Hagkerfið í líkhúsinu

maí 2010 – 12:10 Hermann Guðmundsson

Ekki þarf að rekja fyrir lesendum hvernig Ísland fór úr þeirri stöðu að vera hagkerfi þar sem kaupmáttur var einn sá mesti í heiminum og yfir í hagkerfi þar sem kaupmátturinn er tugum prósenta lægri en áður eins og hendi væri veifað.

Heimskreppa á fjármálamörkuðum sópaði hluta af íslenska hagkerfinu á haf út og skyldi eftir grunninn sem við höfum byggt á alla síðustu öld.

Við íslendingar áttum okkur ekki á því að hversu sterk staðan okkar er þrátt fyrir þetta mikla áfall. Íbúar þessa lands er afar lánssamir að því leyti að landið er geysilegt ríkt af náttúruauðlindum sem mun tryggja trausta afkomu þjóðarinnar.

Okkar grunnur liggur í framleiðslu og útflutningi sem er lykillinn að því að við getum verið frjáls þjóð í fallegu landi. Nýjustu útflutningsgreinarnar eru m.a. hugbúnaðargerð, leikjaframleiðsla og hönnun af ýmsu tagi. Þetta eru greinar sem ekki ganga á auðlindir landsins en bæta miklu við þjóðarframleiðsluna.

Nú gæti einhver verið farinn að velta fyrir sér titlinum á pistlinum, hann er ekki í samhengi við það sem hér að ofan greinir. Hann er samt ábending um raunverulega áhættu sem við stöndum frammi fyrir. Það er þessi áhætta sem tifar eins og tímasprengja og hefur gert allan tímann frá hruninu, nú er hins vegar farið að styttast í að afleiðingarnar verði sýnilegar.Það sem ég er að tala um er sú staðreynd að við erum að smá saman að breyta öllu hagkerfinu í vaxtavinnuvél fyrir lánadrottna. Eftir að skuldir heimila og fyrirtækja tvöfölduðust með falli krónunnar þá höfum við beitt ýmsum brögðum til að fresta verkjunum. Við frystum lánin, við smíðuðum teygjulán, við greiddum bara vexti og slepptum höfuðstólnum. Nú er þessi tími liðinn og alvaran tekin við.

Í hagkerfi sem gengur vel þá ferðast hver króna allt að 8 sinnum um hagkerfið og skilur eftir sig verðmæti í hverri ferð. Til að skýra þetta aðeins: Jón kemur og kaupir eldsneyti fyrir 5.000, N1 leggur peninginn inní banka, bankinn lánar Sigurði 5.000 til að kaupa sér farsíma, símafélagið leggur peninginn inní bankann og bankinn lánar Guðrúnu fyrir nýju barnarúmi, húsgagnaverslunin leggur peninginn í banka og svo framvegis. Þetta er eðlilegt og heilbrigt hagkerfi sem snýr hjólum atvinnulífsins og skapar störf og þjóðarframleiðslu.

Þessi hringrás er hins vegar að breytast og það hratt. Ferillinn sem fer í gang er eitthvað á þessa leið að peningarnir sem renna í gegnum hagkerfið enda inní bönkunum sem koma þeim ekki aftur út í hagkerfið. Ástæðan fyrir því að peningarnir komast ekki aftur útí hagkerfið er sú að stærsti hluti atvinnulífsins og stór hluti heimila er of skuldsettur og því ekki lánshæfur.

Það þýðir að krónurnar hætta að ferðast og skapa störf og þjóðarframleiðslu í leiðinni. Þegar kaupmáttur hefur dregist jafnmikið saman og raun ber vitni þá hefur atvinnulífið ekki hagnað til að byggja upp og endurnýja búnað, heimilin geta ekki viðhaldið eignum sínum og eða endurnýjað. Allt laust fé fer til að greiða niður skuldir og vexti og krónurnar komast ekki aftur í umferð.Síðan gerist það ofaní kaupið að bankar leysa til sín einhver fyrirtæki með því að breyta skuldum í hlutafé. Þá gæti einhver haldið að björninn væri unninn, þ.e.s.a. skuldir hafa lækkað og því gæti félagið fjárfest í rekstrinum, það virkar samt ekki þannig. Eigandinn þarf að fá arð af sinni eign þannig að laust fé félagsins rennur til bankans sem arður og festist þar.

Til lengri tíma þá ber allt að sama brunni, neysla dregst mikið saman og störfum fækkar enn. Færra fólk stendur undir verðmætasköpuninni og þá er borin von að hægt sé að halda uppi því velferðakerfi sem við gjarnan viljum búa við.Hærri skattar gegna nákvæmlega sama hlutverki og of mikil skuldsetning. Hið opinbera tekur ráðstöfunarfé frá fjölskyldum og færir í ríkissjóð sem á endum nýtir peningana til að greiða laun til opinberra starfsmanna sem síðan greiða skuldir sínar við lánastofnanir og peningarnir sitja þar fastir.

Það er ekki samt þannig að allir landsmenn séu svo skuldugir að þeir hafi ekkert fé á milli handa sem betur fer. Það er hins vegar svo mikil óvissa um framtíðina að flest hugsandi fólk sem gæti verið virkt í hagkerfinu heldur að sér höndum vegna óvissunar og stöðugra hótana um enn frekari skattahækkanir og atvinnumissir gæti verið handan við hornið.Svo merkilegt sem það hljómar þá er besti tíminn til að stofna fyrirtæki einmitt núna í miðri kreppu, það er hins vegar varla hægt að mæla með því við nokkurn mann vegna þess að andrúmsloftið er andsnúið fyrirtækjarekstri.

Það hefur ekki verið á stjórnvöldum að heyra að þau telji mikilvægt að auka verðmætasköpun til að spyrna gegn hratt minnkandi kaupmætti, þau telja hins vegar brýnt að kynjagreina vandann.Þegar allt kemur til alls þá snýst velferðin um að afla meiru en við eyðum, þegar samdráttur verður þá þarf að leita allra leiða til að auka kraftinn í atvinnulífinu en ekki öfugt.

Það má sjá skýra efnahagsleg niðurstöðu í kosningunum um helgina. Langstærsti hluti hins efnahagslega tjóns varð á höfuðborgarsvæðinu, það er þar sem mestar breytingar urðu á hinu pólitíska landslagi. Kjósendur láta ekki bjóða sér að öll þeirra framtíð sé í uppnámi vegna aðgerða eða aðgerðaleysis, þeir heimta árangur og breytingar. Þegar horft er til landsbyggðarinnar þá skýrast línur verulega.

