Marc Rich

Ævintýralegt líf í olíuheimi

jan. 2010 – 08:00 Hermann Guðmundsson

Frá árinu 1940 og fram til 1970 var verð á tunnu af hráolíu á bilinu 2 – 3 USD.

Verð breyttust lítið þótt sveiflur kæmu fram öðru hvoru þegar heimsmálin voru í óvissu. Markaðurinn á þessum tíma var í ástandi sem kallað er „oligapoly“ þar sem hinar sjö systur svokölluðu (Chevron, Esso, Shell, Texaco, BP, Mobil og Gulf) réðu alfarið verðlagningu á olíuvörum í heiminum.

Á þessum tíma kostaði að meðaltali ca. 40 cent að ná upp tunnu af hráolíu og með söluverð í 2.50 USD þá var hagnaður risanna gríðarlegur. Til samanburðar þá er talið að meðalverð á olíu uppúr sjó í dag sé um 35.00 USD pr. tunnu.

Hin risastóru olíufélög gerðu langtímasamninga við þau lönd sem réðu yfir olíuríkum svæðum. Olíufélögin lögðu fram geysilegt fé til fjárfestinga í borun og búnaði til að hægt væri að ná olíunni upp og síðan koma henni á markað. Afgjaldið til olíuframleiðsluríkjanna var lágt og öll virðiskeðjan var á hendi risanna. Á þessum árum var ekki hægt að kaupa olíu á markaði, hún fékkst aðeins keypt út úr olíuhreinsistöðvum sem allar voru í eigu risanna.

Hvernig risarnir misstu tökin á markaðnum á stuttum tíma er saga sem er ævintýri líkust og efni í góða kvikmynd.

Fram á völlinn kemur ungur maður að nafni Marc Rich. Hann var skírður Marcell David Reich en eftir að hann sem ungur drengur ásamt foreldrum sínum komst við illan leik til Bandaríkjanna 1941 tók fjölskyldan upp ný nöfn. Fjölskyldan hafði sloppið naumlega undan Þjóðverjum sem réðust inní Antwerpen, fluttu og drápu síðar tugi þúsunda gyðinga sem ekki voru jafn lánsamir að sleppa.

Marc Rich hefur verið kallaður „King of Oil“ í heimi viðskiptanna síðan snemma á áttunda áratugnum. Hann braut á bak aftur staðnað viðskiptakerfi og bjó til heimsmarkað fyrir olíu með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.

Marc hætti í háskóla eftir einn vetur og réð sig til vinnu í fagi sem átti eftir að verða hans ævistarf og gera hann að einum ríkasta manni heims. Hann steig sitt fyrsta skref 1954 í viðskiptalífinu sem lærlingur hjá fyrirtækinu Phillip Brothers í New York.

Hans fyrstu skref í hrávöruviðskiptum voru þegar hann eftir rannsóknir komst á þá skoðun að kvikasilfur væri stórlega undirverðlagt og að eftirspurn myndi aukast verulega við framleiðslu á talstöðvum og fjarskiptabúnaði sem notuð eru í hernaði. Hann fór víða um heiminn og gerði samninga um kaup á kvikasilfri til nokkura ára og á 2 árum hækkaði verðið yfir 100% og Marc hafði skapað sinn fyrsta hagnað fyrir vinnuveitanda sinn og um leið jókst hróður hans.

Marc starfaði í 18 ár hjá Phillip Brothers sem á þeim tíma varð langstærsta hrávörumiðlun heimsins. Þar var höndlað með alla málma og efnavörur auk fleiri hráefna. Marc var kominn í stjórnunarstöðu sem forstjóri starfseminnar á Spáni og undir hann heyrði Afríka og Mið – Austurlönd auk fleiri landa.

Það má segja að þegar Nixon Bandaríkjaforseti afnám notkun gullfótsins sem undirstöðu fyrir USD í ágúst 1971 hafi tólfunum verið kastað. Dollarinn lækkaði í verði um nær 40% á stuttum tíma sem þýddi að tekjur olíuframleiðslulandanna drógust saman að sama skapi.

Á næstu 2 árum þjóðnýttu margar þjóðir allar olíulindir og tæki sem voru í eigu risanna.

Alsír og Líbería riðu á vaðið og fljótlega fylgdu á eftir stóru olíulöndin Írak, Saudi Arabía, Abu Dabi og síðast steig Keisarinn í Íran sama skref 1973. Heimurinn hafði breyst á fáum mánuðum og allt í einu þá voru það risarnir sem þurftu á framleiðslulöndunum að halda en ekki öfugt.

Marc Rich hafði áttað sig fyrstur á því sem var að fara að gerast og eins og forðum þá ákvað hann að stíga skrefið til fulls. Hann þekkti vel til í Íran eftir margra ára viðskipti þar og á fáum dögum þá tókst honum að kaupa hráolíu af Írönum fyrir 37 milljónir USD sem var veruleg upphæð í þá daga. Hann hafði fest verðið í 2 ár og greitt 5 USD fyrir tunnuna sem á þeim tíma seldist á 3 USD til hreinsistöðva.

Þegar höfuðstöðvarnar í New York fengu fréttirnar þá varð allt vitlaust og Marc var neyddur til að selja samninginn þar sem yfirstjórninni fannst of mikil áhætta fólgin í verðinu.  Samningurinn var seldur og þegar 2 ár voru liðin hafði kaupandinn grætt 60 milljónir Usd. Þessi viðbrögð yfirstjórnarinnar urðu til þess að Marc Rich ákvað að hætta eftir 18 ár hjá stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði til að hefja eigin rekstur ásamt nokkrum nánum samstarfsmönnum.

Félagið var stofnað í Zug í Sviss og bar heitið Marc Rich AG.

Það sem Marc sá á undan öðrum var að olían var að verða hrávara á heimsmarkaði eins og málmar og fleiri vörur og hann vissi að þetta yrði stærsta vörulínan í heimi hrávöru. Hann ætlaði að verða fremstur á sviðinu þegar boltinn færi að rúlla.

Olíuframleiðslulöndin höfðu ekkert sölukerfi, enga fjármögnun og kunnu ekki til verka í flutningum, geymslu og samningagerð. Marc Rich gat séð um það allt gegn hæfilegri þóknun.

Eftir 20 ára rekstur þá var Marc Rich AG fyrirtækið langstærsta hrávörumiðlun heimsins og árið 1990 var veltan orðin yfir 30 milljarðar Usd á ári og félagið seldi meiri olíu á degi hverjum en Kuwait sem er eitt helsta olíuframleiðsluland heimsins.

Skrifstofur félagsins voru þá í 128 löndum.  Marc birtist á Forbes listanum sem milljarðamæringur sem hafði byrjað með tvær hendur tómar en með mikilli vinnu og innsæi náð að byggja upp stórveldi sem hann síðan seldi. Eftir söluna þá var nafninu breytt í Glencore og það er enn í dag eitt stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði.

Marc Rich er sannkallaður heimsborgari og það er varla til sá staður á jörðinni þar sem hann hefur ekki gert viðskipti. Hann varð náinn vinur fjölmargra þjóðarleiðtoga og það var ekkert land sem hann vildi ekki eiga viðskipti við með hrávörur. Hann var brautryðjandi í því að eiga viðskipti við minna þróuð hagkerfi í Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. Hann stóð alltaf við samninga og aldrei þurfti að efast um orð hans. Hans sýn var ávallt á langtíma viðskiptasambönd.

Eitt sinn þegar ríkisstjórn Jamaica var í prógrammi hjá IMF vegna erfiðar skuldstöðu þá var stuttur tími í endurskoðun áætlunarinnar og ríkisstjórnin átti ekki þann gjaldeyri sem henni var skylt að eiga samkvæmt prógramminu. Ef Jamaica stæði ekki við sinn hluta þá fengi landið ekki áframhaldandi fjárhagsaðstoð. Góð ráð voru dýr og landið gat hvergi fengið lánað og samkvæmt prógramminu þá mátti það ekki efla gjaldeyrissjóðinn með láni. Það var leitað til Marc Rich um hugmyndir að lausn.

Hann bauðst til að kaupa súrál úr námum ríkisins og greiða 2 ár út í hönd samtals 45 milljónir USD. Þetta dugði og endurskoðun fékkst, síðar hjálpaði hann sömu ríkisstjórn að kaupa álver sem að Alcoa ætlaði að loka á eyjunni og það varð mikið heillaskref þar sem álverð hækkaði mikið og góð afkoma álversins styrkti efnahag eyjunnar.

Með því að reka fyrirtækið undir lögsögu Sviss þá þurfti hann ekki að lúta boðum og bönnum Bandaríkjamanna sem útdeildu viðskiptabönnum hist og her í tilraunum sínum til að hrekja stjórnvöld frá völdum. Á endanum sá Rudy Guiliani þáverandi saksóknari í New York ástæðu til ákæra Marc Rich fyrir skattaundanskot dótturfélags og fyrir að hafa átt viðskipti við klerkastjórnina í Íran í trássi við bann Bandaríkjanna.

Krafðist saksóknarinn knái 325 ára fangelsi sem var í engu samræmi við mál af þessu tagi.

Marc Rich flúði land og settist að í Sviss þar sem hann býr enn, hann afsalaði sér bandarískum ríkisborgararétti og tók upp spánskt ríkisfang og síðar ísraelskt einnig.

