þá mun þjóðin ekki hætta að kaupa nýjar bifreiðar. Þær bifreiðar sem við veljum okkur geta hins vegar haft áhrif til lengri tíma litið á bæði það eldsneyti sem við veljum okkur og ekki síður útblástur.

Sjálfur er ég verið þeirrar skoðunar að útblástursmál séu ekki staðbundin mál heldur hnattræn.

Þar sem ég sit hér í suður Kína og finn mengunina sem liggur yfir borginni Guangzhou þá efast ég ekki. Borgin er aðal bílaframleiðsluborg Kína. Ef að við Íslendingar meinum eitthvað með því að vilja vera ábyrgir borgarar þessa heims þá eigum við að eyða öllum okkar kröftum í að hjálpa stórum þjóðum að nýta sér þá orkukosti sem til staðar eru á hverjum stað til að draga úr mengandi raforkuframleiðslu á heimsvísu.

Sú aðferðafræði að reyna fylla íslenskar húsmæður sekt yfir því að fara á bílnum útí búð að kaupa í matinn er ekki málflutningur með neinu innihaldi.

Leggjum okkar af mörkum til að endurnýjanleg orka verði ekki áfram aðeins 10% af orkunotkun heimsins heldur eitthvað mikið hærra hlutfall.

Baldur Guðlaugsson og hlutabréfin

okt. 2009 – 12:14 Hermann Guðmundsson

Talsvert hefur verið fjallað um sölu á hlutabréfum í Landsbankanum sem voru í eigu Baldurs Guðlaugssonar ráðuneytisstjóra. Nú berast fréttir af því málið hafi verið sett í rannsókn hjá sérstökum saksóknara.

Málið sýnir að afar óheppilegt er að háttsettir starfsmenn ríkisins séu almennir fjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hugsanlega væri skynsamlegt sé að bjóða slíkum aðilum að leggja frekar sitt sparifé inná vaxtareikning hjá Seðlabanka Íslands sem tryggði ávöxtun markaðarins án þess að kaupa verðbréf. Augljóst er að ekki er ásættanlegt að fólk efnist á því að komast yfir upplýsingar sem markaðurinn býr ekki yfir. Slíkan hagnað mætti gera upptækan.

Það er hins vegar ekkert spurt út í rétt einstaklingsins. Þegar einstaklingur kemst að því að fyrirtæki sem hann á mikið undir í er annað hvort búið að gefa út rangar eða villandi upplýsingar um stöðu sína eða þá að að því steðji slík ógn að líkur séu á gjaldþroti, hver er þá réttur hans?

Það geta ekki verið þeir valkostir einir að lýsa sig gjaldþrota og tapa þar með öllu sparifé sínu og fjölskyldunnar eða að brjóta lög um innherjaviðskipti.

Ekki þarf að benda á að slíkt gjaldþrot myndi líka tryggja atvinnumissi. Það verða að vera grundvallarmannréttindi að ekki sé svo búið um hnútana að einstaklingum sé fórnað á altari kerfisins til að fullnægja afar ófullkomum lögum og reglum. Ef ég man rétt þá er líka bannað með lögum að ýja að því að fjármálafyrirtæki sé ótraust og með því skapa því fyrirtæki ófyrirsjáanlegt tjón.

Í mínum huga þá er það grundvallarréttur og skylda hvers manns að verja sig og sína fjölskyldu fyrir áföllum og forða tjóni þar sem það er hægt. Hvað er til ráða þegar svona aðstæður koma upp? Þetta litla dæmi er enn eitt merki þess hversu ófullkomið regluverkið er á mörgum sviðum viðskiptalífsins.  

Rétt er að taka fram að ég þekki ekki manninn sem um er fjallað og hef aldrei hitt hann svo ég viti.

Þjóðfundur – stórmerkur áfangi

nóv. 2009 – 10:54 Hermann Guðmundsson

Þann 14.nóvember n.k. verður haldinn þjóðfundur í Laugardalshöll.

Á þennan fund hefur verið stefnt 1.200 íslendingum sem valdir hafa verið með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Auk þessa hóps verða þarna 300 manns sem eru handvaldir vegna þess að þeir geta í gegnum störf sín haft veruleg áhrif á að hrinda í framkvæmd því sem fundurinn skilar.