Íbúar á landsbyggðinni búa yfir mikið betri jarðtengingu en borgarbúar. Það gera þeir vegna þess að framleiðslugreinarnar hafa ávallt verið hryggsúlan í þeirra lífi og án uppskeru verða ekki til nein verðmæti. Þetta skilur landsbyggðin betur en aðrir auk þess sem þeim var ekki treyst fyrir erlendum lánum í sama mæli og okkur hinum og því kemur hrunið mikið minna við þeirra stöðu en ella.

Hvaða skilaboð komu frá landsbyggðinni í kosningunum?

Kjósendur höfnuðu ríkishyggju vinstri aflanna og kusu með verðmætasköpun með því að kjósa Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í stórum stíl. Hvergi er skýrara kveðið uppúr með þá staðreynd að án þess að hlúa að atvinnulífinu með öllum ráðum verður engin velferð.Framundan eru erfiðustu kjarasamningar í langan tíma. Atvinnurekendur hafa sjaldan verið í veikari stöðu til að bæta kjör sinna starfsmanna og á sama tíma seilast stjórnvöld stöðugt lengra ofaní launaumslagið með tilheyrandi tjóni fyrir hagkerfið allt. Kaupmáttur á Íslandi verður að aukast og það hratt, það verður ekki gert með þeirri hugmyndafræði sem nú ræður ríkjum.

Íslendingar eru vel upplýst þjóð og þeir vita að verðmætin verða ekki til bloggheimum eða í sjónvarpinu.

Tvö ár frá hruni

ágú. 2010 – 14:51 Hermann Guðmundsson

Nú eru að verða 2 ár síðan bankarnir féllu um koll og með þeim stór hluti af hagkerfinu.

Á þessum tíma hefur alveg ótrúlega margt verið sagt og ritað en glettilega lítið verið aðhafst í raunheimum. Flest fólk hefur haldið áfram að lifa lífinu og einbeitt sér að því verkefni að hlúa að sér og sínum en um leið reynt að tryggja framfærslu sína.

Atvinnulífið hefur af öllum mætti reynt að standa af sér áföllin og mikill meirihluti fyrirtækja er enn starfandi en við misjafnar aðstæður. Bankarnir sem lengi vel voru nánast óstarfhæfir vegna atgangs stjórnmálamanna og álitsgjafa allra handa, eru farnir að stunda bankaviðskipti aftur þótt í litlu mæli sé. Það er mikilvægt því að ekkert atvinnulíf þrífst án aðgengis að rekstrarfjármögnun.

Það sem starir á mann er sú staðreynd að hlutverk stjórnmálamanna við endurreisnina er afar takmarkað. Það er reyndar þannig sem ég vil hafa það, en meirihluti landsmanna er mér ósammála heyrist mér á þeirri umræðu sem fer fram í fjölmiðlum og víðar.

Hingað til þá hafa stjórnmálin tafið endurreisnina og verið til óþurftar og því eigum við ekki að gleyma.

Ríkið á að tryggja umgjörðina

Sjálfur tel ég að það sé hlutverk atvinnulífsins og fjárfesta að skapa verðmæt störf í gegnum uppbyggingu atvinnugreina sem við þekkjum eða í gegnum nýsköpun og þróun. Hlutverk hins opinbera á fyrst og síðast að vera það að tryggja umgjörðina og að gæta þess að hagkerfið sé í þokkalegu jafnvægi. Mikilvægasta starf stjórnmálamanna er síðan að reka þjónustustarfsemi ríkisins með eins skilvirkum hætti og raunhæft getur talist.

Við getum séð kristallast í umræðunni um Magma og fjárfestinguna í HS Orku að þriðjungur ríkisstjórnarinnar vill alls ekki sætta sig við erlenda fjárfestingu í greininni en hinn hluti stjórnarinnar stefnir af öllum mætti inní ESB þar sem bannað er að takmarka fjárfestingar eftir þjóðerni. Þar gildir reglan um jafnan rétt án tillits til þjóðernis eða hugsjóna.

Við sjáum æfingarnar í kringum sjávarútveginn þar sem það er kallað að opna fyrir nýliðun að gefa veiðar frjálsar í nokkra klukkutíma á ári. Með sömu rökum ættu allir að hafa leyfi til að aka leigubílum þegar þeim sýndist enda er það skerðing á atvinnufrelsi að takmarka fjölda leigubifreiða.

Afkoman versnar

Hugsjónin getur verið göfug en afleiðingin er einfaldlega sú að við sem þjóð stofnum til mikið meiri kostnaðar við veiðar en áður og afkoma þjóðarbúsins versnar. Óvissan sem skapast í greininni lamar bæði þróun og fjárfestingu og kostnaðurinn verður borin uppi af skattgreiðendum.

Ég hef sagt við þá sem skammast út í núverandi stjórnvöld að það sé ómetanlegt fyrir unga kjósendur sem aldrei hafa fundið á eigin skinni hvað það kostar að hafa ríkisstjórn sem er ekki með atvinnumál sem sitt helsta áhugasvið.

Prufa ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins er nauðsynlegt til að munurinn finnist.

Þetta tímabil mun seint gleymast og þótt kostnaðurinn af því verði talsverður fyrir samfélagið þá er það vel þess virði.

Sú staðreynd hefur fallið í skuggann að það verða aldrei stjórnmálamenn sem lyfta þjóðinni úr þeim vanda sem hún nú glímir við. Það verður verðmætasköpun í gegnum öflugt atvinnulíf sem keyrir hagkerfið uppúr öldudalnum en það verða stjórnmálamenn sem ráða nokkru um það hvort tíminn verður lengri eða skemmri.

Án verðmætasköpunar verður ekkert velferðarkerfi, ekkert menntakerfi og engar kjarabætur.

Þótt að það hafi tekið 2 ár að finna uppá embætti sem heitir „Umboðsmaður skuldara“ þá er líka jafnljóst að ef engin verður vinnan þá verða engin lán greidd upp.

Endurreisnin hefst með árangri atvinnlífsins en í stað þess að leggja atvinnulífinu lið þá telja núverandi stjórnvöld mikilvægara að smíða slagorð. Það er mikið lagt uppúr því að „orða“ hlutina rétt í staðinn fyrir að breyta rétt.

Það sjást nú orðið víða merki þess að hagkerfið sé að jafna sig af eigin rammleik eftir áfallið af heimskreppu á fjármálamörkuðum.