Það er athyglisvert að þrátt fyrir að viðskiptin við Írani væru við svissneska félagið Marc Rich AG og fullkomlega lögleg viðskipti samkvæmt svissneskum lögum þá töldu Bandaríkjamenn sig ekki þurfa að taka tillit til þeirra laga. Í sautján ár sátu útsendarar Bandaríkjastjórnar um Marc Rich og margreyndu að egna fyrir hann gildrur svo að þeir gætu rænt honum og flutt nauðugan í dómssal.

Meðal annars skipulögðu þeir slíkt mannrán innan landamæra Sviss sem varð til þess að samskipti ríkjanna urðu æði stirð til margra ára. Svissnesku stjórnvöld kröfðust þess að ef Marc Rich AG hefði brotið alþjóðalög þá yrði réttað í málinu í Sviss en það vildu bandarísk stjórnvöld ekki. Þau vildu eingöngu horfa til eigin laga og eigin hagsmuna.

Harðsnúið lið fyrrum Mossad manna gættu Marc Rich nótt og dag enda sá hann um að Ísrael fengu olíu afgreidda þrátt fyrir að flest framleiðslulöndin væru með landið á bannlista.

Eitt mesta fjölmiðlafár allra tíma hófst í janúar 2001 þegar síðasta embættisverk Bill Clinton var að náða Marc Rich og viðskiptafélaga hans til áratuga, Pincus Green. Gríðarlegt fjölmiðlafár fór í gang þar sem því var haldið fram að fyrrum eiginkona Marc hefði í gegnum framlög í kosningasjóði Demókrata og Bills Clinton sjálfs keypt náðun.

Rannsóknarnefnd var skipuð af þinginu og miklum tíma var varið í að deila um málið. Það er á seinni árum sem það kom fram að fjöldi þjóðarleiðtoga skoraði á Clinton að náða Marc Rich á þeim forsendum að hann væri í áratugi búinn að vera ómetanlegur bandamaður við að leysa erfið milliríkjamál m.a. á milli Egypta og Ísraela og síðar Palestínumanna og Ísrael. Þar að auki hafði hann ráðstafað gríðarlegum fjármunum til mannúðarmála í þeim löndum þar sem hann stundaði viðskipti.

Þegar fram voru komin gögn sem sýndu frammá að öll rök saksóknara New York borgar voru meira og minna á sandi byggð og tóku ekki tillit til lögsögu annara ríkja ákvað Bill Clinton að náða Marc eftir 18 ára útlegð og einelti bandarískra stjórnvalda.

Kóngurinn var aftur frjáls en á tímabilinu missti hann dóttur sína 27 ára gamla úr krabbameini og honum var meinað að koma til Bandaríkjanna til að vera við dánarbeð hennar og útför.

Nú lifir Marc Rich rólegu lífi við Luzern vatn og nýtur efri áranna. Hann segist aldrei ætla að koma til Bandaríkjanna framar þrátt fyrir náðunina því að hann treysti ekki slíkum stjórnvöldum.

Sögu Marc Rich má lesa í bókinni King of Oil sem skrifuð er af Daniel Amman og útgefin af St. Martin´s Press.

Upp af botninum

jan. 2010 – 10:00 Hermann Guðmundsson

Fyrir hálfu ári síðan skrifaði ég pistil sem heitir „Ég sé botninn“. Þar leiddi ég líkum að því að það væri farið að sjá fyrir endann á samdrættinum í hagkerfum heimsins.

Flest bendir til að svo sé komið nú, nýjustu hagtölur frá Bandaríkjunum og Kanada auk talna frá Asíu benda til að það versta sé yfirstaðið. Fréttir bárust m.a. af því að Ford bílaverksmiðjurnar væru farnar að skila hagnaði aftur eftir nokkur mjög erfið rekstarár. Það er jú enn þannig að ef hagvélarnar í Norður Ameríku og Austur Asíu mala hraustlega draga þær restina af heiminum með sér beint og óbeint.

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur er eðlilegt að spyrja? – Svarið er einfalt, þetta skiptir sköpum.

Það er samt ekki svo að við fáum fyrirhafnarlaust ágóða vegna þessa en þetta gefur okkur tækifæri sem annars væru jafnvel ekki til staðar. Um leið og kaupgeta eykst í stóru löndunum þá eykst neyslan sem kallar á vörur sem m.a. eiga upptök sín hjá okkur.

Fjárfestingar lífeyrissjóðanna okkar í erlendum verðbréfum hafa hækkað mikið á einu ári og það er mikil gæfa að þær hafi ekki verið seldar þegar stormurinn stóð sem hæst. Það sem öllu máli skiptir er að æðakerfi viðskiptalífsins virðist vera að gróa saman og súrefnið er að byrja að streyma að vöðvunum. Sem sagt fjármálakerfi vesturlanda er að komast á lygnan sjó eftir ótrúlega baráttu uppá líf og dauða síðustu 18 mánuði. Fjöldi banka og fjármálastofnanna er horfinn með öllu og tugþúsundir starfa hafa tapast á meðan allt kerfið nötraði og skalf.

Hafin er smíði nýrra regluverka til að minnka áhættu í kerfunum og er það vel. Á það ber samt að líta að ekkert kemur í staðinn fyrir skynsamlega afstöðu stjórnenda þegar kemur að ákvarðanatöku í einstökum málum. Það er jú þannig að með ríkum vilja má alltaf finna „löglegar“ leiðir að sömu niðurstöðu og reglunum er stefnt gegn. Ný upplýst rannsókn á gjaldeyrisviðskiptum sýnir að „andi“ í reglum nær ekki alltaf til allra.

Í auknum mæli berast fregnir af erlendum fjármálastofnunum og fjárfestum sem vilja stíga inní okkar litla hagkerfi með fjármagn og leggja okkur lið með von um ábata í huga. Það eru mikil umskipti frá því fyrir ári síðan, þá voru hér nær eingöngu hræætur og áhættufíklar að leita að auðveldum tekjum.

Það er ekki síst í atvinnulífinu sem orðstýr landsins ræðst, við hjá N1 eigum regluleg viðskipti við um 500 erlend fyrirtæki á ári hverju. Þessi fyrirtæki hafa ekki undan neinu að kvarta í þeim viðskiptum og hafa furðað sig á neikvæðri umræðu um land og þjóð í fjölmiðlum.

Íslendingar hafa stundað milliríkjaviðskipti í áratugi og þau viðskipti eru okkar fótspor í viðskiptaheiminum mikið frekar en alþjóðleg bankastarfsemi. Það er augljóst að rætur okkar liggja í útflutningi á sjávarafurðum og þar eigum við merka sögu að baki og mikinn árangur. Á meðan stjórnvöld hafa verið að berjast við erfið milliríkjamál hefur atvinnulífið staðið vaktina og haldið vel á spöðunum við að halda hagkerfinu gangandi. Vegna þessa hefur kreppan ekki náð að bíta jafn illa og reikna mátti með. Þessu starfi þarf að halda áfram og of hægar vaxtalækkanir lina aðeins verkina en stærri skref hefðu skilað meiri árangri eins og í löndunum í kringum okkur.

Eitt er það mál sem skiptir okkur öll máli og það er hvernig standa á að fiskveiðistjórnun. Sem betur fer er enn fiskur í hafinu í kringum Ísland, það er ekki sjálfgefið eins og sést á miðum annara landa þar sem búið er nánast að eyðileggja alla fiskistofna.Með því að ýkja aðstæður þá má kalla fram öfgakennda afstöðu.

Ef að við ímyndum okkur í stutta stund að t.d. Vestmannaeyjar hefðu með aðstoð erlendra lána keypt allar fiskveiðiheimildir þjóðarinnar og stóraukið útgerð frá Eyjum og lagt hana af í öðrum byggðalögum, kæmi fljótt í ljós að það yrði aldrei sátt um slíka stöðu.
Vesturland, Norðurland og Austfirðir gætu aldrei búið sínum íbúum þolanleg kjör án þeirra tekna sem hafið tryggir.

Grundvallaratriðið er að við verðum að veiða fisk með sem minnstum tilkostnaði til að arðsemi sé í greininni og þjóðarbúið hagnist verulega. Það er samt þannig í mínu huga að byggðir landsins eiga frumbyggjarétt. Vandinn er fólginn í því að finna aðferðafræði þar sem arðseminni er ekki kastað á bál hugsjóna en um leið verður að verja réttinda þeirra íbúa sem búa við ströndina og hafa haft viðurværi af hafinu í margar aldir.

Fyrirtæki eins og HB Grandi, Samherji, Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Fisk Seafood, Ísfélagið, Þorbjörninn og fleiri slík geta ekki búið við það ástand að stjórnvöld standi í hótunum við greinina á meðan þau sjálf eru að berjast á erlendum mörkuðum við að tryggja sölusamninga og langtímaviðskipti.

Íbúar á landsbyggðinni geta ekki heldur búið við þá ógn að fyrirtækið sem allir sækja sína afkomu til sé selt úr byggðalaginu og tekjurnar með. Það er ekki annað að heyra en að útgerðin sé til samninga reiðubúin en stjórnvöld virðast ekki ætla að ganga veg friðar og farsældar og er það óábyrg stefna að mínu mati.

Það er gömul saga og ný að mestur ávinningur næst alltaf fram þegar samtakamáttur er nýttur til hagsbóta fyrir heildina, ófriður og átök kosta alltaf meira en samningar og sárin eru lengi að gróa.

Verkefnin eiga að snúast um að bjarga verðmætum en ekki hugsjónum.