Undirbúningur fyrir þetta verkefni hófst fyrir nokkrum mánuðum síðan af hópi sem taldi svona viðburð geta verið fyrsta stóra skrefið í átt að því að græða þau fjölmörgu sár sem þjóðin ber um þessar mundir.

Hópurinn kallar sig Maurþúfuna til að leggja áherslu á að þetta verkefni er án leiðtoga þ.e.a.s. allir maurarnir eru jafn mikilvægir. Hópurinn er svona samsettur:

Þorgils Völundarson, Guðjón Már Guðjónsson, Halla Tómasdóttir, María Ellingsen, Lárus Ýmir Óskarsson, Bjarni Snæbjörn Jónsson, Svandís Svavarsdóttir, Gunnar Jónatansson, Haukur Ingi Jónasson, Sigrún Þorgeirsdóttir, Ólafur Stephensen, Benjamín Axel Árnason, Guðfinna Bjarndóttir og fjölmargir aðrir sem leggja fundinum lið með ýmsum hætti.

Það eina sem þessi hópur á sameiginlegt er að hann á ekkert sameiginlegt, nema kannski það að vilja þjóðinni vel.

Sjálfur hef ég notað þá aðferðafræði að ræða hugmyndir og stefnur í þaula við mína vinnufélaga í stað þess að skipa fyrir í stóru sem smáu. Gildi þess að ræða hugmyndir, hugsanir og skoðanir er ómetanlegt.

Marktæku úrtaki þjóðarinnar er þarna stefnt saman til að ræða gildi, stefnur, markmið og drauma. Engin framsaga og enginn er öðrum rétthærri. Umræður verða samt leiddar til lykta og niðurstöður dregnar saman.

Aldrei áður hefur heilli þjóð staðið til boða að taka svona djúpar samræður um grunngildin og samfélagið.

Kannski er þessi fundur fyrsta skrefið í að þjóðin taki í meira mæli þátt í stefnumótun stjórnmála. Við höfum um langa hríð stundað foringja stjórnmál í stað þess að eiga raunveruleg skoðanaskipti og ræða til þrautar hvernig samfélag við viljum byggja. Á stundum virðast skoðanir stjórnmálaflokka einsleitar og ekki fullmótaðar nema í örfáum málaflokkum. Á Þjóðfundi fæðast hugsanir heillar þjóðar og sá sem ekki leggur við hlustir er ekki tengdur við þjóðarsálina.

Fundurinn er prófsteinn á fjölmiðla þ.e.a.s. hvort þeir geta flutt tíðindi af framtíðinni eða hvort þær ætla áfram að skrifa fréttir ársins 2008 til eilífðar.

Efnahagsundrið í Kína

okt. 2009 – 16:50 Hermann Guðmundsson

Þegar maður er staddur í Kína þá skynjar maður hvílíkir ógnarkraftar hafa verið leystir úr læðingi hjá þessari fjölmennustu þjóð heimsins.

Hvert sem litið er hafa verið reistar nýjar byggingar og margar eru byggðar af slíkum metnaði að öðrum þjóðum hefði varla dottið í hug að reyna slíkar framkvæmdir.

Heilu hverfin spretta upp frá grunni og allt kapp lagt á gæði og glæsilegt yfirbragð. Þegar horft er til  hæstu bygginga heims þá eru aðeins ein á vesturlöndum og  sú var byggð 1974. Síðustu 10 ár hafa 9 af hæstu byggingunum verið reistar í Asíu eða Miðausturlöndum, það sýnir metnað þeirra þjóða.


Bifreiðaeign er að verða almennari í Kína með tilheyrandi umferðarvandamálum og mengun.

Í þessum mánuði gerðist sá tímamótaviðburður að 10 milljónasti bíllinn var framleiddur á árinu. Aðeins 2 aðrar þjóðir framleiða 10 milljón bifreiðar á ári, Bandaríkin og Japan.

Þetta staðfestir hvílíkur kraftur er hlaupinn í innri markaðinn því að lítill útflutningur er enn á bifreiðum frá Kína. Orkumál eru fyrirferðamikil enda vöxtur í orkunotkun mikill. Í síðustu viku kom fyrsti farmurinn af LPG (fljótandi gasi) til Kína frá Katar.