Ytra umhverfið hefur hjálpað til en síðan sú einfalda heimilishagfræði að við erum að eyða minna en við öflum og mikilvægasta talan sem við eigum að horfa til er vöruskiptajöfnuður við útlönd. Í dag eigum við geysilegan afgang af þessum vöruskiptum og það mun verða mikilvægasta tækið í endurreisninni. Niðurstaðan af þessum afgangi er hægfara styrking krónunnar.

Ríkisvæðing ekki líkleg til árangurs

Kjósendur virðast vera búnir að átta sig á því samkvæmt síðustu könnunum að sú hugsun að ríkisvæða landið er ekki líklegt til árangurs enda hefur það verið reynt í mörgum löndum án árangurs.

Eftir standa þær hugsanir hvort að stjórnmál sem slík hafi hlutverk. Það sem hefur breyst á vesturlöndum í minni lífstíð sem spannar bráðum hálfa öld er að allir eru orðnir sammála um grundvallaratriðin sem eru mannréttindi, frelsi einstaklingsins, velferðarkerfi, markaðshagkerfi, menntun og sköpun.

Það sem rifist er um í dag eru prósentur, skatthlutföll, þjónustustig og utópíur allra handa.

Er kannski tími hugsjónafólksins liðinn og tími verkfræðinganna kominn?

Hagkvæmni, arðsemi, skilvirkni og langtíma stefnumótun í rekstri ríkisins til að efla þjónustuna án þess að auka kostnað?

Ef þú spyrð stjórnmálamenn þá er svarið nei og geta haft um það langt mál en margir aðrir telja að tíminn sem fer í þrasið sé betur nýttur í að ná árangri fyrir þjóðina alla með skipulögðum og öguðum vinnubrögðum.

Setjum út mannspilin

okt. 2010 – 08:00 Hermann Guðmundsson

Allt frá hruni bankanna hef ég reynt að tala fyrir því að horft sé til framtíðar vegna þess að fortíðinni verður ekki breytt. Barátta okkar allra átti að snúast um að lágmarka skaðann og grípa þá í fallinu sem ekki höfðu neitt öryggisnet. Það er í mínum huga SAMFÉLAG.

Ekki ætla ég að taka enn eina upptalninguna á því sem ekki hefur verið gert né heldur því sem búið er að gera hvort sem er fyrir „kerfið“ eða fólkið. Það finnur hver á sínu skinni. Þegar þokunni léttir og rykið er sest stendur eftir kalt mat á því hverjar horfur okkar eru til langrar framtíðar á þessu fallega landi. Þær horfur eru öfundsverðar að mínu mati eins og ég hef svo oft áður talið upp. Okkar helstu vandamál eru tímabundin en um leið er óskiljanlegt hvernig á þeim hefur verið tekið.

Það virðist í stóru sem smáu vera skoðun þeirra sem eiga að gæta hagsmuna almennings að sú staða sem þúsundir heimila horfa framan í sé lítt breytanleg og brýnt sé að alls ekki verði reynt að taka þannig á skuldamálum fólks að nokkur reisn sé yfir. Vilji þjóðin raunverulega ná aftur vopnum sínum og hefja endurreisn efnahagslífsins þá er ekki til nema eitt ráð til þess, það ráð er vel þekkt og kallast í daglegu tali hagvöxtur. Það er hins vegar ekki sama á hverju hann byggist, hagvöxtur sem byggist auknum umsvifum ríkissjóðs er jafn falskur og skráða gengið sem var á íslensku krónunni þegar hún var sem sterkust.

Þjóðin verður að framleiða verðmæti til að bæta hag sinn og barnanna. Það er eldgömul saga að án atvinnu (verðmætasköpunar) verða engin laun greidd og án tekna lækka hvorki skuldir né vænkast hagur heimila og fyrirtækja. Það verður aldrei hægt að viðhalda því heilbrigðiskerfi sem við gjarnan viljum geta gengið að né tryggt framfærslu þeirra sem minnst hafa nema fyrst sé byggður sá grunnur sem atvinnulífið er.

Virðing Alþingis hefur aldrei verið minni og það litla sem eftir var af henni fyrir atkvæðagreiðsluna um ráðherraábyrgð rann þá út í sandinn. Þegar fámennur hópur reyndi að breyta heimskreppu fjármálastofnana í íslenskt sakamál var nýjum lægðum náð sem seint verður jafnað. Það var samt Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð vörð um réttlætið og sannleikann þegar á hólminn var komið og féll ekki í þá freistni að velta sér ofaní þann forarpytt sem aðrir flokkar voru sokknir í upp að enni.

Ég er spurður oft í viku hvað sé til ráða? Hvernig náum við þeim markmiðum að auka þjóðarframleiðsluna og bæta þannig hag allra landsmanna?

Einfalda svarið er: stefna og hugarfar.

Undir stefnu Sjálfstæðisflokksins hefur þjóðin vaxið úr örbirgð til velsældar. Með réttu hugarfari hefur tekist að byggja upp atvinnulíf þar sem verkfræðingar og járniðnaðarmenn hafa fundið verkefni til jafns við kennara og sjómenn. Ef börnin okkar eiga að hafa fjölbreytt tækifæri til atvinnu og sköpunar þá verður að halda áfram á þeirri braut að hlúa að fyrirtækjum og frumkvöðlum, búa til jarðveg og gæta hans eins og kostur er. Þannig munu kraftmiklir einstaklingar brjótast áfram í leit sinni að nýjum tækifærum og bættum hag síns og þeirra sem hjá þeim starfa. Það ferðalag sem við erum nú á getur ekki endað vel og það þarf ekki sjónauka til að koma auga á þá staðreynd.

Klikkaðir karlmenn munu án efa ekki efna til atvinnureksturs í því hugarfari sem nú ríkir og fáir aðrir hafa gefið sig fram síðustu 60 árin sem vilja hætta fé og framtíð sinni til að byggja upp atvinnu í von um ávinning.Fyrir þá sem trúa því að ESB geti komið í staðinn fyrir stefnu okkar sjálfra, fullyrði ég að okkur mun með réttu hugarfari vegna framúrskarandi vel á þessu frábæra landi hvort sem við verðum innan ESB eða utan.  Það eru margir kostir við inngöngu í ESB og margir ókostir, framtíðin mun samt ráðast af því hvernig við sjálf spilum á þau spil sem okkur hafa verið gefin.

Núverandi stjórnvöld virðast halda að hægt sé að vinna spilið án þess að setja út mannspilin.