Á barmi heimskreppu!

feb. 2010 – 10:08 Hermann Guðmundsson

Þessa dagana er að koma út bók sem skrifuð er af Hank Paulson fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna og þar áður forstjóri virtasta fjárfestingabanka heims, Goldman Sachs.

Í þessar bók lýsir Paulson í smáatriðum þeirri atburðarás sem við þekkjum orðið svo vel frá haustinu 2008. Hann er að lýsa glímu Bandaríkjamanna við stærsta fjármálakerfi heimsins.

Það er athyglisvert að þegar hann hafði samþykkt að hætta í einu best launaða starfi heims til að verða fjármálaráðherra , var hvatinn að eigin sögn sá að hann langaði að verða landinu að liði síðasta hluta starfsævinnar í stað þess að halda áfram að hagnast á bankarekstri. Hank Paulson var álitinn eiga allt að 100 milljarða í eignum þegar hann var skipaður fjármálaráðherra.

Þegar hann hitti George W. Bush forseta í fyrsta sinn til að ræða stefnumál  í ágúst 2006, sagði hann við forsetann;  „Við eigum eftir að glíma við mikinn vanda á fjármálamörkuðum næstu misserin.“ Forsetinn spurði Paulson hvað myndi verða til að kveikja þann vanda og Paulson sagðist ekki vita það.  Hann sá ekki fyrir að fasteignalán til kaupenda sem ekki gátu greitt myndi verða sú þúfa sem velti þessu þunga hlassi. Honum fannst hins vegar sem boginn væri almennt of spenntur og það myndi ekki leysast nema í gegnum sársaukafulla leiðréttingu.

Það sem mér þykir athyglisvert er að þegar hann er spurður að því hvaða lærdóm megi draga af því sem gerðist og hvaða endurbætur séu brýnar á eftirlitshlutverkinu þá telur hann að brýnasta verkefnið sé að á einum stað í stjórnkerfinu verði að vera til staðar valdamikill aðili sem horfir eingöngu til kerfisáhættu.

Þessi aðili þurfi að horfa inní banka, sjóði, lífeyrisjóði, tryggingafélög og skylda aðila með það að markmiði að tryggja að áhættan í kerfinu sé þekkt og henni megi stýra með beinum tilskipunum. Að ekki hlaðist upp á mörgum stöðum stórar skuldbindingar sem samanlagt geta haft mjög alvarlegar afleiðingar.

Hann hefur ekki sterka skoðun á því hver á að hafa þetta hlutverk þ.e.s.a. Seðlabanki (Fed) eða fjármálaráðuneyti eða aðrir.

Aðalatriðið sé að ekki verði svo mikil innri áhætta í kerfunum að þegar ein stofnun kemst í vanda geti hún dregið allt kerfið með sér eins og t.d. í tilfelli AIG. Það sem vekur mig til frekari umhugsunar er sú staðreynd sem Hank Paulson talar um:

Að engu mátti muna að fjármálakerfi Bandaríkjanna hefði raunverulega fallið og dregið mörg lönd með sér í fallinu. Hann er sannfærður um að slíkt fall hefði orðið að verri kreppu en 1929 og atvinnuleysi í Bandaríkjunum væri ekki 10% í dag heldur mikið nær 30% ef ekki hefði tekist að afstýra fallinu.

Hann skýrir þetta m.a. með því að mörgum mánuðum fyrir dramatíkina í kringum Bear Stearns hafi stærstu fyrirtæki landsins þegar átt erfitt með að fjármagna skammtímaþarfir á markaði sem eitt og sér var geysilega varasamt. Það var kominn markaðsbrestur sem hélt áfram að versna.

Hann telur að sá tími sem þurfti til að sannfæra þingmenn um að samþykkja þau risavöxnu útgjöld sem gripið var til í baráttunni hefði getað leitt til verstu hugsanlegu niðurstöðu.  Sem betur fer tókst honum, Bernanke og Tim Geithner að sannfæra þingheim nógu tímanlega til að hægt var að bjarga kerfi sem riðaði til falls.

Þetta leiðir hugann að þeirri stundu þegar íslensku bankarnir féllu allir í sömu vikunni.

Það hlýtur að teljast gríðarlegt afrek að ekki fór verr.

Vegna þess að nýir bankar komust strax í gang og að greiðslumiðlunarkerfið hélst gangandi, var miklum hörmungum forðað. Skaðinn fyrir hagkerfið ef kortakerfin hefðu fallið og almenn bankaþjónusta lamast hefði orðið óbætanlegur.

Það er hætt við að búsáhaldabyltingin hefði litið út eins og barnaafmæli við hliðina á því öngþveiti sem þá hefði myndast. Við slíkar aðstæður hefðu fyrirtæki farið í þrot á augabragði og almenningur hefði varla getað keypt sér matvöru eða aðrar nauðsynjar. Slíkt neyðarástand hefði leitt til fjölda innbrota, uppþota og óeirða.

Seðlabankinn var á tíma eina færa leiðin fyrir gjaldeyri inn og út úr landinu og það þurfti á köflum mikla hörku til að sú leið lokaðist ekki líka.

Sennilega eru stærstu einstöku mistökin sem gerð voru þegar nýju bankarnir voru stofnaðir þau, að lánin skyldu ekki vera færð yfir í krónum á því gengi sem var t.d. 1.september 2008.

Hefði slíkt verið gert í upphafi í stað þess að verðmeta hvert lán sérstaklega þá er alveg víst að vandi heimilanna og fyrirtækjanna væri aðeins brot af því sem nú er. Slík aðferð hefði líka breytt hagkerfinu í einni aðgerð úr fjölmynta hagkerfi og yfir í krónu hagkerfi eins og var í kringum árið 2000. Öll þau þúsundir mála sem nú bíða skoðunar og lausna væru ekki til staðar og dómskerfið væri kannski ekki að fá yfir sig skriðu deilumála sem bíða úrlausna.

Það verður mikill lærdómur dreginn af þessu tímabili Íslandssögunnar en vonandi verða það aðrir en við sem þurfum að grípa til hans.

Vinalaus þjóð

feb. 2010 – 19:22 Hermann Guðmundsson

Margt hefur yfir þessa þjóð gengið síðustu 18 mánuði.

Segja má að við höfum staðið í efnahagslegri styrjöld í heil 2 ár. Í fyrstu varð almenningur lítið var við stríðið sem stóð á bakvið tjöldin. Hér er ég að vísa til þess að fyrst réðust spákaupmenn og vogunarsjóðir að hagkerfinu úr öllum áttum og í beinu framhaldi lokuðu flestallir erlendir bankar á Ísland. Þessir sömu aðilar sitja nú á skrifstofum sínum í London og víðar og skipta með sér ránsfeng í formi bónusa fjármálafyrirtækja.

Þetta hófst seint á árinu 2007 og stóð þar til yfir lauk. Við hjá N1 höfðum átt smávægileg lánaviðskipti við þýska bankann HSH Nordbank um nokkurra ára skeið; skyndilega tilkynnti okkar tengiliður að yfirstjórn bankanns hefði ákveðið að loka öllum lánum á Íslandi. Engin skýring og engin umræða. Við greiddum upp lánið sem var ein milljón bandaríkjadala og það verður bið á að erlendur banki fái okkar viðskipti aftur.

Það er síðan í október 2008 sem Bretar lýstu yfir stríði við íslensk yfirvöld og Hollendingar fylgdu fast á eftir. Öll þessi atburðarás er orðin vel þekkt og ekki ástæða til að lýsa henni frekar hér. Það sem ég hef verið að velta fyrir allar götur síðan er sú staðreynd að öll okkar fortíð virtist ekki skipta neinu máli þegar til kastanna kom. Í rúm 60 ár höfum við talið okkur sjálfstæða þjóð á meðal þjóða.

Við höfum lagt okkur fram í alþjóðlegu starfi bæði innan vébanda Nató, Sameinuðu þjóðanna, EFTA, Norðurlandaráði, ÖSE og fleiri slíkra fjölþjóðlegra samtaka. Allt kostar þetta talsvert fé og mannskap.Við höfum stundað alþjóðlegt mannúðarstarf við hlið annara bæði í Afríku og víðar.  Íslendingar hafa einnig  margoft safnað fjármunum til að senda öðrum þjóðum í neyð.

Í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins steðjaði að okkur ógn sem við réðum ekki við, enda við ofurefli að etja. Það hefur vakið undrun mína að engin þjóð steig fram og bauðst til að miðla málum eða með neinum hætti sýndi því skilning að Ísland sætti ofbeldi og þyrfti aðstoð. Ekki fjármuni heldur pólitíska aðstoð. Kannski er skýringin einfaldlega sú að aðrar þjóðir voru sjálfar að berjast fyrir sínum efnahag og höfðu ekki tíma til að líta til með öðrum.

Snemma varð ljóst að ESB gat ekki komið sér saman um stuðningsaðgerðir innan sinna eigin landamæra heldur var ákveðið að hver þjóð skildi glíma við sinn vanda sjálf og efnameiri þjóðir myndu ekki aðstoða þær efnaminni. Nú er ljóst að Þjóðverjar vilja t.d. ekki að ESB stígi inn í vanda Grikklands og reyni að aðstoða. Það sem til þessa hefur verið talið helsti styrkur ESB (evran) er óðum að gliðna og jafnvel vogunarsjóðir eru byrjaðir að skortselja evruna í áður óþekktum mæli.

Þeir hafa þegar hagnast verulega á einni viku og eru ekki hættir.