Fyrir ári síðan gerðu kínverska risafyrirtækið CNOOC og Quatargas,  25 ára samning þar sem Katar tryggir 2 milljónir tonna á ári í 25 ár til afhendingar í birgðastöð félagsins í Shenshen.  Þetta samstarf hefur m.a. þann tilgang að hjálpa Kína til að nýta sér minna mengandi orkugjafa en kol og olíu. Reikna má með að bæði Petrochina og Sinopec fari svipaðar leiðir til að tryggja orkuöryggi til lengri tíma litið.

Fyrirtækið Sinohydro er án efa langstærsta fyrirtæki heims í framkvæmdum við stíflugerð og virkjanasmíði. Samkvæmt nýjustu heimildum þá er félagið í dag með um 50% af öllum þeim framkvæmdum sem  standa yfir í heiminum. 

Þegar maður les yfir þær framkvæmdir sem félagið stendur í bæði í Asíu og Afríku þá áttar maður sig á því að ekki er lengur um það að ræða að eingöngu gæði og verðlagning framkvæmda ráði úrslitum um það hver fær verkin heldur ekki síður að Sinohydro með aðstoð Bank of China getur oftast boðið fjármögnun sem hluta af lausninni.

Það ræður úrslitum í heimi sem er þjakaður af ótta og lausafjárskorti. Annað atriði sem vekur athygli er að ekki eru allar virkjanir nýttar til raforkuframleiðslu eingöngu heldur er þær í æ meira mæli orðnar lífsnauðsyn til að tryggja að vatn sé til staðar í heitum löndum til ræktunar. Vatni sem áður rann óhindrað til sjávar er nú í æ meira mæli safnað saman og dreift til að hægt sé að stunda matvælaframleiðslu þar sem þurrkar og óáran hafa lagt framfærslu íbúanna í rúst.

Með áframhaldandi hlýnun  má reikna með að þörf fyrir slíkar framkvæmdir vaxi verulega. Kínversk stjórnvöld hafa í miklu mæli örvað hagkerfið á þessu ári til að tryggja að hagvöxtur haldist áfram hár. Stjórnvöld þurfa að tryggja að til geti orðið 25 milljón störf á ári til að atvinnuleysi grafi ekki um sig hjá þeim stóru hópum sem eru að ljúka skólagöngu. Þetta eru gríðarlega mörg störf í samhengi við evrópskan vinnumarkað og t.d. þá eru þetta fleiri störf á ári en allir þeir sem eru nú atvinnulausir í Bandaríkjunum.

Auðvitað borgar hvert starf lægri laun en á Vesturlöndum en framfærslan kostar líka minna.Þegar litið er á fasteignamarkaðinn þá kvikna efasemdir um gæði hans. Góðar íbúðir kosta hiklaust 200 – 500 milljónir í stóru borgunum og við erum ekki að tala um lúxusíbúðir. Verð á fermetra í góðu verslunarhúsnæði fer auðveldlega í 14 milljónir króna, það þykir hátt í flestum löndum.

Öll merki eru um að eignabóla hafi myndast nú þegar og ekki eru mörg dæmi um að slíkt ástand leysist af sjálfu sér. Það sem heldur áfram að knýja hagvélina stóru fyrir utan aðgerðir stjórnvalda eru miklar erlendar fjárfestingar í framleiðslufyrirtækjum og þjónustu og þá má ekki gleyma ansi myndarlegum vöruskiptaafgangi Kína við önnur lönd.

Mér er til efs að áður í mannkynssögunni hafi þjóð sem telur yfir 20% af mannkyninu vaxið jafnt hratt efnahagslega. Ef ekkert óvænt kemur uppá má reikna með að langöflugasta efnahagsveldi sögunnar verði til hér í Kína á þessari öld. Þeir eru þegar komnir í 2. sætið.

Fjárlögin prófsteinn á getu stjórnvalda

nóv. 2009 – 09:24 Hermann Guðmundsson

Nú stöndum við frammi fyrir því að þurfa að setja ný fjárlög. Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er sú staðreynd að fjárlög hafa mjög lengi haft sitt eigið líf og illa gengur að halda útgjöldum innan ramma fjárlaga. Ég á ekki von á að það breytist á næstunni. Þetta er ekki vegna slæms vilja heldur mikið frekar sú staðreynd að allur kostnaður er sjaldnast þekktur 15 mánuði fram í tímann.