Aftur komin trú á framtíðina?

nóv. 2010 – 14:45 Hermann Guðmundsson

Ég er einn af þeim heppnu sem dreginn var til út að vera fundarmaður á þjóðfundi í gær. Ég segi einn af þeim heppnu vegna þess að þarna var ekki bara tækifæri til að koma að sjónarmiðum mínum og hugmyndum heldur ekki síður til að heyra hugsanir annara um sama efni. Það er að mínu mati mikils virði að geta sest niður með ókunnugu fólki víða af landinu og hlusta á þau sjónarmið sem þau vilja að verði tekin til greina á stjórnlagaþinginu.

Fyrri þjóðfundurinn sem haldinn var er fyrirmynd þess fundar sem haldinn var í gær. Það var samt allt annar andi sem sveif yfir vötnunum núna. Á fyrri fundinum fann ég á fólki reiði, sorg og vantrú á framtíðina. Nú var stemningin önnur, það var eins og að fólk hefði fengið trú aftur á framtíðina en það ætlaði samt ekki að láta koma sér aftur í sömu vandræði vegna sinnuleysis og værukærðar. Það var alveg skýrt að fólk vildi ná fram breytingum sem flestar sneru að því að sníða nýjan ramma utan um hið pólitíska landslag og að dreifa valdi og ábyrgð.Hér að neðan eru nokkur af þeim atriðum sem fólk vildi ræða og breyta:

•   Dómarar væru kosnir í almennum kosningum samfara sveitarstjórnar og eða Alþingiskosningum. Þannig kæmi umboðið beint frá þjóðinni til að dæma gjörðir eða fólk.
•   Að ráðherrar væru ekki þingmenn til að skerpa á skilunum á milli Alþingis og ráðuneyta.
•   Að landið væri eitt kjördæmi og þingmenn kosnir persónukjöri.
•   Að stjórnarskrá megi aðeins breyta með þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að ný stjórnarskrá hefur verið sett.
•   Að ný stjórnarskrá ætti að byrja á mannréttindakaflanum en ekki á Alþingi og forseta. Þetta væri stjórnarskrá fólksins og fyrir fólkið en ekki stofnanir. Stjórnarskráin ætti að vera grunnvörn fólks gegn stjórnvöldum m.a.
•   Að í landinu væri einn lífeyrissjóður og þannig væru jöfnuður í réttindasöfnun tryggður.
•   Að skoða hvort stofna ætti auðlindasjóð sem tæki við því fjármagni sem fengist úr leigu á auðlindum með skýrum heimildum um hvað mætti ráðstafa miklu fé að hámarki á hverju ári. Þetta væri einhvers skonar öryggisnet fyrir komandi kynslóðir.
•   Að í stjórnarskrá væri ákvæði sem bannaði að íslenskir ráðamenn styddu stríðsrekstur eða árásir á aðrar þjóðir.
•   Að drög að nýrri stjórnarskrá væru borin undir rafræna atkvæðagreiðslu í gegnum heimabanka landsmanna áður en Alþingi fengi að fjalla formlega um hana. Þannig mætti tryggja að umboð stjórnlagaþings væri formlegt og heimild Alþingismanna takmörkuð til breytinga.
•   Að sjálfstæði Íslands megi ekki framselja.
•   Að auðlindir séu í almannaeigu og séu ekki framseljanlegar.
•   Að forseti eigi að hafa skýrari valdheimildir og til staðar sé varaforseti komi eitthvað fyrir forseta
•   Að í stjórnarskrá sé ákvæði sem banni að skuldir ríkissjóðs séu hærri en 50% af þjóðarframleiðslu til að stemma stigu við þeirri ógn sem slök hagstjórn getur kostað skattgreiðendur.
•   Að 1/3 hluti þingmanna geti óskað þess að Hæstiréttur úrskurði hvort að lög sem búið er að samþykkja á Alþingi stangist á við stjórnarskrá og öðlist lögin ekki gildi fyrr en úrskurður liggi fyrir.
•   Að tryggt sé að hafni forseti lögum staðfestingar þá sé tryggt að atkvæðagreiðsla fari fram eins fljótt og auðið er.

Fjöldamargt fleira kom til umræðu á fundinum og mikið magn gagna varð til sem skoða má netinu.

Áhyggjur sumra af því að Ísland fyllist af innflytjendum var greinilega til staðar og voru sumir þeirrar skoðunar að herða þyrfti enn á skilyrðum fyrir því að fólk fengi hér búseturétt. Aðrir töldu að við ættum að vera enn opnari en áður fyrir því að fjölga hér innflytjendum.

Hvað sem um svona viðburð má segja þá er alveg klárt að hluti af því ferli að þjóðin grói sára sinna er að fram fari opin umræða með aðkoma allra þeirra sem vilja leggja orð í belg. Mitt mat er að ljósvakamiðlar hafi alls ekki rækt það hlutverk sitt að vera vettvangur fyrir þjóðina til að eiga þetta samtal. Stjórnlagaþingið sem tekur til starfar síðar í vetur fær í hendur mikið efni til að skoða og meta inní þá vinnu sem fólgin er í því að skrifa nýja stjórnarskrá.

Ég óska því fólki sem nær kjöri velfarnaðar við það mikla verk.

Tökum okkur frí frá kreppunni í desember

des. 2010 – 10:00 Hermann Guðmundsson

Nú eru þriðju jólin eftir bankahrunið að ganga í garð. Ekki verður reynt að fara yfir það ferðalag hér enda hefur það verið ágætlega gert á mörgum vígstöðvum.

Ég hef áður skrifað að svona kreppa eins og  Ísland er í, mun ekki leysast með niðurskurði og skattahækkunum. Eina raunhæfa og arðbæra leiðin er sú að reyna að vaxa með öllum ráðum til að stækka hagkerfið og minnka áhættuna. Með þeirri aðferð aukast tekjur heimila og fyrirtækja og ekki minnst ríkissjóðs sem aftur leiðir til minni lántöku og uppgreiðslu skulda.

Við höfum stíft verið að reyna að fara hina leiðina í von um að hægt sé að skera svo hratt niður að við náum jafnvægi í ríkisfjármálum á stuttum tíma. Það eru skiljanleg viðbrögð við áfallinu og að einhverju leyti virðingarverð, hitt er samt staðreynd að við slíkar aðstæður þá dragast umsvif alltaf meira saman en reiknað er með og því koma aldrei þær tekjur í hús sem stefnt var að. Þá þarf að fara aðra umferð í niðurskurð og svo koll af kolli. 