Þegar mest á reyndi hvarf öll samstaða. Öll fögru orðin sem notuð eru í hátíðarræðum um samkennd þjóða voru innantóm.  60 ára saga okkar í samfélagi þjóðanna var ekki krónu virði þegar á reyndi. Enginn frændskapur nema hjá Færeyingum sem án hiks stigu fram fyrir skjöldu og lýstu yfir stuðningi við þjóð í vanda.

Það er fyrst í dag sem virðist sem það séu að verða vatnaskil. Það hillir undir að umsátrinu sé að ljúka og að til verði samkomulag sem hægt er að búa við fyrir skattgreiðendur á Íslandi. Nokkur fjöldi erlendra aðila er farinn að tala okkar málstað og farinn að átta sig á því sem um er að tefla.Það er líka í þessari viku sem dómur hefur fallið neytendum í vil. Sú staðreynd að lög sem sett voru til að verja neytendur fyrir gylliboðum sem þeir ekki gátu áhættumetið eru að sanna gildi sitt og gefa mörgum von.

Hér innanlands hefur vantað alla samúð með skuldurum sem margir sjá ekki út úr vandanum.

Það er skylda siðmenntaðra þjóða að búa svo um  hnútana að fólk sé ekki hneppt í ánauð þegar svona fordæmalausir atburðir hellast yfir. Skrýtnast þykir mér viðhorf þeirra sem ekki vilja að ungt fólk í vanda fái frelsi frá yfirskuldsettum eignum.

Svipað sjónarmið heyrist um atvinnulífið, það verður aldrei of oft sagt að endurreisn heimilanna og ríkissjóðs hefst með því að lækka skuldir atvinnulífsins sem mest.

Aðeins þannig er hægt að auka kaupmátt og umsvif í hagkerfinu. Það ætti að vera nánast eina baráttumál SA og ASÍ að þessari vinnu verði hraðað sem mest.
Fjöldi fólks telur það mikið óréttlæti að útlán lánastofnanna sem aldrei fáist greidd séu færð út úr bókum fyrirtækja og banka – hér er öllu snúið á haus.

Þessi niðurfærsla skulda atvinnulífsins er löngu tímabær og lykillinn að því að samdrátturinn stöðvist og störfum hætti að fækka. Vandi atvinnulífsins á að mestu upptök sín í slakri hagstjórn og áhættusækni banka.

Þeir sem hæst hafa í þessu efni er fólk sem aldrei ætlar að leggja fram áhættufé í atvinnurekstur.

Mér segir svo hugur að langtímavandi okkar eftir þetta mikla hrun verði rakinn til halla á ríkissjóði sem er gífurlegur um þessar mundir og ekki í sjónmáli að það breytist. Eina vörnin í slíkri baráttu er að auka sem mest umsvifin til að auka tekjur ríkissjóðs. Það er margreynt í atvinnulífinu að taprekstur snýst sjaldnast við í gegnum niðurskurð einan, það þarf nýjar tekjur. Þessar nýju tekjur þurfa að eiga upptök sín auknum umsvifum en ekki með því að þyngja enn frekar byrðarnar.

Ábyrgðin er okkar sjálfra!

feb. 2010 – 20:09 Hermann Guðmundsson

Í Silfri Egils í dag kom í ljós að „rannsóknarvinnan“ er rétt að byrja. Þar var talað um að það yrði að rannsaka einkavæðingu bankanna, rannsaka skilanefndir, rannsaka hvernig bankarnir vinna með atvinnulífinu að endurreisn fyrirtækjanna og ýmislegt fleira þarf örugglega að rannsaka.

Þetta minnir mig á sögu sem erlendur prófessor sagði mér af fyrirtæki í Evrópu sem varð gjaldþrota. Þeir sem komu að þrotabúinu til að vinna úr eignum og skuldum sögðust aldrei hafa komið að fyrirtæki þar sem allar upplýsingar, öll gögn og allt bókhald var jafn fullkomið og villufrítt. Þetta hefur verið kallað best skipulagða gjaldþrot sögunnar. Það var ekki skipulagt til að fara í þrot en eigandinn og framkvæmdastjórnin voru með alla áhersluna á innviði og kerfið en gleymdu að hafa stjórn á tekjum og gjöldum. Við virðumst stefna í svipaða átt.

Stjórnmálamenn eru með rannsóknir á heilanum en skeyta engu þeirri staðreynd að Ríkissjóður stefnir í þrot verði ekkert að gert og það hratt. Sjúklingurinn mun ekki lifa af rannsókn læknanna.

Við erum löngu búin að greina allt sem þarf að greina og skrifa allt sem þarf að skrifa. Aðgerða er þörf og sú þörf er brýn.Ég tel það vera löngu fullreynt að stjórnkerfið er ekki í stakk búið til að glíma við það sem við nú stöndum frammi fyrir, væntanleg hrunskýrsla verður eins og olía á eld og skattborgarar munu borga fyrir allt karpið og skítkastið sem framundan er.

Eina aflið sem til staðar er til að knýja hagkerfið áfram og um leið afstýra því sem sumir hafa kallað seinni bylgjuna í efnahagshruni Íslands eru aðilar vinnumarkaðarins.

ASÍ og SA verða að snúa bökum saman og leggja upp efnahagsáætlun sem byggir á fjölda smárra aðgerða til að örva hagkerfið og fækka atvinnulausum. Þessir aðilar verða að hafa lífeyrissjóði landsins með sér í slíkri vinnu því að fjármögnun slíkra aðgerða er þörf. Slíkar aðgerðir verða að snúa alfarið að einkageiranum en ekki að því að fjármagna verkefni sem síðan eiga að greiðast úr ríkissjóði sem hleður svo á sig fjármagnskostnaði.

Það hefur gleymst í öllu Icesave þrasinu að kjarasamningar eru lausir í haust. Launafólk verður að reyna að ná fram einhverjum kjarabótum eftir það sem á undan er gengið, en atvinnulífið er stórlaskað og ekki líklegt til að lifa af langt verkfall. Mesta hættan við þessar aðstæður er sú að verðbólgan verði enn og aftur sett í gang til að lækka kaupmáttinn eftir innistæðulausar kauphækkanir.  

Fyrirtækin í landinu eru að greiða beint ca.22 – 26 milljarða á þessu ári til að standa undir útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Framlag fyrirtækja hækkar um 61% á milli ára, þetta fé verður ekki notað í annað. Það er nokkuð ljóst að þessi mikla hækkun mun líklega knýja fram enn frekari uppsagnir og kannski ekkert við því að gera.

Þorsteinn Pálsson fyrrum ráðherra hitti naglann á höfðuðið á Viðskiptaþingi í síðustu viku þegar hann sagði að við værum ekki eingöngu að glíma við efnahagskreppu heldur einnig pólitíska kreppu. Hann sagði einnig að efnahagskreppan myndi ekki leysast fyrr en sú pólitíska væri leyst.

Staðreyndin er sú að við höfum ekki efni á að bíða eftir því að pólitíkin greiði úr sínum vanda.

Einn kollegi minn segir reglulega: Við eyðum 95% af tímanum í að greina stöðuna og fortíðina en 5% af tímanum í að ræða framtíðina og aðgerðir. Þetta er kjarni málsins.

Álitsgjafar og blogg-hetjur ríða röftum og allt þjóðfélagið er sem lamað, nú er mál að linni ef ekki á illa að fara. Ég ætla hér að lokum að gefa ykkur nokkrar algengar og talsvert mikið notaðar afsakanir fyrir því að gera áfram ekki neitt, þetta er gert til að spara tíma:

  • Það verður að leysa Icesave áður en nokkuð annað er gert
  • Óvissan í efnahagsmálum er svo mikil að rétt er að bíða enn um stund
  • Vextir eru of háir
  • Bíðum eftir að rannsóknum ljúki svo við vitum hverjum á að refsa
  • Óvissan um stöðu bankanna er svo mikil
  • Kannski fer krónan að styrkjast, bíðum átekta
  • Það má ekki nýta fjármagn lífeyrissjóða í endurreisninni því að það gæti meira tapast
  • Nýsköpun er eina leiðin
  • Það þarf að ákveða hvar á að virkja næst
  • Fyrirtækin og heimilin eru svo skuldsett að það er ekki óhætt að lána þangað fé

Það hefur sig enginn í að reikna hvað það kostar að gera ekki neitt, (aðgerðarleysiskostnaðurinn) hann er ógnvænlegur og afleiðingin getur orðið kerfisleg áhætta þar sem fjöldagjaldþrot verr stæðra fyrirtækja dregur þau betur stæðu með sér.

Niðurstaðan væri líklega sú að 10 – 15.000 manns til viðbótar verða atvinnulaus og ríkissjóður fer klárlega í þrot.Ég legg til að SA og ASÍ setji saman vinnuhóp úr sínum röðum til að hefja strax aðgerðir sem leiða til verðmætasköpunar og fjölgun starfa áður en næsta bylgja Íslendinga flytur erlendis, sá hópur fer ört stækkandi og það er engin furða.

Úrræðaleysið er æpandi.

Jamie Dimon: Hörkutólið á Wall Street

okt. 2009 – 11:57 Hermann Guðmundsson

Nú þegar rannsóknir á bankahruninu standa sem hæst er talsvert talað um hversu fáir einstaklingar það voru raunverulega sem höfðu þær ákvarðanir á valdi sínu sem réðu úrslitum um farsæld íslenska kerfisins. Við höfum tilhneigingu til að halda að íslenska umhverfið hafi verið með öðrum hætti en annars staðar.