Á sama tíma og vinnandi fólk hefur tekið á sig meiri kaupmáttarrýrnun en áður eru dæmi um, finnst stjórnvöldum réttast að stórhækka skatta á almenning. Tillögur um miklar skattahækkanir eru meira að segja kynntar sem réttlætismál, þ.e.a.s. að það sé verkefni Alþingis að stíga inní kjarasamninga á milli launþega og atvinnurekenda og lækka laun. Sú launalækkun verður síðan uppspretta ófriðar á vinnumarkaði þegar skattpíndir launþegar reyna að rétta sinn hlut en atvinnulífið sem er jafnþjakað og launþegararnir reynir að verjast. Líkleg niðurstaða er víxlhækkun launa og verðlags með áframhaldandi hækkun verðtryggðra lána og lækkandi kaupmætti.

Hærri skattar leiðir af sér að laun hækka sem hlutfall gjalda í rekstri fyrirtækja og minnkar um leið samkeppnishæfni og arðsemi í rekstri. Við þurfum að örva rekstur en ekki öfugt. Hrunið sýndi hið rétta andlit verðtryggingar þegar fall krónunnar og stórhækkun vaxta varð til að hækka allt verðlag með öfgakenndum hætti. Sá sem lánaði verðtryggt fé fyrir einni íbúð gat eftir hrunið keypt 2 íbúðir þar sem höfuðstóll lánsins hafði hækkað um 30% og eignaverð lækkað verulega.

Með því setja skatta í sama ljós má sýna fram á sömu öfgar. Ef tekjuskattur væri 100% af launum þá verður að telja afar líklegt að vilji til að vinna myndi minnka verulega og viljinn til að vinna mikið hverfa alveg. Með sama hætti er líklegt að ef tekjuskattur væri enginn að þá myndi áhuginn á að afla tekna aukast verulega.

Með öðrum orðum þá skipta skattar verulegu máli þegar kemur að því að letja eða hvetja launafólk til verðmætasköpunar, við höfum ekki efni á að draga viljann úr fólki til að skapa verðmæti. Í mínum huga snúast skattamál um grundvallaratriði.

Annað hvort að ríkið eigi rétt á að taka til sín allar þínar tekjur og skammta þér svo til baka það sem þú þarft til að draga fram lífið, eða hin leiðin sem er sú að einstaklingarnir eigi sín laun sjálfir og láti ríkið hafa það fé sem það nauðsynlega þarf til að veita þá þjónustu sem við viljum að sé sameiginleg. Ég tilheyri seinni hópnum og það gera sennilega fleiri.

Núverandi stjórnvöld virðast annað hvort tilheyra fyrri hópnum eða kannski það sem verra er, að þau treysta sér ekki til að draga saman ríkisútgjöldin af sömu festu og fyrirtækin og launþegar hafa orðið að gera.

Það er grundvöllur þess að almenningur samþykki skattahækkanir að búið sé að draga svo úr útgjöldum ríkissjóðs að engin önnur leið sé eftir en að biðja eigendurnar um hærra framlag til að standa undir rekstrinum, það vantar mikið uppá að slík vinnubrögð sjáist hjá stjórnvöldum.

Þegar örfáir þingmenn hafa það verkefni að festa í lög eyðslu á skattfé uppá 550 milljarða króna sem að hluta til þarf að taka að láni, er eins gott að þeir hafi sannfæringu fyrir því að þessu fé sé öllu varið í bráðnauðsynlega útgjöld. Það er á ábyrgð þingmanna sem þessu fé verður eytt, en ekki ráðherra, fjárlögin 2010 eru prófsteinn á getu stjórnarliða til að stunda ábyrgan ríkisrekstur.

Undrasagan Facebook

nóv. 2009 – 10:57 Hermann Guðmundsson

Spurnir berast af því að u.þ.b. 100.000 íslenskir notendur séu nú virkir á samfélagsvefnum Facebook.

Þetta er sennilega heimsmet eins og svo margt annað sem við tökum uppá. Mér segir svo hugur að hrunið mikla hafi ýtt verulega undir vinsældir vefsins enda eru það þekkt viðbrögð þegar mótlæti steðjar að,  þá snýr fólk sér að því að rækta vini og fjölskyldu í meira mæli en ella.