Langtímaáhrifin geta verið afar eyðileggjandi fyrir lítið samfélag, þessi hugmyndafræði að  heilbrigðisþjónusta eigi ekki að vera hluti af grunnþjónustu hinna dreifðu byggða er ekkert öðruvísi en að t.d. öllum matvöruverslunum væri lokað af því að það er ódýrara að fá fólk í stórmarkaði sem finnast í stærri bæjum. Okkur hefur tekist í yfir 100 ár að vera með sæmilega læknaþjónustu um land allt og það getur ekki verið ásættanlegt fyrir okkur sem þjóð að við hverfum aftur til 1950 með það þjónustustig.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig geðheilsu þjóðarinnar er háttað eftir gengdarlausar kreppufréttir í tvö ár frá morgni til kvölds. Eitt verulegt áhyggjuefni er sú staðreynd að ung börn eru farin að tala um kreppuna eins og hún sé alltumlykjandi mara og henni verði að bægja á brott. Það getur ekki verið brýnt að börn séu með hugann við hagstjórn alla daga í stað þess að njóta sín. Nýjasta mantran er síðan sú að brýnasta verkefnið í Reykjavík sé að efla trúleysi enda höfum við hin sem vorum fórnarlömb kristnifræðslu og prestsheimsókna ekki komist ósködduð úr þeim hildarleik.

Að þessu sögðu hljótum við að spyrja okkur að því hvort ekki sé rétt að þjóðin sameinist um að taka sér frí í desember frá kreppunni og einbeitum okkur þess í stað við að halda gleðileg jól með börnum þessa lands. Notum tímann til að styðja við þá sem minna mega sín til að þeir geti líkað öðlast ró og frið og börnin þeirra fái einnig notið sín til jafns við önnur börn.

Ég legg til að öllum aðgerðum og aðförum að skuldugum heimilum verði gefið frí í desember og mánuðurinn notaður til að græða sár og brotnar sálir.

Djöfulgangurinn getur síðan hafist að nýju í janúar.

Vonlaus þjóð?

23. des. 2010 – 14:00 Hermann Guðmundsson

Nú eru komnar fram upplýsingar um að krónan okkar hafi misst 99,5% af verðgildi sínu á tæpri öld mælt á móti þeirri dönsku. Þetta þóttu talsverð tíðindi þótt í stuttan tíma væri. Þarna var komin sönnun þess hvað við værum vonlaus þjóð.

Ef að maður tekur saman almannaróm, kaffistofu og netspjall um okkur sjálf þá virðist vera mjög almenn skoðun að við íslendingar séum ansi aumir. Alla vega þegar maður horfir á eftirfarandi fullyrðingar:

• Íslendingar eru spilltari en aðrar þjóðir
• Stjórnmálamenn eru vita gagnslausir og gerspilltir
• Viðskiptalífið er siðblint og gerspillt
• Stjórnkerfið er lamað og fullt af gagnslausum blýantsnögurum
• Krónan er handónýtur gjaldmiðill
• Verkalýðsforystan er óhæf og valdasjúk
• Samtök atvinnurekenda er hagsmunabandalag gegn almanna hagsmunum
• Verðlag hér er mikið hærra en annars staðar og laun lægri
• Íslenskir bankamenn eru börn og byrjendur í fjármálafræðum
• Eftirlitsstofnanir eru vita gagnslausar og vanhæfar
• Seðlabankinn er alveg vonlaus og það ætti að leggja hann niður

Ég hef stundum verið alveg gáttaður á því hversu viljug við erum í að rífa niður allt það sem við höfum þó byggt upp á síðustu öld með mikilli vinnu og ósérhlífni. Það er talað eins og Ísland sé á bekk með Zimbabwe eða Sómalíu þegar kemur að stjórnarháttum og lífgæðum.

Við síðustu aldamót þá stóð Ísland jafnfætis langflestum þeim löndum sem okkur finnst rétt að bera okkur saman við. Þrátt fyrir að við hefðum gengið í gegnum óteljandi gengisfellingar og fjölmargar kreppur á síðustu öld þá skiluðum við okkur í mark á svipuðum tíma og aðrir. Með ónýtan gjaldmiðil að vopni og óbilandi dugnað í bland við miklar náttúruauðlindir þá stóðum við uppi með einhver bestu lífskjör í heimi.

Síðan er liðinn áratugur, á þessum tíma höfum við lifað hratt og hátt. Lengst af við botnlausan vöxt og ört batnandi kjör sem á endanum skilaði okkur í fyrsta sæti á einhverjum lista sem mælir lífsgæði. Síðan kemur heimskreppa á fjármálamörkuðum og mest af þeim verðmætum sem ekki var innistæða var fyrir skolaði út í hafsauga og eftir stendur raunhagkerfið.

Eftir stendur að Ísland er enn í hópi þeirra ríkja sem bjóða þegnum sínum hvað best lífsgæði og kjörin munu batna aftur hratt á næstu 2-3 árum þótt að við séum ekki endilega að fara gæfulegustu leiðirnar.

Þegar allt það er skoðað sem við höldum fram um okkur sjálf þá má það teljast kraftaverk að við séum stödd á 21.öldinni með þó þetta sterka stöðu. Vissulega eru óleyst verkefni til staðar en í hvaða landi er það ekki raunin?

Það sem ég get alls ekki skilið er það af hverju öðrum þjóðum sem ekki eru með ónýtan gjaldmiðil og vonlausa innviði hefur í engu skilað frammúr okkur nema þá sem sjónarmuni nemur?  

Er menntakerfið ónýtt?

jún. 2010 – 07:00 Hermann Guðmundsson

Hér er ekki sérstaklega verið að fjalla um íslenska menntakerfið heldur mikið frekar allt menntakerfi heimsins.  Það gera sér ekki allir grein fyrir því að menntakerfið sem við þekkjum er nánast nákvæmlega eins upp byggt í öllum löndum. Auðvitað er einhver blæbrigðamunur en enginn grundvallarmunur.

Kerfið er að verða 150 ára gamalt í grunninn og er algerlega byggt upp fyrir tíma fjölmiðlunar og þeirrar miklu byltingar sem sjónvarpið var, svo ekki sé talað um Netið sjálft.

Einn grundvöllur kerfisins var sá að mennta vinnuafl sem nýttist á tíma iðnbyltingarinnar. Allt til þessa dags þá er það einn grunnur kerfisins að framleiða fólk sem nýtist því atvinnulífi sem við þekkjum.

Börn sem eru að hefja sína skólagöngu núna munu koma útá vinnumarkaðinn á árunum 2025 – 2030.

Hvaða vinnumarkað eru þau að undirbúa sig fyrir?