Þegar horft er til stærsta fjármálamarkaðarins sem er á Wall Street kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Mesta uppgangstímabil fjárfestingabanka voru án efa árin frá 1988 og fram til loka síðasta árs. Eftir hrunið á mörkuðum 1987 kom tímabil þar sem mikill kraftur var settur í þóknanadrifin viðskipti,  sameiningar og yfirtökur á fyrirtækjum sem voru bæði vinveittar og óvinveittar.Á þessum árum voru engir viðskiptabankar á leikvellinum þar sem Glass – Seagall löggjöfin bannaði viðskiptabönkum að stunda fjárfestingar og fjárfestingaráðgjöf.

Það voru því stóru fjárfestingabankarnir auk nokkurra sérhæfðra fjárfestingafélaga sem réðu lögum og lofum á þessum risamarkaði, án þeirra gerðust ekki stór viðskipti nema í einstaka undantekningatilfellum og þá helst vegna styrkleika stórfyrirtækja sem þurftu ekki fjármögnun til að kaupa. Á þessu árabili voru  það sárafáir sem tóku hinar endanlegu ákvarðanir á Wall Street um þau viðskipti sem náðu fram að ganga.  Þessir sömu aðilar samþykktu að versla með fjármálaafurðir sem á endanum lögðu kerfið allt í stórhættu.

Skynsemin borin ofurliði

Á fáum árum fór nánast allt úr lagi sem telja má góða áhættustjórn og eða skynsamlega meðferð á  fjármuna annara. Eitt af því sem bar skynsemina ofurliði var sú trú að því stærri sem stofnanirnar yrðu því betra fyrir hluthafanna.Helstu leikendurnir á stóra sviðinu á Wall Street á þessum árum voru:

  • Sandy Weill  – bjó til Citigroup, stærsta banka heims
  • James Robinson III – stjórnarformaður American Express
  • Stan O´Neal – forstjóri Merrill Lynch
  • John Gutfreund – forstjóri  Salomon
  • Bruce Wasserstein – Wasserstein Perella
  • Henry Kravis  – Kohlberg Kravis Roberts & co
  • Peter Cohen – Shearson Lehman
  • Alan Schwartz og Jimmy Cayne – Bear Sterns
  • Alan Greespan – stjórnarformaður Federal Reserve (Seðlabanka Bandaríkjanna)

Auðvitað voru margir fleiri þáttakendur og gerendur á þessum árum en stóru málin voru ekki kláruð án þess að þessi hópur væri með í ráðum. Warren Buffett var einn af þeim sem fékk tilboð um að vera með í mörgum viðskiptum en hann afþakkaði flest slík boð.

Einn er sá maður sem ekki er nefndur hér vegna þess að hann var ekki formlega við völd fyrr en hann tók við sem forstjóri og stjórnarformaður Banc One í Chicago, þessi maður heitir James Dimon.

James Dimon er rúmlega fimmtugur New York búi og eftir að hafa komið á samruna Banc One og JP Morgan Chase árið 2004 tók Dimon við forstjórastólnum hjá næst stærsta banka heims á eftir Citigroup. Ferill Dimon er ansi merkilegur. Hann gerðist náinn samstarfsmaður Sandy Weill þegar hann var einn yfirmanna American Express. Sandy var síðar rekinn frá Amex og hætti þá Dimon líka og fylgdi sínum læriföður eftir. Samstarf þeirra varð viðfrægt þar sem Sandy var maðurinn með stefnuna, hugmyndirnar og samböndin en James Dimon var maðurinn sem vann úr öllum þeim aragrúa af hugmyndum og greiningum sem vinna þurfti.

Eftir að Sandy Weill keypti fyritækið Commercial Credit þá upphófst mikil endurskipulagning á efnahagsreikningi félagsins og rekstri. Sú vinna lenti mest hjá Dimon. Í hönd fóru fjölmargar yfirtökur og uppkaup á fyrirtækjum í fjármálastarfsemi, alltaf var það Dimon sem fékk það verkefni að endurskipuleggja reksturinn, draga úr kostnaði og selja burt óþarfa einingar og eignir.Að fáum árum liðnum höfðu þeir félagar búið til risastórt fjármálafyrirtæki að nafni Travelers Group sem innihélt tryggingastarfsemi, verðbréfaviðskipti, eignastýringu og eitt stærsta kreditkortasafn landsins. Sandy var ekki hættur og stóri draumurinn rættist þegar hann gat sannfært forstjóra Citicorp, John Reed, um að sameina Travelers og Citicorp í Citigroup sem þar með varð stærsta fjármálafyrirtæki heims.

James Dimon fékk gríðarlega reynslu í gegnum þau 15 ár sem hann starfaði með Sandy Weill. Honum var  treyst til að endurskipuleggja hvert stórfyrirtækið á fætur öðru, endurbæta efnahagsreikninga, lækka rekstrarkostnað og velja úr stjórnendur til að stjórna deildum sviðum og heimsálfum. Í gegnum allar þessar breytingar þá komu upp aðstæður þar sem þeir urðu ósammála félagarnir um stefnu og strauma. Þetta leiddi síðan til þess að Weill bað Dimon að hætta skömmu eftir samrunann mikla. Sú ákvörðun kom Wall Street algerlega í opna skjöldu, allir töldu að Dimon væri sjálfsagður eftirmaður Sandy þegar hann kysi að minnka álagið.

Sandy Weill verður ekki síst minnst sem maðurinn sem fékk Bandaríkjaþing til að fella úr gildi Glass Seagall löggjöfina sem takmarkaði mjög möguleika viðskiptabanka til að stunda aðra starfsemi. Þessi löggjöf hafði lifað frá heimskreppunni miklu og var ætlað að tryggja að annað eins hrun gæti ekki orðið. Eins og áður sagði þá steig James Dimon úr skugga Sandy Weill þegar hann tók yfir JP Morgan Chase. Á fáum árum hefur hann breytt mjög áherslum félagsins og sem dæmi seldi hann í burtu árið 2006 flest vafasöm húsnæðislán bankanns. Hann dró verulega saman heimildir til afleiðuviðskipta, neitaði að fjármagna vaxtamunaviðskipti og krafðist í æ ríkari mæli trygginga fyrir þau útlán sem lánuð voru til vogunarsjóða og fjárfestingabanka. Hans mottó er „ Fortress balance sheet“ eða ógnarsterkur efnahagsreikningur.

Hann segist ekki hafa séð fyrir hrunið mikla en hann vill reka banka sem þolir bæði gott veður og slæmt því að það skiptast á skin og skúrir í fjármálaheiminum og ekki í neinni annari starfsemi er hægt að tapa aleigunni hraðar.

Jamie Dimon hefur viðurnefnið „ the toughest man on Wall Street“ og það fékk hann vegna vægðarleysis við að skera niður kostnað jafnt hjá yfirmönnum og þeim lægra settu. Hann er andsnúinn útvistun og ráðgjafakaupum og frægt er þegar hann sagði upp stærsta útvistunarsamningi heims á milli JP Morgan og IBM. Samningur þessi var uppá 5 milljarða USD.

James Dimon var gagnrýndur fyrir að halda ekki í við aðra stóra banka sem skiluðu hverju metuppgjörinu á fætur öðru á árunum 2006 og 2007. JP Morgan skilaði nánast sama hagnaði á milli ára á meðan hagnaður annara banka jókst um 40 – 70% á milli ára. Allar þessar raddir eru þagnaðar enda kom í ljós að aðrir bankar voru að ofmeta stórlega gæði eigna sinna á meðan JP Morgan lagði risaupphæðir á varúðarafskriftir og seldi eignir sem töldust of mikil áhætta.

Það var því nánast ekki við aðra að tala þegar Bear Sterns fjárfestingabankinn var kominn að fótum fram en Dimon. Með ríkisábyrgð á skuldbindingum Bear Stearns samþykkti Dimon að kaupa félagið á 2 USD á hlut. Þegar hann var spurður að því af hverju verðið hefði ekki verið hærra stóð ekki á svarinu:„Buying a house and buying a house on fire are two different things.“

Verðið var síðar hækkað í 10 USD á hlut. Það kom líka í ljós fljótlega að þrátt fyrir ríkisábyrgð og ábyrgð JP Morgan á skuldbindingum Bear Sterns hófst áhlaup á bankann strax á daginn eftir að kaupin voru tilkynnt í lok mars 2008.

Hlutabréfaverð JP Morgan hefur tvöfaldast frá lægsta gildi ársins og ég trúi því að hluthafar Bear Sterns sem fengu allir greitt með hlutabréfum séu ánægðir með að vera í höndum þess bankamanns sem var best undirbúinn fyrir storminn.

Leiðtogar!

mar. 2010 – 17:30 Hermann Guðmundsson

Mikil umræða hefur verið um að leiðtogar séu miklir skaðvaldar. Þeir ani stjórnlaust um víðan völl og með yfirblásnu egói stofni þeir öllu samfélaginu í bráðan voða.

Það er líka sagt að nú séu komnir nýir tímar með nýjum aðferðum, allar ákvarðanir eigi að vera hópniðurstaða (japanska aðferðin) og enginn eigi að rísa yfir hópinn og hvetja til athafna eða breytinga.Hversu mikla skoðun þolir þetta sjónarmið og hvar hefur þetta gefist vel?