Fyrsta formið af Facebook var sett í loftið 4.febrúar 2004 innan veggja Harvard háskóla í Boston.

Upphaflega hugmyndin gekk útá að smíða vef þar sem allir nemendur í Harvard gætu sjálfir sett inná vefinn upplýsingar um sig og sín hugðarefni. Grunnurinn var sá að notandinn gæti búið til sitt eigið stoðkerfi innan veggja skólanns með því raða saman nemendum og vinum inná sitt svæði sem ekki var opið öðrum. Vefurinn var líka búinn spjallsvæði.Eitt af því sem kerfið bauð uppá var að notendur gátu séð hvaða nemendur voru skráðir í hvaða tíma.


Eitt meginmarkmiðið var síðan að búa til vettvang þar sem stelpur og strákar gátu kynnst án þess að hittast. Nemendur skólans eru u.þ.b. 20.000 og því ekki létt verk að kynnast þeim öllum. Klúbbar gátu skyndilega talað við félaga sína á vefnum og íþróttastarfið fékk nýtt tæki til að boða æfingar.

Með þessari aðferð þá gátu nemendur fundið aðra nemendur með svipuð áhugamál án þess að þurfa rölta á milli öldurhúsa í misgóðu ástandi í þeirri von að finna líklegan förunaut.

Höfundurinn að Facebook heitir Mark Zuckerberg og er fæddur 1984 og er því 25 ára gamall í dag. Mark er undrabarn í heimi forritunar og eins og margir með snilligáfu þá entist hann ekki í skólanum út námstímann. Hann er því ekki með prófgráðu frekar en t.d. Bill Gates.  

Þegar vefurinn fór í loftið þá hafði hann eytt 10 vikum í forritun og 1.000 bandaríkjadölum sem hann fékk frá vini sínum Eduardo Saverin. Þeir ákváðu að Mark ætti 70% í fyrirtækinu en Eduardo fengi 30% fyrir sína 1.000 USD.

Ekki entist það samstarf en í staðinn fékk Mark herbergisfélaga sína Chris Hughes og Dustin Moskovits til að vinna að verkefninu með sér.Áður en Mark fullkomnaði vefinn og opnaði hann þá var honum boðið að vinna að svipaðri hugmynd sem reyndar gekk ekki eins og langt en bar nafnið ConnectU. Sú hugmynd hafði verið í vinnslu í marga mánuði á vegum tvíburanna Cameron og Tyler Winklevoos. Á með tvíburarnir æfðu róður sem mest þeir máttu þá störfuðu forritarar að því að byggja upp vefinn þeirra.

Þeir bræður eru margfaldir meistarar í sinni grein og kepptu saman á Ólympíuleikunum síðasta sumar. Þegar aðalforritari bræðranna hætti snögglega þá fréttu þeir af Mark vegna þess að hann hafði hakkað sig inná nemendavefi skólans til að stela þaðan myndum af öllum nemendum. Uppátækið komst upp og Mark slapp með viðvörun frá aganefnd skólanns og blaðagrein í skólablaðinu Crimson.

Bræðurnir fengu Mark til fundar við sig og sögðu honum hvað þeir væru að smíða. Þeirra hugmynd snerist aldrei um að vefurinn væri samskiptavefur heldur eingöngu upplýsingaveita þar sem nemendur gætu skráð upplýsingar um sig og sín áhugamál. Vefur bræðranna átti ekki að vera gagnvirkur. Mark lét líklega við þá um tíma en á endanum kom í ljós að hann ætlaði ekki að vinna að þeirra hugmynd heldur skapa sína eigin.

Síðar þegar Facebook, sem var upphaflega hugsaður eingöngu sem Harvard vefur, var orðinn aðalvefur flestra betri háskóla landsins, ákváðu bræðurnir að stefna Mark fyrir að hafa stolið hluta af þeirra hugmynd og jafnvel einhverjum hluta af forritunarmálinu.

Eftir þriggja ára hark með lögmönnum varð niðurstaðan á endanum sú að Facebook inc. greiddi bræðrunum 65 milljónir USD (8 milljarða) í leynilegu samkomulagi þar sem Mark Zuckerberg viðurkenndi aldrei að hafa nýtt sér neinar hugmyndir bræðranna eða forritunarmál.