Hvernig störf voru í boði 1980?  Tölvur voru að fæðast, farsímar ekki til, ekkert internet, engar heimilistölvur, engir töflureiknar, engin þrívídd og fyrsta faxtækið ekki fætt. Þrátt fyrir að það sé fullkomlega öruggt að störfin sem verða í boði 2030 séu ekki þau sömu og störfin 1980 þá hefur lítið breyst í því hvernig við nálgumst menntun.

Það sem alltaf hefur einkennt menntakerfið er að það er línuleg hugsun í því. Bekkjakerfi eða áfangakerfi sem allt miðar að því að staðla námið og lágmarka sveigjanleika. Það sparar hugsanlega einhverjar krónur en það tapast nánast örugglega margfalt meira af hæfileikum sem margir hverjir eru verðmætir.

Það hefur aldrei verið reiknað með því að einstaklingarnir sem stunda námið eru ekki línulegir heldur eru þeir líffræðilegt fyrirbæri sem þroskast afar misjafnlega. Sumir verða fullþroska um 16 ára aldur á meðan aðrir verða það ekki fyrr um þrítugt. Sumir eru uppfullir af sköpunarþrá en aðrir af athafnaþrá.

Það er í engu verið að sinna menntun einstaklinga heldur er alfarið verið keyra áfram menntun á færibandi sem framkallar einhæfni, drepur niður skapandi hugsun, heldur aftur af þeim sem skara frammúr og kyrkir þá sem ekki finna áhugavert efni til að glíma við.

Ég tel augljóst að menntakerfi heimsins þurfi að taka stakkaskiptum. Við með okkar litla land gætum farið hraðar yfir í því en aðrar þjóðir. Víða um heim hefur þegar verið vakin athygli á þessum málum og víða er verið að endurhanna menntun en þar er aðallega verið að bæta gamla kerfið í stað þess að smíða nýtt kerfi frá grunni.

Nýtt kerfi sem gerði ráð fyrir því að allir þurfi að læra að nota tölvu frá unga aldri vegna þess að allir hlutir eru eða verða tölvustýrðir. Þeir sem ekki ná hæfni á tölvur við 10 ára aldur verða eftirbátar.

Nýtt kerfi sem eyðir ekki miklum tíma í að fá börn til að muna allt það sem þegar stendur í bókum og á netinu heldur mikið frekar býr til hvetjandi umhverfi til sköpunar og sjálfstæði í hugsun.

Hluti af lokaprófi úr barnaskóla sé t.d. að skila frumsömdum bút úr lagi, smíða lítið forrit og eða teikna mannvirki eða myndir til að sýna frammá skapandi hugsun. Það er búið að leysa stærðfræðina fyrir okkur flest og tölvan kemur  með svörin. Eyðum ekki mörgum árum í að fylla höfuð barnanna með gömlum fréttum.

Það er einhver hugsun til sem segir að sá sem útskrifast úr háskóla sé menntaður. Það vita þeir sem lengur hafa lifað að 20 ár á vinnumarkaði er margfalt verðmætara nám en 4 ár í háskóla. Það er hins vegar erfitt að meta skóla lífsins til einkunnar og þess vegna er því sleppt.

Ég tel að við gætum sett okkur markmið um að allir nemendur eigi að geta verið tilbúnir inná vinnumarkað eða skapandi brautir við 20 ára aldurinn. Ég er að tala um nýja hugsun sem skilar mikið meiri hæfni en þekkingu inná vinnumarkaðinn. Undantekningar á því verða alltaf til og einstakar greinar eru svo krefjandi að það er ekki raunhæft að stytta námið mjög mikið.

Kannski er tíminn núna til að endurhugsa menntun vegna þess að okkur vantar fjármagn til að reka gömlu verksmiðjuskólana.

Sú stóriðja sem dregur hug barnanna okkar að sér er mannlega stóriðjan. Hugbúnaðargerð, kvikmyndagerð, tónlist, ritsmíðar, iðnhönnun, listhönnun og ótal margt fleira sem auðvelt er að gleyma sér við. Öll þekkjum tilfinninguna þegar við gerum eitthvað sem við elskum þá flýgur tíminn en þegar við gerum eitthvað sem hugurinn stendur ekki til þá líður tíminn lúshægt.

Lífið er til að njóta þess og skólar eiga að vera skapandi fyrirbæri fyrir lifandi misþroskaðar verur á leið útí lífið en ekki skylduverk sem margir passa engan veginn inní.

Er verðtrygging ólögleg?

jún. 2010 – 16:40 Hermann Guðmundsson

Mikill meirihluti landsmanna er skuldari að verðtryggðum lánum. Almennt telur fólk að þessi lán séu í íslenskum krónum.

Það er auðvitað alrangt eins og ég mun rekja hér síðar.

Það er algert grundvallaratriði þegar skuldbinding verður til að báðir málsaðilar viti fyrir víst hvað sú skuldbinding felur í sér. Íslensk verðtryggð lán eru þeim eiginleikum gædd að hvorki skuldari né lánveitandi hafa nokkra hugmynd um það hvert verður endavirði lánsins. Fyrir nokkrum árum var tekin upp sú vinnuregla að meta greiðsluhæfi lántakenda horft til lengri tíma. Slíkt mat var hins vegar allan tímann gagnslaust vegna þess að enginn gat séð fyrir þróun lánsins, þróun ISK eða þróun á erlendum mörkuðum.

Kjarninn sem verður að horfa til er sá að enginn fjármagnseigandi er tilbúinn til að lána íslenskar krónur til lengri tíma án verðtryggingar. Þetta þýðir með öðrum orðum að krónan okkar hefur ekkert verðgildi horft til lengri tíma. Af þessum sökum var búið til lánsform sem hafði það að markmiði að innihalda mælieiningar sem myndu tryggja innra virði þeirra verðmæta sem fjármagnseigandinn lætur af hendi. Það sem ekki var hægt að fyrirbyggja við þessa smíð var að áhætta lántakandanns óx alveg gríðarlega.

Lengi vel hefur okkur sem þjóð þótt þetta alveg þolanlegt fyrirkomulag sérstaklega þar sem lánstíminn er langur og að mestur hluti verðbólgunar leggst við höfuðstól og dreifist á lengri tíma. Yfir lengri tíma tíma dregur hins vegar í sundur með kaupmætti sem er bundinn við ISK og láninu sem ekki er í ISK.