Alveg frá upphafi dýralífs þá hafa verið til leiðtogar. Einhver skepna í hópnum fær það hlutverk að gefa stefnuna, hraðann eða ákveða hvar er étið og drukkið. Mannskepnan er reyndar lengra komin á þróunarbrautinni, en við höfum samt haft sama háttinn á frá örófi alda. Íslendingar hafa átt marga leiðtoga í leik og starfi frá upphafi byggðar.

Leiðtogar hafa mörg andlit og marga titla og þeir birtast í flestum tilbrigðum mannlífsins.Það er brýnt að hafa það í huga að leiðtogar eru alveg eins og allt annað fólk. Þeir eru ekki betri eða verri en annað fólk, ekki gallalausir eða gáfaðri en aðrir. Þeir hafa samt eiginleika sem erfitt er að henda reiður á en samt má lýsa því þannig að leiðtogi er einstaklingur sem laðar að sér fólk.

Það sem leiðtogi leggur með sér er hæfileiki til að fá annað fólk til að vinna saman og ná meiri árangri sem hópur en sem einstaklingar. Þetta er hæfileiki sem ekki verður kenndur frekar en margt annað sem fólki er í blóð borið. Það má líka ekki gleymast að leiðtogar eru misgóðir sem slíkir.

Margir misskilja hugtakið leiðtogi. Það er ekki þannig að allt fólk sem er ráðið til ábyrgðarstarfa séu leiðtogar eða þurfi að vera slíkir. Það er ekki heldur þannig að leiðtogi þurfi alltaf að vera með meiri ábyrgð en aðrir. Sá sem er t.d. leiðtogi í íþróttaliði er oft ósýnilegur á vinnustað og sá sem er leiðtogi í atvinnulífinu er ekki endilega líklegri til að vera í forystu í íþróttastarfi eða félagsmálum en aðrir.

Margir gera þá kröfu að einstaklingar sem taka að sér ábyrgðarstörf séu líka leiðtogar, það er skiljanlegt en ekki alltaf raunhæft. Sumir telja líka að það sé brýnt að hafa marga leiðtoga við hendina ef einn skyldi ekki duga. Það er eins og að blanda saman olíu og vatni.

Fyrir nokkrum árum var gerð viðamikil rannsókn á 100 forstjórum í Bandaríkjunum sem höfðu náð betri árangri til lengri tíma en aðrir í sömu stöðu. Leitað var að einkennum, vinnubrögðum, stefnum eða öðru sem þeir áttu sameiginlegt. Niðurstaðan var alveg skýr og kom á óvart. Staðreyndin var einfaldlega sú að þeir áttu ekkert sameiginlegt.Það er ekki til nein formúla eða námskeið sem hægt er að taka til að verða leiðtogi.

Við höfum nú um hríð horft uppá þjóðfélagið lamað í flestu tilliti og nú kalla margir eftir leiðtoga sem getur rofið kyrrstöðuna og hafið vinnuna við að endurreisa samfélagið sem við viljum gjarnan búa í.

Ég tel sjálfur að leiðtogalaust samfélag eigi margfalt erfiðari leið fyrir höndum en samfélag sem ræður yfir góðum leiðtoga sem hefur hæfileika til að leiða saman hóp sterkra einstaklinga. Ég tel sjálfur að eitt mikilvægasta hlutverk leiðtoga sé að taka ákvarðanir. Þær á að taka þegar allar upplýsingar liggja fyrir og ekkert vinnst með þvi að bíða. Ákvarðanir á ekki að taka fyrr en þörf er á.

Best er að samhljómur sé með þeim sem að málum koma til að úrvinnslan verði sem skilvirkust en stundum er ekki í boði að bíða eftir samhljómi.Þeir sem taka margar ákvarðanir gera líka marga feila. Þeir sem gera ekkert gera engin mistök, sem eru reyndar mistök í sjálfu sér.

Þekktasti fjárfestir heims Warren Buffett hefur þá reglu að skrifa hluthöfum sínum bréf 60 dögum fyrir aðalfund ár hvert. Á hverju ári eys hann lofi yfir þá stjórnendur sem reka hin fjölmörgu fyrirtæki sem félagið Berkshire Hathaway  á, í sama bréfi týnir hann alltaf til sín eigin mistök hvort sem þau stöfuðu af aðgerðum hans eða aðgerðaleysi.

Þetta er hans aðferð til að sanna að allir geri mistök og hann sé ekki síður mannlegur en aðrir dauðlegir menn. Hann verður ekki minni fyrir vikið heldur meiri. Slíkt uppgjör við sjálfan sig með skriflegum hætti fyrir framan alþjóð er örugglega til þess fallið að vanda ákvarðanir og koma í veg fyrir að maður geri sömu mistökin aftur.

Við íslendingar höfum ekki vanist því að leiðtogar okkar komi fram og staðfesti eigin mistök, það væri samt þeim til framdráttar og öðrum til eftirbreytni.

Michael Burry og hrun AIG

mar. 2010 – 08:00 Hermann Guðmundsson

Það er merkileg sagan af læknanemanum Michael Burry sem hætti einn daginn á spítalanum og stofnaði sinn eigin fjárfestingsjóð Scion Capital fyrir 10 árum síðan. Hann hafði um langa hríð stúderað fjárfestingar í sínum frítíma og hans uppáhalds fjárfestir er Warren Buffett.

Michael er svokallaður virðisfjárfestir að upplagi, það þýðir að hann rannsakar ársreikninga og alla útgáfu þeirra fyrirtækja sem vekja hjá honum áhuga.

Hann kaupir í fyrirtækjum sem hann telur vanmetin út frá eignahlið og tekjum.

Eftir 5 ára rekstur á sjóðnum Scion þá hafði ávöxtun náð 242% yfir tímabilið á meðan S&P vísitalan fyrir sama tímabil var neikvæð um tæp 7%. Eitt af því sem hann nýtti sér til að fjárfesta var að fylgjast með slæmum fréttum af fyrirtækjum sem keyrðu hlutabréfaverðið niður tímabundið.


Það er rétt að nefna að á þessu árabili varð einhver mesta eignabóla sögunar í hlutabréfum staðreynd, fjárfestar seldu í miklu magni hlutabréf í traustum fyrirtækjum til að kaupa í hinum spennandi netfyrirtækjum. Scion var einn af þeim sem keypti þessi hlutabréf í traustu fyrirtækjunum en ekkert í hinum.

Alþekkt er í Bandaríkjunum að mál eru höfðuð oft af litlu tilefni, slíkar málsóknir eiga það til að keyra niður hlutabréfaverð langt niður fyrir innra virði félags. Þetta nýtti Scion sér iðulega til að kaupa sig inn í góð fyrirtæki á afsláttarverði.    Þessi velgengi Scion varð til þess að framboð af fjármagni varð fljótlega meira en Michael Burry kærði sig um og því lokaði hann fyrir innborganir 2005 tímabundið. Hann ólíkt nánast öllum sjóðum tók eingöngu við fjárfestaframlögum með þeirri reglu að féð var ekki til útborgunar fyrr en í fyrsta lagi eftir 12 mánuði.

Hann rak líka sjóðinn með þeim hætti að í stað þess innheimta 2% af höfuðstól eins og flestir þá rukkaði hann eingöngu raunkostnað fyrir umsjón og flest árin var hann innan við 1% af eignum.

Michael Burry varð mjög hugsi yfir þeirri staðreynd að lán til fasteignakaupa urðu sífellt ódýrari fyrir neytendur og það sem áður var frekar einsleitur markaður varð sífellt fjölbreyttari.

Áður fyrr var valið um lán með föstum vöxtum eða breytilegum, til 20 eða 30 ára. Nú var öldin önnur.Nú var hægt var að velja um lán sem t.d. voru afborgunarlaus fyrstu 6 mánuðina, 50% af vöxtum greitt næstu 6 mánuði og síðan tók alvaran við. Önnur lán voru t.d. þannig að lántakandinn gat hreinlega tilkynnt að hann myndi ekki greiða afborgun eða vexti og þá varð kröfueigandinn að leggja þá afborgun við höfuðstólinn.

Michael Burry fannst sérkennilegt að heyra frá fyrrum barnafóstru sinni, sem var 24 ára gömul, að hún ætti 6 raðhús í Brooklyn þar sem hún bjó. Hún sagði frá því að fyrst hafi hún tekið afborgunarlaust lán á eitt hús og þegar það hús hafði á fáum mánuðum hækkað um 250 þ. dali þá gat hún tekið þá upphæð að láni líka og keypt annað hús, svona gekk þetta allt þar til að hún átti 6 hús sem öll voru hætt að hækka í verði og hún gat ekki greitt afborganir.

Það sem Michael gerði var að loka sig inná skrifstofunni í marga daga þar sem hann las mörg hundruð lánasamninga sem og sölugögn frá þeim sem höfðu pakkað lánunum inní nýjan búning og selt sem fjárfestingavöru til lífeyrissjóða og fjárfesta. Því meira sem hann las því sannfærðari varð hann um að þessi lán væru tifandi tímasprengja. Ein ógnvekjanleg staðreynd var sú að flest lánin gengu út frá því að þau yrðu greidd upp með öðrum lánum þegar verðmæti hússins hefði hækkað.

Þannig væri með stöðugum endurfjármögnunum hægt að kaupa gott hús án þess að greiða neitt nema vexti í mörg ár. Tekjur og greiðslugeta kaupanda skiptu engu máli í mati þeirra sem veittu lánin enda var ætlun þeirra aldrei sú að eiga lánin heldur voru þau seld jafnharðan til fjárfesta um allan heim. Michael vildi fyrir alla muni reyna að hagnast fyrir hönd sinna sjóðfélaga á þessar þekkingu en það var ekki einfalt.