Í dag eru yfir 300 milljón notendur á Facebook frá flestum löndum heims. Þetta þýðir að nálægt 5% jarðarbúa eru notendur og það verður að teljast ævintýralegur árangur á ekki lengri tíma.

Stofnandinn Mark Zuckerberg er orðinn í dag einn efnaðasti maður heims aðeins 25 ára gamall. Nýlegt mat á eignum Marks hljóðar uppá rúma 2 milljarða USD eða á milli 250 og 300 milljarða króna. Það er eftirtektarvert að fyrirtækið hefur ekki enn verið skráð í kauphöll og ekki er vitað hvort að það freistar Marks.


Þótt að hann sé aðeins metinn á 4% þeirrar upphæðar sem Bill Gates er metinn á, ber á það að líta að Bill hefur verið að í rúm 30 ár. Ekki er óhugsandi að Mark Zuckerberg taki við titlinum einn daginn sem ríkasti maður heims.

Bill Gates sá snemma hversu spennandi Facebook hugmyndin er og hann keypti 1,6% í félaginu fyrir 240 milljón USD fyrir 2 árum síðan. Þetta kaupverð verðmetur félagið í heild á 15 milljarða USD eða u.þ.b. 1.800 milljarða króna.

Sá sem þetta skrifar notar Facebook reglulega og er þeirrar skoðunar að gildi vefsins sé mjög mikið í samfélagslegu tilliti. Á vefnum fylgist maður með tíðindum af ættingjum og vinum, umræðu um mál dagsins og fjölmargt fleira. Fámennar þjóðir eins og við geta nýtt vef eins og Facebook til að drífa áfram fjölmörg samfélagsmál eins og t.d. Þjóðfundinn og Hugmyndaráðuneytið.

Við eigum eftir að sjá mikið til Facebook á heimsvísu á næstu árum og ekki er víst að bann Kínverja á notkun hans lifi af áhuga íbúanna á að tengjast öðru fólki.

Ertu aumingi eða glæpamaður?

des. 2009 – 09:59 Hermann Guðmundsson

Mikið er talað um að endurreisa þurfi íslenskt atvinnulíf og eru það orð í tíma töluð. Reyndar hafa þessi orð heyrst í heilt ár en engar almennar aðgerðir hafa enn staðið til boða þeim sem standa í atvinnurekstri. Ekki verður farið hér yfir nýjustu sendingu stjórnvalda í þeim efnum.

Síðan kemur reglulega upp sá tónn að mikilvægt sé að öll fyrirtæki landsins sem skulda of mikið skipti um eigendur. Hvort að fyrri eigendur séu þá ákjósanlegir til að kaupa önnur óskyld fyrirtæki er ekki rætt í þessu samhengi. Með þessum sömu rökum þá ættu opinber fyrirtæki og sveitarfélög líka að skipta um eigendur því vandinn er sá sami.

Væri ekki skynsamlegt að horfa til einfaldra staðreynda.

Atvinnulífið hefur haft tvo valkosti í fjármögnun á síðari árum; krónu á okurverði sem oftast þýddi taprekstur og greiðsluþrot eða ódýrara fjármagn með mikilli gengisáhættu en þokkalegu sjóðstreymi. Í öllum hagkerfum þar sem skuldir atvinnulífsins tvöfaldast á einni nóttu myndast mikill vandi. Þetta er ekki óalgengt í löndum sem reka eigin myntir sem ekki eru alþjóðlegar.  Dæmin eru víða t.d. í Suður Ameríku, Asíu og Austur Evrópu.

Þegar slík staða kemur upp er voðinn vís. Atvinnulífið heldur nefnilega gangverki þjóðfélagsins gangandi og sjóðstreymi heimila og ríkissjóðs á upptök sín í atvinnulífinu.

Þegar vinna á hratt að endurskipulagningu fyrirtækja sem allra jafna ganga þokkalega,  eru það án efa þeir eigendur og stjórnendur sem staðið hafa vaktina árum saman sem búa yfir mestri þekkingu. Ef ráða á skipstjóra á bát sem veiðir við erfiðar aðstæður þá stendur sá betur sem áður hefur staðið slíka vakt.   Slíkir aðilar munu auka endurheimtur verðmæta og starfa og það hlýtur að vera aðal markmiðið í endurreisninni þótt að það skíni ekki í gegn hjá öllum.