Þær mælieiningar sem mynda vísitöluna eru þverskurður þess kostnaðar sem myndast í heimilisbókhaldi landsmanna. Allar breytingar á slíkum kostnaði leggst við höfuðstól lánsins. Þetta þýðir meðal annars að þegar olía hækkar á heimsmarkaði þá hækka húsnæðislán á Seyðisfirði. Þegar stálverð hækkar í kauphöllinni í New York þá hækka húsnæðislán á Siglufirði. Þegar fasteignabóla myndast í Garðabæ þá hækka húsnæðislánin á Patreksfirði.

Allar þessar breytur gera það að verkum að fjármagnseigandinn á yfirgnæfandi líkur á að fá til baka mun meiri verðmæti en hann lét af hendi í upphafi. Þetta þýðir líka að ef húsnæðisverð stendur í stað í lengri tíma eins og gæti nú verið í uppsiglingu þá flyst eigið fé fasteignaeigandanns mánaðarlega úr eigninni til skuldareigandanns jafnvel þar til að ekkert eigið fé er lengur til staðar.

Í engu hagkerfi þekkist það að lána fé til almennings án þess að endurgreiðslu upphæðin sé þekkt og jafnvel fest við upphaf lánstímanns.

Við íslendingar höfum um árabil látið hafa okkur í að taka lán til áratuga sem við vitum ekkert hvað muni kosta okkur. Það sem ekki hefur verið nefnt er að ekki er eingöngu um verðhækkanir á mörkuðum um allan heim að ræða heldur er tryggt að þegar verðgildi ISK fellur þá fáum vikum síðar hrúgast upp verðbólguhagnaður hjá lánveitendum með tilheyrandi upptöku eigin fjár fasteignaeigenda.

Slík lán eru því afar flókin afleiðuviðskipti með vöruverði, þjónustuverði, skattabreytingum, fasteignaverðs og gengisáhættu. Mér er til efs að til séu mikið flóknari vörur í heimi afleiðuviðskipta en íslensk húsnæðislán.

Fyrir ekki löngu síðan setti ESB reglur sem kallaðar eru MIFID reglur og er m.a. ætlað að tryggja að almenningi séu ekki seldar flóknar fjármálaafurðir þar sem ætla má að seljandinn (fjármagnseigandinn) hafi verulegt þekkingarforskot á viðskiptavininn. Því þurfum við að átta okkur á því hvort að þessi flóknu afleiðulán séu í raun lögleg vara til að selja almennum borgurum þessa lands.

Eitt atriði enn sem hvergi er fjallað um í lánaskjölum er sú staðreynd að hið opinbera getur með einfaldri ákvörðun breytt að geðþótta vægi allra mælieininga án þess að skuldari eða skuldaeigandi hafi neitt um það að segja, eru til fleiri óvissuþættir í einni fjármálaafurð?

Sjálfur hef ég talið um langa hríð að verðtryggingin sjálf sé hluti af verðbólguvélinni sem við íslendingar höfum ekið í um árabil.

Kostar samkeppni ekkert?

05. júl. 2010 – 18:33 Hermann Guðmundsson

Fyrir nokkrum dögum hringdi til mín blaðamaður og erindið var að spyrja hvort ég hefði séð skýrslu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg um þéttleika á eldsneytisafgreiðslustöðvum í borginni. Ég hefði lauslega rennt yfir hana fyrir all nokkru og gat því samsinnt því.

Næsta spurning var um það hver skýringin væri á því að þessi staða væri uppi. Ég sagði eins og satt er að þetta væri áratuga uppsöfnuð staða þar sem ávallt var sótt um þær lóðir sem komu til úthlutunar af þeim 3 félögum sem störfuðu þá við eldsneytissölu. Smátt og smátt fjölgaði þessum stöðvum og síðan þegar nýr aðili kemur inná markaðinn 2003 þá þarf að hann að byggja upp sitt sölukerfi og við það fjölgar aftur stöðvunum.

Það að afkastageta fastafjármuna sé langt umfram þörfina á markaði heitir „offjárfesting“ í flestum kennslubókum. Það eiga ekki að vera fréttir fyrir neinn að slík staða sé uppi hér á Íslandi því að þannig virðist þetta ávallt hafa verið. Það er heldur ekki rétt að halda að þetta sé íslenskt fyrirbæri, þetta er mjög alþjóðlegt fyrirbæri. Þessi offjárfesting hefur tíðkast í nánast öllum greinum viðskipta í áratugi.

Fyrir ekki mörgum árum þá ríkti hér einokun á fjarskiptamarkaði. Símakostnaður var samt ekki mjög stór hluti af útgjöldum heimila. Í dag eru rekin að minnsta kosti 4 – 5 símafyrirtæki sem keppa um hylli neytenda. Símakostnaður hefur margfaldast á heimilum landsmanna og ekki síst vegna tilkomu farsíma og tölvutenginga. Það er hins vegar alveg ljóst að í kerfinu er til staðar talsvert mikið meiri afkastageta en nú er nýtt og því er um talsverða offjárfestingu að ræða sem á endanum verður kostnaður þeirra sem greiða símareikninga.

Með sama hætti var umhorfs á fjölmiðlamarkaði fyrir all nokkrum árum. Nú er meiri fjölbreytni, meiri þjónusta og mikið meiri afkastageta en notuð er. Kostnaður heimila vegna notkunar á fjölmiðlum hefur vaxið hröðum skrefum og nú er svo komið að margir hafa orðið að neita sér um hluta þjónustunnar vegna kostnaðar.

Það eru 20 ár síðan að verslunin Bónus hóf starfsemi og breytti þar með varanlega því smásölu fyrirkomulagi sem hafði ríkt í áratugi á Íslandi. Þeir sem eru það ungir að muna ekki eftir þeim tíma þegar 40 – 50 litlar hverfisbúðir voru helstu matvörumarkaðir landsins eru afsakaðir.

Venjan var sú að heildsölufyrirtæki sérhæfðu sig í því að kaupa inn og lagera dagvöru frá þekktum framleiðendum og dreifa síðan í matvöruverslanir eftir því sem að þarfir þeirra voru á hverjum tíma. Heildsölufyrirtæki þess tíma voru að jafnaði með 40 – 60% álagningu og smásalinn var síðan með 50 -70% álagningu.Með öðrum orðum þá kostaði vara sem kom inn í landið á 100 kr. nálægt 240 kr. út úr búð fyrir utan söluskatt sem þá var við líði.

Ástæðan fyrir því að álagningin þurfti að vera þetta há var sú að flest fyrirtækin voru smá og velta hvers og eins lítil. Þegar fasti kostnaðurinn er hlutfallslega hár vegna lítillar veltu þá verður álagningin hærri. Of stór hluti sölunnar var líka lánaður út tryggingalaust sem aftur gerir hærri kröfu til álagningar.