Það var þekkt staðreynd að fasteignaverð í Bandaríkjunum hafði aldrei lækkað að meðaltali frá 1931. Aldrei áður höfðu fasteignir hækkað eins hratt og á árunum 1995 – 2005, það var ljóst að það sem ekki var talið mögulegt var orðið yfirvofandi. Stærðin á þessum markaði er gríðarleg, húsnæðislán í Bandaríkjunum eru margfalt hærri fjárhæðir en öll útgáfa ríkisskuldabréfa og hlutabréfamarkaðurinn er aðeins brot af þessum markaði.

Engin leið var að skortselja húsnæðislán, þú gast bara átt þau eða selt. Fáum árum áður varð til markaður í kringum vaxtaviðskipti, fyrirtæki sem seldu skuldabréf með breytilegum vöxtum vildu gjarnan festa vextina eftirá og greiða þóknun fyrir. Þetta varð upphafið að hinum síðar illræmdu CDS og CDO afleiðum. CDS virkar sem trygging gegn greiðslufalli og það var nákvæmlega þannig trygging sem Scion Capital vildi kaupa.

Þar sem engar slíkar tryggingar voru til þá varð Michael að fá einhvern til að búa til slíka vöru. Hann hringdi í alla stóru fjárfestingabankana en án árangurs. Hann áttaði sig fljótt á því að enginn virtist hafa neinar áhyggjur af þessum lánum eða síversnandi hegðun þeirra sem lánin seldu. Bankarnir högnuðust gríðarlega á að taka lánin og selja þau áfram og eyddu engum tíma í að skoða gæði lánanna.

Einn daginn kom símtal frá Goldman Sachs sem hann hafði suðað hvað mest í. Þeir voru tilbúnir að selja honum CDS tryggingu á húsnæðislán. Þeir meira að segja sendu honum langan lista af lánum sem hann mátti velja úr. Hann valdi auðvitað lökustu lántakendurnar og dýrustu kjörin. Áður en langt var liðið þá hafði honum tekist að kaupa CDS tryggingar fyrir milljarð bandaríkjadala eða um 125 milljarða króna.

Goldman Sachs hafði enn einu sinni búið til gullnámu fyrir sig og sína eigendur. Þeir tóku þóknun af bæði kaupendum og seljendum. Á 2 árum náðu þeir inn 400 milljónum í þóknanir án þess að taka neina áhættu sjálfir.Það sem Michael vissi ekki fyrr en síðar var að allar greiðslufallstryggingar sem Scion keypti voru tryggðar af einu og sama fyrirtækinu AIG FG sem var dótturfélag tryggingarisanns AIG. Áður en AIG hafði áttað sig á því sem það hafði raunverulega tryggt var búið að selja tryggingar fyrir 50 milljarða bandaríkjadali.

Eins og flestir vita þá kom sá dagur að AIG þurfti að standa við tryggingarnar sem seldar voru. Sú staðreynd þurrkaði út allar eignir félagsins og um leið hluthafanna.  AIG hefði orðið gjaldþrota ef ekki hefði komið til þess að stjórnvöld lögðu því til 132 milljarða bandaríkjadali.  Sömu sögu er hægt að segja um Citigroup sem ólíkt hinum bönkunum hafði ákveðið að eiga sjálfir áhættuna í tryggingaarmi bankans í stað þess að selja.

Áður en yfir lauk þá hafði Scion fimmfaldað eignir sinna skjólstæðinga með því einu að greina þá augljósu staðreynd að fasteignir gætu ekki hækkað endalaust og að fólk með engar eða litlar tekjur myndu aldrei geta staðið í skilum með lán sem voru 50 föld árslaun sín.

Einn annar fjárfestir synti í sömu átt og með svipaðar skoðanir. Þetta var Steve Eisman fyrrum yfirmaður greiningardeildar Oppenheimar. Hann fór yfir götuna og stofnaði sjóð hjá félagi í eigu Morgan Stanley sem heitir Front Point. Aðferðir Steve Eisman gengu meira útá að skortselja hlutabréf í þeim fyrirtækjum sem yrðu illa úti ef að lánamarkaðurinn færi útaf sporinu eins og Steve hafði marg oft varað við. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu mikill ágóði beið þeirra sem veðjuðu á fall húsnæðismarkaðarinns í bandaríkjunum.

Kveikjan að hruninu var yfirgengilegt framboð af ódýru lánsfé til húsnæðiskaupenda sem ekki gátu greitt lánin til baka.  Michael Burry sá fyrstur hvað verða vildi og með aðstoð Goldman Sachs urðu afleiðingarnar skelfilegar fyrir fjármálafyrirtæki í Evrópu og í Bandaríkjunum.  

Brasilía og Eike Batista

apr. 2010 – 21:08 Hermann Guðmundsson

Það er ekki ofsögum sagt að heimurinn sé að breytast hratt og á mörgum vígstöðvum í senn.

Nú er ríkasti maður heims Mexikaninn Carlos Slims, eftir að Bandaríkjamenn hafa einokað efsta sætið á þeim lista í hundrað ár, eða frá því John D. Rockefeller tók afgerandi forystu eftir að Standard Oil (ESSO) varð stærsta olíufélag heims.

Hann var heimsins fyrsti milljarðamæringur og enn í dag er talið að miðað við stærð hagkerfa heimsins þá sé hann enn ríkasti maður sem uppi hefur verið.

Flest þekkjum við að hagkerfi Kína vex örum skrefum og talið er öruggt að um 2020 verði það orðið jafnstórt því bandaríska. Sem sagt: Nýtt stórveldi verður þá fætt og nú er talið að með sömu þróun þá geti kínverska hagkerfið orðið allt að 50% af þjóðarframleiðslu heimsins. Slík stærð á hagkerfi hefur ekki sést síðan kínverska hagkerfið náði þeirri stærð að talið er 800 árum fyrir Krist.

Annað stórveldi í efnahagslegu tilliti er að verða Brasilía og þaðan gæti komið næsti ríkasti maður heims, Eike Batista. Brasilía er í dag áttunda stærsta hagkerfi heimsins og vex hratt. Það búa um 200 milljónir manna í landinu og það er ríkt af náttúruauðlindum.

Helstu útflutningsvörur landsins eru járngrýti, timbur, flugvélar, efnavörur, fiskveiðar og bifreiðaframleiðsla. Nýjasta útflutningvara Brasilíu verður olía úr olíulindum sem nýlega fundust undan ströndum landsins í gríðarlega magni. Í dag er talið að auðunnið magn nemi að minnsta kosti 100 milljörðum tunna og mikið magn sé á djúpsævi sem verður betur rannsakað á næstu árum. Stærsta viðskiptaland Brasilíu er Kína og því er eftirspurnin tryggð langt inní framtíðina.

Einn er sá maður sem vakið hefur athygli utan sín heimalands sem kraftmikill og hugrakkur frumkvöðull. Þessi maður heitir Eike Batista og er menntaður málmfræðingur frá háskólanum í Aachen í Þýskalandi.

Eike er sonur manns sem lengst af stýrði stærsta námufyrirtæki landsins (Vale) sem var lengst af í ríkisseigu en varð síðar almenningshlutafélag.  Eftir námið ákvað Eike fljótlega að fara út í eigin rekstur og keypti gamla gullnámu í Amazon skógunum og hóf vinnslu. Á fáum árum keypti hann 8 námur og rak þær með miklum hagnaði enda fór verð á góðmálmi sífellt hækkandi.

Eignir Eike voru nýlega metnar á 18 milljarða dollara og það var áður en hann varð hlutskarpastur í útboði ríkisins um réttinn til að bora eftir og vinna olíu í hafinu umhverfis Brasilíu. Hann sagði í síðustu viku að eftir að hafa borað 46 holur í tilraunaskyni að það ótrúlega hafi gerst að allar holurnar hafi sýnt fulla vinnslugetu. Það er mjög óvenjulegt við olíuleit.

Eike hefur sagt sjálfur að hann stefni að því að verða fyrsti maðurinn til að eignast 100 milljarða bandaríkjadala og þegar því marki verði náð þá hefjist hann handa við að gefa féð til góðra verka því að hann vill feta í fótspor þeirra Bill Gates og Warren Buffett og gefa aftur það sem jörðin hefur gefið í bókstaflegum skilningi.

Það er mjög athyglisvert að Brasilía fékk rúmlega 30 milljarða dala neyðaraðstoð frá IMF eða Alþjóða gjaldeyrissjóðnum um mitt ár 2002, eftir að landið hafði lent í miklum vandræðum við rússnesku fjármálakreppuna og gat ekki fjármagnað skuldir ríkissins með hefðbundnum hætti. Lánið var síðan endurgreitt að fullu árið 2005 þótt að það gjaldfélli ekki fyrr en ári síðar.

Það var vegna mikillar erlendrar fjárfestingar sem Seðlabanki Brasilíu komst yfir gjaldeyri í því mæli sem þurfti til að greiða skuldir landsins erlendis. Nú er svo komið að Brasilía er komið hóp þeirra ríkja sem lána öðrum þjóðum fé í stað þess að þiggja lán sjálft.