Hér er ekki fjallað um þá staðreynd að í einhverjum undantekningatilfellum ríkir ekki lengur traust á milli lánþega og lánadrottna sem þá ráða för.

Stundum virðist sem sumum  þyki mikilvægara að bjarga fjósinu en kúnum.

Annað viðhorf sem hefur náð tökum á hluta landsmanna er að hagnaður í rekstri sé neikvætt fyrirbrigði en ekki jákvætt. Án hagnaðar í rekstri verða skuldir ekki greiddar niður og það verður heldur ekki fjárfest til að endurnýja búnað og aðrar eignir sem viðkomandi félag nýtir.

Án hagnaðar fær ríkissjóður engar tekjur og launþegar engar kjarabætur. Á stundum virðast aðeins tvenns konar sjónarmið uppi; ef þú ert í taprekstri þá ertu aumingi en ef þú hagnast þá ertu glæpamaður!

Þetta hugarfar verður að ná einhverju jafnvægi. Hóflegur hagnaður og traustar undirstöður  hljóta að vera þau markmið sem atvinnulífið setur sér eftir storminn mikla.

Eggjastokkalottóið

jan. 2010 – 13:40 Hermann Guðmundsson

Ef við horfum 100 ár aftur í tímann kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Íslendingar voru þá 85 þúsund talsins en okkur hefur tekist að fjölga þjóðinni uppí 319 þús á 100 árum, að jafnaði fjölgaði þjóðinni um rúmlega 1% á ári nema þegar kreppti að árin  1926 – 1934 en þá tvöfölduðust fæðingar.

Á þessu tímabili hefur heimurinn gengið í gegnum 2 heimsstyrjaldir, heimskreppuna miklu, fjölmörg  stríð, fjölda samdráttarskeiða, olíukreppu og fjölmargar náttúruhamfarir. Þrátt fyrir þetta þá hafa lífsgæði heimsins aukist alla síðustu öld og jafnvel meira á Íslandi en annars staðar.

Á síðustu 65 árum hefur mannkyninu fjölgað úr 2.500 milljónum manna og í 6.500 milljónir manna. Þessi gríðarlega fólksfjölgun er einsdæmi í sögu jarðarinnar og með svona miklum breytingum koma fjölmörg vandamál. Víða er glímt við næringarskort, vatnskort, orkuskort, mengun, vosbúð, heilsufarsvandamál og offjölgun.

Grínistinn Billy Connolly sem er frá Glasgow var einu sinni spurður að því hvernig honum litist á þessi  vandamál og þá ekki síst offjölgun mannkynsins, hann sagði eitthvað á þessa leið:

„ef allir hjálpast að og borða eina manneskju hver þá höfum við þegar helmingað vandann, fangelsin tæmast, sjúkrahúsin losna, atvinnuleysi hverfur og flest öll okkar vandamál.” 

Þetta verður örugglega ekki lausnin.

Við sem erum Íslendingar höfum unnið stóra vinninginn í „eggjastokkalottóinu“ þ.e.a.s. við höfum til ráðstöfunar land sem býr yfir öllum þeim náttúruauðlindum sem hægt er að biðja um. Flest þau vandamál sem við höfum og munum glíma við eru af manna völdum eða í það minnsta leysanleg af mönnum.

Warren Buffett fann upp þetta hugtak „eggjastokkalottó“ og í hans huga þá er það ótækt að fólk sem fæðist fyrir tilviljun inní ríka fjölskyldu þurfi aldrei að leggja neitt á sig til að öðlast það sem almenningur vill og þráir. Hann gaf 95% af sínum eignum til að leggja áherslu á að auðæfi heimsins eigi ekki að safnast á fárra hendur heldur nýtast öllum íbúum jarðarinnar.

Það eru ekki mörg ár síðan það skipti sköpum fyrir tækifæri fólks hvort að það fæddist í austur eða vestur Þýskalandi, Mexikó eða Bandaríkjunum eða norður og suður Kóreu. Það getur því verið algerri tilviljun háð hvort einstaklingurinn hefur þau tækifæri sem gera honum kleyft að fullnýta sína getu samfélaginu og einstaklingnum til hagsbóta. Ef t.d. David Beckham hefði fæðst sem hirðingi í Mongólíu þá eru engar líkur á að hann hefði náð þeim árangri sem hann hefur náð sama má segja um Bill Gates ofl.