Bónus fór nýjar leiðir þegar sú verslun hóf rekstur. Allar vörur voru staðgreiddar til að knýja fram betra innkaupsverð. (félagið naut heldur ekki lánstrausts) Kostnaður við innréttingar var lægri en áður þekktist, vöruval var mun minna og þjónustan í lágmarki. Bónus hóf fljótlega beinan innflutning til að knýja enn á um betra innkaupsverð.

Hugmyndafræðin var sú að neytendur væru tilbúnir til að fórna hluta af þægindunum fyrir áþreifanlegan sparnað. Það var líka hluti af hugsuninni að með því að vera með minna fé bundið, þá er hægt að vera með lægri álagningu. Öll þekkjum við eftirleikinn.

Í dag eru heildsölur margfalt stærri fyrirtæki en áður og geta því lagt mun minna á og smásalar eru flestir talsvert í eigin innflutningi. Álagning í greininni hefur lækkað talsvert á 20 árum, magn í gegnum hverja verslun hefur vaxið og störfum pr. sölueiningu hefur fækkað. Ein aðal ástæðan fyrir þessari hagræðingu og um leið bættum hag neytenda er sú að fram náðist stærðarhagkvæmni í öllum þrepum greinarinnar.

Áður voru 40 – 50 heildsalar um að sinna lítilli matvöruverslun en nú duga 8 – 10 til að fá sömu þjónustu eða jafnvel meiri. Þetta er dæmi um það hvernig samkeppni getur unnið sigur fyrir neytendur. Í dag, 20 árum síðar eru hins vegar komnar fjölmargar aðrar verslanir með sambærilega hugmyndafræði. Fjöldi m2 í matvöruverslun er talsvert meiri en þörf er fyrir og því er því tímabili lokið sem dreif áfram lækkandi vöruverð. Of hár kostnaður við að halda úti of mörgum verslunum gerir það erfitt að lækka enn frekar vöruverð. Neytendur greiða fyrir að hafa meira val og meiri þjónustu.

Að lokum má nefna að það fyrirtæki sem hvað best er að reka um þessar mundir er ÁTVR. Félagið getur sniðið sína þjónustu að hagkvæmnissjónarmiðum en þarf ekki endalaust að fjölga verslunum og lengja opnunartíma með sömu tekjur að vopni. Markaðskostnaður er í lágmarki og hagkvæmni í aðfangakeðjunni er hámörkuð.

Það hefur lengi verið kallað eftir því að sala á áfengi yrði gefin frjáls. Verði það niðurstaðan þá eru litlar líkur á að slíkt lækki vöruverð, það eru meiri líkur á að vöruverð hækki til lengri tíma litið en um leið mun þjónustan og úrvalið vaxa.

Íbúar á vesturlöndum hafa til þessa viljað hafa all nokkra valkosti þegar kemur að því kaupa vöru eða þjónustu. Þeir hafa slæma reynslu af einokun og það þarf að halda vel á spilunum til að einokun leiði ekki til verri þjónustu og jafnvel engrar þjónustu. Það er líka alveg klárt að þegar margir bítast um viðskiptin sem í boði eru þá kvikna margar nýstárlegar hugmyndir sem geta leitt til varanlegra breytinga neytendum til heilla.

Það stendur því enn það sem sagt var: Samkeppni kostar helling, en kannski er enn dýrara að hafa enga.

Chris Bangle er að koma!

12. ágú. 2010 – 11:00 Hermann Guðmundsson

Chris Bangle er fæddur 1956 í Ohio í Bandaríkjunum.

Hann komst fyrst í fréttirnar þegar BMW samsteypan réð í fyrsta skipti erlendan bílahönnuð til að stjórna hönnunarteymi samsteypunnar.

Þetta var í október 1992. Það var síðan í byrjun síðasta árs sem hann hætti starfi sínu eftir 17 ár hjá  BMW til að helga sig sínum áhugamálum sem snúa m.a. að samgöngum einstaklinga í framtíðinni.

Í dag eru allar bílgerðir BMW runnar undan rifjum Chris Bangle jafnt sá minnsti og uppí X6 sem er nýjasti fjórhjóladrifni jeppinn frá verksmiðjunum í bæjaralandi. Hann hefur ávallt verið mjög umdeildur vegna þeirra leiða sem hann hefur valið í hönnun BMW bifreiða og í hans tíð varð til það hugtak  sem kallast í dag „flame surfacing“ og er notað um ákveðið útlit og flæði í flötum bifreiða.

Það er ekki nóg með að Chris hafi hannað ásamt sínu teymi alla bílalínu BMW heldur var hann líka ábyrgur fyrir hönnuninni á nýjum Mini Cooper sem er almennt talin snilldar vel heppnuð og hönnun hans á nýja Rolls Royce bílnum var einnig talin til tíðinda.Þetta hefur samt ekki alltaf verið dans á rósum og Chris er einn fárra bílahönnuða sem ítrekað hafa orðið valdir að uppnámi áhugamanna um BMW bifreiðar og margoft er búið að safna saman undirskriftalistum þar sem skorað er á stjórn BMW að reka hönnuðinn fyrir að vera ekki „ rétttrúaður“ í nálgun sinni.

Hann getur þó stoltur litið um öxl þar sem með hans hönnun komst BMW í fyrsta sæti yfir mestu seldu lúxus bifreiðar heimsins og í fyrsta sinn varð Mercedes Bens að gera sér annað sætið að góðu.Þegar ég talaði við Chris í vikunni þá sagði hann mér að hann hefði margoft unnið með Ólafi Elíassyni listamanni og það var augljóst að hann telur Ólaf mikinn snilling í sinni list. Tilefni þess að við töluðum saman er að Chris hefur fallist á að koma til landsins og vera ræðumaður á ráðstefnunni Driving Sustainability sem haldin er um miðjan september í Reykjavík.

Á ráðstefnunni mun hann fjalla um samgöngur framtíðarinnar og m.a. hvernig takmarkalausar kröfur um aukið öryggi í bifreiðum gerir framleiðsluverð bifreiða svo hátt að bílar eru orðnir munaðarvara í mörgum löndum. Hann hefur aðra sýn sem hann mun deila með okkur.

Það er hvalreki fyrir áhugafólk um samgöngur og iðnhönnun að fá mann sem kallaður hefur verið Steve Jobs bílahönnunar til landsins þar sem tími mun gefast til að spjalla um framtíðina sem nálgast hratt.