Árangur Lula sem er forseti Brasilíu (fullt nafn: Luis Inacio Lula da Silva) hefur verið góður við að stýra hagkerfinu. Lula er um margt merkilegur maður sem fór úr því að vera harður vinstri maður og yfir í að vera harður fylgismaður markaðshagkerfis. Honum hefur tekist að þróa hagkerfið hratt áfram til hagsbóta fyrir hinn mikla fjölda íbúa landsins. Nú er valdatíma hans að ljúka og við síðustu könnun þá voru 82% íbúanna ánægð með hans störf, það er mikill árangur.

Eitt af því sem talið hefur verið að hafi hjálpað Brasilíu þegar óróinn á fjármálamörkuðum 2008 var sem mestur var að Lula gat þá í krafti neyðarlaga skipað fyrir með beinum hætti um aðgerðir til að tryggja stöðu bankanna og ríkisins. Slík lög gilda í 6 mánuði án þess að þingið geti afnumið þau fyrr en að þeim tíma liðnum. Með þessu móti var hægt að bregðast hratt við og leysa hver þau mál sem upp komu.

Slíkt vald er t.d. ekki til staðar í Bandaríkjunum og það hefur komið skýrt fram hjá Hank Paulson fyrrum fjármálaráðherra að það hafi næstum riðið fjármálakerfi heimsins að fullu að bíða eftir að þingið samþykkti þær aðgerðir sem grípa þurfti til.Það er annað atriði sem vakti athygli mína við lestur bókar ráðherrans „On the Brink“ um páskana, að ekki eingöngu þurfti hann að vera í stöðugu sambandi við alla innlenda hagsmunaaðila til að vakta kerfið heldur var jafnvel enn brýnna að róa ráðamenn í Kína og Rússlandi sem eiga gríðarlegar upphæðir í ríkisskuldabréfum. Hefðu þessi lönd misst trúna á að kerfið myndi halda og farið að selja bandarísk skuldabréf í miklu mæli þá er hætt við að illa hefði farið.

Það var annað atriði sem kom fram í bókinni, sem ekki hefur vakið mikla athygli á Íslandi, nefnilega sú staðreynd að þegar Lehman Brothers urðu gjaldþrota þá frysti breska ríkið allar eigur þess þrotabús í Bretlandi. Viðskiptavinir sem m.a. áttu eignir í fjárvörslu hjá bankanum fengu þær eignir ekki afhentar fyrr en allnokkru síðar. Þetta bendir til að harkan sem var ríkjandi hafi snúið að fleirum en okkur.

Þegar litið er til þess tíma sem liðinn er frá falli íslensku bankanna eru nokkrar augljósar staðreyndir farnar að blasa við að mínu mati:

  1. Kröftugt markaðshagkerfi er eini raunhæfi valkosturinn
  2. Verulegar erlendar fjárfestingar myndu flýta mjög fyrir bættum lífskjörum
  3. Það er ekki hægt að skera sig í gegnum kreppu, það verður að vaxa úr kreppu
  4. Án verulegs hagvaxtar munu lífskjörin okkar ekki batna að neinu marki og sennilega versna talsvert þegar fjármagnskostnaður ríkissins er farinn að bíta í af fullum þunga
  5. Verðbólga verður áfram talsverð ef krónan getur ekki styrkst vegna gjaldeyrisskorts

Það er því brýnasta verkefnið nú um stundir að reyna með öllum ráðum að liðka til fyrir þeim erlendu aðilum sem sýna okkur áhuga og eru verðmætaskapandi. Ekki má samt gleypa við hverju sem er.

Að lokum hlýtur að vera umhugsunarefni þegar horft er til breytinga sem verið er að boða á stjórnkerfinu hvort að það eigi að vera á valdi einfalds meirihluta Alþingis að breyta skipulagi stjórnkerfis sem tekið hefur langan tíma að byggja upp.

Í raun býður þetta uppá að hver sú ríkisstjórn sem hefur meirihluta á Alþingi getur breytt skipulagi framkvæmdavaldsins fram og aftur án tillits til þess hversu vel eða illa sú vinna er undirbúin.

Það er hægt að gera geysilegt ógagn á stuttum tíma með illa undirbúnum „skipulagsbreytingum“ og ef þær ganga líka gegn útbreiddum skoðunum starfsmanna í ráðuneytum þá munu þær ekki heppnast nema á yfirborðinu. Það er auðvelt að teikna upp skipulag en það er erfitt að fá það til að virka og tekur langan tíma.

Úr einum öfgum í aðrar

maí 2010 – 10:00 Hermann Guðmundsson

Okkur íslendingum er ekki alveg sjálfrátt. Eftir að hagkerfið sigldi í strand í kjölfar mestu fjármálakreppu seinni tíma þá ætlum við að spila svo illa úr stöðunni að við bæði dýpkum og lengjum ástandið.

Eftir að tekist hafði að hrekja ríkisstjórnina frá völdum var rokið í kosningar og nýtt fólk kom að stjórn landsins, margir hverjir í fyrsta sinn. Miklar væntingar voru um að nú risu stjórnvöld upp til að verja þá sem minna máttu sín og um leið yrði tekinn slagurinn við erlent ofríki. Öll vitum við hvernig til hefur tekist.

Þegar horft er framaní stöðu sem stefnir í djúpa kreppu þá má engan tíma missa. Í stað þess að berjast um á hæl og hnakka við að reyna koma sem mestu lífi í atvinnumálin þá hefur sama og ekkert þokast.

Það má ekki gleymast að atvinnumálin eru tímafrek og við erum núna að uppskera eins og sáð var í fyrra, sem er eiginlega ekkert og það finnst. Nú er kominn fram stefna ríkisstjórnarinnar fyrir næstu 12 mánuði, nú eru boðaðar enn frekari skattahækkanir og niðurskurður sem líklega verður meira í orði en á borði. Við höfum þegar séð að auknar álögur á áfengi, tóbak og eldsneyti hafa dregið svo úr neyslu að tekjurnar sem áttu að skila sér sýna sig ekki nema að hluta. Samdrátturinn í hagkerfinu er mikill, hann er alvarlegur og mun kosta fórnir.

Handan við hornið eru kjarasamningar í skugga gríðarlegs atvinnuleysis og ótal glataðra tækifæra. Það er ekki bara í hagstjórninni sem okkur eru mislagðar hendur, löggjafinn virðist einnig eiga sína spretti. Nú liggur á að breyta lögum um Samkeppniseftirlitið til að færa því áður óþekkt völd. Sjá hér að neðan texta úr frumvarpsdrögum.

Í þessu frumvarpi er hins vegar lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði veitt slík rýmri heimild sem gerir því kleift að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að efla samkeppni, þ.m.t. uppskiptingu markaðsráðandi fyrirtækja, án þess að það þurfi að sýna fram á að viðkomandi fyrirtæki hafi gerst brotlegt við bannreglur samkeppnislaga. Rétt er taka hér strax fram að ákvæði EES-samningsins koma ekki í veg fyrir að fyrirhuguð breyting sé lögfest í íslenskan samkeppnisrétt og sem dæmi má nefna að í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi er að finna strangari samkeppnisreglur en í regluverki Evrópusambandsins.

Í þessu nýja frumvarpi er sem sagt gert ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið geti farið inní stór fyrirtæki og hreinlega skipt þeim upp án dóms og laga. Slík uppskipting getur komið til án þess að nein lög hafi verið brotin enda „telji“ SKE að viðkomandi félag „raski“  samkeppni.

Að löggjafinn skuli íhuga að færa framkvæmdavaldinu dómsvald þar sem má skjóta fyrst og spyrja svo er alveg með ólíkindum en kannski í takti við þjóðarsálina sem veit varla sitt rjúkandi ráð. Að mínu mati er um klárt brot á stjórnarskrá að ræða en ég er reyndar ekki löglærður. Það sem er þó alveg ljóst er að slík heimild mun gera markaðnum ófært að verðmeta fyrirtæki og það er tilgangslaust að skrá fyrirtæki á markað vegna þeirrar áhættu sem slík heimild skapar.  

Í stjórnmálalífinu þá er ljóst að mikil gjá er á milli fjórflokksins og stórs hluta borgarbúa. Þegar þetta er ritað þá virðist sem að stór hluti borgarbúa telji það mátulegt á fjórflokkinn að kjósa frekar framboð grínista en stjórnmálaflokka.

Auðvelt er að skilja þær hugsanir sem knýja á um þetta en hitt virðist gleymast að grínið verður á kostnað kjósenda en ekki flokkanna. Það getur ekki verið heillaskref að skipta út fólki sem bæði kann og getur rekið borgina fyrir fólk sem segist ekki hafa neina stefnu fyrir borgina. Að reka stórfyrirtæki eða stórt sveitarfélag er mikið alvörumál og árangurinn af slíkri vinnu tekur mörg ár að koma í ljós.

Ef að grínið nær alla leið þá munu kjósendur í Reykjavík ekki vita fyrr en um seinan hvort að tjónið verður mikið eða meira. Að lokum er rétt að rýna örlítið í þann málaflokk sem kostar skattgreiðendur mest.

Heilbrigðisþjónusta hófst sem einkarekstur þegar læknar, ljósmæður og hjúkrunarkonur fóru hús úr húsi og sinntu þeim sem á þurftu að halda gegn gjaldi. Á síðari árum var talið mikilvægt að slík þjónusta væri kostuð af samfélaginu sameiginlega til að allir gætu notið hennar. Nú eru öfgarnar slíkar að helst á að banna einkarekna heilbrigðisþjónustu bara til öryggis.

Getum við verið á meiri villugötum?