Alla síðustu öld voru náttúruauðlindir af ýmsum toga að uppgötvast víða á jörðinni. Þegar litið er yfir efnahag heimsins þá sést vel hversu miklu það hefur ráðið að eiga náttúruauðlindir. Augljóst er að þær þjóðir sem ekki ráða yfir slíkum auðlindum þurfa með einhverjum ráðum að búa til verðmæti til að geta keypt þau hráefni sem þeim vantar. Við sjáum um þessar mundir hvernig fjármunir vegna olíusölu eru að safnast upp hjá fáum þjóðum á kostnað annara.

Er hugsanlegt að það þurfi á þessari öld að leita nýrra leiða til að sumar þjóðir verði ekki uppiskroppa með hráefni? Er eðlilegt að þeir sem í gegnum eggjastokkalottó sitja t.d. á miklum olíulindum sem öðrum þjóðum vantar þurfi ekki að hreyfa legg eða lið vegna þess að önnur hagkerfi verða að sæta því verði sem hæst er hverju sinni?

Ef ein þjóð ætti allt ferskvatn á jörðinni gæti sú þjóð þá verðlagt það mjög hátt í sama tilgangi eða jafnvel neitað að selja vatn til annara? Eftir því sem gengið er meira á auðlindir jarðar þá styttist alltaf í að svara verður áleitnum spurningum um siðferði þess hvernig gæðum jarðarinnar er skipt. Er barn í Eþíópíu minna virði en barn í Frakklandi?

Það eru oft aðstæður sem ráða mestu um það hvernig einstaklingum vegnar og samfélög eru byggð upp af krafti einstaklinga. Það er vert að rifja upp að t.d. Ástralía var í upphafi byggð upp af ævintýramönnum, sakamönnum og erfiðum einstaklingum sem illa þrifust í sínum heimalöndum.  Ástralía er gjöful heimsálfa og því hefur þessum fólki vegnað vel að það hefur byggt upp samfélag sem gefur öðrum þróuðum ríkjum ekkert eftir. Íbúum Ástralíu fjölgar enn talsvert hraðar en meðaltal heimsins. 

Ástæða þess að lífskjör Íslendinga hafa batnað jafnt og þétt í s.l. 100 ár er m.a. vegna þeirra tækifæra sem landið okkar bíður uppá. Með réttri nýtingu og skynsamlegum áætlunum þá eigum við öll tækifæri til að halda áfram að byggja upp lífsgæði, koma núverandi vandamálum í lóg og undirbúa að afhenda landið börnum okkar til framtíðar. Ísland hefur allt til að vera land tækifæranna ef að við kjósum það sjálf og það þarf talsverð inngrip okkar mannanna til að skemma þau tækifæri.

Árið 2009 er um margt tapað ár í tíma, með samhug og krafti þá hefði mátt ná viðspyrnu mjög fljótt í þeim erfiðleikum sem steðja að heimilum og fyrirtækjum. Þess í stað fór árið að mestu í að ala á sundrungu, ófriði og mannorðsmorð eru daglegt brauð. Margir hafa látið stór orð falla ítrekað og með því fellt sitt eigið mannorð í svaðið. Ekkert af þessu gerir þjóðinni gagn heldur þvert á móti.

Ég hef á tilfinningunni að nýhafið ár geti í of mörgu líkst síðasta ári og ekki síst vegna þess að umfjöllun um rannsóknir allra aðila á hruninu munu bera ávöxt á þessu ári.

Ef umræðan um þau málefni verður það eina sem þjóðin fær að heyra og lesa í fjölmiðlum þessa árs þá verður endurreisnin erfið og við munum enn á ný lengja kreppuna sem gat orðið skammlíf en hefur nú alla burði til að verða margra ára skuldavandi ríkissjóðs og þar með þjóðarinnar allrar.

Það verður aldrei of oft sagt að framtíðin er í okkar eigin höndum og hún kemur hvort sem við verðum undirbúin eða ekki.